Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Námsmenn og bankar

Það hefur varla farið framhjá neinum sem horfir á sjónvarp hinar miklu auglýsingar frá bönkunum sem eiga að höfða til námsmanna.  Það nýjasta er að ná til námsmanna í gegnum nemendafélögin til að hvetja nemendur til viðskipta og beita gulrótaraðferðinni við að styrkja nemendafélögin meira eftir því sem fleiri nemendur skólans snúa viðskiptum sínum að þeim.  Nú hefði ég haldið að blankir námsmenn væru ekki óska viðskiptavinir hvers banka, en það virðist samt vera svo.  Bankarnir telja nauðsynlegt að ná þessu unga fólki strax og bjóða því gull og græna skóga.  Um að gera að sökkva námsmönnum sem allra fyrst á bólakaf í skuldum, með miklum heimildum á greiðslukortum og yfirdráttarlánum svo viðkomandi verði algerlega háður viðkomandi banka um aldur og ævi.  Ég heyrði í gær stórmerkilega sögu úr bankaheimi hins nýja Íslands og kemur hún hér á eftir;

Ungur maður sem hafði búið heima hjá foreldrum sínum alla sína skólagöngu og ekki þurft að greiða neitt fyrir það og þar sem hann lagði á sig að vinna öll kvöld og allar helgar meðfram sinni skólagöngu, átti hann alltaf nægar peninga og allt það sem hann vantaði gat hann greitt af eigin fé og gat jafnvel lagt eitthvað til hliðar inn á banka.  Þegar hann hafði lokið sínu námi ætlaði hann að kaupa sér íbúð og þótt hann hefði á nokkrum árum lagt fyrir talsvert fé inn á banka vantaði hann eitthvað til viðbótar svo hann ætti fyrir útborguninni í íbúðinni.  Þar sem hann hafði aldrei tekið lán, aldrei notað greiðslukort, aldrei lent í vanskilum með eitt né neitt, fór hann í sinn banka sem geymdi hans sparifé og taldi að hann hlyti nú að vera öruggur um að fá lánað það sem upp á vantaði, því hann væri örugglega talinn góður viðskiptavinur sem ætti bara inneign í bankanum en engar skuldir.  Hann sótti því um ákveðið lán og gaf upp sína kennitölu og þessu var slegið inn í tölvu og eftir smá stund kom svarið frá tölvunni. HAFNAÐ hann fór þá til viðkomandi útibústjóra og vildi fá skýringu á þessu, sem sagði að þetta væri mjög leitt því hann vildi að sjálfsögðu veita honum lánið en að tölvukerfi bankanna væri þannig uppbyggt að ekki væri gert ráð fyrir svona tilfellum að til væri fólk sem aldrei hefði tekið lán í banka, bara lagt inn pening og því vantaði greiðslusögu mannsins, því ekki væri hægt að lána aðilum sem hefðu aldrei sýnt að þeir hefðu greitt af láni.  Til að leysa vandamál þessa manns varð fyrst að lána honum einhverja upphæð í 6 mánuði og þegar það lán var uppgreitt, var loksins komin greiðslusaga á viðkomandi kennitölu og því auðsótt að fá afgreitt það lán sem upphaflega var óskað eftir.  Þessi saga er sönn og rétt.  Því er rökrétt að draga þá ályktun að alltaf skuli byrja viðskipti við banka með því að stofna til skulda.  Það kemur fólki illa seinna ef það ætlar bara að spara og eiga peninga geymda hjá þessum bönkum.  Skuldir fyrst númer 1.2 og 3.


mbl.is Bankarnir berjast um nemendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótvægisaðgerðir

Mikið hafa hinar svokölluðu "Mótvægisaðgerðir"ríkistjórnarinnar vegna niðurskurðar á þorskkvóta, verið í umræðunni undanfarna daga og sitt sýnist hverjum.  í fyrrakvöld tókust á í sjónvarpi þeir Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ og var þar mjög kröftug umræða og má segja að Össur hafi nánast valtrað yfir andstæðing sinn og var Friðrik orðinn náfölur í framan og virtist nánast skíthræddur við Össur þegar þættinum lauk.  Í gærmorgun fór Davíð Oddsson síðan að koma með á Bylgjunni stórar yfirlýsingar um hvað þessar aðgerðir væru vitlausar, mál sem honum kemur ekkert við og hann VERÐUR að fara að skilja það hann Davíð að hann er hættur í stjórnmálum að eigin ósk.  Í fréttum í gærkvöldi sá Einar K. Guðfinnsson sig knúin til að svara bæði Friðrik og Davíð og að vanda gerði Einar Kristinn það á sinn rólega og yfirvegaða hátt. 

Í gærkvöldi var svo annar umræðuþáttur um sama efni og þar tókust á Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins og Arnbjörg Sveinsdóttir, alþm. og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.  Ósköp var þetta nú litlaus umræða og Arnbjörg sem var mætt til að verja þessar aðgerðir, eins og Össur kvöldið áður.  Það var nánast sama hvað Sævar nefndi, alltaf byrjaði Arnbjörg á sömu setningunni sem var; Ég get að sjálfsögðu tekið undir þetta hjá Sævari og er honum sammála en samt....................."  Það var svo greinilegt að Arnbjörg hafði ekki mikla þekkingu hvað varðar sjávarútveginn og þessum þætti lauk með því að Arnbjörg varð skák og mát.  Hvernig í ósköpunum dettur fólki eins og Arnbjörgu Sveinsdóttir að gefa kost á sér sem formaður í nefnd þar sem koma til umfjöllunar mál sem hún veit greinilega ekkert um eða varð hún bara svona hrædd við Sævar Gunnarsson.


Öryrkjar

Nú hefur Öryrkjabandalag Íslands sent ríkisstjórn óskir sínar um að bæta hag okkar öryrkja og gerir það nú áður en fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár verður tekið til afgreiðslu.  En Alþingi mun koma saman til fundar þann 1. október n.k. og samkvæmt venju er fjárlagafrumvarpi alltaf eitt af fyrstu málum hvers þings.  Ekki get ég verið sammála fréttum að hér sé um að ræða kröfur frá öryrkjum, því þær breytingar sem óskað er eftir eru samhljóma þeim loforðum sem núverandi stjórnarflokkar gáfu kjósendum fyrir síðustu kosningar til Alþingis.  Það sést best á því að á þau loforð var hlustað og trúað, því fyrirhugað sérframboð aldraðra og öryrkja var dregið til baka í trausti þess að þeir frambjóðendur sem þessu lofuðu myndu standa við sín orð eftir kosningar.  Ekki er hægt að segja að í þessari beiðni Öryrkjabandalagsins felist stórkostleg hækkun á bótum til öryrkja.  Það eina sem farið er fram á að okkur verði gert kleyft að lifa eðlilegu lífi miðað við lámarksframfærslu án þess að þurfa í hverjum mánuði að biðja okkar ættingja og vini um fjárhagsaðstoð og við fáum að njóta þess munaðar í okkar lífi að verða aftur virk í samfélaginu með því að fara út á vinnumarkaðinn, þeir sem það geta og stundað heiðarlega vinnu en þurfa ekki að vera sífellt að leita eftir svartri vinnu sem hvergi kemur fram eins og margir þurfa nú að gera.  Ég t.d. er með menntun á sviði bókhalds og fjármála og gæti þess vegna stundað slíka vinnu þrátt fyrir mína fötlun en hef ekki fram til þessa getað nýtt þessa menntun mína og getu eins og okkar málum er háttað í dag því ég hef aldrei á minni ævi stundað skattsvik og vil þess vegna ekki viljað taka að mér svarta vinnu þótt mér hafist boðist það.  Ég fór í fyrra að vinna hjá ákveðnu fyrirtæki og gætti þess að vinna fyrir ekki hærri upphæð en sem næmi kr. 300 þúsund en það er sú upphæð sem við öryrkjar megum hafa í tekjur á ári án þess að bætur skerðist.  Ég hætti í þessu starfi eingöngu til þess að fara ekki yfir þessa upphæð, en í sumar fékk ég það staðfest að þetta hefði ekki tekið gildi fyrr en 1.7. 2007 en ég misskildi þessa umræðu á sínum tíma og hélt að það hefði verið 1.7. 2006 og nú veit ég að innan skamms fæ ég rukkun frá Tryggingastofnun um endurgreiðslu á nánast allri þeirri upphæð sem ég vann fyrir og ég sé að það mun reynast mér næsta vonlaust miðað við óbreytt ástand.  Þegar þessi beiðni kom frá Öryrkjabandalagi Íslands og sagt frá í fréttum að væri krafa en ekki beiðni var strax farið að velta því fyrir sér hvað þetta gæti kostað og einhverstaðar var talan 50 milljarðar nefnd í því sambandi.  En í raun er ómögulegt að reikna þetta út af einhverri nákvæmni, því við það eitt að öryrkjar, sem það geta fari út á vinnumarkaðinn (óþekkt stærð) kemur líka til baka skattar af þeirri vinnu og aukin hagur öryrkja leiðir til þess að öryrkjar eins og annað fólk greiðir óbeina skatta vegna sinnar neyslu á vörum og þjónustu.  Það er nógu slæmt að hafa lent í slysi eða öðrum áföllum og orðið öryrki svo ekki bætist nú við að þurfa það sem eftir er lífsins að standa á hliðarlínunni og vera nánast bannað að taka eðlilegan þátt í okkar þjóðfélag.  Þessi beiðni Öryrkjabandalagsins er ósköp hógvær og er eingöngu verið að fara fram á að núverandi stjórnarflokkar standi við sín kosningarloforð.  Er það mikil krafa eða óeðlileg?

Eru þingmenn bjánar?

Þessari spurningu veltir Jónas Kristjánsson fv. ritstjóri upp á sinni heimasíðu.   Ekki veit ég svarið við þessari spurningu en Jónas er viss hann segir á síðu sinni;  "Nokkrir íslenskir þingmenn eru sagðir styðja að fakírnum Sri Cinmoy verði veitt friðarverðlaun Nóbels.  Eru þar nefndir tveir þingmenn Halldór Blöndal og Hjálmar Jónsson.  Fleiri hafa ekki verið nefndir svo ég viti.  Kannski er þessu bara logið upp á bjánana.  Fakírinn er er hér á landi þekktastur fyrir að lyfta Steingrími Hermannssyni á Lækjartorgi.  Hann er sagður hafa framið fleiri kraftaverk, svo sem að semja þúsund lög.  Þar að auki sætir fakírinn nokkrum kærum fyrrverandi félaga í söfnuðinum.  Það er fyrir að hafa nauðgað konum og neytt þær til fóstureyðinga (Sjá Wikipedia)."  Ekki veit ég neitt um þennan  mann, en sá í fréttum að mjög margir þingmenn hefðu skrifað undir stuðning við þennan mann og þessir tveir þingmenn sem Jónas nefnir hefðu verið að safna undirskriftum á Alþingi og margir af þeim sem skrifuðu undir viðurkenndu að þeir hefðu ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að skrifa undir.  Einnig sá ég þátt í sjónvarpinu þar sem tveir menn tókust á, um hvort væri rétt að styðja þennan mann.  Ef þetta er rétt hjá Jónasi er auðvitað fráleitt að veita þessum manni stuðning.   Ég er nú frekar þeirrar skoðunar að þessi fakír sem er forstöðumaður sértrúarhóps í Bandaríkjunum eigi ekki þennan stuðning skilið, því þar vestra eru svona hópar út um allt og í þeim er yfirleitt kolruglað fólk.  Hitt er einnig alvarlegt ef rétt reynist að þingmenn skrifi undir hin og þessi skjöl án þess að vita í raun undir hvað þeir eru að skrifa.  Ég get varla trúað því að óreyndu.

Vægur dómur

Eins og ég kom inn á í grein hér fyrr í dag virðast íslenskir dómstólar haldnir ákveðinni þráhyggju þegar kemur að því að kveða upp dóma í álíka málum.  Þeir eru hafðir eins vægir og mögulegt er og þessi dómur er því miður enn eitt dæmið.  Tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og tíu þúsund í sakarkostnað fyrir að misþyrma fyrrverandi sambýliskonu sinni, þetta er til skammar og sem afsökun á þessu nota dómarar það að maðurinn játaði brot sitt skilyrðislaust.  Hvað er eiginlega orðið að, á ég að trúa því að það sé möguleiki fyrir dómstólum að koma með einhver skilyrði fyrir því að játa á sig brot sem menn hafa sannarlega framið og fá þannig vægari dóm.  Get ég farið og drepið næsta mann og komið síðan með einhver skilyrði ef ég ætla að játa brot mitt og krafist að fá vægan dóm, ef ekki verði gengið að mínum skilyrðum játi ég aldrei.  Hvers konar andskotans bull og kjaftæði er þetta að verða.  Ég er kominn á þá skoðun að karlmenn séu óhæfir í að dæma í svona málum og jafnvel ætti að setja í lög að slík mál væru dæmd af konum.  Því það er eins og alltaf komi upp þessi karlrembuhugsun "Konan hefur sennilega boðið upp á þetta sjálf."  Þetta er líka stórhættuleg þróun, því eftir sem svona rugldómum fjölgar myndast sterkari réttarvenja og þetta verður vítahringur sem alltaf verður verra og verra að komast út úr.  Með svona dómum er einfaldlega verið að senda út í þjóðfélagið þau skilaboð: "Það er allt í lagi að berja og misþyrma konum, þær hafa svo gaman af því." 
mbl.is Skilorð fyrir árás á sambýliskonu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróðurhúsaáhrif

 

Því ber að fagna þegar svona fréttir koma frá einum af þeim ríkjum sem ekki hafa fram til þessa viljað taka þátt í samstarfi þjóða um að draga úr loftlagsmengun.  En það er ekki nóg að Bush beiti sér fyrir svona ráðstefnu 16 þjóða sem mest menga í heiminum og Condoleezza Rice segi að bandaríkjamenn taki þessa hættu mjög alvarlega, ef ekki fylgir í kjölfarið að gripið verði til einhverra aðgerða og bandaríkjamenn sýni fram á að þeir ætli að gera eitthvað í málinu.  Það er ekki nóg að tala bara um hlutina og gera síðan ekki neitt.  En Bush ætlar víst að halda ræðu á morgun og vonandi leggur hann þar fram einhverja áætlun um hvernig BNA ætla að draga úr mengun.


mbl.is Rice segir Bandaríkjamenn taka gróðurhúsaáhrifin alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eskja

Nú mun vera fyrirhugað að hætta allri vinnslu í frystihúsi Eskju á Eskifirði um áramót.  Að sögn Hauks Björnssonar, framkvæmdastjóra Eskju hefur 35 manns verið sagt upp.  Skip Eskju verða áfram í eigu félagsins en stefnt er að því að selja bolfisktogara félagsins og kaupa annan minni.  Nú munu sennilega flestir líta svo á að þetta sé bein afleiðing af samdrætti í þorskveiðum.  En svo er ekki því bolfiskkvóti Eskju hefur lengi verið til sölu og það áður en þessi niðurskurður á þorskkvóta var tekinn en salan á kvóta Eskju var skilyrt að því leiti að sá sem hefði keypt varð að kaupa líka frystihús Eskju og tryggja þar vinnslu.  Ástæðan fyrir því að þessi kvóti var boðinn til sölu á sínum tíma var sá að verið var að kaupa út tvo stóra hluthafa í félaginu og ef ég man rétt þá fengu þeir aðilar samtals rúma tvo milljarða greidda í peningum sem síðan átti að fjármagna með sölu kvótans, sem ekki virðist hafa tekist og í ljósi þess er þessi ákvörðun tekin nú.  Þetta er eitt af hinum mörgum dæmum sem þetta meingallaða kvótakerfi hefur áhrif á í hinum ýmsu byggðalögum.  Menn fara út úr þessari atvinnugrein með miljarða í vasanum og þeir sem eftir sitja og berjast við að bjarga því sem bjargað verður bæta á sig miklum skuldum.  Enda er íslenskur sjávarútvegur orðinn skuldum vafinn vegna svona tilfella, langt upp fyrir haus.  En sem betur fer er Eskja sterkt fyrirtæki og vel rekið enda stofnað og stýrt lengi af hinum merka manni Aðalsteini Jónssyni (Alla ríka) en í dag eru það dóttir Aðalsteins og tengdasonur, Þorsteinn Jónsson skipstjóri og aflamaður. sem eru aðaleigendur Eskju og hef ég fulla trú að þau hjónin komi til með að efla þetta fyrirtæki frekar en hitt, þótt þau neyðist til þess núna að draga aðeins saman í rekstrinum, þótt ekki sé sársaukalaust.  Hvað varðar fólkið sem þarna missir sína vinnu bendir Haukur Björnsson á með réttu að mikið framboð sé á atvinnu á Austurlandi í dag svo fólkið þarf ekki að kvíða framtíðinni.
mbl.is Öllu starfsfólki í frystihúsi Eskju sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drykkjuþol íslendinga

þessi ummæli bandaríska grínarans Pablo Francisco hljóta að byggjast á hans reynslu og af kynnum sínum við íslendinga.  En mér finnst hann ansi dómharður þegar hann alhæfir "að íslendingar bara drekki og drekki og fari síðan beint í vinnuna."  Þetta eru fullyrðingar sem ég kannast ekki við og misnotað ég þó áfengi lengi vel, en hef sem betur fer hætt að nota áfengi.   Ég tel að íslendingar kunni mjög vel að skilja á milli drykkju og vinnu og þar sem ég starfaði lengi til sjós þótti hér áður fyrr ekkert athugavert að menn kæmu ölvaðir til skips en það er löngu liðin tíð.  Þessi maður hlýtur að hafa upplifað mikla drykkju sjálfur og ruglað sinni eigin drykkju saman við íslendinga.  Ég lít því á þetta sem innantómt bull sem hann er að nota til að vekja athygli á sjálfum sér.
mbl.is Mikil umræða á blogginu eftir ummæli Francisco um drykkjuþol Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

Nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt Róbert Árna Hreiðarsson 59 ára gamlan héraðsdómslögmann í þriggja ára fangelsi óskilorðsbundið og svipt hann lögmannsréttindum fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum.  Hann var einnig dæmdur til að greiða 2,2 milljónir í skaðabætur og 2,6 milljónir í sakarkostnað.

Róbert Árni tældi þrjár af stúlkunum með blekkingum og peningagreiðslum til kynferðismaka við sig, en þá voru þrjár af stúlkunum á aldrinum 14 og 15 ára.  Hann komst í samband við stúlkurnar gegnum internetið og eftir því sem fram kemur í dómnum, kallaði hann sig ýmist Rikka eða Robba og þóttist vera 17 ára.  Hann notaði tvö netföng sem voru; "bestur 2000 @hotmail.com" og geiriboy@ hotmail.com" Það fannst við húsleit hjá manninum talvert af barnaklámi í tölvu á heimili hans og einnig í tölvu á lögfræðistofu hans og á heimili mannsins fannst fjöldi myndbanda með barnaklámi.   Þótt að hann hefði játað flest þessara brota við skýrslutökur hjá lögreglu, nýtti hann sér þann rétt sinn að tjá sig ekki við aðalmeðferð málsins fyrir dómi.  Ég skrifaði grein um þennan mann 19.9. sem ég kallaði "Góður þáttur" og var þar að vitna í Kompásþátt sem hafði verið sýndur á Stöð 2 skömmu áður.  Ég fékk hörð viðbrögð frá manni sem kallaði sig Geiri sem sakaði mig um að vera dæma saklausan mann, því allir væru saklausir þar til sekt væri sönnuð.  Eftir að ég las dóminn og sá þar að hann hafði notað í einu af sínum netföngum nafnið Geiriboy fer mig að gruna að sú gagnrýni sem ég fékk við mínum skrifum væri frá barnaníðingnum sjálfum.  Því þegar ég lét manninn vita að ef hann hætti ekki að skrifa undir dulnefni myndi ég henda út öllum hans athugasemdum og þá hætti þessi gagnrýni.  Í dómnum kemur einnig fram að í kjölfar þessa atburða áttu allar stúlkurnar við andlega og félagslega erfiðleika að stríða og í sumum tilfellum varð afleiðingin eiturlyfjaneysla.  Þótt þessi dómur sé fallinn er málið samt ekki búið því verjandi Róberts Árna lýsti því yfir að mjög trúlegt væri að þessu yrði áfríað til Hæstaréttar og á meðan gengur þessi barnaníðingur laus og getur haldið áfram að stunda sína iðju eins og hann gerði þótt búið væri að ákæra hann.  Þótt sumum finnist þessi dómur harður, finnst mér hann alltof vægur eins og því miður er mjög algengt í slíkum málum því alltaf eru til aðilar sem líta svo á að nauðgun og ofbeldi gagnvart konum og börnum komi til af því að viðkomandi sem fyrir slíku verður, hljóti að bjóða upp á það.  Ég held að enginn hvort sem það er fullþroskuð kona aða unglingsstúlka langi til að láta misnota sig.  Hvað varðar sektargreiðslur sem Róbert Árni var dæmdur til að greiða þessum fjórum stúlkum, sem ég lít frekar á sem saklaus börn, þá skipta þær greiðslur engu máli.  Því hér er um að ræða, að lífi fjögra ungra stúlkna hefur verið lagt í rúst og slíkt verður ALDREI bætt með peningum sama hvað upphæð er nefnd.  Skaðinn sem þessi maður hefur valdið þessum 14-15 ára stúlkubörnum mun fylgja þeim alla þeirra ævi.  Ég hef aldrei á ævinni komið á Litla Hraun, hvorki sem fangi eða sem gestur en þekki þó nokkra sem hafa verið þar fangar og þótt þar dvelji margir fyrir hina ýmsu glæpi, en þó viss siðferðistilfinning hjá þessum föngum og barnaníðingar eru þar fyrirlitnir manna mest og nánast útskúfað úr samfélagi fanga.  Og þótt íslenskir dómstólar hafi ekki burði eða þor til að framfylgja réttlætinu munu fangar á Litla Hrauni bæta úr því. 


Paris Hilton

Alltaf tekst henni Paris Hilton að halda sér á tindi frægðarinnar og blöðin keppast við að vekja á henni athygli sama hvað hún gerir.  En fyrir hvað er Paris Hilton sérstaklega fræg ef vel er skoðað.  Hún er nefnilega fræg fyrir akkúrat ekki neitt nema ef vera skyldi eigin vitleysu og nú langar henni að kynnast fátækt og velur Afríkuríkið Rúanda og þar er auðvitað gríðarleg fátækt og hörmungar ástand sem flestir vita sem fylgjast með fréttum eða er Paris Hilton það heimsk að hún hafi verið fyrst til að uppgötva hvernig ástandið er í Rúnanda.  Ef hana langar svo til að kynnast fátækt hefði henni nægt að fara til New York og í ákveðin hverfi þar og geta fylgst með fátæku fólki borða úr ruslatunnunum.  Nei hún velur Rúanda og ég skil ekki að nokkur maður trúi því að þótt Paris Hilton fari til Rúanda að þar lagist eitthvað.  Það sem skeður að hörmungar Rúanda aukast við það eitt að þessi moldríki vitleysingur bætist við öll önnur vandamál sem fyrir eru.  Hún er að nýta sér neyð fátæks ríkis í Afríku til að vekja athygli á sjálfum sér og ætti að skammast sín fyrir, en það getur hún ekki vegna þess að þetta fyrirbæri sem kallast Paris Hilton kann ekki að skammast sín og mun aldrei læra.  Mér býður við svona fólki.
mbl.is Paris reynir fyrir sér í hjálparstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband