Öryrki

Þegar ég fékk áfallahjálp eftir slysið sem ég lenti í út á sjó í september 2003 var mér ráðlagt af mínum geðlæknir að skrifa um slysið, því ég var svo lengi á eftir að vakna upp á nóttinni eftir að hafa fengið martraðir, þar sem ég var að upplifa þetta aftur og aftur og það sem ég skrifaði hér á eftir en það var eftir dvöl mína   á  Reykjalundi þar sem ég var í nokkra mánuði í endurhæfingu:

Að dansa við dauðann: 

Klukkan er sex að morgni, ég er að labba niður bryggjuna því við feðgar erum að fara á sjó.  Þetta er fallegur september morgun og útlit fyrir að það verði sól í dag en hún hefur ekki náð enn upp fyrir hin háu fjöll sem umlykja Bíldudal.  Ég sest á bryggjupolla meðan ég bíð eftir stráknum.  Þá tek ég eftir að þrír hrafnar eru að flögra kringum kirkjuturninn.  Þegar sonur minn mætir segi ég við hann “Sjáðu hrafnanna, nú er öruggt að einhver deyr hér á staðnum í dag” Hvað bull er þetta í þér segir sonurinn, það eru hrafnar hér í öllum fjöllum og ef þeir boðuðu feigð værum við öll löngu dauð”.  Jæja sagði ég við sjáum til hvað skeður. En hrafnar eru yfirleitt uppí fjöllum en lítið niðri í byggð. Síðan förum við á sjó og dagurinn var tíðindalítill.  Þegar við komum í land og erum búnir að binda bátinn um kl. 21 um kvöldið segir sonur minn hlæjandi  “Jæja pabbi ferð þú þá í jarðaför á morgun eða getum við farið á sjó”  Ég segi lítið en á leiðinni heim kom ég við í sjoppunni og þar fæ ég þær fréttir að kunningi minn 36 ára hafi orðið bráðkvaddur nóttina áður í veiðihúsi sem hann var staddur í.  Syni mínum brá mikið en sagði fátt.  Næstu daga héldum við áfram róðrum feðgarnir og allt gekk vel.  Veðrið var yfirleitt gott oftast þetta fallega haustveður, næturfrost en síðan kom sólin og hiti þokkalegur.  Svo kemur 22. september og sonur minn hringir um 04,00 og segist ætla að fara frekar snemma á sjóinn.  Hann er svo mættur hjá mér um 04,30 og við göngum saman niður á bryggju og veðrið er mjög gott.  Þegar allt er tilbúið til brottfarar og ég er að ganga frá landfestum eru þrír hrafnar flögrandi við afturmastur bátsins og ýmis að setjast á grindverkið á brúnni eða fljúga upp.  Ég segi ekki neitt en hugsa með mér nú kemur eitthver andskotinn fyrir hjá okkur í dag.  Sonur minn kallar í mig og segir hvað helvítis læti eru þetta í hröfnunum, ég man nú bara aldrei eftir að þeir létu svona um borð í bát.  Ég svara honum í hæðnistón að hann skuli ekki vera með áhyggjur af blessuðum fuglunum þeir séu hér í fjöllunum allt í kring. Svo ert þú nú skipstjórinn og ættir að hafa vald til að reka þá í burtu.  Og allt í einu sé ég að hann kemur stökkvandi út úr brúnni með barefli, lemur og lemur í grindverkið öskrandi og veinandi.  Hrafnarnir flugu auðvitað upp en hringsóluðu yfir bátnum meðan við sigldum út úr höfninni.  Helvíti að hafa ekki byssu segir strákurinn og skjóta þessi kvikindi.  Þetta er ekki eðlilegur andskoti hvernig þessir fuglar láta.  Ég hef nú ekki í þau 15 ár sem ég hef verið á sjó séð hrafninn láta svona og snýr sér svo að mér og segir ef þessi helvítis kvikindi boða feigð og láta svona verðum við báðir steindauðir í kvöld.Við sigldum síðan út fjörðinn í blíðu veðri og vorum byrjaðir veiðar um klst. síðar.  Það voru þrír bátar að veiðum á firðinum og afli sára tregur hjá öllum. Þegar komið var fram yfir hádegi var orðið ljóst að eina vonin væri að fiskurinn slæi sér niður við botn um birtuskilin en það var milli kl. 19-21 sem byrjaði að rökkva.  Einn báturinn hafði látið reka megnið af deginum en við lentum í því fljótlega eftir hádegi að nótin fór óklár og þar sem við vorum bara tveir vorum við lengi að ná þessu inn og greiða úr flækjunni.  Það var því orðið nokkuð liðið á daginn þegar allt var orðið klárt hjá okkur.  Um kl. 19 lét báturinn sem hafði látið reka vita að hann hefði kastað einu sinni og fengið tvö tonn af góðum þorski.  Þá var sett á fulla ferð og brunað yfir fjörðinn þar sem báturinn var.  Sonur minn var orðinn óþolinmóður og þegar við komum á svæðið það var tekið að rökkva og því allt útlit fyrir að við næðum bara einu kasti.  Strákurinn segir við mig að nú megi ekkert klikka, ég verði að vera snöggur að koma nótinni út og hún verði að fara klár.  Talsverð ferð var á bátnum þegar nótin byrjar að renna út, ég þurfti að hlaupa yfir á bakborðssíðu til að láta pokann og belginn fara út en þegar nótin er að renn út sé ég að það er að fara óklárt og fer að greiða úr því er því alltof seinn að hlaupa yfir og þegar ég er að velta belgnum út kalla ég á strákinn að það sé alltof mikil ferð á bátnum, því þetta var nánast rifið út úr höndunum á mér, en út fór þetta, ég er nýbúinn að velta pokanum út og er að hugsa með mér að þetta hafi nú allt reddast.  Síðan byrja grandararnir sem voru úr vír að renna út og ég hugsaði með mér hvað gott væri að þetta væri síðasta kastið á þessum degi en miklar lóðningar höfðu verið þegar við komum þarna og vonandi bjargi þetta deginum.  En alltí einu er kippt í hægri fótinn og ég flýg uppí loft, lemst illa utan í bátinn og dingla á öðrum fæti yfir sjónum og slæst annars slagið utan í bátinn.  Ég öskra eins hátt og ég get því ég veit að ef strákurinn heyrir ekki í mér myndi hann slaka nótinni og ég færi með niður á botn, en þarna var um 100 metra dýpi.  Ég hafði náð með vinstri hendi að grípa í handrið sem var á borðstokknum og átökin voru gífurleg bæði á fótinn og hendina.  Jæja hugsaði ég með mér á þetta virkilega að enda svona hjá mér drepast hér inná firði í blíðuveðri.  Í gegnum hugann flaug að við höfðum verið að róa öðrum stærri bát á netavertíð í Ólafsvík um veturinn áður, þar um borð voru nokkrir ungir strákar og voru  nýbyrjaðir á sjó og ég sem vélstjóri stjórnaði netadrættinum og þeim fannst ég stundum full kaldur í brælum og spurðu oft hvort ég væri ekki hræddur að lenda í spilinu eða fara fyrir borð þegar ég var að leggjast á borðstokkinn með lappirnar uppí loft til að haka upp fiska sem dottið höfðu úr netunum.  Og í eitt skipti bilaði neyðarstoppið á spilinu og fannst þeim þá full mikið þegar ég sagði ætla að gera við þetta um kvöldið við yrðum að klára að draga fyrst.  En ég sagði alltaf við þá að það væri miklu merkilegra að drepast í einhverju hroðalegu slysi, en að deyja eins og aumingi sofandi uppí rúmi.  Og nú hugsaði ég er þetta virkilega að koma fyrir mig.  Mér var andskotans nær að vera ekki með þetta kjaftæði í vetur. En víkjum nú sögunni aftur vestur í Arnarfjörð.  Sem betur fer heyrði sonur minn í mér og kom hlaupandi til að athuga hvað væri að ske en kallaði til mín að þrauka meðan hann minkaði ferðina á bátnum en sagðist ekki þora að bakka þá gæti allt farið í skrúfuna og ég dregist þar niður.  Það er ótrúlegt hvað margt flýgur gegnum hugann við svona aðstæður.  Það tók nokkurn tíma að mér fannst heil eilífð að báturinn stoppaði og ég óttaðist mest að vírinn bryti beinin í fætinum og sliti hann af eins var átakið á hendinni sem ég hélt í grindverkið orðið mikið en ekki sleppti ég.    Þegar fór að draga úr ferð bátsins gat ég sparkað af mér stígvélinu en þá greip vírinn í sjógallann og axlaböndin voru við það að hengja mig.  En þá stöðvaðist bátirinn og sonur minn kom til að ná mér innfyrir og losa mig og studdi mig síðan ínní brúnna og lét mig leggjast þar og tók mig úr sjógallanum. Og gekk úr skugga um að ég væri hvergi brotinn og spurði hvort væri í lagi að hann reyndi einn að ná nótinni inn aftur eða hvort ég væri það kvalinn að hann ætti að skera nótina frá og fara í land.  Ég spurði hann hvort hann gæti ekki reynt að ná stígvélinu sem ég hafði séð fljóta fyrir utan bátinn.  Þú hefur greinilega fengið höfuðhögg og ert orðin ruglaður sagði hann við mig ef þú heldur að ég fari að eyða tíma í að eltast við eitt helvítis stígvél og orðið stórslys hér um borð.  En villtu ekki að ég komi og hjálpi þér að ná nótinni sagði ég þar sem ég vissi að það var ekki létt verk fyrir einn mann.  Slappaðu af maður sagði hann, gerir þú þér ekki grein fyrir að þú varst næstum dauður og liggðu hérna kyrr meðan ég geng frá þessu.  Það vildi til að strákurinn er óvanalega sterkur og hraustur og ég heyrði annars slagið í honum öskur þegar hann var að ná öllu draslinu inn fyrir og voru það greinilega mikil átök.  Eftir hálftíma kom hann lafmóður og setti á fulla ferð, tók símann og hringdi á læknir og tilkynnti að hann þyrfti að koma með slasaðan mann á spítalann um leið og við kæmum í land.  Ég sagði við strákinn að ég vildi komast frammí og leggjast í kojuna mína og hjálpaði hann mér þangað.  Ég gat hoppað á vinstri fæti en ekki stigið í þann hægri fyrir kvölum, þegar við komum framí vildi ég setjast við borðið og sagðist ætla að leggjast á bekkinn sem var meðfram borðinu, hann settist á móti mér og ræddi við mig um hvernig mér liði.  Spurði og spurði hvort ég myndi eftir hinu og þessu.  Svo sagði hann við verðum komnir í land eftir tæpan klukkutíma og þá fer ég með þig beint á spítalann.Síðan sagði hann ég veit ekki hvað þú hefur fengið mikil högg á höfuðið en mér er illa við að þú sofnir áður en við komum í land og kallaðu í mig í kallkerfinu ef þig fer að syfja.  Ég játti því og um leið tók ég sígarettupakka sem ég átti á borðinu og kveikt í sígarettu.  Strákurinn stóð upp og sagði “Þetta er alveg ótrúlegt að vera nýsloppinn frá því að drepast þá er tekið það eina sem þú hefur vald á og drepur þig örugglega fyrr en síðar eru þessar reykingar þínar.  Togar dauðinn svona sterkt í þig.  Svo er hægt að tala um að hrafnin beri ábyrgð á öllum óförum.  Ekki var það hrafn sem tróð uppí þig sígarettunni og ekki getur þú kennt honum um ef þú drepst af þessum reykingum.  Þú ert nú búinn að reykja í 35 ár  og ég held að sé komið nóg.  Gerðu ekki grín að minni hjátrú með hrafninn sagði ég.  Ég geri það ekki sagði sonurinn en hitt veit ég og það er bara heilbrigð skynsemi sem segir mér það að reykingar drepa og ekki þarf neina andskotans fugla til og ef þú ferð ekki að hætta þessu og þín kenning er rétt með hrafninn verður þessi fugl alltaf á eftir þér.  Við vorum komnir í land eftir um klukkutíma og þá biðu á bryggjunni dóttir mín og fyrrverandi eiginkona og tengdadóttir mín.  Ég náði að skríða upp á bryggjuna og síðan ók sonur minn mér á Sjúkrahúsið á Patreksfirði.  Þar tók á móti mér yfirlæknirinn Jón B.G. Jónsson, hann myndaði hægri fótinn og sá að ég var hvergi brotinn sagði mér síðan að fara heim og koma til sín aftur eftir nokkra daga til að skoða fótinn aftur.  Ekki veitti hann okkur nein áfallahjálp eða ræddi nokkuð við okkur um slysið.  Þegar ég bað um eitthvað verkjastillandi náði hann í tvær magnyl-töflur og eina íbúfen og sagði við son minn þið hljótið að eiga eða geta fengið lánaðar verkjatöflur.  Hann spurði mig hvort ég hefði fengið höfuðhögg en ég var bæði vankaður og allur lurkum laminn og gat ekki munað eftir ákveðnu höggi en sagði að ég hefði víða fengið högg.  Ég spurði hvort ekki væri öruggara að fá að vera á spítalanum um nóttina en hann sagðist ekki sjá ástæðu þess.  Ég gæti bara hringt ef eitthvað kæmi uppá.  Ég fór síðan heim og þegar ég lagðist uppí rúm komu atburðir dagsins uppí hugann og ég tók allur að skjálfa og spurði sjálfan mig stöðugt ef þetta, ef hitt og ef, ef,  Mér gekk mjög illa að sofna en sofnaði þó að lokum milli 3-4.  Vaknaði síðan um morguninn við að ég datt fram úr rúminu og var þá klukkan aðeins um 07 þegar ég ætlaði að standa upp var ég algerlega lamaður á vinstri hlið.  Á einhver óskiljanlegan hátt komst ég upp í rúmið aftur. Um kl. 08 hringdi ég í son minn og kom hann og hjálpaði mér í föt og og lagðaði fyrir mig kaffi sagði mér síðan að hringja í læknir.  Ég hringdi strax á Sjúkrahúsið og bað um samband við Jón B.G.Jónsson en fékk þau svör að ég ætti að hringja í símatíma hjá Jóni milli kl.13,00-13,30.  Ég sagði símadömunni að skila til Jóns að þetta væri vegna slys sem ég hefði lent í deginum áður og væri orðin lamaður. Hún kom eftir smá stund í símann með þau svör frá Jóni að hann hefði engan tíma til að tala við mig um þetta en ítrekaði að ég ætti að mæta  viðtal hjá sér eftir nokkra daga. Mér leist ekki orðið á þetta ef ekki væri hægt að fá læknishjálp og ég yrði að bíða svona í nokkra daga.  Þessi spítali er orðinn hálfgert elliheimili.  Þar eru engar aðgerðir gerðar svo ekki var læknirinn upptekinn við slíkt.  Ég fór að kanna að komast á Ísafjörð en þá kom í ljós að ég varð að vera með tilvísun frá læknir á minni Heilsugæslustöð en sá læknir var einmitt Jón B.G. Ég var orðinn hræddur eitthvað var að ske í höfðinu á mér og ég fór að fá alls konar flugur í höfuðið og fannst eins og dauðinn nálgaðist.  Í gegnum hugann rann æviskeið mitt og aftur fór að koma spurningarnar ef þetta, ef hitt, og ef, ef, ef,  Ég hefði getað gert svo margt betur í lífinu.  Í hugann kom að læknirinn vildi ekki tala við mig vegna þess að ekkert væri hægt að gera.  Tengdadóttir mín er mjög ákveðin kona (gift syni mínum sem ég var á sjó með) hún er óhrædd við að láta sínar skoðanir í ljós og lætur ekki snerta sig þótt hún móðgi einhvern.  Hún hringdi í mig í hádeginu þennan dag og sagðist hafa hringt á Spítalann og ekki gefið eftir að fá að ræða við Jón B.G. og sagði hann þá að sennilega væri best að leggja mig inn.  Sonur minn ók mér á Spítalann og vorum við komnir þangað um kl.14,00 var vel tekið á móti mér af hjúkrunarfólkinu og mér sagt að Jón B.G. kæmi fljótlega til að skoða mig.  Mér leið strax betur og fannst ég vera orðinn öruggari.  Um kl.15,00 kom Jón og skoðaði mig og sagði síðan hálfhlægjandi “ég hef bara ekki hugmynd um hvað getur verið að þér en þú ert greinilega lamaðu vinstra megin, bíddu aðeins ég kem fljótlega aftur”.  Mér fannst þetta nú ekki merkileg skoðun og þurfti ekki læknir til að segja mér að ég væri lamaður á vinstri hlið það fann ég best sjálfur.  Um kl. 16,30 kom Jón og sagði ég held að ég verði að senda þig til Reykjavíkur, þú ferð með flugi kl.15,30.  Þú ferð á Landsspítalan við Hringbraut ég er búinn að hringja og það verður sjúkrabíll á flugvellinum.  Ég spurð hvort ég þyrfti ekki að hafa neina pappíra með mér en Jón B.G. sagði að þess þyrfti ekki hann væri búinn að ganga frá öllu og kvaddi mig svo.  Ekið var með mig á  flugvöllinn á Bíldudal og komið þangað um kl. 18,00 þar beið þyrlan TF-Líf og var mér komið fyrir í vélinni og var í sjúkrabörum sem ólaðar voru niður.  Áður en dyrunum var lokað heyrði ég að annar flugmaðurinn var að rífast við ökumann sjúkrabílsins og heimta pappíra, hinn svaraði því til að læknirinn hefði sagt að þess þyrfti ekki.  Ég heyrði að flugmaðurinn var orðin reiður og sagði að það væri lámark að þeir hefðu í höndunum flutningsskýrslu, ökumaðurinn svarðaði alltaf því sama og vitnaði í læknirinn.  Reglur eru reglur sagði flugmaðurinn og því breytir enginn læknir.  Lenti þessi maður í slysi eða varð hann alvarlega veikur.  Ég veit ekkert um þetta svaraði ökumaður, ég var aðeins beðinn um að aka sjúklingnum hingað.   Haldið þið að hægt sé að panta sjúkraflug og henda sjúklingi inn í flugvél og allt sé í lagi sagði flugmaðurinn.  Hvað eigum við að gera ef eitthvað kemur uppá á leiðinni og við þurfum að lenda og kalla á læknir og vitum ekki neitt, ekki einu sinni á hvaða spítala þessi maður á að fara eigum við bara að setja hann út á flugvellinum í Rvk.  Hann á að fara á Lsph. við Hringbraut svaraði ökumaðurinn og kvaddi.  Vélinni var síðan lokað og farið í loftið.  Þegar við höfðum verið á flugi smá stund kom annar flugmaðurinn til mín og spurði hvernig mér liði og hvort ég gæti gefið honum upplýsingar sem hann yrði nauðsynlega að hafa undir höndum vegna þess að læknirinn hefði ekki látið fylgja með neitt með mér ég reyndi að svara eftir bestu getu.  Og þegar hann vissi að ég hefði lent í slysi útá sjó spurði hann enn ýtarlegra og sagði mér að ákveðnar reglur giltu um upplýsingar varðandi slys á sjó.  Þau væru rannsökuð sérstaklega af  Rannsóknarnefnd sjóslysa og þetta ætti læknirinn að vita.Við lentum í Reykjavík eftir um klst. flug og þar beið sjúkrabílinn og var ég settur í hann og ekið að Lsph. við Hringbraut eftir að hafa verið ekið þar um marga ganga og komum að lokum að móttöku sjúklinga.  Þar kom í ljós að ekkert hafði verið hringt frá Patreksfirði og starfsfólkið þar sagði að miðað við mínar upplýsingar ætti ég að fara á Lsph. í Fossvogi og fórum við þangað en á leiðinni sagði annar sjúkraflutningsmaðurinn við mig “Ef þeir taka ekki við þér þar verðum við bara að fara með þig útá flugvöll og láta flytja þig til baka”.  Við fórum á bráðamóttökuna en þar kannaðist enginn við að hringt hefði verið frá Patreksfirði og ég ætti örugglega ekki að vera þarna.  Sjúkraflutingsmennirnir voru orðnir óþolinmóðir og stóðu í þrasi við starfsfólk þarna, þegar alltí einu kom læknir og sagði að greinilega væri maðurinn alvarlega slasaður og yrði að drífa mig í rannsókn, hvað sem öllum pappírum og upplýsingum frá Patreksfirði liði.  Ekki væri hægt að láta slasaðan mann líða fyrir trassaskap og kæruleysis læknis á Patreksfirði það ætti frekar að kæra þennan læknir fyrir hans þátt í þessu máli.Var ég síðan drifinn í myndatökur og ótal rannsóknir.  Ég veit ekki hvað ég var færður oft á milli rúma en það hefur verið a.m.k. 100 sinnum.  Þegar þessu var öllu lokið og ég komin aftur á bráðamóttökuna var mér sagt að bíða en þá voru komnar þangað dóttir mín sem er hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi mágkona mín.  Eftir langa bið kom læknir og sagði að ég yrðu lagður inn á deild sem ég man ekki númerið á en þangað var farið með mig og ég háttaður niður í rúm.  Ég hef sjaldan verið fegnari en þegar ég var komin í rúmið enda orðin þreyttur eftir þetta ferðalag og allar þessar rannsóknir.  Áður en ég sofnaði flugu í gegnum hugann ótal hugsanir hvort ég væri alvarlega veikur og farið að styttast í lokin hjá mér.  Var mér að hefnast fyrir kjaftæðið á sjónum.  En mikið leið mér vel að vera komin þarna og vita að manni yrði sinnt 100%.  Daginn eftir fór ég í ýmsar rannsóknir og fékk áfallahjálp hjá starfsmanni spítalans og fór mér þá strax að líða betur.  Síðar kom til mín Grétar Guðmundsson læknir og ræddi við mig og útskýrði hvað hafði skeð.  Mér létti mikið eftir viðtalið við Grétar og þótt ég þyrfti að nota hjólastól vissi ég þó alla veganna hver staða mín var.  Og ég var öruggur um að ég væri í góðum höndum og vel yrði hugsað um mig.  Þetta var svo mikill munur frá því fyrir vestan að hér voru fagmenn að verki sem vissu hvað þeir voru að gera og vildu sinna sínum sjúklingum vel.Eftir um tvær vikur á spítalanum var mér tilkynnt að fengist hefði pláss fyrir mig á Reykjalundi í endurhæfingu og var ég fluttur þangað.  Á Reykjalundi var vel tekið á móti mér og starfsfólkið þar vildi allt fyrir mig gera og var ég oft skammaður fyrir að reyna að gera hluti sjálfur en gat varla.  Þegar ég mætti í fyrst tímann hjá sjúkraþjálfaranum sagði hann ákveðinn að við myndum byrja á að þjálfa mig í að ganga svo ég losnaði við hjólastólinn.  Ég varð strax bjartsýnni á framtíðina en taldi að það yrði nokkuð langt þar til ég færi að ganga.  En með þrotlausum æfingum, þrjósku og gera allt sem fyrir mig var lagt og segja alltaf já þegar þjálfarinn spurði hvort ég væti til í að reyna hina ýmsu hluti gat ég staðið uppúr hjólastólnum eftir mánuð og gengið með hækju og síðan hækjulaust og upp og niður stiga án þess að styðja mig við neitt.  Reyndar vissi ég að þjálfarinn var alltaf tilbúinn að grípa mig ef ég myndi missa jafnvægið en ég verð að viðurkenna að eitt atriði varð til þess að ég lagði svona hart að mér var “Sígarettan” en það var leyft að reykja í gám fyrir utan og það var talsvert erfitt fyrir mig að komast þangað í hjólastólnum og mikið á sig leggjandi að komast úr honum.  Reyndar skráði ég mig á námsskeið á Reykjalundi þar sem boðið var uppá aðstoð við að hætta að reykja en sá sem var með námskeiðið vildi að ég færi á ákveðið lyf Zyban en til að mega það varð að fá leyfi hjá mínum læknir Ólöfu H. Bjarnadóttur og ræddi ég málið við hana en hún sagði að mér gengi svo vel í sjúkraþjálfunni og legði mig allann fram að sögn þjálfara míns og hún taldi að ef ég ætlaði að reyna að hætta að reykja væri hún hrædd um að ég yrði pirraður sem myndi bitna á sjúkraþjálfuninni og ég skyldi bíða með það því það væri nánast ótrúlegt hvað ég hefði verið fljótur að losna við hjólastólinn og væri kallaður af starfsliðinu “Litla kraftaverkið” og mikið varð ég feginn að geta sleppt þessu námsskeiði og sagði þegar ég fór að reykja að ég væri að reykja samkvæmt læknisráði.  Eftir að ég fór að geta gengið fór þjálfarinn að leggja aðaláherslu á hendina en fyrir utan lömunina hafði ég tognað illa á öxlinni og var talsverða tíma í byrjun á Reykjalundi með hendina í fatla.  Ég mætti reglulega í iðjuþjálfun til að þjálfa hendina og gerði m.a. dúkkuvöggu fyrir yngsta barnabarn mitt, ávaxtakörfu og nokkrar körfur undir kökur og smádót og var þetta allt gert úr tágum þ.e. vafið saman.  Ég fór í tölvutíma til að þjálfa fingrasetningu uppá nýtt þ.e. fingrasetningu fyrir hægri hendi.  Ég lagði mig allann fram í þau verkefni sem mér voru falinn til að reyna að þjálfa mig upp og ná bata.En verst af öllu er að ég hef oft hugsað um að kannski hefði verið best að öskra ekkert þegar þetta skeði og láta slaka og fara niður með nótinni og kveðja þetta líf en sem betur fer kemur uppí hugann að ég mátti ekki gera syni mínum það eða litlu dóttir minni og reyni að ýta öllum slíkum hugsunum í burt.  Fór ég reglulega í viðtalstíma hjá Þuríði J. Jónsdóttur taugasálfræðingi og sátum við oft uppí klukkutíma að ræða málin og lagði hún fyrir mig nokkur próf til að athuga með minni og viðbrögð.  Alltaf kom ég hressari út en ég var þegar ég fór inn. Einnig hefur Snorri Ingimarsson geðlæknir hjálpað mér mikið að komast yfir þetta.  Þegar jólin fóru að nálgast var farið að tala um að útskrifa mig af Reykjalundi en ég hafði reiknað með að vera einhverja mánuði í viðbót.  Eftir viðræður við læknirinn minn og mikið nöldur frá mér varð að samkomulagi að ég færi vestur yfir jólin og kæmi aftur í lok febrúar og gekk það eftir en ekki fékk ég að vera lengur en þrjár vikur þegar ég kom aftur og fór heim um miðjan mars.  Þegar heim var komið þóttist ég nú fær í flestan sjó þótt ég þyrfti að nota göngustaf og bað son minn sem þá var að róa á 6 tonna trillu að leyfa mér að koma með í nokkra róðra og var það allt í lagi frá hans hendi.Við fórum svo saman í línuróður en þegar til átti að taka og báturinn fór að velta komst ég ekkert um bátinn og varð bara að sitja og horfa á meðan hann lagði og dróg línuna.  Ég tók síðan landstímið og strákurinn sofnaði en einhvern vara hafði hann á sér því hann var alltaf að koma upp af og til og spyrja hvort ekki væri allt í lagi.  Þegar við komum í land var ég svo þreyttur að ég gat ekki aðstoðað hann við löndun og komst varla upp úr bátnum.  Varð mér þá loksins ljóst að sjómennsku minni væri endanlega lokið og fór ég þá að vinna við bókhald fyrir son minn en ég var ansi seinvirkur vegna þess að ég get aðeins notað hægri hendi.  Snorri Ingimarsson kveikti hjá mér þá hugmynd að ég skyldi fara í nám í Háskólanum þar væri tekið við nemendum þótt þeir hefðu ekki stúdentspróf og kannaði fyrir mig við hvern ætti að tala hjá Háskólanum.  Niðurstaðan var sú að nám mitt á Bifröst var metið sem tvö ár í menntaskóla og starfsreynsla metin sem eitt ár, vantaði mig því eitt ár í framhaldsskóla til að komast inn.  En þá opnaðist allt í einu leið sem ég gat notað.  Ég fékk bréf frá Vélskólanum um að þeir væru að fara af stað með fjarnám í samvinnu við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem kallað væri Diplomanám á sviði rekstrar og stjórnunar og tæki tvo vetur.  Nám þetta yrði metið að fullu sem eitt ár í viðskiptafræði og opið síðan að halda síðan áfram námi á Bifröst.  Ég fór í þetta nám og var að skila síðustu verkefnum núna og er þá eftir eitt próf í vetur.  Við vorum 48 sem hófum þetta nám en erum núna orðnir 18 það hefur fækkað jafnt og þétt.  Ég er ákveðinn í að halda áfram næsta vetur og ljúka þessu og sjá svo til með áframhaldandi nám á Bifröst.  Þetta nám fer þannig fram að við hittumst í Vélskólanum þegar ný grein byrjar og er þá kennari frá Bifröst sem fer með okkur í gegnum það sem framundan er, þetta eru yfirleitt 2 dagar.  Síðan fáum við verkefni send í tölvuna okkar gegnum námsskjá og verðum að skila þeim innan ákveðins tíma.  Prófin fara þannig fram að við fáum þau send á námsskjánum og hringjum síðan til að fá lykilorð til að opna prófið og höfum þá 24 tíma til að leysa það.  Öll gögn eru leyfð í prófinu sem mér skilst að sé algengt á Bifröst,  þeir eru ekki mikið fyrir utanbókarlærdóm frekar að maður kunni að leita að þeim gögnum sem nota þarf.  Í vetur höfum við tekið fyrir “Markaðsfræði” “Bókhald og gerð ársreikninga og hvaða lykiltölur er þar að finna”  “Hagfræði” “Lögfræði” “Fjármálastjórn” og “Framleiðslu og rekstrarstjórnun”.Flestir okkar sem byrjuðum þetta ná höfðu ekki verið í skóla í 30-40 ár og er ég með þeim eldri í hópnum og nú þegar við erum orðnir 18 kynnumst við betur og höfum meira samband okkar á milli og vinnum stundum verkefni saman.  En því er ekki að neita að þeir sem búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu hafa smá forskot vegna þess að kennarar eru yfirleitt með aukatíma á fimmtudagskvöldum.  Ég er nú svolítið þrjóskur að eðlisfari og það sem ég tek mér fyrir hendur vil ég ljúka.  En haustið 2005 var mér orði ljóst að ég gæti ekki haldið áfram.  Því hver önn kostaði 140.000,-  + bókakaup sem voru ansi mikil.  Ég sá fram á það að ég ætti eftir að eyða í þetta 520.000,- að lámarki og ákvað að hætta en fór í fjarnám í Stýrimannaskólanum og Vélskólanum og lauk þar nokkrum áföngum og var kvaddur af kennaranum í Stýrimannaskólanum með þeim orðum að öllum verkefnum sem ég hefði skilað sýndu að ég gæti farið í próf strax.  Það skilur enginn af hverju ég er að þessu brölti vitandi að sjómennskuferli mínum er lokið.  En ég á mér draum um að kaupa mér lítið skip og sigla um öll heimsins höf.  En kannski er þetta árátta um að halda áfram að dansa við dauðan og hafa betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk kærlega fyrir að deila þessari lífsreynslu með okkur Jakob minn.  Þú hefur svo sannarlega unnið úr þínum málum vel.  Ég dáist að þér fyrir það.  Þessi læknir ætti að missa prófið ekki seinna en strax. 

Ég óska þér alls góðs í framtíðinni.  Og vonandi rætist draumurinn þinn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.4.2007 kl. 12:16

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Takk.

Georg Eiður Arnarson, 30.4.2007 kl. 17:41

3 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég myndi ekki kalla vilja þinn áráttu, heldur ákveðni í að gefast ekki upp. Til hamingju með jákvætt viðhorf til lífsins!

Guðrún Magnea Helgadóttir, 1.5.2007 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband