Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Ný kvótaeign

Fyrir stuttu skrifaði ég um hina nýju kvótaeign sem felast í hinum nýju Vatnalögum en nú er að koma fram nýtt fyrirbæri sem er hliðstætt en það eru viðskipti með mengunarkvóta sem fyrirtæki fá að sjálfsögðu ókeypis hjá íslenska ríkinu en rætt hefur verið um að fylgja fordæmi ESB en þar er miðað við að hvert fyrirtæki nýti 90% af sínum úthlutaða kvóta en 10% gangi kaupum og sölu eða jafnvel leigu.  Getum við þá státað af þremur gerðum af kvótakonungum hér á landi.  Það eru:

1.  Fiskveiðikóngar

2.  Vatnakóngar

3.  Mengunarkóngar

Færist þá heldur betur fjör í kvótabraskið hér á landi og margur verður ríkur af því sem í raun er sameign íslensku þjóðarinnar.  Ef vel er leitað má vafalaust finna fleira til að braska með af eigum ríkisins og ekki þýðir fyrir okkur að mótmæla því við hinir venjulegu borgarar erum bara aumingjar sem ekkert getum eða höfum vit á hvað er þjóðhagslega hagkvæmt.  Ég hlustaði á fyrir stuttu viðtal við einn speking úr Háskóla Íslands sem sagði að það væri mjög hagkvæmt fyrir þjóðina að aflakvótar söfnuðust á sem fæsta aðila.  Væri þá ekki best að ganga hreint til verks og vera bara með einn útgerðaraðila á landinu Útgerðarfélag Íslands hf.  Við gætum líka verið bara með eina verslunarkeðju í landinu Verslunarfélag Íslands hf. og einn banka Íslenski bankinn hf. og einn stjórnmálaflokk Íslenski flokkurinn og væri þá góður friður á Alþingi því allir yrðu sammála og svona gætum við haldið endalaust áfram allt í nafni hagræðingar.  Hvaða vit er til dæmis í að hafa allt landið í byggð, væri ekki hagkvæmast að flytja alla á höfuðborgarsvæðið.   Nei það eitt að starfa hjá Háskóla Íslands gerir menn ekki vitra eða víðsýna, heldur þvert á móti verða menn þröngsýnir og fá þá ranghugmyndir að þeir viti allt best og séu hæfastir í öllu.  Sumir þessara mann ern nefnilega rækileg sönnun þess sem eitt sinn var sagt og þótti fáránlegt: bókvitið verður ekki í askana látið


Knattspyrna

Þetta bara ein enn sönnunin fyrir hvað knattspyrnan er komin langt út fyrir að vera skemmtileg íþrótt í það að vera stórhættuleg og eftir því leiðinleg.

Ég gert ekki skilið það fólk sem kaupir dýrum dómi áskrift að Sýn 2 til að horfa á þennan andskota.

Með réttu ætti að banna þessa vitleysu sem allrar fyrst.


mbl.is Árásarmaður úrskurðaður í keppnisbann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risaskjaldbaka

Ekki veit ég hvað hún var að þvælast þarna.

Hún ætlar sennilega að mæta tímanlega á Ljósanótt í Reykjanesbæ, sem verður um næstu helgi.


mbl.is Risaskjaldbaka á ferð við Reykjanes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandgerðisdagar

Um sl. helgi fóru fram svokallaðir Sandgerðisdagar hér í Sandgerði og bærinn fylltist af fólki.  Dagskráin var fjölbreytt og mikið lagt í þessa bæjarhátíð eins og vera ber, ég hélt mig að mestu leyti heima þessa daga enda ekki auðvelt að komast um bæinn á bíl og ég get nú ekki gengið langar vegalengdir eða staði mikið vegna fötlunar og svo er líka hitt að á svona samkomum er allt fljótandi í bjór og víni og þar sem óðum styttist í 3ja mánaðar bindindi verði komið hjá mér eftir fall í sumar er ekki þess virði að taka neina áhættu og forðast freistingar.  Eftir því sem ég hef heyrt tókst þessi hátíð mjög vel og eftir dansleiki á laugardeginum var aðeins einn maður rotaður sem þykir ekki mikið þegar íslendingar eru að skemmta sér.   Um næstu helgi verður svo haldin Ljósanótt í Reykjanesbæ og verður fróðlegt að fylgjast með hvað margir verða barðir og rotaðir þar.   Annars var síðasta helgi nokkuð sérstök hvað varðar skemmtanir íslendinga, það var slegist í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Keflavík og að sjálfsögðu í miðbæ Reykjavíkur en það er nú orðið fastur liður um hverja helgi.  Ólætin í miðbæ Reykjavíkur um hverja helgi með tilheyrandi sóðaskap og slagsmálum eru einkennilegt fyrirbæri sem illa gengur að hemja og sitt sýnist hverjum.  Svo er verið að agnúast út í aumingja útigangsmennina sem halda mikið til á Austurvelli á daginn og Villi borgarstjóri hafði það í gegn að bjórkælir í  ÁTVR í Austurstræti var tekinn úr sambandi og átti það að vera til að þessir menn hættu að kaupa sér bjór þar á daginn og færu þá um leið af Austurvelli.  Er þetta ein sú frumlegasta og jafnframt ódýrasta leið, sem ég hef heyrt um að fá menn sem eru langt leiddir af drykkjuskap til að hætta að drekka.  Trúir Villi virkilega því að hinir svokölluðu rónar neiti sér um bjór ef hann er ekki kaldur, það má vel vera en ekki trúi ég því.  Menn sem hika ekki við að sturta í sig nokkrum glösum af kardó fúlsa ekki við volgum bjór.  Annars eru það ekki þessir rónar sem setja ömurlegan svip á miðborgina, heldur eru það hinir venjulegu íslendingar þegar þeir fara út að skemmta sér en þá er eins og til verði annar þjóðflokkur, fólkið greinilega umturnast og verður að algjörum villidýrum Þar sem lögmál frumskóarins taka völdin og er lögreglunni vorkunn að þurfa að standa í stappi við þessa vitleysinga.  En hvað á að gera?  Ekki þýðir að gefast upp og mín tillaga er sú að koma upp t.d. á Miklatúni eða öðrum álíka stað stórri girðingu, þar sem væri nóg af flöskum og glösum til að brjóta og reisa veggi til að míga utan í og æla, jafnvel með gluggum til að brjóta.  Lögreglan færi niður í bæ og smalaði saman fólki sem er að velta ofurölvi út af skemmtistöðunum og færi með það á slíkan stað og þar gæti liðið slegist og látið illum látum eins lengi og það hefði þrek til og yrði það síðan látið sofa úr sér vímuna þarna inni og er ég hræddur um að margur yrði undrandi daginn eftir þegar litið yrði yfir vígvöllinn og skammaðist sín kannski svolítið.

Fyrir nokkrum árum var svo komið í París að fólk þorði ekki að taka neðanjarðarlestarnar á kvöldin vegna mikils fjölda af drukknu fólki sem lét öllum illum látum og var jafnvel með hótanir í garð farþega.  Lögreglan í París tók sig til og hreinsaði þessa vitleysinga af öllum stoppistöðvum lestanna og smalaði þeim inn í rútur og ók þeim út í sveit og hleypti þeim þar út og varð síðan hver og einn að sjá um að koma sér sjálfur aftur til Parísar.  Og viti menn að á nokkrum vikum breyttist ástandið til hins betra og venjulegt fólk fór að nota lestarnar jafnvel meira en áður.  Vandræðafólkið gafst upp og í dag eru þessar lestar taldar nokkuð öruggur ferðamáti.  Ætli sama lögmálið myndi ekki líka gilda í Reykjavík.   


Gúmmítékkar

Fyrir síðustu kosningar sendi Samfylkingin ávísanir öllum sem eru á þeim aldri að líklegt væri að þeir hæfu nám við framhaldssóla nú í haust.  Hver ávísun hljóðað uppá þá upphæð sem líklegt var talið að námsbækur myndu kosta viðkomandi og með fylgdi bréf að ef viðkomandi kysi Samfylkinguna og hún kæmist til valda væri þetta sú upphæð sem viðkomandi myndi spara sér, þar sem allar námsbækur yrðu fríar í framhaldsskólum.  Nú eru þessir skólar að hefja starf sitt og ekkert bólar á að neinar námsbækur verði fríar, heldur þarf að greiða þær fullu verði og er nú þetta afsakað með því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki verið þessu samþykkur og þar af leiðandi ekki náðst að koma þessu inn í stjórnarsáttmálann en þetta verði kannski gert síðar á kjörtímabilinu.  Er þessi ávísanaútgáfa í raun kennsla í hvernig á að gefa út gúmmítékka?  Er þetta kannski skýringin á því að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur skipað nefnd til að fara yfir svokallaðan FIT-kostnað bankanna?  Hér er sennilega um að ræða mestu útgáfu gúmmítékka í Íslandssögunni, ekki hvað upphæðir varðar heldur fjölda tékka sem sjálfsagt skipta nokkrum þúsundum.  Þetta verður örugglega ekki eina kosningaloforðið sem Samfylkingin mun svíkja sínar kjósendur um.  Ég spái því að áður en kjörtímabilið verður á enda mun allur loforðalistinn fyrir síðustu kosningar hafa verið svikinn og allt í skjóli þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið á móti.  Hitt er alveg deginum ljósara að kjósendur þessa flokks munu í næstu kosningum ekki vera tilbúnir til að gleyma þessu og munu ekki taka alvarlega kosningaloforð þessa flokks og sennilega verður þá eins ástatt með Samfylkinguna og Framsókn að vera komin í útrýmingarhættu.

Nýtt kvótaævintýri

Nú er í uppsiglingu nýtt fyrirbæri fyrir kvótabraskarana og þá sem eiga peninga.  Á síðasta þingi voru sett ný Vatnalög sem kveða á um að allt vatn á Íslandi er í eigu þeirra jarðareigenda sem vatnið rennur um og samkvæmt nýlegum úrskurði matsnefndar eru vatnsréttindi við Kárahnjúka metin á 1,6 milljarða og ef það er framreiknað á öll vatnsréttindi er virði alls vatns á Íslandi ekki nema rúmir 10 milljarðar og þótt íslenska ríkið sé í dag eigandi að þessu er ekkert sem bannar að ríkið geti ekki framselt afnotaréttinn til einstakra aðila eins og gert er varðandi fiskveiðiréttinn hér við land.  Getum við því átt von á að innan fárra ára verði kominn hópur Vatnsgreifa við hliðina á Sægreifunum.  Er allt sem bendir til þess að þessi nytjaréttur færist á fárra manna hendur og síðan taki við það sama og þekkt er úr sjávarútveginum að landsmenn verða að leigja til sín það vatn sem þeir þurfa að nota.  Þó er sá munur á þessu tvennu að allir landsmenn verða að nota vatn en ekki þurfa allir að veiða fisk, þar geta menn valið og hafnað en ekki í sambandi við vatnið, við getum ekki án þess verið.  Það trúði því enginn að þegar kvótakerfið var sett á í sjávarútveginum að sú stund kæmi að farið yrði að leigja eitt kíló af þorski á kr. 200,- en það er nú samt staðreynd í dag.  Og viti menn að innan fárra ára verðum við að greiða til Vatnsgreifa fyrir hvern lítir sem við notum af vatni og kannski endar það líka í kr. 200,- á lítir og verður orðið dýrara en bensín og olía.  Sennilega verður settur mælir við hverja íbúð og líkt og í sjávarútveginum verður að leigja áður en það er notað.  Sjálfsagt verður líka sett í lög að heimilt verði að veðsetja þessi réttindi eins og er með kvótann í sjávarútveginum og þá kemur upp sú sama staða að þeir stóru og sterkari njóta forgangs yfir hinum almenna borgara.  Hvernig á hinn almenni launamaður að geta keppt við stórfyrirtæki á borð við Landsvirkjun um leigu á vatni, það er ekki hægt.  Katrín Júlíusdóttir formaður iðnaðarnefndar sagði í viðtali í sjónvarpinu fyrir stuttu að það yrði strax og Alþingi kæmi saman í haust að setja lög um að gildistöku þessara Vatnalaga yrði frestað og málið skoðað upp á nýtt en ég er ekki viss um að Sjálfstæðisflokkurinn samþykki það og Samfylkingin verði einu sinni enn að lúta í lægra haldi eins og raunin hefur orðið á með mörg af þeirra kosningaloforðum.  Það er eins og þingmenn hafi ekki gert sér grein fyrir hvað þeir voru að samþykkja í vetur með þessum Vatnalögum og ekki í fyrsta skipti.  Ég einfaldlega spyr hvað verður næst? Verður það andrúmsloftið? og verða þá til Loftgreifar sem ráða öllu loftinu, það er ekki vitlausari hugmynd en þessi Vatnalög.  Og aftur spyr ég ætlar þessi vitleysa aldrei að enda? 

Skartgripaþjófar

Þá verður maður að fara að fela vandlega alla skartgripina sína og forðast allt fólk af austur-evrópskum uppruna.  Líka að fara varlega í kaupum á miklu magni af gulli.
mbl.is Varað við óprútnum skartgripaþjófum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írak

Erum við Íslendingar og okkar bandamenn að tapa stríðinu í Írak.

Ég held að Ingibjörg Sólrún verði að bretta upp ermarnar og gera eitthvað róttækt í málinu a.m.k. opna þarna eitt stykki sendiráð og jafnvel senda Víkingasveitina á staðinn.  Þetta getur ekki haldið svona áfram.


mbl.is Litlir möguleikar sagðir á sáttum og stöðugleika í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband