Hvaðan kemur allur þessi Þorskur

Nú berast þær fréttir að landburður sé af þorski frá Þorlákshöfn vestur á Snæfellsnes.  Allir bátar hvort sem þeir eru að veiða með línu, net eða dragnót koma drekkhlaðnir að landi dag eftir dag og sumir minni línubátarnir verða að róa tvisvar sama sólahringinn vegna þess að bátarnir eru orðnir fullir af fiski áður en öll línan hefur verið dreginn og löndunarbið í flestum höfnum.  Hratt gengur á þorskkvóta bátanna og varla hægt að fá leigukvóta nema á uppsprengdu verði.  Ekki dettur Hafró í hug að auka við þorskkvótann en fyrir stuttu fannst ein loðnutorfa fyrir vestan Snæfellsnes og var þá í ofboði aukið við loðnukvótann um 15 þús. tonn.  Ég var að lesa fyrir stuttu grein í Fiskifréttum þar sem forstjóri Vinnslustöðvarinnar sem hefur viljað draga úr þorskveiðum og var að bera saman uppbyggingu þorskstofnsins við fjárbókhald föður síns sem mun hafa verið bóndi.  Hann sagði að á hverju hausti hefði faðir sinn reiknað út hvað mikið af lömbum færu í sláturhús og hve mikið fé hann ætlaði að hafa á fóðrum yfir veturinn þetta hefði gengið mjög vel upp og eins ættum við að gera með þorskinn.  Hann nefndi nú ekki að þar sem þorskurinn þarf  æti á sama hátt og sauðféð  má ekki taka það frá honum en Vinnslustöðin er nú eitt af þeim fyrirtækjum sem veiða loðnu og síld í stórum stíl og taka þar með ætið frá þorskinum.  Ég er hræddur um að rollubókhald föður hans hefði orðið eitthvað skrýtið ef bóndinn á næsta bæ hefði stöðugt sótt hey í hlöðuna hjá honum.  Eins er ég viss um að faðir hans hefur talið sitt sauðfé á annan hátt en Hafró telur þorskinn.  Það væri furðulegur bóndi sem merkti ákveðna staði í úthaganum og færi þangað á sama degi á hverju sumri og teldi þær rollur sem hann sæi og reiknaði út frá því, ef hann sæi enga rollu væri sem sagt hans fjárstofn allur dauður.  Eins held ég að flestir bændur færu nú eitthvað að skoða máli ef þeir rækju á afrétt 300-400 rollur að vori en þegar smalað væri um haustið kæmu af fjalli nokkur þúsund lömb eins og nú er að ske með þorskinn.  Nú hafa loðnuveiðar verið fremur litla sl. 2 ár miðað við það sem áður var og kannski hefur þorskurinn fengið næga fæðu.  Ég veit að ekki þýðir að spyrja Hafró um þessa miklu þorskgengd það passar einfaldlega ekki inní þeirra reiknilíkan.  Eini maðurinn sem gæti útskýrt þetta á máli sem venjulegt fólk skilur er Kristinn Pétursson á Bakkafirði en hann er manna fróðastur um þessi mál og veit miklu meira um lífríki hafsins en nokkur fiskifræðingur hjá Hafró eða maðurinn með rollubókhaldið í Eyjum.

Jakob Kristinsson  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sammála, fin grein hjá þér.

Georg Eiður Arnarson, 29.3.2007 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband