Kompás-þátturinn

Mikið var nú gaman að horfa á Kompás-þáttinn sl. sunnudagskvöld, en þar kom fram fullkomin staðfesting á því sem við í Frjálslynda flokknum höfum verið að halda fram varðandi okkar kerfi við stjórn fiskveiða.  Reyndar kom ekkert í þættinum mér á óvart, því ég hef tekið þátt í öllu þessu svindli frá hvaða hlið málið er skoðað.  Eftirfarandi er satt og rétt og viðurkenni ég það hér með:

1.   Frá 1975 til 1992 eða í 18 ár var ég framkvæmdastjóri fyrir aðal fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækinu á Bíldudal.  Gerðum við út einn skuttogara og tvo 200-300 tonn báta sem voru á línuveiðum yfir veturinn en á úthafsrækju á sumrin.   Við höfðum leyfi frá Fiskistofu um að vikta fiskinn sjálfir.  Eftir að kvótinn kom 1984 starfaði ég við þetta í 9 ár  Það var föst regla hjá okkur að skrá viktina 5% minni en hún var í raun á okkar eigin skipum og í staðinn höfðum við fiskverðið hærra svo sjómennirnir væru ekki hlunnfarnir og fylgdist alltaf einn trúnaðarmaður áhafnar með þessu.  Við vorum að vinna að meðaltali um 5 til 6 þúsund tonn á ári og höfðum við þetta ekki hærra vegna þess að ef Fiskistofa kæmi í eftirlit var þetta innan skekkjumarka ef reikna átti nýtingu út frá útfluttu magni var það ekki hægt þar sem við unnum fiskinn á svo margan hátt.  Þetta skilaði okkur um 200-300 tonna aukakvóta og ef við margföldum þetta með 9 er útkoman að í heildina gerði þetta 2 til 3 þúsund tonn.  Mikið samband var á milli okkar framkvæmdastjóranna á Vestfjörðum, töluðum saman í síma oft í viku og hittumst svo allir á fundi tvisvar til þrisvar á ári og vorum við allir að gera slíkt hið sama.  Þetta voru um 10 fyrirtæki og mörg þeirra mun stærri en mitt og ef margföldum nú áðurnefnda tölu með 10 var um að ræða 20 til 25 þúsund tonn á þessu tímabili og að mestum hluta þorskur.  Þar sem við vissum að fyrirtæki í öðrum landshlutum voru að gera hið sama og jafnvel meira eða alls um 100 aðilar verður talan 200 til 250 þúsund tonn eða að meðaltali 25 til 30 þúsund tonn á ári eða jafnvel mun hærri því sumir aðilar voru mun grófari í þessu en við Vestfirðingar og væri nær að tala um 50-60 þúsund tonn á ári.  Allar fölsku upplýsingarnar fóru síðan í hið fræga reiknilíkan Hafró en reikilíkanið gerir ekkert annað en að reikna út ákveðna hluti út frá þeim forsendum sem inní það er skráð.  Síðan gefur Hafró út spá um veiðar og upplýsingar um ástand þorskstofnsins og eins og flestir vita hefur hann stöðugt verið að minnka.  Auðvitað gerir hann það samkvæmt tölum Hafró, ekki vegna þess að of mikið sé veitt, heldur er beint samband á milli kvótasvindls og upplýsingum Hafró.   Vegna þess að þorskstofninn minnkar opinberlega eftir því sem svindlið er meira.  Þannig að veiðiráðgjöf  Hafró er búinn að vera röng í fjölda ára.   Ef svo óheppnilega vildi til að menn frá Fiskistofu komu í eftirlit var lyftaramaðurinn sem vann í fiskmóttökunni alltaf tilbúinn að grípa inní og sagði að það hefði orðið að hætta að vigta vegna bilunar í vigtinni og nokkrar stæður af fiski í körum í hráefniskælinum væri eftir að vigta og fór með þeim og benti á nokkrar stæður og var sú skýring alltaf tekin gild.  Þegar við vorum að gera út bátana okkar tvo á rækju var allt annað ástand en er í dag í rækjuiðnaðinum og þá var rækjukvóti leigður á nokkuð háu verði ef hann yfirleitt fékkst leigður. Við áttum nokkurn rækjukvóta en ekki dugði hann á báða bátana frá maí til september.  Var þá höfð sú regla að byrja alltaf hvern túr á rækjunni á því að fara út á Dorgbanka en sú rækja var utan kvóta.  Eftir nokkur tog var farið á Íslandsmið og látið líða nokkrir dagar áður en tilkynnt var að veiðar væru hafnar við Ísland og gefið upp hvað mikið væri búið að veiða á Dorgbanka og með þessu fyrirkomulagi dugði okkar rækjukvóti fyrir bátana.

2.   Í okkar fyrirtæki var starfandi starfsmannafélag því starfsmenn voru rúmlega 100 talsins á sjó og í landi.  Þetta félag hafði ekki mikil fjárráð vegna þess að ekki voru innheimt nein gjöld af starfsmönnum, heldur stóð félagið fyrir spila-, bingó- og bjórkvöldum og safnaði þannig peningum.  Ég var fyrir hönd fyrirtækisins mjög ánægður með þetta félag, það þjappaði starfsfólinu meira saman og studdi fyrirtækið það oft.  Því fátt er dýrmætara í einu fyrirtæki en gott og ánægt starfsfólk.  Eitt sinn um 1990 kemur formaður félagsins til mín og segir að þau í stjórninni hafi verið að ræða um að starfsfólkið færi saman í helgarferð til Reykjavíkur og fara í leikhús, út að borða ofl. eins og fólk gerir í svona ferðum og formaðurinn spurði hvort fyrirtækið gæti eitthvað stutt þessa ferð.  Ég sagði á móti, eigum við ekki bara að hafa þetta svolítið myndarlegt og fara eitthvað erlendis en formaðurinn taldi að fólkið hefði kannski ekki efni á því og þá yrði þátttakan frekar lítil.  Ég sagðist geta látið félagið hafa 30 tonn af þorski ef félagsmenn væru tilbúnir til að mæta með mökum sínum og vinna þetta á laugardegi en það myndi passa í einn 20 feta frystigám síðan skyldi ég sjá um að selja þetta og útvega þeim frítt ómerktar umbúði og var þetta samþykkt.  Næst þegar togarinn kom til löndunar tókum við 30 tonn framhjá vigt af slægðum þorski.  Skipverjar um borð voru mjög sáttir við að taka þátt í þessu enda færu þeir í fyrirhugaða ferð.  Togarinn fór síðan á veiðar og átti að sigla með aflann þar sem skipið átti að fara í slipp úti.  Það var mjög góð mæting þegar kom að því að vinna fiskinn og var reynt að vanda vinnsluna mjög vel til að fá sem mest verðmæti út úr þessu og passaði þetta nokkuð vel einn fullur 20 feta gámur með þorskflökum tilbúinn til útflutnings.  Ég hafði síðan samband við umboðsmann út í Englandi og sagði honum að ég væri með þennan gám og allur fiskurinn væri í ómerktum umbúðum og þyrfti að selja hann og sagði hann það vera lítið mál og ég sagði honum að þetta mætti hvergi koma fram, það yrði að líta út eins og gámurinn hefði aldrei verið til og benti hann mér þá á að þar sem togarinn væri að koma út í slipp skyldi ég skrá á farmbréfið "Varahlutir í skipið Sölva Bjarnason BA-65" og flutningskostnaður greiddur af viðtakanda sem var hans fyrirtæki síðan myndi hann faxa til mín nettóupphæðina sem út úr þessu kæmi, en þannig vildi til að þessi maður hafði séð um sölu á fiski í gámum fyrir mig í Englandi og oft lánað mér peninga t.d. var hann búinn að leggja fram bankaábyrgð fyrir öllum kostnaði við fyrirhugaða slipptöku togarans og þar sem við vorum farnir að þekkjast mjög vel hafði hann látið mig hafa tékkhefti undirritað frá sínu fyrirtæki til að ég gæti skrifað út ávísun á hans banka er einhver gámur var seldur og nettóupphæð lá fyrir.  Flýtti þetta mjög fyrir öllu uppgjöri, eins notaði ég heftið þegar hann var að lána mínu fyrirtæki peninga og núna sagði hann þegar þú hefur fengið faxið frá mér um söluna á flökunum skrifar þú bara ávísun fyrir upphæðinni en ef þetta á að fara leynt skaltu ekki skipta tékkanum í viðskiptabanka fyrirtækisins og gekk þetta allt eftir og ég leitaði eftir tilboðum hjá nokkrum ferðaskrifstofum í 10 daga ferð fyrir 100 manns og fórum við öll í september til Belgíu í sumarhús þar vorum þar í viku og enduðum svo ferðina í borginni Trier í Þýskalandi í 3 daga og svo flogið heim frá Lúxemborg.  Það sem fékkst fyrir fiskinn sem opinberlega var aldrei til var um 3-4 milljónir og dugði það fyrir allri ferðinni og meira að segja að starfsmannafélagið átti þó nokkra upphæð eftir.  Ekki nagaði þetta mína samvisku því flest af þessu fólki var búið að vinna hjá fyritækinu frá stofnun þess 1975 og margt eldra fólkið sem þarna var að fara í fyrsta sinn á ævinni út fyrir landsteinana og var búið að þræla í fiskvinnslu og annarri erfiðisvinnu nánast alla sína starfsævi.  Og enn rólegri var ég yfir þessu þegar maður var að heyra fólkið í margar vikur á eftir vera að rifja upp þessa ferð á kaffistofunni, þá varð ég algerlega sáttur yfir því að hafa svindlað aðeins á þessu óréttláta kvótakerfi.  Málið hefði litið allt öðruvísi út ef ég hefði verið að þessu fyrir mig sjálfan og stungið peningunum í eigin vasa.

3.   Veturinn 1998 var ég skipstjóri á 38 tonna 50 ára gömlum eikarbát sem ég átti með syni mínum og vorum við að róa á línu og vorum 3 um borð.  Þegar steinbítsvertíðinni var að verða lokið og þorskurinn að aukast, höfðum við alltaf körin nær full af þorski og röðuðum svo steinbít ofan en á en við áttum ekki nema um 70 tonna kvóta sem löngu var búinn, hinsvegar var leiguverð á steinbít mjög lágt aðeins nokkrar krónur fyrir hvert kg. og stundum þurfti ekkert að borga í leigu, en þegar kom fram í maí var orðið svo lítið af steinbít að við gátum varla falið þorskinn og á sumum körum voru aðeins nokkrir steinbítar efst og sást greinilega í þorskinn.  Vigtarmaðurinn rak augun í þetta og kallaði á mig og sagði að í raun værum við að landa þorski en ekki steinbít.  Ég ræddi lengi við hann og útskýrði hvað margir hefðu nú atvinnu af þessu við værum 3 á bátnum í landi væru 5 menn að beita línuna og svo fólkið sem ynni í fiskverkuninni þar sem við lönduðum.  Við værum í raun að skapa um 15 manns vinnu.  Hann sagðist skilja það en þetta væri ólöglegt, ég sagði við hann að ég þyrfti að skreppa yfir á Patró og kæmi svo og talaði betur við hann ég yrði fljótur og bað hann að bíða á meðan með að ganga frá vigtarnótunni.  Ég brunaði á Patró og fór beint í ríkið og keypti einn kassa af bjór+ eina flösku af Vodka og fór svo strax til baka þegar ég kem á hafnarvogina aftur með kassann undir hendinni og flöskuna í hinni, rétti honum og sagði við hann þú mátt bara eiga þetta ef þú gleymir því að þú hafir séð þorsk í körunum.  Hann brosti og sagði, jæja ég skrifa þá bara steinbítur og skellihló, ég bætti síðan við þú færð annan svona skammt þegar við verðum búnir að landa 50 tonnum í viðbót og þann þriðja þegar verða komin 100 tonn og þú hættir að skoða í körin hjá okkur, ég gef þér bara upp hvað er í körunum við hverja löndun ef þú er ósáttur þá tek ég núna kassann og flöskuna með mér aftur.  Hann rétti mér höndina og sagði ég er mjög sáttur vinur.

En hvað varðar Kompásþáttinn vorkenndi ég nú mikið sjávarútvegsráðherra þegar hann var að fullyrða hálf vandræðalegur að hann hefði aldrei heyrt þetta og var svo greinilegt að þetta var hann að tala gegn betri vitund.  Eins var með Fiskistofustjóra það þurfti nánast að toga upp úr honum hvert orð, fyrst sagði hann svindlið er mjög lítið en bætti svo við en margt smátt gerir eitt stórt og þegar hann var spurður hvort um væri að ræða mörg þúsund tonn svaraði hann nei,nei, ja kannski erum við að tala um þúsund en þau eru ekki mörg kannski tvö til þrjú þúsund eða nokkur þúsund tonn, en samt það eru miklir peningar.  En málið er bara ekki svona einfalt því í raun er um að ræða nokkra tugi þúsunda tonna og það snýst ekkert um hvað hefði kostað að leigja þau tonn.  Þetta skekkir öllum forsendum Hafró þegar ekki er nokkuð vitað hvað raunverulega er mikið veitt á hverju ári á Íslandsmiðum.  Ef þetta heldur svona áfram verður Hafró með sínu reiknilíkani búin að reikna þorskstofninn niður í 0 þótt hafið allt í hringum landið sé fullt af þorski.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

Sæll Jakob.

    Greinin þín verður kannski til að Einar komi út úr skápnum, asamt fleiri ráðamönnum sem hafa allir verið í bullandi afneitun.  Saknaði þess að þú segðir ekki sögur af sjónum, þar sem aðalflokkuninn hefur átt sér stað.  Öll þau verðmæti engum til nytja, því er nú verr

haraldurhar, 9.5.2007 kl. 01:44

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvenær ætli að það hætti að verða refsivert á íslandi að kalla stórglæpamenn glæpamenn?

Árni Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 17:34

3 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

stundum er betra að þegja og vera álitin fífl, en að opna munninn og taka af allan vafa

Ingólfur H Þorleifsson, 9.5.2007 kl. 18:42

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er krassandi Jakob, og ég veit að þarna er hvert orð satt. Ég vorkenni þér ekkert nema örorkuna, en sama get ég ekki sagt um Ingólf hér að ofan, sárvorkenni aumingja kallinum...og þú mátt giska hvers vegna.....??

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 9.5.2007 kl. 18:55

5 Smámynd: Einar Ben

Þakka þér skrif þín Jakob, þetta er staðfesting á því sem allir vita en fáir þora að tala um og viðurkenna. 

kv. af skaga.

Einar Ben, 9.5.2007 kl. 19:52

6 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það þarf mikið hugrekki til að skrifa grein eins og þessa. Hafðu stóra þökk fyrir Jakob. Ég þykist vita, að skrif þín eru í öllum atriðum sönn og það vita allir, sem vilja vita, að innan Íslensks sjávarútvegs undir kvótakerfi þrífst stafsemi sem auðveldlega er hægt að kalla mafíustarfsemi. En því miður er til fólk, valdamikið fólk, sem vill ekki sjá, og lætur sig hafa að hilma yfir með kvótadólgunum. Hvað á maður eiginlega að halda um sjávarútvegsráðherra sem gerir tilraun til að draga í efa það sem kom í fram í Kompásþættinum góða? Til hvers er maðurinn að kóa með sægreifunum? ... er hann ekki ráðherra allrar þjóðarinnar? ... eða er hann einungis sjávarútvegsráðherra LÍÚ og stærstu fyrirtækjanna í sjávarútvegi?

Og eitt enn Jakob: Hefur Einar Oddur Krisjánsson alþingismaður tengst einhverju sjávarútvegsfyrirtæki eftir að kvótakerfinu var komið á?    

Jóhannes Ragnarsson, 9.5.2007 kl. 20:14

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú hefur greinilega kveikt þann eld sem ekki verður slökktur á næstu dögum. Hafðu fulla þökk fyrir og gangi þér vel.

Árni Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 20:51

8 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Já og fyrst ég nefndi Einar Odd: Er núverandi sjávarútvegsráðherra, Einar Kr. Guðfinnsson, alveg frír við að hafa komið nálægt stjórnunarstöfum í sjávarútvegi eftir margrómuðu fiskveiðistjórnarkerfi var komið á koppinn? 

Jóhannes Ragnarsson, 9.5.2007 kl. 22:07

9 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Jakob, þú ert kjarkmaður að koma fram með þetta og eiga það á hættu að verða ofsóttur af LÍÚ mafíunni.  Verst er að það eru nánast allir í atvinnugreininni innvinklaðir í svindlið þannig að hver situr á sárs höfði.  Kerfið er einfaldlega þannig úr garði gert að það kallar á svindlið.  

Hafðu þökk fyrir og nú skulum við vona að skriðan sé lögð af stað. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 9.5.2007 kl. 22:25

10 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Það var nú ansi fátt um svör þegar Guðjón Arnar varm spurður á stöð 2 í gær hvort hann hefði tekiðp þátt í kvótasvindli, verandi skipsstjóri í áratugi. Jóhannes það er flott hjá þér að vera að ýja að mþví að menn séu að svindla og stela. Einararnir báðir hafa komið að útgerð og fiskvinnslu eftir að kvótinn kom á.

Ingólfur H Þorleifsson, 10.5.2007 kl. 06:50

11 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ég hugsaði þetta vandlega og taldi mjög líklegt að á mig yrði ráðist þegar ég setti þetta á netið og átti helst von á því frá LÍÚ-mafíunni og þar sem ég þekki ekki þá sem hafa verið að skrifa athugasemdir eða veit hvað þeir starfa get ég ekki gert mér grein fyrir hvort einhver ykkar eruð að skrifa fyrir þá og hafið ekki kjark til að skýra frá því.  En nokkuð er ljóst að hvorki LÍÚ, Fiskistofa, þingmenn, ráðherrar eða aðrir þeir sem reyna að verja þetta kvótakerfi munu ekki gera það.  Þí eftir hinn fræga Kompásþátt var alger þögn og greinilega átti að þeigja það sem þar kom fram í hel.  Taldi ég að nauðsynlegt væri að höggva á hnútinn svo umræða skapaðist.  Ég þekki nokkuð vel til innan LÍÚ og veit hvernig þeir starfa og nú er opin leið fyrir þá sem vilja ná sér í  auðfenginn pening að labba inná skrifstofu LÍÚ og bjóðast til að níða mig niður og fá greitt fyrir og sé á skrifum Ingólfs H Þorleifssonar og Franks M. Michelsen að þeir hafa fallið fyrir því bragði.  Við þá sem hér hafa skrifað mér til stuðning vil ég segja þetta.  Hafið bestu þakkir fyrir því mér veitit ekki af öllum þeim stuðningi sem ég get fengi á næstunni.  Árni Gunnarsson spyr hvenær hætti það að vera refsivert að kalla stórglæpamenn glæpamenn?  Ég átta mig ekki alveg hvað maðurinn á við og spyr á móti í hvaða gr. hegningarlaga er ákvæði um slíka refsingu?  Ég held að hún sé ekki til a.m.k. var ekkert aðhafst þegar Davíð Oddson sem þá var forsætisráðherra kallaði þá Baugsfeðga glæpamenn.  Ingólfur H Ingólfsson, segir að stundum er betra að þegja og vera álitin fífl en að opna munninn og taka af allan vafa.  Þá skalt þú Ingólfur fylgja þinni kenningu sjálfur og láta líma saman á þér kjaftinn.  Frank M. Michelsen segir að ég sé djöfulsins þjófur og segist vona að ég verði settur inn  og fái á mig háa sekt.  En frá hverjum stal ég? átt þú Frank einhvern fisk sem er að synda í hafinu við Ísland, ef svo er getur þá ekki sagt mér ofl. hvar þínir fiskar eru staddir í dag?  Ég hef aldrei veitt einn einasta fisk sem hefur verið þér merktur.  Ég er ekki hefnigjarn maður og vona ap orð mín hér á eftir rætist EKKI en oft er það svo að þegar menn skrifa eins þú hér að ofan virkar það eins hinn ástralski búmerank að við komandi fær það aftur í hausinn sem hann er að ásaka aðra um.

Að lokum vil ætla ég að segja eins og Jón Hreggviðsson í skáldverki Laxnes HVENÆR DREPUR MAÐUR MANN OG HVENÆR DREPUR MAÐUR EKKI MANN.

Jakob Falur Kristinsson, 10.5.2007 kl. 10:25

12 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Ég get alveg sagt þér það Jakob að ég er að skrifa sem einstaklingur en ekki fyrir LÍÚ eða nokkurn annan sem á hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Ef þú þú getur ekki höndlað það að sumir séu á annari skoðun en þú þá átt þú ekki að hafa athugasemdakerfið opið. Að lokum vil ég bara segja að það er alveg rétt hjá þér að þú þarft á öllum þeim stuðningi sem þú getur fengið.

Ingólfur H Þorleifsson, 10.5.2007 kl. 11:20

13 identicon

Þeir menn sem kalla Jakob glæpamann og þaðan af verra eru ekki menn sem hafa ekki lifað í raunveruleikanum s.l. áratugi eða hafa ekki hugmynd um hvað gerðist á þessum árum.

Ég efast um að hægt sé að finna 1 "EINN" fiskvernda eða útgerðarmann sem stundaði þenna rekstur á árum Jakobs sem ekki lagði fyrir sig kvótasvindl.

hvernig þetta er í dag, það veit ég ekki , löngu dottin út úr svona dóti.

kh 10.5.2007 kl. 13:11

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jakob. Líklega hef ég boðið þér upp á að misskilja það sem ég setti inn á þetta blogg. Það verður að vera alveg morgunljóst að í mínum huga hefur það alltaf legið ljóst fyrir að ALLIR þættir í þessum lögum eru  óbein áskorun um klókindi, svindl og samráð um leiðir til að komast framhjá öllum reglum sem gilda um veiðar og verslun með afurðirnar. Það er vond staða að vera knúinn til að bera ábyrgð á afkomu fjölda fólks og jafnvel heilla byggðarlaga auk eigin afkomu og eiga engan kost á öðru en setja sig í stöðu sakamanns. Af því eru allir öfundlausir í mínum huga.

Í mínum huga flokkast það til yfirnáttúrlegrar heimsku ef starfsmenn þeirrar stofnunar sem hefur skyldur til að sjá um eftirfylgni þessa kerfis sér ekki augljósar staðreyndir málsins. Þar er ég að tala um alla og undanskil ekki æðstu menn ráðuneytis.

Enginn þarf að reyna að segja mér að sú heimska sé í boði. Og þá er ég kominn að minni hvatvíslegu niðurstöðu um glæp.

Og enn má spyrja: Hvaða duldar forsendur liggja að baki þeirri hagnaðarvon sem réttlætir fjárfestingu í tonni af varanlegum kvóta í þorski upp á 3 milljónir? Ég held að svarið hljóti að vera öllum ljóst, jafnvel þeim sem eru á launum hjá okkur skattgreiðendum.

Verðir þú hengdur fyrir að upplýsa sannleikann í þessu máli er það enn ein sönnun þess að stundum er bakarinn nærtækari en smiðurinn.

En mörg andlit eiga nú eftir standa í ljóma af bláum augum og rasandi undrunarsvip.

Ég ber enga virðingu fyrir glæpamönnum en ég ber mikla virðingu fyrir þér.

Vonandi stendur ekki neinn misskilningur eftir um mína afstöðu og stuðningi mínum máttu treysta ef hann er einhvers virði.

Með góðri kveðju!

Árni Gunnarsson, 10.5.2007 kl. 13:42

15 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ég bið þig afsökunar Árni ég hef greinilega misskilið þetta svona illa

Jakob Falur Kristinsson, 10.5.2007 kl. 14:00

16 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ingólfur, ég get alveg trúað því að þú skrifir sem einstaklingur, en ég er mjög kunnugur starfi innan LÍÚ en þar var ég félagsmaður í fjölda ára og gengdi meir að segja trúnaðarstörfum fyrir þessi samtök á Vestfjörðum og fannst skrif þín vera í þeim anda sem ríkir innan þessara santaka.  En ég er að einu leyti betur settur en þú að ég hef þann félagslega þroska að virða skoðanir annarra, sem þig virðist skorta.  Ég hef og mun hafa opið að allir geti skrifað athugasemdir við mín skrif.  Afhverju heldur þú að ég hafi skrifað þessa grein og heimilað að Stöð 2 mætti birta þessa frétt.  Ég var einmitt að kalla fram umræðu um mál sem virtist að samstaða væri um að þegja í hel.  Er hægt að ganga lengra en ég gerði?  Þú skalt ekki gera mér upp skoðanir og fullyrða að ég geti ekki höndlað að aðrir séu á annari skoðun en ég.   Ég leggst meira að segja svo lágt að svara asna eins og þér.   Þú talar um að mér veiti ekki af öllum þeim stuðningi sem ég geti fengið.  Þegar ég skrifaði þau orð var ég að hugsa um stuðning frá fólki sem hefur heilbrigða hugsun og sem betur fer ert þú ekki í þeim hópi.  Þú ættir að leita þér aðstoðar hjá geðlæknir. 

Jakob Falur Kristinsson, 10.5.2007 kl. 17:40

17 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

styð þig heilshugar Jakob, þekki þessi mál vel, starfaði við löndun í um níu ára skeið

Hallgrímur Óli Helgason, 10.5.2007 kl. 21:58

18 identicon

óréttlát kerfi segir þú. þú ss áttir útgerð sem átti kvóta og hvar er hann í dag? ertu bara ekki bitur yfir því að eiga hann ekki ennþá í dag? þú ert líklegast einn af þessum mönnum sem hugsar á hverju kvöldi áður en þú ferð að sofa, af hverju seldi ég kvótan þá, af hverju á ég hann ekki ennþá, þá gæti ég selt hann á morgun.

sjálfur er ég vestfirðingur (einn af þeim sem varð eftir og reyndi að skapa atvinnu) og mín fjölskylda í báða ættliði stundað sjómennsku öldunum aftur. þeir sem hafa áhuga á því að starta útgerð er það vel mögulegt í þessu kerfi sem við höfum í dag.

Leifur 10.5.2007 kl. 22:25

19 Smámynd: Einar Ben

Merkilegt að enn hafa hverki mogginn né RUV séð ástæðu til að ræða það sem fram kom í Kompás eða skrif þín hér Jakob, það er ljóst að það á að þagga þetta niður amk. fram að helgi.

Er þetta eðlilegt árið 2007 á vesturlöndum?

Á tímum sovétstjórnarinnar sálugu hefði þetta þótt mjög eðlilegt á þeim slóðum.

En ekki í opnu lýðræðisríki sem Ísland er. 

kv. af skaga       

Ps. tók eftir því að Ingólfur er búin að taka út 2 færslur af síðu sinni þar sem hann gerir skrif þín að umtalsefni, væri gaman að vita ástæður þess......

......við þurfum fleiri eins og Ingólf í stjórnarliðið......þá falla þeir amk. með skít og skömm. 

Einar Ben, 10.5.2007 kl. 22:46

20 Smámynd: Jóhann H.

Einu sinni sem oftar lentum við í karfamoki á sk. Fjöllum suður á Reykjaneshrygg.  Þegar vel fiskast í karfa á ísfisktogara, gengur hratt og vel að koma aflanum í lest því ekki þarf að gera að honum í móttökunni.  Því var meirihluti kallanna í lestinni að ganga frá afla en einungis einn "uppi" til að stýra færiböndum og henda frá kóral og þess háttar.  Oftar en ekki þegar við lentum í svona moki og fréttir af því bárust í land, á kontórinn, leið ekki á löngu að þaðan komu tilmæli um um lágmarksstærðir.  T.d. að þeir í landi vildu engan karfa undir 30 cm.  Því voru oft allir nema einn kallaðir upp úr lestinni.  Kallarnir stóðu síðan sveittir við það að moka 70% af veiðinni fyrir borð en sá eini í lestinni hafði það náðugt við að ganga frá þessum fáu kvikindum sem skiluðu sér niður. 

Karfinn er ólíkur öðrum fiskum að því leiti að hann gýtur lifandi afkvæmum, hann hrygnir ekki.  Það var alltaf eftirminnilegt í þessu karfamoki á Fjöllunum í maí, júní, ár eftir ár, að vaða í karfaseiðum á dekkinu, stundum uppá uppá miðja ökkla. Síðan runnu svartir seiðataumarnir niður skipshliðina frá lensportunum.

Ef þetta er ekki fiskveiðistjórnun og kvótakefi dauðans, þá veit ég ekki hvað það er...

Jóhann H., 10.5.2007 kl. 23:15

21 identicon

Ingólfur skrifar hér að það sé fátt um svör hjá Guðjóni Arnari þegar hann var víst spurður að hvort hann hafi tekið þátt í kvótasvindli

Mér finnst þetta fáránlegt hjá þér Ingólfur að þú sért að ýja að Guðjón Arnar hafi tekið þátt í kvótasvindli,

þekki ég nú marga fyrir vestan og sem hafa verið með honum á sjó, einnig hef ég farið á sjó með þeim mæta manni og ekkert kvótasvindl var í gangi þá.

Finnst mér að þú ættir bara að skammast þín Ingólfur fyrir að ýja að þessu.

Frank M. Michelsen, er viðkomandi aðili ekki eigandi að úra verslun á laugaveginum eða ?

Annars þykir mér þessi aðili aumkunarverður, vorkenni svona fífilum

Arnar B. Guðjónsson 11.5.2007 kl. 02:34

22 Smámynd: Ársæll Níelsson

"stundum er betra að þegja og vera álitin fífl, en að opna munninn og taka af allan vafa"
Orð í tíma töluð Ingólfur.

Jakop, þú ert hetja.

Ársæll Níelsson, 11.5.2007 kl. 11:27

23 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Er ég bara einn um að skynja hótun í þessum orðum Ingólfs H. Þorleifssonar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir vestan?

"Að lokum vil ég bara segja að það er alveg rétt hjá þér að þú þarft á öllum þeim stuðningi sem þú getur fengið".

Magnús Þór Hafsteinsson, 11.5.2007 kl. 11:41

24 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þú getur túlkað þetta eins og þú villt Magnús, en að ég sé að hóta Jakobi er eins fjarri lagi og hægt er. Ég er aðeins að taka undir það sem hann sjálfur segir aðeins ofar á síðunni. Enda hef ég enga ástæðu til að hóta manninum, hef aldrei hitt hann og þekki ekki neitt fyrir utan að hafa lesið það sem hann skrifar. Held að þú ættir að nota timann í annað en samsæriskenningar svona rétt fyrir kosningar, ekki veitir þér af ef þú ætlar að sitja áfram á þingi.  

Ingólfur H Þorleifsson, 11.5.2007 kl. 12:41

25 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Leyfur spyr, hvar kvótinn sem ég hafði yfir að ráða sé í dag?  Til að vera alveg hreinskilinn við þig, þá er svar mitt að ég veit það ekki.  Á sínum tíma eða 1984 var kvótinn settur á til reynslu eftir því sem sagt var og var eingöngu í þorski og með árunum bættust stöugt fleiri tegundir við og var þá farið að tala um þorskígildi sem þýðir hvað þarf mörg kg. af öðrum tegundum til að sama verðmæti sé náð og fyrir 1 kg. af þorski.  Fjljótlega eftir að kvótinn var settur á fengu nokkrar af stæðstu útgerðum landsins að vita hver væri í raun ætlunin með þetta kerfi og fóru þá á fullt af stað í að kaupa báta sem höfðu kvóta Þetta voru fyrirtæki eins og Samherji, ÚA, Grandi,Síldarvinnslan ofl.  Það var gengið hreint til verks og ef fannst bátur með góðan kvóta var eigandi bátsins heimsóttur og honum gert tilboð í bát+kvóta og ef hann samþykkti ekki strax var honum tilkynnt að þeir vissu að hann myndi missa bátunn og kvótan frá sér nokkuð fljótlega og eftir nokkra daga var hringt frá hans viðskiptabanka og hann boðaður í viðtal var honum tilkynnt þar að bankinn neyddist til að segja upp viðskiptum við hann og hefði hann 1-2 vikur að gera upp sínar skuldir, það var sama í hvaða banka viðkomandi aðili fór alltaf var svarið það sama NEI og hafði viðkomandi aðili þá ekki nema einn kost sem var að SELJA.   Fyrst árin mátti einungis færa kvóta á milli skipa í eigu sömu útgerðar og urðu því þessi stóru aðilar því að eiga bátana þótt þeir væru aðeins að sækjast eftir kvóta þeirra.  Var því á tímabili margar hafnir víða um land þar sem lágu skip sem ekki voru gerð út og grotnuðu þar niður   En 1990 er allt gefið frjálst og þá hefst spillinginn og í okkar góða landi er ákveðin starfsemi milli hinna stór aðila í þessari atvinnugrein og ég vill kalla mafíu, því hún starfar eins og maður sér í kvikmyndum um starfsemi Mafíunnar erlendis.  Jafnframt varð til markaðsverð á óveiddum fiski í sjónum og var það í byrjun kr. 160,- fyrir hvert þorskígildiskíló og nú datt út sú regla að aðeins mætti flytja kvóta á milli sömu útgerðar og var algengt að mafía vildi bara kvóta þeirra skipa sem þeir eignuðust og algengt að fyrri eigandi mátti bara eiga það.  Þessir stóru aðilar ráða öllu sem þeir vilja innan LÍÚ en þar er sú einkennilega regla að á aðalfundum hefur hver útgerð ekki eitt atkvæði heldur fær hver útgerð 1 atkvæði fyrir hver tonn sem hún ræður yfir í stærð fiskiskipa þannig að sá sem á 1000 tonna togara fær 1000 atkvæði og 100 tonna bátur gefur rétt á 100 atkvæðum.  LÍÚ hefur yfir að ráða gríðarlega miklu magni af peningum sem hafa myndast þannig, að samkv. lögum er hverju fiskiskipi skylt að greið 6% af heildaraflaverðmæti hvers skips í sjóð sem heitir Tryggiginarsjóður fiskiskipa og er ætlaður til að greiða allar tryggingar fyrir hvert skip.  Þessi sjóður er í vörslu LÍÚ og þar sem  ekki er greitt til tryggingafélagnna nema tvisvar á ári eru þessir peningar geymdir á bankabókum sem gefa hæðstu vexti.  Allar vaxtatekjur sjóðsins fær LÍÚ sem þóknun fyrir að annarst rekstur þessa sjóðs og eru þetta aðaltekjur LÍÚ og á síðasta aðalfundi sem ég sat fyrir um 15 árum var þessi eign LÍÚ hátt í miljarður sem hafðist safnast upp gegnum árin og í dag er þessi sjóður sjálfsagt orðinn nokkrir milljarðar.  Þannig að LÍÚ  er eftirsóttur viðskiptavinur bankanna.  Það fyrirtæki sem ég rak hét Fiskvinnslan á Bíldudal hf. og sá það um vinnsluþáttinn, síðan á þetta fyrirtæki sem hét Útgerðarfélag Bílddælinga hf sem gerði út skuttogara og tvo báta 200-300 tonn að stærð og voru þeir á línuveiðum yfir veturinn og á eækju á sumrin.  Þetta fyrirtæki hafði yfir að ráða um 3000 tonna kvót í þorsígildum og hefur vafalaust verið talið nokkuð feitur biti fyrir kvótamafíuna.  Við lentum í þessu að Landsbankinn knúði bæði félögin í gjaldrot eftir að hafa gjaldfellt öll lán sem við skulduðum honum og sagt upp viðskiptum við okkur fyrirvaralaust og stillt okkur upp við vegg.  Heildarskulir þessara fyrirtækja voru 600 milljónir en aflajvótinn var metinn á 3000x160 = 480 milljónir ári seinna var verð kvótans orðið kr. 600,- eða 3000 x 600 = 1,8 milljarður og í dag er verðið orðið kr. 3000 var okkar kvóti því 3000 x 3000 = 9 milljarðar

Ég seldi ALDREI sjálfviljugur frá mér kvóta og þarf því ekki að vera velta því neitt fyrir mér áður en ég fer að sofa á kvöldinn ég var píndur og píndur til að láta hann af hendi.  Þú spyrð hvort ég sé sár, auðvita er ég sár í dag þegar maður lítur til baka og velti fyrir sér að einhver sem ég veit ekki um varð þess valdandi að Bíldudalur  tapaði aflaheimildumað upphæð 8.000 milljónir - 480 þúsund = 7.520 milljónum.  Þú segist vera vestfirðingur og ég er það líka en það gerir hvorki þig eða mig að meiri mönnum.  Ég ætla að segja þér eitt að þegar menn hafa aldrei komið nálægt sjávaútvegi eru að telja sér til tekna að langt aftur í ættum geti verið sjómaður er þeir farnir að þvæla einum of mikið.  Því eins og einn þingmaður var að hæla sér af því að hann hefði eitt sumar verið 1 mánuð á sjó og þegar betur var að gáð, hafðu maðurinn farið ó mánaðar siglingu á risastóru skemmtiferðaskipi.  Þú segir að það sé vel mögulegt að starta útgerð í núverandi kerfi.  Nú ert þú farinn að fjalla um hluti sem þú hefur ekki greinilega hundsvit á Það þarf mörg hundruð milljónir til að starta útgerð í dag þótt um smábát sé að ræða þegar kaupa þarf aflaheimildir fyrir þrjár milljónir tonnið af þorski.  Nú ert farinn skrifa tóma steypu sem ég nenni ekki að svara.  Ef þú vilt koma með athugasemdir við mín skrif á minni síðu, gerðu það þá á vitrænan hátt að öðrum kost slepptu því.  Þa er oft sagt að frá hrynjandi byggðum flytji fyrst þeir sem hafi einhvern kjar og þor og eftir sitji vitleysingar sem alltaf hefur þurft að hugsa fyrir og ert þú greinilega einn af þeim hópi.

Jakob Falur Kristinsson, 11.5.2007 kl. 13:31

26 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég trúi því Jakob, að margir muni kannast við lýsingar þínar á aðferðum bankanna við að sölsa kvóta undir Samherja o.fl., allir sem lentu í erfiðleikum í L.'I. byrjuðu á borðum þar og athugað í upphaf hvort þeir gætu notað líkið og sennilega enginn duglegri við að færa þeim "slátur" en Sverrir Hermannson, enda oft talað af þekkingu um bullið.

Hafðu það sem best, Kv.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 11.5.2007 kl. 20:44

27 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þetta kemur allt heim og saman Hafsteinn því að það var Sverrir Hermannsson sem var sá bankastjóri LÍ. og hafði Vestfirði á sinni kömmu  þegar við vorum kúgaðir svona.  Svo gat þessi sami maður hringt í mig og falast eftir stuðningi við nýjan flokk sem hann væri að stofna til að berjast gegn hinu spillta kvótakerfi.  Þar sem ég er ekki langrækinn eða hefnigjarn maður gekk ég til liðs við Frjálslynda flokkinn, ekki fyrir orð Sverris, sem mér var full kunnugt um að tók fullan þátt í spilingunni.  Ég gerði það vegna manns sem alltaf var reiðubúinn að veit mér aðstoð ef á þurfti að halda sem var hin mikla hetja Matthías Bjarnason og líka þegar ég vissi að Guðjón Arnar Kristjánsson yrði þarna.  Og í ljós kom í næstu kosningu að það var Guðjón sem dróg vagninn og kippt Sverrir með sér á þing eins og sannur skipstjóri gerir þegar einhver fellur fyrir borð.  Ekki veit ég hvaða hvarir lágu að baki aðgerðum Sverris þegar hann reyndi og tókst að hluta að kljúfa flokkinn.  Í stað þess að vera eins og maður og reynast sinni dóttur vel kaus hann aðra leið og útkoman liggur fyrir að Margréti Sverrisdóttur sem bauðst öruggt þingsæti en hafnaði sáldsagt að ráðum föður síns lýsir best manninum Sverrir Hermannssyni sem, jafnvel kemur sinnin dóttur í vandræði til að hefna sín á einhverjum mönnum.  En ég fyrir gef houm því hann er sennilega orðinnelliær aumingja karlinn.

Jakob Falur Kristinsson, 13.5.2007 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband