Sandgerðisdagar

Um sl. helgi fóru fram svokallaðir Sandgerðisdagar hér í Sandgerði og bærinn fylltist af fólki.  Dagskráin var fjölbreytt og mikið lagt í þessa bæjarhátíð eins og vera ber, ég hélt mig að mestu leyti heima þessa daga enda ekki auðvelt að komast um bæinn á bíl og ég get nú ekki gengið langar vegalengdir eða staði mikið vegna fötlunar og svo er líka hitt að á svona samkomum er allt fljótandi í bjór og víni og þar sem óðum styttist í 3ja mánaðar bindindi verði komið hjá mér eftir fall í sumar er ekki þess virði að taka neina áhættu og forðast freistingar.  Eftir því sem ég hef heyrt tókst þessi hátíð mjög vel og eftir dansleiki á laugardeginum var aðeins einn maður rotaður sem þykir ekki mikið þegar íslendingar eru að skemmta sér.   Um næstu helgi verður svo haldin Ljósanótt í Reykjanesbæ og verður fróðlegt að fylgjast með hvað margir verða barðir og rotaðir þar.   Annars var síðasta helgi nokkuð sérstök hvað varðar skemmtanir íslendinga, það var slegist í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Keflavík og að sjálfsögðu í miðbæ Reykjavíkur en það er nú orðið fastur liður um hverja helgi.  Ólætin í miðbæ Reykjavíkur um hverja helgi með tilheyrandi sóðaskap og slagsmálum eru einkennilegt fyrirbæri sem illa gengur að hemja og sitt sýnist hverjum.  Svo er verið að agnúast út í aumingja útigangsmennina sem halda mikið til á Austurvelli á daginn og Villi borgarstjóri hafði það í gegn að bjórkælir í  ÁTVR í Austurstræti var tekinn úr sambandi og átti það að vera til að þessir menn hættu að kaupa sér bjór þar á daginn og færu þá um leið af Austurvelli.  Er þetta ein sú frumlegasta og jafnframt ódýrasta leið, sem ég hef heyrt um að fá menn sem eru langt leiddir af drykkjuskap til að hætta að drekka.  Trúir Villi virkilega því að hinir svokölluðu rónar neiti sér um bjór ef hann er ekki kaldur, það má vel vera en ekki trúi ég því.  Menn sem hika ekki við að sturta í sig nokkrum glösum af kardó fúlsa ekki við volgum bjór.  Annars eru það ekki þessir rónar sem setja ömurlegan svip á miðborgina, heldur eru það hinir venjulegu íslendingar þegar þeir fara út að skemmta sér en þá er eins og til verði annar þjóðflokkur, fólkið greinilega umturnast og verður að algjörum villidýrum Þar sem lögmál frumskóarins taka völdin og er lögreglunni vorkunn að þurfa að standa í stappi við þessa vitleysinga.  En hvað á að gera?  Ekki þýðir að gefast upp og mín tillaga er sú að koma upp t.d. á Miklatúni eða öðrum álíka stað stórri girðingu, þar sem væri nóg af flöskum og glösum til að brjóta og reisa veggi til að míga utan í og æla, jafnvel með gluggum til að brjóta.  Lögreglan færi niður í bæ og smalaði saman fólki sem er að velta ofurölvi út af skemmtistöðunum og færi með það á slíkan stað og þar gæti liðið slegist og látið illum látum eins lengi og það hefði þrek til og yrði það síðan látið sofa úr sér vímuna þarna inni og er ég hræddur um að margur yrði undrandi daginn eftir þegar litið yrði yfir vígvöllinn og skammaðist sín kannski svolítið.

Fyrir nokkrum árum var svo komið í París að fólk þorði ekki að taka neðanjarðarlestarnar á kvöldin vegna mikils fjölda af drukknu fólki sem lét öllum illum látum og var jafnvel með hótanir í garð farþega.  Lögreglan í París tók sig til og hreinsaði þessa vitleysinga af öllum stoppistöðvum lestanna og smalaði þeim inn í rútur og ók þeim út í sveit og hleypti þeim þar út og varð síðan hver og einn að sjá um að koma sér sjálfur aftur til Parísar.  Og viti menn að á nokkrum vikum breyttist ástandið til hins betra og venjulegt fólk fór að nota lestarnar jafnvel meira en áður.  Vandræðafólkið gafst upp og í dag eru þessar lestar taldar nokkuð öruggur ferðamáti.  Ætli sama lögmálið myndi ekki líka gilda í Reykjavík.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband