Útgerð og sjómennska

Tungufell BA-326Þetta er fyrsta skipið sem ég var lögskráður á, en þetta er Tungufell BA-326 og er annað af tveimur skipum sem Tálknfirðingar létu smíða í Noregi og voru afhent 1968.  Ég var háseti þarna um borð vorið 1969 og vorum við á útilegu með línu við Austur Grænland og beitt um borð.  Ég var í beitningarliðinu og er það einhver sú versta vinna sem ég hef stundað á ævinni.  Þótt ég væri vanur beitningarmaður var allt annað að beita út í sjó en landi.  Skipstjóri var Sölvi Pálsson frá Tálknafirði.  Þessi bátur var síðar seldur til Þorlákshafnar og hét þar Jóhann Gíslason ÁR og fór m.a. til Afríku til veiða.  Seinna fékk hann nafnið Gunnþór GK-24 og dagaði uppi í höfninni í Njarðvík og endaði sem brotajárn.  Ég skoðaði bátinn þegar hann kom til Þorlákshafnar frá Afríku og var þá allt eins og þegar ég var þar um borð á sínum tíma.

Garðar BA-74Þessi bátur hét Garðar BA-74 og var í eigu Kára Einarssonar, kaupfélagsstjóra á Bíldudal.  Ég var þarna háseti sumarið 1971 eftir að ég kom úr námi á Bifröst.  Við vorum á hörpudiskaveiðum í Arnarfirði og skipstjóri var Jón Kristmundsson frá Bíldudal.  Þessi bátur var smíðaður 1894 og því með elstu skipum flotans.  Hann var 77 ára gamall þegar ég var það um borð.  Endalok hans urðu þau að hann var sendur í slipp á Ísafirði og dæmdur þar ónýtur og rifinn.  Þrátt fyrir háan aldur var þetta hið besta skip.

 

 Guðmundur Péturs_edited

 1971 til 1973 bjó ég á Patreksfirði og var skrifstofustjóri hjá Hraðfrystihúsi Patreksfjarðar hf.  Sem aukastarf vann ég við bókhald og fjármál hjá fyrirtækinu Bjargi hf. sem átti og gerði út skipið Jón Þórðarson BA-180, sem var einn af hinum Austur-Þýsku tappatogurunum sem svo voru kallaðir.  Skipið var gert út á trog- og línuveiðar.  Skipstjórar voru: Héðinn Jónsson, Gísli Kristinsson og Sævar Mikaelsson.  Þetta skip var síðar selt úr landi.

 

Andri BA-100Fyrstu árin eftir að ég flutti frá Patreksfirði til Bíldudals vann ég hjá hraðfrystihúsinu þar og einnig sá ég um bókhald fyrir útgerðarfélagið Sókn hf.  En aðaleigandi þess var Snæbjörn Árnason, skipstjóri.  Þetta félag keypti haustið 1973 skipið Viðey RE-12 sem fékk nafnið Árni Kristjánsson BA-100, seinna var nafni skipsins breytt í Andri BA-100, en þá var Snæbjörn hættur öllum afskiptum af þessu félagi. Skipið endaði síðast í Grindarvík undir nafninu Ágúst Guðmundsson GK-95 en var fljótlega seldur úr landi.

 

Árið 1975 stofnaði ég ásamt mörgum fleirum fyrirtækið Fiskvinnsluna á Bíldudal hf. sem keypti frystihúsið, fiskimjölsverksmiðju ofl. eignir á Bíldudal og var ég fljótlega ráðinn framkvæmdastjóri og gegndi því starfi í 18 ár.  1986 var svo stofnað dótturfélag Útgerðarfélag Bílddælinga hf. og var ég einnig framkvæmdastjóri þar.

Hafrún BA-400

Þetta var fyrsta skipið sem ég keypti fyrir hið nýja félag.  Það var keypt frá Bolungarvík og hét þar Hafrún ÍS-400 og á Bíldudal fékk það nafnið Hafrún BA-400.  Skipið var gert út á línu allt árið.  Beitt í landi yfir veturinn en verið á útilegu með línu á sumrin.  Skipstjóri var Pétur Þór Elíasson.  Skipið var selt 1979 Margeir Margeirssyni útgerðarmanni í Keflavík.  Þaðan var það selt til Djúpavogs, síðar til Vopnafjarðar og svo til Patreksfjarðar.  Höfðu þá verið gerðar miklar breytingar á skipinu.

 

 Guðmundur Péturs_edited                                                                 Í febrúar 1978 strandaði Hafrún BA-400 á landleið við Austmannsdal í Arnarfirði og náðist á flot aftur mikið skemmt.  Viðgerð var ekki lokið fyrr en um mitt sumar en skipstjóri á skipinu þá var Jón Guðröðarson.  Á meðan var tekið á leigu skipið Guðmundur Péturs ÍS-1  frá Bolungarvík og fór áhöfn Hafrúnar á það skip og kláraði vertíðina.  Guðmundur Péturs ÍS-1 var fljótlega eftir þetta seldur úr landi.

 

 

 

Garðey Svona leit skipið, sem áður var Hafrún BA-400 út þegar það var keypt til Patreksfjarðar af hlutafélaginu Seljavík hf.  Eigendur þess félags voru:  Fiskvinnslan á Bíldudal hf. 40% Bjarg hf. (Héðinn Jónsson) 25%, Vesturröst hf. (Reynir Finnbogason) 25% og skipshöfnin 10%  Skipstjóri var Þorsteinn Jónsson.  Þessi útgerð gekk mjög vel en svo kom að því að við ákváðum að selja okkar hlut í félaginu og skömmu síðar var það selt frá Patreksfirði til Dalvíkur og fékk nafnið Haraldur EA, þaðan var það selt til Hornarfjarðar og skýrt Ásgeir Guðmundsson en fljótlega selt aftur og nú til Raufarhafnar, þar stoppaði það stutt og var selt aftur til Hornafjarðar og fékk nafnið Garðey SF-22.  En nú er það komið til Grindavíkur.

Kristín GK-157

Hér er hin gamla Hafrún BA-400 í Grindavík og heitir nú Kristín GK-157

 

 

 

 

 

Steinanes BA-399.jpg aÞetta skip keypti ég fyrir Fiskvinnsluna á Bíldudal hf. í ársbyrjun 1976 og var það gert út á hliðstæðan hátt og Hafrún BA-400.  Skipstjóri í fyrstu var Ársæll Egilsson svo tók Jón Guðröðarson við og síðast var skipstjóri Guðmundur Rúnar Einarsson og síðustu vertíðina hans náði hann því að vera aflahæsti línubátur á Vestfjörðum.  Þessi bátur var seldur 1978 og kaupandi var Guðmundur R. Einarsson.  Hann átti skipið stuttan tíma og seldi það til Margeirs Margeirssonar útgerðarmanns í Keflavík 1980.  Margeir seldi skipið síðan til Stykkishólms og þar fékk það nafnið Grettir SH-104 og eftir miklar breytingar sem voru gerðar á skipinu í Póllandi, þar sem það var togað og teygt á alla kanta leit það svona út:

Steinanes BA-399Grettir SH-104.  Skipið var árið 2006 selt til Patreksfjarðar og heitir nú Vestri BA-63

 

 

 

 

 

Vestri BA-63Vestri BA-63

 

 

 

 

 

Ástæða þess að Fiskvinnslan á Bíldudal hf. ákvað að selja báða sína báta var sú að um svipað leiti átti Tálkni hf. (Ársæll Egilsson og Bjarni Andrésson) í Tálknafirði nýjan skuttogara í smíðum á Akranesi og tókust samningar um að F.B. aðstoðaði þá fjárhagslega gegn því að hið nýja skip yrði gert út frá Bíldudal og þar með yrði hráefnisöflun fyrir fiskvinnslu félagsins (F.B.) betur tryggð.  F.B. hafði áður átt gott samstarf við þá félaga er þeir gerðu skip sitt Frigg BA-4 út frá Bíldudal.

Guðmundur Péturs_editedFrigg BA-4.  Þetta skip var gert út frá Bíldudal af Tálkna hf. 1979 og þar til hinn nýi skuttogari kom í apríl 1980.  Þegar togarinn kom var þessi bátur seldur til Keflavíkur og fékk nafnið Helgi S GK  Hinn nýi eigandi lét gera miklar endurbætur og breytingar á skipinu sem varð til þess að hann missti skipið á uppboði, eftir það fór skipið til Hafnarfjarðar og hét Einir HF síðan til Sandgerðis þar sem það hét Særún GK seinna hét það Njarðvík GK en í dag heitir það Guðrún Björg HF-125 og liggur í Hafnarfjarðarhöfn og grotnar þar niður.

 

Sölvi Bjarnarson BA-65                                                                  

Hinn nýi togari Tálkna hf. Sölvi Bjarnason BA-65.  Skipstjórar á skipinu voru Sigurður H. Brynjólfsson frá Keflavík og Ársæll Egilsson frá Tálknafirði, sem jafnframt var framkvæmdastjóri útgerðarinnar.  Svo fór að lokum vegna þess hvað lánakjör voru verri á skipum smíðuðum innanlands en erlendis að Tálkni missti skip sitt á uppboði  haustið 1985 og eignaðist Fiskveiðasjóður Íslands skipið.

 

Guðbjörg_editedÁ meðan uppboðsferlið stóð á togaranum var hann ekki gerður út og hafði Fiskvinnslan hf. ekkert skip og var þá keypt 250 tonna bátur Happasæll GK-255 úr Garði og kom skipið til Bíldudals í nóvember 1985 og hóf línuveiðar.  Skipið fékk nafnið Steinanes BA-399.  Skipstjóri var Ársæll Egilsson.  Þegar þetta skip var keypt var bæði búið að lengja það og byggja yfir það.         Einnig náðist samkomulag við Héðinn Jónsson, sem þá var kominn með nýtt skip búið línubeitningarvél, um að hann gerði það skip út frá Bíldudal.  Við seldum þennan bát til Ísafjarðar þega við höfðum endurheimt togarann og þar fékk hann nafnið Stakkanes ÍS, þaðan fór hann til Skagastrandar og síðan var hann seldur í brotajárn.

 Jón Þórðarson

Hinn nýi Jón Þórðarson BA-180.  Þessi bátur var síðar seldur til Akranes og þar var hann lengdur um 10 metra og fékk nafnið Akurnesingur AK seinna fór hann ti Hólmavíkur og hét þar Drangavík ST. síðan var hann seldur til Fáskrúðsfjarðar og hét þar Klara Sveinsdóttir SU og að lokum endaði hann í brotajárni.

Sölvi Bjarnason BA-65 kemur til Bíldudals í mars 1986 eftir að Sölvi Bjarnason BA-65Útgerðarfélag Bílddælinga keypti skipið af Fiskveiðasjóði Íslands.  Skipstjóri var eins og áður Sigurður H. Brynjólfsson.   En þegar Landsbanki Íslands keyrði allt í þrot á Bíldudal 1992/1993 var þetta skip selt til Grundarfjarðar og fékk nafnið Drangur SH síðar var það selt til Raufarhafnar og breytt í nótaskip, síðasti eigandi var svo Samherji og hét skipið þá Seley SU og skráð á Eskifirði.  Að lokum var það selt í brotajárn.

 

 

 

Geysir BA-140

1989 kaupir Útgerðarfélag Bílddælinga hf. þennan bát sem áður hét Glaður HU-67 227 brl. og fékk hann nafnið Geysir BA-140 og kom til Bíldudals um vorið og fór þá beint á úthafsrækju.  Um haustið hóf hann línuveiðar og var Ársæll Egilsson skipstjóri en um vorið 1989 var farið á úthafsrækju og tók þá Guðmundur Kristinsson við skipstjórn.  Þegar báturinn var keyptur var búið að byggja yfir hann og reyndist hið besta skip.  Þetta skip var síðar selt Básafelli hf. á Ísafirði og skráð Geysir RE-82 en hefur í mörg ár legið í Bolungarvík og grotnað þar niður.

 

 

Veturinn 1990 leigði Útgerðarfélag Bílddælinga hf. Vonina ÍS-820 til línuveiða og tók Ársæll Egilsson við skipstjórn á því skipi en Guðmundur Kristinsson var áfram skipstjóri á Geysir BA-140 og voru nú gerð út 3 skip, því auk línubátanna tveggja var Sölvi Bjarnason BA-65 í fullum rekstri og var hann því látinn sigla með aflann eða setja í gáma til útflutnings.  Var því nægt hráefni til vinnslu og auk þess sem tekjur togarans stórjukust.  En 1992 keyrði Landsbanki Íslands alla þessa starfsemi í þrot án nokkurrar skýringa og hefur atvinnulíf á Bíldudal ekki jafnað sig síðan.  Lítil atvinna og stöðugur fólksflótti.

Stapi BA-65

 Þennan bát keypti ég með bræðrum mínum ofl. 1993 frá Ólafsfirði.  Hann var 68 brl. og fékk nafnið Stapi BA-65.  Við fórum með hann til Noregs, þar sem sett var í hann línubeitningarvél og var hann hugsaður til að afla fiskverkun okkar Sæfrost hf. hráefnis.  Skipstjóri var Kristján Hörður Kristinsson, en þar sem ekki voru íbúðir í bátnum fyrir nema 8 menn náðist aldrei góður árangur og misstum við því þennan bát til Byggðastofnunar 1994.  Báturinn var fljótlega upp frá því seldur úr landi.

 

Nýsmíði

Þennan bát létum við Jón Páll sonur minn smíða fyrir okkur á Akranesi 2004/2005 og var hann útbúinn með línubeitningarvél.  Þar sem forsendur fyrir þessari nýsmíði voru brostnar og allt atvinnulíf á Bíldudal í uppnámi, ákváðum við áður en báturinn yrði afhentur að gefa eftir kaupsamninginn til næsta kaupanda og fór þessi bátur því til Grindarvíkur og fékk nafnið Eyrarberg GK-60.  Ég er viss um að það hefði verið mikil lyftistöng fyrir Bíldudal á fá þennan bát í flota sinn. 

 

 

Bryndís BA-165                                                                

þennan bát keypti ég ásamt föður mínum Kristni Ásgeirssyni og bróður Guðmundi Kristinssyni, nýja frá Svíþjóð árið 1987 og gerðum við hann út á handfæri og skiptumst á að róa á honum í okkar frítíma.  Á þeim árum þekktist ekki að svona litlir bátar væru gerðir út nema yfir sumarið.  Þegar þessir smábátar voru kvótasettir fengum við um 20 tonn af þorski og seldum síðan bátinn til Grímseyjar fyrir góðan pening.  Þessi bátur hefur gengið kaupum og sölum en er í dag skráður í Súðavík og heitir Salóme ÍS.

 

Hringur

Þennan bát keypti ég ásamt þeim Pétri Þór Elíassyni og Jörundi Bjarnasyni 1978 en þá var báturinn svo til nýr.  Hann var keyptur frá Bolungarvík og fékk nafnið Hringur BA-165.  Um þenna bát stofnuðum við félagið Pétursvör hf.  Skipstjóri var Pétur Þór og var ætlunin að gera bátinn út á rækjuveiðar í Arnarfirði og stunda eitthvað línuveiðar auk handfæraveiða á sumrin.  Því miður veiktist Pétur alvarlega stuttu eftir að við fengum bátinn og dó nokkru síðan langt um aldur fram.  Við Jörundur vorum svo að basla við þetta um tíma en seldum bátinn síðan til Skagastrandar.  Seinna var hann keyptur til Bíldudals af fyrirtækinu Rækjuver hf. og er skráður þar í dag undir nafninu Pétur Þór BA-44.

Freyr BA-9Þennan bát keypti sonur minn Jón Páll Jakobsson 1994 frá Grindavík.  Hann fékk nafnið Freyr BA-9 og vorum við að róa á honum á handfærum sumarið 1994 en byrjuðum línuveiðar um haustið.  Veturinn 1995 rérum við með línu frá Keflavík og leigðum okkur hús í Garðinum en fluttum okkur til Patreksfjarðar um vorið og rérum þaðan með línu.  Jón Páll seldi síðan bátinn í ársbyrjun 1996 en þá vorum við báðir komnir í aðra vinnu.  Þessi bátur mun í dag vera skráður í Ólafsvík.

 

 

 

Sigurbjörg Þ.

Árið 1997 starfaði ég sem yfirverkstjóri hjá fyrirtækinu Trostan ehf. sem rak frystingu og saltfiskverkun á Bíldudal og rækjuverksmiðju á Brjánslæk.  Þá ákváðum ég og sonur minn Jón Páll Jakobsson að endurvekja félagið Pétursvör ehf. og hefja útgerð saman og byrjuðum að kaupa þennan bát og vorum á línuveiðum yfir veturinn og á togveiðum á sumrin.  Gekk útgerðin mjög vel á þessum bát þótt hann væri orðin 50 ára gamall.   Jón Páll var skipstjóri og ég stýrimaður.  Nema veturinn 1978 var ég skráður skipstjóri.  Nú liggur þessi bátur í reiðileysi í Reykjavíkurhöfn og vart þekkjanlegur.

 

 

Sigurbjörg Þorsteins BA-165

Um sumarið 1978 vorum við að leita okkur að stærra skipi, sem endaði með því að við keyptum Erling GK-212 og gáfum honum nafnið Sigurbjörg Þorsteins BA-65 en eldri bátinn ætluðum við einnig að gera út en ekki tókst að fá mannskap og seldum við hann þá til Hafnarfjarðar.  Á þessum bát vorum við bæði á línu-tog- og rækjuveiðum.  Við áttum um 100 tonna kvóta.  Jón Páll Jakobsson var skipstjóri en ég stýrimaður.  En því miður reyndist þetta okkur of stór biti og misstum við bátinn á uppboði 1999.  Í dag er þessi bátur gerður út frá Ísafirði og heitir Strákur ÍS-26.

 

 

Elín RE-1

Þar sem við feðgar vorum nú atvinnulausir tókum við á leigu þennan bát Elínu RE-1 og hófum línuveiðar.  Við höfðum aðeins einn mann í landi við beitningu og reyndum að beita sem mest sjálfir þegar ekki var sjóveður.  Þar sem við höfðum næga línu gátum við oft beitt upp góðan lager en við rérum yfirleitt með 24-30 bala eftir því hvernig veðurspáin var.  Það var nægur kvóti á bátnum og gerðum við samning við eiganda bátsins um að leigja kvóta af honum um leið og við veiddum.  Höfðum við því nokkuð góðar tekjur af þessu.  En vinnan var líka mjög mikil.  Um vorið bauðst okkur í félagi við Aðalbjörn Jóakimsson útgerðarmann að kaupa aftur Sigurbjörgu Þorsteins BA-65 með öllum kvóta og skiptum við því svo á milli okkar að Aðalbjörn fékk kvótann en við bátinn kvótalausan.  En Aðalbjörn hafði yfir að ráða samning við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum um að veiða fyrir þá ákveðið magn af humri.  Skiluðum við því Elínu RE-1 og náðum í Sigurbjörgu Þorsteins BA-65 og fórum á humarveiðar frá Eyjum.  Skipstjóri var Höskuldur Ásgeirsson fóstursonur Aðalbjörns, stýrimaður var Jón Páll Jakobsson og ég var yfirvélstjóri.  Eftir það var farið á úthafsrækju og tók Jón Páll þá við skipstjórn, og seinna á net frá Patreksfirði og Ólafsvík.  Einnig stunduðum við um tíma dragnótarveiðar.  En þetta reyndist vera of erfitt og hættum við útgerð bátsins vorið 2002 og misstum við því bátinn á uppboð haustið 2002.

Sigurbjörg ST-55Um sumarið 2002 þegar við höfðum lagt Sigurbjörgu Þorsteins BA-65 bauðst Jóni Páli að leysa af sem skipstjóri á Sigurbjörgu ST-55 sem var gerð út á úthafsrækju frá Hólmavík en talsvert reiðileysi hafði verið með mannskap á bátnum.  Seinna vantaði stýrimann og var mér boðin sú staða og vorum við feðgar þarna um borð á úthafsrækju fram á haust.  Eftir að rækjuvertíðinni lauk var farið með bátinn til Reykjavíkur og þar sem útgerðarmaðurinn var í hálfgerðum vandræðum með bátinn bað hann okkur að mála hann allan og fara með hann í slipp og fá nýtt haffærisskýrteini.  Síðan var ætlunin að fara vestur á Bíldudal með bátinn og reyna við dragnótaveiðar.  Jón Páll var skipstjóri, Gísli Ægir Ágústsson, stýrimaður og ég yfirvélstjóri.   En þar sem ekki voru dragnótarspil í bátnum aðeins togspil og við vorum að nota gamlar nætur gekk þetta ekki eins vel og vonast hafði verið til, sem endaði með því að við sigldum bátnum til Reykjavíkur þar sem honum var lagt í byrjun árs 2003.  En þá hafði Jón Páll sonur minn stofnað Útgerðarfélag Arnfirðinga ehf. og keypt bátinn Sæfaxa frá Vestmannaeyjum sem var tré skip um 170 tonn að stærð.  Sigurbjörg ST-55 hefur nú verið seld til Englands.

Sæfaxi VE-30Sæfaxi VE-30, þennan bát sóttum við til Vestmannaeyja í febrúar 2003.  Jón Páll var skipstjóri en ég yfirvélstjóri.  Þessi bátur var mjög vel útbúinn á netaveiðar og fórum við fljótlega að róa frá Ólafsvík og lönduðum öllum afla á fiskmarkaðinn þar.  Afli var lengst af nokkuð góður og þægilegur veiðiskapur, við vorum að fara út um kl.05 á morgnanna og koma í land milli 16-18 á daginn.  Eftir netavertíðina voru litlir möguleikar með útgerð bátsins þar sem hann var eingöngu útbúinn til netaveiða og ekki var til fjármagn til að setja almennilegt togspil í bátinn til að fara á troll eða rækju.  En í júní er hringt í mig og er þar eigandinn að Sigurbjörgu ST-55 sem þá var aftur byrjuð á rækju frá Hólmavík og hann biður mig að koma til að leysa vélstjórana og stýrimanninn af.  Fór ég þangað í lok júní og var í rúman mánuð en á meðan var Jón Páll búinn að selja Sæfaxa til Gana og kaupa nýjan bát.

Kitti BA-741Þetta er báturinn sem Jón Páll keypti og skýrði síðar Kitta BA-741.  Við þurftum fyrst að fara með bátinn í slipp til Ísafjarðar og byrjuðum síðan á dragnót og þar sem við ætluðum að landa öllum afla óslægðum og vera mest inná Arnarfirði ákváðum við að vera aðeins tveir um borð.  Og síðan þann 23. september þegar við erum að taka loka kastið þann daginn, þá gleymi ég mér augnablik með þeim afleiðingum að ég flækist í nótinni og stórslasast.  Var þar með bundinn endir á mína sjómennsku og við tók sjúkrahúsdvöl og endurhæfing á Reykjalundi í marga mánuði og er ég þess vegna 75% fatlaður öryrki.  Í dag er þessi bátur skráður í Bolungarvík og heitir Jórunn ÍS.

 

Af þessu má sjá að ég hef komið að útgerð nokkuð margra skipa og einnig stundað sjóinn talsvert.  Ég útskrifaðist frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1971 en 1995 tók ég 30 tonna skipstjórapróf og 48 ára gamall fór ég Í Vélskóla Íslands og lauk því námi tveimur árum seinna frá Menntaskólanum á Ísafirði.  Einnig var ég langt komin í fjarnámi við Stýrimannaskólann til að ná mér í 200 tonna skipstjórnaréttindi, þegar ég lenti í hinu hræðilega slysi.  Námið við Stýrimannaskólann stundaði ég samhliða sjómennsku og var alltaf með fartölvu um borð og nýtti allan minn frítíma í námið og til að sækja eða senda verkefni fékk ég oftast að setja tölvuna í netsamband á einhverri hafnarvoginni þar sem við vorum að landa á hverjum tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þetta er merkileg saga. Þú mátt endilega skila góðri kveðju frá mér til Jóns Páls.

Sigurjón Þórðarson, 30.10.2007 kl. 19:01

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ég geri það.

Jakob Falur Kristinsson, 30.10.2007 kl. 19:22

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er virkilega gaman að þessari samantekt þinni Jakob. Ég sé hérna í upphafinu sem ég ekki vissi, að vorið '69 erum við að fara á sjó á systurskipum þ.e. þú á Tungufellinu og ég á Helgu II sem var árinu eldri en Tungufellið, skipstjóri Haukur Brynjólfsson úr Hafnarfirði. Nema hvað við fórum á bræðslufiskirí niðrí Norðursjó og lönduðum aðallega í Lerwick, eitthvað í Færeyjum, lítill árangur, en stórkostlegur tími og minningar sem koma manni til að brosa......

Söguna þína eftir að þú ert farinn að ráða fyrir málum þarna fyrir vestan man ég meira og minna og bátana man ég alla, fyrir og eftir breytingar, en það er gaman að fara yfir þetta svona samantekið.

Takk fyrir mig!!!

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 30.10.2007 kl. 20:15

4 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er rétt Hafsteinn þessir bátar þeirra Tálknfirðinga og Helga II voru systurskip.  Heldur hefði ég nú viljað fara í Norðursjóinn en standa í þessu beitningarpúli við Grænland.

Jakob Falur Kristinsson, 31.10.2007 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband