Þoskurinn

Jæja, þá er sjávarútvegsráðherra búnir að ákveða fiskveiðikvóta fyrir næsta fiskveiði ár og er farið í einu og öllu eftir tillögum Hafró með 30% niðurskurð í þorski og aðeins heimilað að veiða 130 þúsund tonn.  Nú er boltinn hjá Hafró og komið að þeim að sýna fram á að þorskstofninn komi til með að stækka og þeir viti hvað þeir eru að gera.  Þetta er þeim mun alvarlegra að ekki er eingöngu verið að ræða um næsta fiskveiðiár heldur er talið að þetta ástand verði í næstu 4-6 ár.  Það vita það allir sem vilja vita að við erum á undanförnum árum búin að raska lífkeðjunni í hafinu og taka ætið frá þorskinum með gengdarlausum loðnuveiðum, skrapa allar sandbleyður með dragnót og drepa þannig allt síli.  Það er ekki bara þorskurinn sem fær ekki nægjanlegt æti, flestir sjófuglar eru illa haldnir vegna fæðuskorts og svo mætti lengi telja.  Við höfum vanrækt að veiða hval í stórum stíl sem einnig tekur æti frá fiskinum.  Ég skrifaði hér fyrr í sumar að Hafró myndi takast með sínu reiknilíkani að reikna þorskstofninn niður í 0 þótt fullt væri að þorski væri í sjónum og mun ég því miður hafa verið sannspár og spái því að á næsta fiskveiðiári verði um enn meiri skerðingu að ræða.  Einfaldlega vegna þess að aðferðafræði Hafró gengur ekki upp vegna skekkju í þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar þeirra spám.  Þessi mikli niðurskurður kemur harkalega niður á mörgum og ekki út séð hvernig margar útgerðir eiga að lifa þetta af, ég veit um útgerðarfyrirtæki sem er nýlega búið að kaupa aflaheimildir fyrir um 2 milljarða og sér nú á eftir þeim fljúga út um gluggann og munar um minna.  Ríkisstjórnin er að boða mótvægis aðgerðir á þeim stöðum sem verst verða úti en þær munu því miður ekki koma að miklu gagni, talað er um bættar samgöngur, betri fjarskipt og nýjar atvinnugreinar og hefur þá verið talað um atvinnu sérstaklega fyrir konur.  Rætt er um að Byggðastofnun verði efld og eigi að aðstoða fyrirtækin við að komast yfir þessa erfiðleika með því að skuldbreyta og lengja lán og jafnvel frysta greiðslur og biðla til bankana að gera slíkt hið sama en auðvitað þurfa bankarnir ekkert að fara eftir því frekar en þeir vilja, því ríkið er búið að selja þá og stjórnendur þeirra eru undir miklum þrýstingi hluthafa um aukinn arð af sínu fé eins er hætt við að bankarnir horfi til þess að veð þeirra er stöðugt að skerðast með minnkandi kvóta.  En eitt hefur gleymst í þessari umræðu, en það er fólkið sem býr á þeim stöðum sem harðast verða úti og missir sína vinnu, sjómenn, fiskverkafólk ofl. hvernig á það fólk að lifa þegar engar verða tekjurnar hvað þá að borga af sínum lánum Hvað verður um verslanir á þessum stöðum, þær verða einfaldlega gjaldþrota.  Hverju bættara verður þetta fólk þótt það verði eitthvað fljótara á milli staða eða að heimilistölvan verði hraðvirkari.  Hvað máli skiptir fyrir fólk sem býr t.d. á Patreksfirði að vera kannski fljótara til Ísafarðar þar sem allt verður í rúst.  Það bæti ekki hag neins að geta farið og horft á vandræði annarra, einnig er mikið talað um að efla menntun og fjölga háskólum.  Halda menn virkilega að fiskverkunarfólk og sjómenn fari að kenna við háskóla eða stunda þar nám.  Það furðulega við þetta allt er að ekki skuli hafa verið skýrt frá þessu fyrir kosningar því þá lágu þessar upplýsingar fyrir hjá Hafró og hvaða tillögur þeir ætluðu að gera og þá hefði þjóðin fengið tækifæri á að segja sitt í kosningunum en því var vandlega haldið leyndu.  Hafró setur allt sitt traust á svokallað togararall þar sem togað er á sömu stöðum með sömu veiðarfærum og hefur verið gert sl. 20 ár og notaðir eru hinir svokölluðu Japanstogarar sem flestir eru orðnir yfir 30 ára gamlir og fara brátt að týna tölunni og hvað skeður þá, verður reiknilíkan Hafró eins og áður.  En kannski skiptir það ekki máli því Hafró verður búin að reikna þorskstofninn niður í 0 áður en þessi skip verða ónýt.  Það segja mér skipstjórar sem hafa tekið þátt í togararallinu að áður en farið er af stað verða þeir að fara á ruslahauga til að finna gamalt drasl sem aðrir eru búnir að henda því alltaf verður að nota eins veiðarfæri og síðan er togað á sömu stöðunum sömu stefnu og sömu lengd á toginu ár eftir ár burt séð frá veðurfari, straumum ofl.  Það er einnig stundað svokallað netarall sem byggist á því að miðunum er skipt niður og ákveðinn netabátur leggur sama fjölda af netum á sömu stöðum ár efir ár.  En nú bregður svo við að niðurstöður úr netaralli voru ekki notaðar í reiknilíkan Hafró vegna þess að aflinn var allof mikill og hefði skekkt útkomuna úr togararallinu.  Það furðulega í skýrslu Hafró um ástand fiskistofna á Íslandsmiðum er fjallað um rækju og sagt að hún eigi erfitt með að ná sér á strik vegna mikillar þorskgengdar á rækjumiðunum.  Hér áður fyrr var mikil rækjuveiði í Húnaflóa, Ísafjarðardjúpi, Arnarfirði ofl. stöðum en nú er þar engin rækja og hefur ekki verið í nokkur ár.  Skýring Hafró er að svo mikill þorskur hafi gengið inn í þessa firði og flóa að hann hafi étið upp rækjuna.  Staðan er einfaldlega þannig að Vestfirðir eru að hrynja og norðanvert Snæfellsnes er að hrynja, Norðausturhorn landsins  er að hrynja, einnig syðstu firðir Austfjarða, smábátaútgerðin heyrir brátt sögunni til, því eins og sjávarútvegsráðherra orðaði það sjálfur getur ekkert komið í stað 60 þúsund tonna af þorski.  Nú er að renna upp blómatími fyrir lögfræðinga þessa lands því ekkert blasir við annað en gífurlegur fólksflótti af landsbyggðinni, gjaldþrot fjölda útgerðarfélaga og Íbúðarlánasjóður og bankarnir sitja uppi með nokkur hundruð íbúðarhúsa víða um land og bankarnir eignast stóran flota fiskiskipa sem fylla hafnir landsins og ef kvótinn verður einhvern tíma aukinn aftur munu aðeins verða eftir 4-5 útgerðafyrirtæki með allan kvótann og þá í eigu erlendra aðila.  Í Biblíunni er einhverstaðar talað um að mannkynið þurfi að ganga í gegnum 7 mögur ár og síðan komi 7 góð ár.  Því miður getum við ekki vænst hins sama við fáum einungis mögru árin og það sorglega er að þetta eru allt mannanna verk.      

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband