Jón Kristófer Kadett

Jón Kristófer Kadett var mikill heiðursmaður og varð ég þess heiðurs aðnjótandi að kynnast aðeins þessum manni.  Það var á þeim árum sem ég bjó á Patreksfirði og annaðist bókhald og fjármál fyrir skipið Jón Þórðarson BA-180 (þann eldri), að Jón Kristófer kom þar um borð sem matsveinn.  Ég hafði heyrt margar skemmtilegar sögur af þessum manni og taldi að þarna væri nú á ferðinni einn furðufuglinn í viðbót og yrði til vandræða en það var öðru nær.  Á þessum tíma var greidd kauptrygging vikulega en svo lokauppgjör í lok hvers úthalds.  Ekki var greitt beint inná bankareikninga hjá mönnum því fæstir vildu slíkt og var því alltaf borgað með ávísunum á hverjum föstudegi.  Þeir sem voru giftir fengu eiginkonur sínar til að sækja þetta til mín, en aðrir fengu vini eða kunningja, nema Jón Kristófer Kadett, hann vildi fá greitt í peningum og varð ég því að fara alltaf í bankann til að fá peninga fyrir Jón Kristófer, sem hann sótti síðan heim til mín þegar helgarfrí var.  Alltaf mætti Jón Kristófer á mitt heimili spariklæddur til að sækja sín laun og bauð ég honum yfirleitt í kaffi, því mér þótti gaman að spjalla við karlinn og hlusta á nokkrar sögur.   Á þessum tíma áttum við hjónin orðið aðeins elsta son okkar sem heitir Gunnar.  Eftir kaffið og gott spjall kvaddi Jón Kristófer okkur alltaf á sama hátt.  Hann stillti sér upp í eldhúsinu og bað Guð að blessa þetta heimili, tók son okkar upp og bað Guð að blessa hann, kyssti konuna mína og mig og bað Guð að blessa okkur bæði.   Þegar leið á vertíðina og ég sá að talsverður aflahlutur yrði og kæmu því flesti til með að eiga talsverðar inneign í vertíðarlok og fór ég þá að greiða flestum talsvert meira í hverri viku en sem nam kauptryggingu.  Allir tóku þessu auðvitað fagnandi nema Jón Kristófer, hann vildi ekki nema rétta kauptryggingu annað væri brot á kjarasamningum.  Af launagreiðslum þurfti oft að draga frá kröfur um ógreidda skatta og meðlög, því þetta var áður en staðgreiðsla skatta kom til.  Flestir sem í því lentu kvörtuðu og kvörtuðu.  En ekki Jón Kristófer, ég spurði hann eitt sinn út í þetta og sagði hann þá:  "Ég greiði með ánægju það sem keisaranum ber, annars væri ég ekki hamingjusamur maður."  Svona gekk þetta allan tímann sem hann var matsveinn á Jóni Þórðarsyni BA-180.  Karlinn hafði siglt út um allan heim og hafði frá mörgu að segja.  Nafnbótina Kadett hafði hann hlotið vegna starfa sinna í Hjálpræðishernum og hélt henni ætíð síðan.  Hann hafði verið á sínum tíma talsvert háður Bakkusi en var hættur öllu slíku þegar hann var á Patreksfirði og sagði mér að hann hefði sinn Guð til að trúa á og Bakkus hefði verið farinn að ráð of miklu í hans lífi og væru þeir nú skildir að skiptum.  Mér þótti vænt um þegar hann í lok einnar heimsóknar sinnar, en þá var hann að fara frá Patreksfirði, tilkynnti okkur að við værum einu vinirnir sem hann hefði eignast á Patreksfirði meðan hann hefði dvalið þar og sagðist ætla að biðja fyrir okkur við hvert tækifæri.  Ég ætla að láta fara hér á eftir tvær sögur sem hann sagði mér og vona að hann fyrirgefi mér það þar sem hann er núna staddur en hann er löngu látinn:

Jón Kristófer Kadett var alla tíð mjög glysgjarn og hafði mikla ánægju af að ganga um í hinum ýmsu einkenninesbúningum.  Hann átti marga vini sem höfðu verið skipstjórar á millilandaskipum, sem gáfu honum gamla einkennisbúninga.  Eitt sinn er hann á gangi við Reykjavíkurhöfn og sér að stór skúta er á leið til hafnar.  Hann flýtti sér út á Ingólfsgarð, þar sem varðskipin liggja oft núna.  Þar stillti hann sér upp í sínu júníformi og um leið og skútan renndi framhjá heilsaði hann að hermannasið og kallaði hátt og skýrt"La falllllllllllle"."  Um leið og skipverjar heyrðu þetta voru bæði akkeri skútunnar látin falla og stoppaði hún þarna í hafnarmynninu og eftir að hann hafði skoðað skútuna vel veifaði hann til skipverja og kallaði "Hífoppp" og gekk síðan brosandi til baka.  Skútan lenti hinsvegar í hinu mesta basli og varð að fá aðstoð frá dráttarbát til að komast að bryggju.

Eitt sinn var Jón Kristófer Kadett á Vífilstöðum af ástæðum sem mér eru ekki kunnar, en í herbergi með honum var gamall maður sem var mikið veikur.  Gamli maðurinn safnaði öllum smápeningum í krukku og var kominn þó nokkuð í krukkuna, Jón Kristófer Kadett sem oft var blankur, fór nú að spyrja gamla manninn hvað hann ætlaði að gera við krukkuna þegar hann félli frá, því varla færi hann að taka hana með sér í gröfina, því í himnaríki þyrfti hann enga peninga þar væri allt frítt.  Sá gamli hugsaði sig lengi um og sagði síðan við Jón, "Þegar ég dey þá mátt þú eiga þessa krukku og allt sem í henni verður þá."  Þar sem Jón Kristófer var ekki mikið veikur fékk hann oft leyfi til að skreppa til Reykjavíkur og á þeim tíma var starfrækt leigubílastöð Steindórs og þar var hann tíður gestur og fékk kaffi hjá bílstjórunum og sagði þeim sögur.  Bílstjórarnir höfðu svo gaman af þessum heimsóknum Jóns að þeir óku honum oft um bæinn án nokkurrar greiðslu og einnig mjög oft á Vífilstaði.  Einn morguninn þegar Jón Kristófer vaknar er herbergisfélagi hans orðinn mjög veikur og spurning hvað hann myndi lifa lengi.  Að vanda ætlaði Jón að bregða sér til Reykjavíkur en aðgætti þó fyrst hvort krukkan góða væri ekki á sínum stað og var hún þá á náttborði mannsins og orðin nærri full.  Jón fór á Bifreiðarstöð Steindórs og eftir góða stund þar ákveður hann að hringja á Vífilstaði til að fá fréttir af herbergisfélaganum og var honum þá sagt að hann hefði látist um morguninn.  Jón fékk nú einn bílstjórann til að aka sér í einum hvelli á Vífilstaði sem var gert og er Jón kom þangað æddi hann inn í herbergið og sá að krukkan góða var farinn af náttborðinu, en greinilegt var að maður lá í rúminu.  Jón ætlaði ekki að tapa þessum aurum og fór að leita um allt herbergið og í því rís maðurinn í rúminu upp og spyr hvað gangi á?  Jón gaf sér ekki tíma til að virða manninn vel fyrir sér heldur æddi að rúminu og hristi manninn duglega til og hrópaði "Þú átt að vera dauður helvítið þitt og hvar er krukkan?"  Í því kom þar að starfstúlka of sagði Jóni að fyrri herbergisfélagi hans væri dáinn og annar maður kominn í rúmið hinsvegar hefði hún verið beðin um að færa honum svolítið frá fyrrum herbergisfélaga og fór og náði í krukkuna góðu sem var rækilega merkt Jóni Kristófer.  Jón snéri sér þá aftur að manninum í rúminu og sagði; "Farðu bara að sofa aftur þú átt ekki að vera dauður strax."  Fór síðan alsæll út í leigubílinn og til Reykjavíkur með krukkuna.

Mörgum árum seinna þegar ég var fluttur á Bíldudal tól ég að mér sem aukastarf að aka vörubíl hjá Matvælaiðjunni hf. á kvöldin og landa úr rækjubátunum.  Einn báturinn var Kári BA-265 8 tonn að stærð og eigandi hans var einstaklega sérvitur og alltaf í vandræðum að fá mann með sér á bátinn, því bæði var báturinn einn af minnstu rækjubátunum og veiðarfæri af elstu gerð og afli þar af leiðindi lítill.  Eitt kvöldið sé ég að það er kominn nýr háseti á Kára BA-265 og fór út úr bílnum til að athuga með afla hjá þeim.  Þá reyndist aflinn einungis vera tveir kassar af rækju eða um 80-90 kíló og þar sem aflinn var svona lítill ákvað skipstjórinn að rétta þá upp á bryggjuna og hinn nýi háseti átti að taka við þeim og hjálpa mér síðan að lyfta þeim upp á vörubílinn.  Hásetinn reyndist vera Jón Kristófer Kadett og þar sem talsverð hálka var á bryggjunni tókst ekki betur til en svo að þegar Jón ætlaði að taka við seinni kassanum, þá rann hann til og missti hann í sjóinn og fór þar með 50% af aflanum í hafið.  Útgerðarmaðurinn og skipstjórinn brjálaðist af reiði og lauk þar með störfum Jóns Kristófers Kadetts, sem háseta á Kára BA-265.  Síðan hitti ég Jón aldrei áður en hann dó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband