Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Miðvikudagur 27. september 2006

Dagurinn í gær var frekar annasamur.  Ég mætti kl: 09,00 hjá Inga Gunnlaugssyni tannlæknir í Keflavík og var í stólnum hjá honum í einn og hálfan klukkutíma, hann kláraði nú ekki allt sem hann ætlaði að gera því einn kúnninn hjá honum var mættur og illa haldinn af tannpínu.   Ég á að mæta næst hjá Inga 18.10. og þá ætlar hann að klára það sem eftir er.  Ég náði samt að vera kominn heim til að geta mætt í hádegismatinn.  Síðan var vinnan kl: 17,00 til 22,00 og kom ég heim um 10,30 og horfði á sjónvarpið til 01,00, fór þá að sofa enda farinn að dotta yfir sjónvarpinu var samt vaknaður kl:06,30 í morgun, dreif mig á fætur og lagaði kaffi og hef setið við tölvuna síðan.  Nú eru þau örugglega komin til landsins Jón Páll og Solla, áttu að koma snemma í morgun, ég hef ekkert heyrt í þeim ennþá.  Þau eru sennilega sofandi en þau gista í Garði hjá Sigga frænda hennar Sollu.   Nú er sólin farin að skína og verður örugglega gott veður í dag eins og var í gær.  Það var haldinn fundur í vinnunni í gær þar sem deildarstjórinn sem er ung kona og heitir Védís var að fara yfir ýmis atriði varðandi starfið sem ekki hefur gengið eins vel og vonast var eftir.  Flestir starfsmenn eru unglingar sem taka þetta ekki of alvarlega og við eigum að skila 5 tímum á dag en hún sagði að aðeins tveir hefðu náð því síðustu daga samkvæmt stimpilklukkunni.  Flestir eru nú að mæta á réttum tíma en eru farin að taka saman á borðinu sínu 10-15 mínútum fyrir 22,00 og eru að flýta sér út og stimpla sig þar af leiðandi út áður en vinnutímanum er lokið.  Henni fannst salan ekki ganga nægjanlega vel og ég benti henni á að alltof mikið væri um hávaða þarna inni.  Fólk talaði alltof hátt í símana, stoppaði að vinna til að spjalla saman og tæki ekkert tillit til þeirra sem væru að vinna við hliðina á þeim.   Ég sagðist hafa verið vélstjóri í nokkuð mörg ár og hávaðinn þarna væri stundum ekki minni en í vélarúmi á skipi.  Eftir þennan fund lagaðist þetta talsvert en í raun er ekki hægt að sakast beint við unglingana, þau hafa í raun aldrei unnið alvöru vinnu fyrr og verið innanum fullorðið fólk.  Hafa kannski aðeins unnið í bæjarvinnu eða afgreitt í sjoppu og lítið kynnst aga eða virða þann sem er yfirmaður og á að stjórna.  Þó finnst mér Védís ekki ströng og reynir að halda uppi góðum starfsanda en ef hún reiðist eða er misboðið er hún ekki feimin við að láta það í ljós.  Nú eru dagblöðin komin og best að fara að lesa þau.

Laugardagur 23. sptember 2006

Í dag er ágætt veður hér í Sandgerði, logn og þurrt en engin sól aftur var sól og blíða hér í allan gærdag.  Ragnar Jónsson tannlæknir hjá Tryggingastofnun hringd í mig á þriðjudagsmorgun og sagði mér að hann væri búinn að semja við Inga Gunnlaugsson tannlæknir í Keflavík um að taka að sér tannviðgerðir mínar þar sem viðgerð sú sem hann gerði á mánudag hefði aðeins verið til bráðabirgða og losa mig við tannpínuna og ég ætti að hringja í Inga.  Reyndar á ég eftir að mæta hjá Ragnari 9. og 10. október en þá ætlar hann að klára að undirbúa viðgerðir á tönnunum en víða þarf að skera tannholdið frá þar sem skemmdir eru komnar svo langt niður.  Ég hafði strax samband við Inga og fékk tíma kl: 11,30 á þriðjudag.  Ingi gerði varanlega við tönnina og eins skemmdir í fleiri tönnum og hann sagði að Ragnar hefði beðið sig að taka mig og þar sem þetta væri að stórum hluta afleiðing af slysinu myndi TR greiða allt og ef í ljós kæmi að þeir greiddu ekki að fullu myndi hann gefa mér það þar sem ég væri öryrki.   Þetta er maður um fertugt og mjög almennilegur og á ég að mæta hjá honum aftur 26.09. og þá ætlar hann að gera við þær skemmdir sem hann sá að voru eftir og setja framtönn sem vantar í efri góm þegar ég er búinn hjá Ragnari Jónssyni fer ég aftur til Inga og klárar hann allar viðgerðir og setur í þær tennur sem vantar og kem ég því til með að sleppa nokkuð vel frá þessu.  Ég hef verið í vinnunni og var í gær frá 17,00 til 21,00 en þar sem veðrið var svo gott gekk illa að ná í fólk og lítil sala.   Sama var í dag en ég var að vinna frá 12,00 til 16,00.  Ég fór á föstudagsmorgun kl: 08,00 uppá flugstöð og hitt Jón Pál og Sollu en þau voru þá að fara til London.  Þau koma aftur á miðvikudagsmorgun of koma þá sennilega í heimsókn.

Mánudagur 18. september 2006

Í dag var mjög gott veður hér í Sandgerði, sól og hiti.   Eftir að ég var hjá tannlækninum síðast fór ég að finna fyrir verk í einni tönninni og á föstudag var ég með stöðuga tannpínu en átti sem betur fer sterkar verkjatöflur sem deyfðu verkinn en hann hætti aldrei.  Gekk svona alla helgina og í morgun hringdi ég í Ragnar Jónsson tannlæknir og sagði honum hvernig ástandið væri.  Hann ætlaði að fá fyrir mig tíma hjá tannlæknir í Keflavík en hringdi svo og sagði mér að koma á stofuna til sín kl: 15,30 því hann vildi skoða þetta sjálfur.  Fór ég því til Reykjavíkur og mætti hjá honum og var hann fljótur að sjá hvað var að og lagaði það á um 20 mínútum.  Er líðan mín því mikið betri og get ég orðið borðað sem ég gat ekki alla helgina vegna þess að um leið og ég reyndi að fá mér eitthvað kom bullandi tannpína.  Ég varð að fá frí í vinnunni í dag vegna þessa, þar sem ég hefði ekki náð að mæta á réttum tíma og svo er ég talsverðan tíma að jafna mig eftir mikla deyfingu.  Það er farið að ganga vel í vinnunni og var ég söluhæstur á laugardaginn.  Þá átti að vera starfsmannapartý hjá TM-Ráðgjöf í Keflavík en mér skilst að þau fari öll saman einu sinni í mánuði út að borða.  Ég sleppti nú þessu partýi, bæði gat ég ekki borðað vegna tannpínu og eins tel ég mig ekki hafa gott af því að vera mikið þar sem allt er fljótandi í bjór og öðru áfengi en þann 12. september voru komnir 100 dagar sem ég hef ekki snert áfengi og ætla mér ekki að blekkja sjálfan mig á því einu sinni enn að einn bjór sé alltí lagi því þeir verða alltaf fleiri.   Þeir sem geta notað áfengi í hófi til að skemmta sér geta gert það án þess að ég gagnrýni en því miður er sá hæfileiki löngum frá mér tekinn og ekkert að gera nema sætta sig við það og sakna ég þess ekkert.  En ég verð að forðast að vera of bjartsýnn þótt liðnir séu rúmir 100 dagar, þetta er sjíkdómur sem langan tíma tekur að læknast af.

Þriðjudagur 12. september 2006

Í dag er þokkalegt veður hér í Sandgerði og í gær var fínasta veður.  Ég varð að taka mér frí í vinnunni í gær vegna þess að ég þurfti að mæta í sjúkraþjálfun kl. 14,00 og hjá tannlæknir í Reykjavík kl. 16,00.  Það er búið að breyta hjá mér sjúkraþjálfunni í stað þess að mæta þrisvar í viku og vera í 30 mínútur í einu mæti ég núna tvisvar í viku og hver tími er klukkutími.  Ég á að mæta hjá tannlækninum næst í byrjun október.   Ég var komin hingað heim um kl. 18,00.  Ég kann ágætlega við mig í vinnunni og er komin nokkuð vel inní starfið.  Reynslutíminn var búinn á föstudag og hækkar þá tímakaupið í 1.150.   Þann 7. september bættist við eitt afabarn þá eignuðust þau Gunnar og Guðrún sem búa í Kanada sitt fyrsta barn sem var stúlka og í gær 11. september bættist við annað en þá eignuðust þau Guðrún og Svavar sem eru nýflutt til Edinborgar sitt þriðja barn og var það strákur.  Eru barnabörnin þá orðin alls 8, tveir strákar og 6 stelpur.  Þannig að auðurinn að þessu leyti er orðin mikill.  Fanney sem sér um þrifin hjá mér og aðstoðar mig við þvott, kom hér kl. 8 og braut saman þvottinn og setti inní skápa, þreif allt mjög vel en hún er sérstaklega samviskusöm og vinnur þetta vel.  Núna er ég að fara í hádegismat og síðan er vinnan kl. 17,00 en áður þarf ég að fara í Bónus og versla eitthvað í matinn til að eiga á kvöldin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband