Færsluflokkur: Bloggar

Ekkert má gera

Sonur minn sem er starfandi sjómaður og býr á Bíldudal fór einn góðviðrisdaginn á sjó með fjórum börnunum sínum á 6 tonna trillu sem hann átti.  Hann ætlaði að sýna þeim hvernig fiskur væri veiddur svo þau skildu betur hans starf.  Hann beitti einn línubala  og fór út á Arnarfjörð og lagði balann og dró hann svo skömmu síðar.  Aflinn var ekki mikill, nokkrir þorskar og ýsur.  Börnin fylgdust spennt með þegar línan var dreginn og ráku upp fagnaðaróp í hvert skipti þegar fiskur kom um borð.  Síðan var gert að aflanum og börnin röðuðu fiskunum í kassa og höfðu skemmt sér vel.  Þá var haldið í land pabbinn lyfti kassanum uppá bryggju en þar beið mamma þeirra á bíl til að taka á móti þeim.  En þegar setja átti kassann í bílinn kom hafnarvörðurinn sem jafnframt var viktarmaður hlaupandi og var greinilega mjög reiður og sagði að samkvæmt skýrum fyrirmælum frá Fiskistofu yrði að vigta aflann og skrá.  Ef það yrði ekki gert yrði málið kært.  Það sem upphaflega átti að vera skemmtiferð fyrir börnin breyttist nú í hálfgerðan harmleik, því nú upphófst mikið rifrildi milli viktarmannsins og pabbans sem hótað að sturta úr kassanum í sjóinn.  En þú verð þá kærður fyrir það sagði viktarmaðurinn.  Var það því úr að ekið var með kassann á hafnarvogina þar sem hann var viktaður og skráður og leigja varð kvóta fyrir þessum fiskum.  Börnin horfðu undrandi á og spurðu í sakleysi sínu "Á ein hver þennan fisk sem við veiddum".  Hvað heldur nú fólk að þessi börn hugsi um starf föður þeirra.

Fiskvinnsla á Bíldudal

Nú er að koma að því að fiskvinnsla fari af stað á ný á Bíldudal eftir tveggja ára hlé.  Er það félagið Stapar hf. sem ætlar að hefja þar fiskvinnslu.  Er þetta mikið gleðiefni fyrir alla þá sem þarna búa.  Í Svæðisútvarpi Vestfjarða sl. föstudag er frétt um þetta mál og rætt við Guðnýju Sigurðardóttur sem er staðgengill bæjarstjóra, en hann var í frí.  Talsverðar rangfærslur eru í þessari frétt sem ég tel að verði að leiðrétta.  Fram kemur í fréttinni að ein útgerð sé með um 90% af þeim aflaheimildum sem skráðar eru á Bíldudal.  Þarna mun vera átt við Þiljur ehf. sem gerir út Brík BA-2, en hver er ástæða þess að einn bátur hefur yfir að ráða 90% aflaheimildanna, á því eru tvær skýringar:

1.     Allir hinir rækjubátarnir og höfðu bolfiskkvóta eru búnir að selja hann í burtu.  Eini kvótin sem    eftir er á þeim bátum eru bætur vegna þess að bannað er að veiða rækju og hörpudisk í Arnarfirði og þann kvóta er illgerlegt að selja og er hann því leigður í burtu.

2.      Þiljur hafa undanfarin ár stöðugt verið að bæta við sig kvóta.  Sem sagt kvótinn á Brík BA-2 er stöðugt að aukast með kaupum á kvóta meðan kvóti hinna bátanna er seldur í burtu.

Því er einnig haldið fram að fyrirtækið reki fiskverkun í Hafnarfirði.  Þetta er alrangt, í Hafnarfirði er rekið fyrirtækið Festi ehf.  í sama húsnæði og Magnús Björnsson og Viðar Friðriksson ráku vinnslu í um tíma.  En það fyrirtæki er ekki rekið af Þiljum ehf.  Hinsvegar seldu Þiljur ehf. Festi ehf. 49% hlut í sínu félagi á síðasta ári, ekki tóku þau á móti peningum heldur fengu greitt í bolfiskkvóta.  En Brík BA-2 er ekki eina skipið sem hefur landað afla hjá Festi ehf.  Ég fékk það staðfest hjá starfsmanni þar í dag að Vestri BA-63 hefði landað þar nokkrum sinnum.  Það er einnig tekið fram að eigendur fyrirtækisins Þiljur ehf. búi ekki á Bíldudal og er það rétt, en hver er ástæðan.  Þau hjón Guðlaugur Þórðarson og Bryndís Björnsdóttir eiga mjög fatlaðan dreng og ekki hafði Vesturbyggð tök á að veita barninu þá þjónustu sem þykir sjálfsögð í dag.  Ég kannast við þetta af eigin raun ég varð að flytja frá Bíldudal vegna fötlunar minnar.  Ef skoðuð er hluthafaskrá Odda hf. á Patreksfirði er hægt að sjá þó nokkuð marga stóra  hluthafa sem ekki hafa lögheimili í Vesturbyggð t.d. olíu- og tryggingafélög ofl.  Þótt þau hjón búi ekki á Bíldudal hefur Brík BA-2 alltaf verið gerð þaðan út og vegna þess hvað kvóti bátsins er orðinn mikill var hlutur hásetanna þriggja sem allir eiga heima í Vesturbyggð kr. 21.000.000,- eða sjö milljónir á mann á sl. ári.  Brík BA-2 hefur landað miklum afla á fiskmarkað á Patreksfirði.  Ekki hefur báturinn geta landað á Bíldudal þar var enginn kaupandi til staðar og áður en til lokunar frysthússins kom voru fyrirtækin sem það ráku ekki traustari en svo að hæpið gat verið að fá greitt fyrir aflann.  Finnst mér að í þessari umræddu frétt sé ómaklega vegið að fyrirtækinu Þiljur ehf.  sem hefur staðið eins og klettur úr hafinu að halda í við kvótaskerðingu sem orðið hefur á Bíldudal.

Í fréttinni kemur einnig fram að Vesturbyggð hafi sótt um hámarksbyggðakvóta til sex ára sem ætlað er til að uppfylla skilyrði Stapa hf. um að þeir hefji þessa vinnslu á Bíldudal.  En þar reka menn sig á vegg.  Því eins og Níels Ársælsson hefur skrifað á bloggsíðu sína er byggðakvóti eins og örorkubætur til byggðanna og lýtur sömu lögmálum.   Þar sem ég er nú öryrki hef ég kynnt mér vel reglur um örorkubætur sem eru álíkar og reglur um byggðakvóta.  Vegna hinna miklu kvótakaupa á Brík BA-2 uppfyllir Bíldudalur ekki skilyrði um hámarksbætur og er því reynt að koma því á framfæri að útgerð bátsins starfi í raun í Hafnarfirði.  Oddi hf. hefur einnig verið að fjárfesta mikið í kvóta og var haft eftir Sigurði Viggóssyni framkvæmdastjóra að þeir væru búnir að kaupa kvóta fyrir tvo milljarða og var það áður en þeir keyptu Brimnes BA-800 á 800 milljónir.   Er Oddi þar með búinn að koma í veg fyrir að Patreksfjörður fái byggðakvóta. 

Það væri nær að bæjarstjórn Vesturbyggðar kæmi kurteislega fram og bæði Þiljur að flytja sína útgerð frá Bíldudal og jafnvel eigendur Þorsteins BA-1 á Patreksfirði sem hefur landað miklu á Suðureyri.  Það má heldur ekki gleyma því að allan þann tíma sem Þórður Jónsson ehf. rak frystihúsið á Bíldudal og fékk á hverju ári allan byggðakvótann og leigði í burtu og ekki heyrðist orð um það frá Vesturbyggð, verður ekki til þess að létta róðurinn núna í sambandi við byggðakvóta.

 


Níels kærir kvótamiðlun LÍÚ

Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að Níels Ársælsson útgerðarmaður hafi sent Samkeppniseftirlitinu kæru vegna kvótamiðlunar LÍÚ.  Krefst hann þess að Samkeppniseftirlitið taki málið til rannsóknar þegar í stað.  Í kærunni bendir Níels á að innan vébanda LÍÚ er rekin svokölluð kvótamiðlun LÍÚ.  Telja verður að með þessu fyrirkomulagi á kvótaviðskiptum hafi LÍÚ og félagsmenn þess gerst brotlegir við 10.,11. og 12 gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.  Auk þess sem ætla verður að í þessu skipulagi felist óbeinn stuðningur íslenska ríkisins við þröngan hóp útvegsmanna sem í skjóli einokunar og samráðs geta stýrt fiskveiðum og fiskvinnslu hér á landi.  Félagsmenn LÍÚ geta með sýndargerningum haldið uppi verði á kvóta og þannig skert samkeppni skipa án kvóta.  Eigendur skipa án kvóta þurfa að greiða það verð fyrir kvótann sem kvótaeigendur setja upp hverju sinni.  Verðinu ráða þeir einir segir í kæru Níelsar.

Flott hjá þér Níels og vonandi verða þessi mál skoðuð, því staðreynd er að kvótaverð hér er fimmfallt miðað við Noreg að ég tali nú ekki um Nýja Sjáland þar sem leiguverð er 10% af söluverði aflans.  Það er ósköp auðvelt að skrúfa upp verð á kvóta, hvort það er leiga eða varanlegt.  Með skipulögðum millifærslum nokkurra fyrirtækja þ.e. fyritæki taka sig saman og leigja hvort öðru á verði sem  eru mikið hærri en eðlilegt getur talist og búa þannig til falskt verð, en á venjulegu máli heitir það að falsa bókhald.  Ef allt er rétt eins og nú er uppgefið er leiga á einu kg. af þorski komin í kr. 200 og ef það á að kaupa þetta sama kíló varanlega er verðið ekki undir kr. 2.500,-.   Vona ég innilega að þessi kæra Níelsar verði tekin til alvarlegrar skoðunar.    Auðlyndir hafsins eru sameign þjóðarinnar og miðað við tölur LÍÚ er ekki um neina smáræðis eign að ræða.  Eitt rennir styrkum stoðum undir þessa kæru Níelsar en það er að flest hin stóru útgerðarfyrirtæki gera upp við sína sjómenn á verði sem er langt undir verði á leigukvóta, ef þorskkílóið er kr. 200 virði í leigu hefur verið svindlað á íslenskum sjómönnum í stórum stíl og það kallast á vejulegri íslensku þjófnaður.  Nú eru brátt tveir flokkar brátt að fara að halda landsfundi sína þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin og verður fróðlegt að fylgjast með hvaða ályktanir verða samþykktar á þessum fundum varðandi sjávarútvegsmál.  Ekki þarf að bíða eftir Framsókn sem aðeins er eftir að jarðsyngja.    Eins og LÍÚ er búið að verðleggja kvótann væri upplagt að innkalla hann aftur og leigja síðan út.  Værum við þá með álíka tekjur og Norðmenn hafa af sínum olíugróða og gætum gert eins og þeir að greiða niður allar erlendar skuldir á stuttum tíma.  En hræddur er ég um að fáir félagsmenn LÍÚ myndu leigja kvóta því þeir þora ekki í samkeppni, vilja liggja öruggir með sitt undir verndarvæng ríkisins, svo þykjast þessir menn vera sjálfstæðismenn og hlynntir einkaframtaki en samkeppni óttast þeir mest af öllu og þykjast hafa greitt fyrir sinn aflakvóta fullu verði en hverjum greiddu þeir þetta verð, spyr sá sem ekki veit.  Ég bara veit að þeir fiska sem róa og hvað sem segja má um Níels Ársælsson treysti ég honum til að fiska í kaf hvern þann sem við hann ætlar að keppa.    Það er nefnilega eitt sem kvótakerfið hefur leitt af sér að okkur vantar nær heila kynslóð í skipstjóraliðið.  Ég lenti í því á sínum tíma 1993 að tekinn var af mér togari og rækjuskip með um 2.700 tonna þorskígildistonn og var þá þorskígildistonnið verðlagt varanlega á kr. 160,-.  Eins var með EG í Bolungarvík að stuttu eftir að bankinn keyrði það fyrirtæki í þrot kom í ljós að fyrrum hlutabréf EG í SH voru seld á 15 milljarða sem ein og sér hefðu greitt allar skuldir EG án þess að reiknað sé með verðmætum sem voru í skipum og aflaheimildunum.  Sá sem varð svo heppinn að ná í þessi bréf og græða 15 milljarða siglir nú á skútu í Miðjarðarhafi og hlær að öllu saman.  Nei nú er endanlega komið nóg og ef stjórnmálamenn okkar ætla að standa undir nafni verða þeir að taka á þessum málum, látum reyna á í kosningunum í maí hverjir hafa þorað og hverjir ekki.  Stöndum með Níelsi og látum þessa jólasveina ekki í friði. 


Hver verður framtíð Vestfjarða

Sem fyrrverandi íbúi á Vestfjörðum reyni ég eftir bestu getu að fylgjast með málum þar og finnst sárt hvernig mál eru að þróast þar og það sem verra er að menn neita að viðurkenna staðreyndir og stinga höfðinu í sandinn.   Nýlega birti háskólanemi frá Ísafirði skýrslu og hampaði henni mikið í fjölmiðlum þar heldur hann því fram að áhrif kvótakerfisins hafi engin áhrif haft á brottflutnings fólks frá ísafirði þetta byggði hann á könnun sem hann hafði gert og var framkvæmd þannig að hann sendi út spurningalista til um 1000 manns og spurði hver hefði verið ástæðan fyrir fluttningi frá Ísafirði.  Aðeins lítill hluti nefndi kvótakerfið sem ástæðu en nær 50% skort á atvinnutækifærum.  Það er augljóst að þó lítill hluti nefnir kvótakerfið hefur það samt leitt til fækkunar á atvinnutækifærum.  Þeir sem beinlínis hafa flutt vegna kvótakerfisins hafa verið yfirmenn á skipum sem auðvelt hafa átt að fá vinnu og hafa í flestum tilfellum verið hátekjumenn.  Höfundur skýrslunnar nefnir að efla beri hátækni-iðnað á Ísafirði og auka framboð á háskólanámi en varla var blekið þornað á skýrslunni þegar neyðarkall kom frá Ísafirði vegna þess að Marel hf. hafði ákveðið að loka útibúi sínu á Ísafirði og segja upp öllum starfsmönnum og rétt áður hafði stæðsta byggingarfyrirtækið orðið gjaldþrota og það ásamt lokun Marels kostaði 80 störf.  Þegar kvótakerfið var sett á voru tvö stór fiskvinnsluftrirtæki á Ísafirði þ.e. Íshúsfélag Ísfirðinga hf. og Norðurtanginn hf. og munu hafa starfað yfir 100 manns hjá hvoru auk þess voru í rekstri 4 rækjuverksmiðjur með um yfir 200 starfsmenn.  Guðbjörg ÍS-46 flaggskip vestfirska flotans fór á fölskum forsendum með öllum kvóta til Akureyrar. Er því ekkert skrýtið að svona margir nefndu skort á atvinnutækifærum í áðurnefndri könnun.  En frá því að þetta kerfi kom hafa farið frá Ísafirði 600-700 störf eða eins og eitt meðal-álver.  Þyrfti nokkuð  stóran háskóla til að störfum fjölgaði aftur í fyrra horf.  Þegar kvótakerfið var sett á bjuggu á Vestfjörðum um 8-9 þúsund manns og hefur þróunin verið eftirfarandi:

                        1984                      1996                     2006                       

Patreksfjörður 1.000 íbúar             776   íbúar            632 Íbúar

Tálknafjörður      400   "                 302    "                 273    "

Bíldudalur           400   "                 279    "                 185    "

Þingeyri           400  "              340     "             320   "

Flateyri           400  "              289     "             335   "

Suðureyri         400  "              279    "              300   "

Bolungarvík    1.200  "           1.094   "                905  "

Ísafjörður      3.550  "           3.000   "             2.742   "

Súðavík           300  "              220   "               194   " 

Hólmavík          550  "              445   "               385   "

Drangsnes        200  "              103   "                65   "

Samtals         8.500  "           6.351   "            6.336    "

Það hefur sem sagt orðið 25% fækkun frá því kvótakerfið var tekið upp og hér er aðeins fjallað um sjávarbyggðirnar en ekki tekið með fækkun í sveitum og með sama áframhaldi tekur ekki nema 5-10 ár þar til allir eru farnir. 

Inni í þessum íbúatölum er erlent fólk og athuga verður að 1994 féll snjóflóð á Súðavík  og 1995 á Flateyri sem tók sinn toll af íbúum þessara staða.  Einnig ber að athuga að þetta er fólk með lögheimili á stöðunum en margir eru búsettir í raun annarsstaðar vegna náms eða atvinnu.  Það er staðreynd að þessi þorp á Vestfjörðum urðu til vegna nálægðar við gjöful fiskimið og hefur það verið sú undirstaða sem þessir staðir hafa byggt á en þegar undirstaðan er ekki lengur fyrir hendi eru forsendur fyrir búsetu brostnar og allt stefnir í að þessir staðir verði sumardvalarstaði þar sem brottfluttir koma á vorin og riifja upp liðna tíð en fara svo á haustin, svipað og er á Hornströndum það þarf ekki endilega að þýða verðfall á eignum því hvergi er fasteignaverð hærra á Vestfjörðum en á Hornströndum ef miðað er við fm.-verð svo er víða mjög fallegt og gaman að búa.  Þetta gæti orðið sumarleyfisparadís Sægreifana og nú er a.m.k. einn þeirra búinn að kaupa sér fjall í Borgarfirði því það jók á fegurðina við að horfa út um glugga og nóg er nú af fjöllum á Vestfjörðum. Þetta er því miður sannleikurinn og af því að nú vilja allir sem eru í pólitík vera grænir og umhverfisvænir og mætti því friðlýsa Vestfirði og byggðirnar yrðu verðugur minnisvarði fyrir komandi kynslóðir sem hefðu fyrir augunum tákn um heimsku og peningagræðgi forfeðranna.  Við skulum ekki gleyma hinum miklu framkvæmdum sem voru á sínum tíma á Djúpuvík og Eyri við Ingólfsfjörð á Ströndum.  Síldarverksmiðjurnar á báðum þessum stöðum kostuðu stór fé á þeim tíma en gróðinn var slíkur að þær boru búnar að greiða upp allar sínar skuldir eftir fyrsta sumarið og áttu eigendur þeirra fúlgur fjár þegar þeir lokuðu verksmiðjunum.  Ekki urðu peningar eftir á þessum stöðum til að efla byggð, heldur voru þeir notaðir í aðrar fjárfestingar til að græða meira.  Það var búið að ná útúr þessum stöðum sem hægt var og eins er í dag með Vestfirðinga þar er búið að þræða alla firði og hirða hvert það skip sem einhvern kvóta hafði.  En Vestfirðingar eiga eitt tromp sem þeir geta spilað út en það er að veiða og veiða eins mikið og þeir geta og segja svo eins og olíuforstjórarnir "Það voru skipin sem veiddu en ekki við."  Nú er það loksins viðurkennt að þorstofninn við Ísland er ekki einn, heldur er um að ræða nokkra staðbundna stofna, þannig að það sem selt er frá einum stað þarf ekki endilega að skila sér í veiði á öðrum stöðum.  Eina raunhæfa aðgerðin til bjargar Vestfjörðum er að Ísland gangi í Evrópusambandið.  Þar er alla veganna rekin sú stefna að styðja við jaðarbyggðir.  Það skiptir hinn venjulega íslending ekki nokkru máli hvort aflakvótum er úthlutað eftir fyrirmælum LÍÚ eða frá Brussel. 

Jakob Kristinsson

fv. vélstjóri á Bíldudal

Nú öryrki í Sandgerði

 

 


Fimmtudagur 28. desember 2006

Jæja þá eru blessuð jólin búin og við tekið hið venjulega líf.  Reyndar eru áramótin eftir og svo tekur aftur við hið daglega lífs em betur fer.  Þetta er búið að vera frekar leiðinlegur tími.  Dagana fyrir jól var eins og flestir væru að missa vitið.  Ég fór stundum í Keflavík og umferðarmenningin var slík að ef maður var ekki nógu snöggur af stað á ljósum eða í hringtorgum, var legið á flautunni eins og verið væri að flytja sjúkling sem væri að dauða kominn.  Ekki var ástandið betra þegar maður skrapp til Rvk. þar var eins og flestir væru orðnir geðveikir og væru að missa af jólunum sem væru að koma í síðasta skipti.  Ég fór í Bónus fyrir jólin og var í biðröð til að komast að kassanum, þegar mér er alltí einu hrint til hliðar og maður ryðst fram fyrir mig.  Ég varð snarillur og sagði við þennan mann.  "Ertu eitthvað bilaður búðin er nú opin tl kl. 22,00 og svo ræðstu á fatlaðan mann".  Hann varð nú ansi aumur og baðst afsökunar og sagði, mér fannst þú bara vera svo seinn.  Ég stillti mig, því vandræði mín eru nægileg fyrir svo ekki væri nú ábætandi að þurfa að standa í slagsmálum við kassann og sagði við manninn að ég væri líkamlega fatlaður en gann væri greinilega andlega fatlaður.  Ég er nú loksins búinn að skrifa alla Útgerðarsöguna en ekki fæst hún enn birt á arnfirðingur.is og er ég núna að skrifa sögu rækjuveiðar í Arnarfirði og ætla síðan að skrifa Útgerðarsögu Patreksfjarðar.  En hvort eitthvað af þessu fæst birt verður bara að koma í ljós.  Ef menn þola ekki að heyra sannleikann verður svo að vera.  En þar sem þeir sem stýra arnfirðingur.is vilja ekki birta mín skrif fékki ég kunningja minn sem er með vefsíðuna Tíðis á Patreksfirði til að tengja mína bloggsíððu inn hjá sér og get ég þá skrifað á mína ábyrgð það sem hugurinn býr án þess að þurfa að sæta ritskoðun misvitra manna.   En nú verð ég að fara að þvo helling af þvotti og kveð að sinni. 

Föstudagur 22. desember 2006

Héðan úr Sandgerði eru ekki miklar nýjar fréttir nema að fyrir nokkrum dögum síðan strandaði hér erlent skip við Hvalsnes.  Ég þurfti að skreppa í Keflavík í dag og á leiðinni til baka yfir Miðnesheiði sem ég hef nú aldrei tekið eftir að væri nein heiði sá ég skipið sem er mjög stórt og ók ég út að Hvalsneskirkju og þar blasti við manni þetta mikla skip sem stendur á réttum kili en hefur á síðasta flóði borist inn fyrir skerjagarðin sem liggur þarna meðfram ströndinni var það ansi tilkomumikil sjón að sjá þetta stóra skip standa þarna í fjörunni og hauga brim rétt fyrir aftan.  Það var fjara þegar ég var þarna og maður gat séð stýrið standa uppúr sjó og margar rifur á skipinu og er nokkuð öruggt að það fer aldrei á flot aftur.  En hvað verður gert við skipið veit enginn í dag.   Ég hef nokkuð lengi verið að skrifa Útgerðarsögu Bíldudals og sent á vefinn arnfirðingur.is en þeir höfðingjar sem þar stýra verkum hafa ekki enn birt nema 2 hluta af þeim 3 sem ég hef sent til þeirra af einhverjum ástæðum sem ég veit ekki.  Kannski er eitthvað í þessum þriðja kafla sem ekki passar við þeirra hugmyndir um Bíldudal eða einhvern sem þar er nefndur, ég er núna að vinna við fjórða og síðasta kaflann en veit ekki hvort ég sendi það til þeirra.  Það virðist vera að stjórnendur arnfirðings.is og eru brottfluttir bílddælingar neiti að viðurkenna hvílík hignun er orðin á Bíldudal.  Þeir sem vilja vita verða að átta sig á því að Bíldudalur er deyjandi staður og í dag fámennastur þéttbýliskjarna á Vestfjörðum og hver er ástæðan.  Því er auðsvarað, óstjórn, ævintýramennska og vitleysa.   Þessu verður ekki breytt úr því sem komið er það er einfaldlega orðið of seint.  Staðurinn er hægt og sígandi að breytast í sumarleyfisstað enda við hæfi að bæjarstjórn er núna að kynna nýtt skipulag sem gerir ráð fyrir frístundarbyggð inní miðju þorpi og er það gert þannig að svo þrengir að þeim íbúum sem enn er þó að þrauka þarna að þeir neyðast sennilega til að hrökklast í burt og er það kannski tilgangurinn.  Það má enginn skilja þessi skrif mín þannig að mér sé í nöp við Bíldudal nema síður sé, mér þykir vænt um þennan stað og sárnar hvernig búið er að fara með hann.  Þarna er ég fæddur og bjó í rúm 50 ár og væri sennilega enn ef ekki hefðu komið til slys sem gerði mig að örykja og miklum sjúklingi.  En ég er ekki svo heimskur að ég neiti að viðurkenna staðreyndir eins og mér finnst gert á arnfirðingur.is, nú mun vera svo komið að á Bíldudal búa færri en var í Selárdal einum þegar þar var fjölmennast.  Við höfum einn draugabæ hér á Suðurnesjum en það er bærinn þar sem ameríski herinn bjó og fyrir jólinn í fyrra var þessi bær allur uppljómaður og miklar jólaskreytingar en núna eru engin ljós og allt mannlaust og ekki ljós neinstaðar.  Ég get ekki látið hjá líða að lýsa hneykslan minni og undrun á því sem bóndinn í Otradal gerði og allt útaf einum dauðum hundi þetta þótti frétt í sjónvarpi en ekki á arnfirðingur.is sem lýsir best þeirri hugsun sem ríkir þar á bæ.  En ég set hér með slóð sem hægt er að smella á til að lesa þriðja hluta sögu minnar Útgerðarsaga Bíldudals.  Ég ætla að láta þetta duga að sinni og óska þeim sem þessar línur lesa gleðilegra jóla.

Fimmtudagur 21. desember 2006

Það er að verða ansi langur tími síðan ég skrifaði síðast á þessa síðu, en ástæðan er sú að í byrjun desember sl. vaknaði ég upp við það að vinstri hendin var algerlega orðin lömuð aftur eins og hún var eftir slysið sem ég lenti í haustið 2003, en ég hafði verið að fá stöðugt meiri mátt í hendina með sjúkraþjálfun í Keflavík undanfarnar vikur og var farinn að geta notað hendina talsvert.  En nú var hún algerlega máttlaus.  Ég fór strax til læknis í Keflavík og var þaðan sendur á Landspítalann í sneiðmyndatöku og kom þá í ljós að blætt hafði lítilsháttar inná heilann.  Og ekki nóg með það að hendin væri lömuð, heldur missti ég talsverða stjórn á málfarinu, verð að tala hægar, stama á sumum orðum og hugurinn er ekki eins skýr hvað málfar varðar.  Þar þarf ég stundum að hugsa aðeins um til að finna réttu orðin.   En verst er hræðslan, hvað næst, kemur meira.  Verst er óttinn við að vakna meira lamaður og jafnvel mállaus inná einhverri stofnun, nánast bjargarlaus.  Oft hef ég velt því fyrir mér af hverju ég öskraði svona mikið þegar ég flæktist í nótinni, af hverju að fara ekki í hafið og falla með sæmd. drukkna bara í Arnarfirði eins og margir ættingjar mínir í gegnum árin.  Ofti hefur mér verið hugsað til Matthísar föðurbróður míns og hefði þótt sæmd og heiður af að fá að fara og hvíla í sömu gröf og hann, því ég fann oft á pabba heitnum hvað hann saknaði bróður síns og nafn Matthísar Ásgeirssonar hefur verið bundið við mína barsál frá því ég man eftir mér.  En nóg um það ég er á lífi og þökk sé syni mínum Jóni Páli sem bjargaði mér.  En ansi er ég bitur eftir allt erfiðið á Reykjalundi og sjúkraþjálfun í Keglavík til að ná heilsu sem virðist fara hrakand aftur.   Og hvað næst?  Ég er alger öryrki og lifi eymdarlífi, verð að horfa lengi á hverja krónu áður en henni er eytt.  Mín framtíð er enginn. ég hef sótt um a.m.k. 100 störf en alltaf hafnað.   Ekki vegna órleglu (ég hef ekki smakkað áfengi í 6-7 mánuði höfnunin er oftast vegna of mikilla menntunar svo furðulegt sem það kann að reynast.   

Laugardagur 4. nóvember 2006

Héðan úr Sandgerði er allt gott að frétta en veðrið hefur verið frekar leiðinlegt oft rok og rigning.  Í morgun þegar ég fór á fætur var hinsvegar ágætis veður, þurrt og logn en það verður víst ekki lengi því samkvæmt veðurspánni á að hvessa síðdegis og verða rok og mikil rigning allt að 25 metrar á sek.  Hinsvegar á að hægja á morgun og verða komið ágætisveður á mánudag.  Ég hef verið latur við að skrifa undanfarið og ekki kveikt á tölvunni dögum saman, nenni varla stundum að lesa dagblöðin, þetta er einhver leiði sem fylgir skammdeginu og ég losna ekki við.  Líka ákveðið sjokk eftir að ég missti vinnuna en þann 20.10. þegar ég var í vinnu hjá BM-ráðgjöf bað sú sem stjórnar þarna mig að tala við sig og tilkynnti mér að verkefnum væri að fækka og við sem væru búin að vera styðst yrðum látin hætta og vorum við fjögur sem hættum.   Ég á tíma hjá Snorra Ingimarssyni geðlæknir sem ég hef verið hjá 14.11. og vonandi hressir hann mig eitthvað upp.  Á mánudaginn á ég að mæta hjá Ragnari Jónssyni yfirtannlæknir TR og tekur hann þá úr alla saumana sem eftir eru í sambandi við tannviðgerðirnar en síðast þegar ég var hjá honum þurfti að skera upp meira af tannholdinu og var það vinstra meginn og er þá búið að skera og hreinsa báðum meginn.  Ég held svo áfram hjá Inga tannlæknir í Keflavík þann 14.11. og vonandi klárast þetta fyrir jól en nú er farið að styttast í þau.  Ég fór sl. laugardag í heimsókn á Landsspítalann til mömmu sem var flutt þangað.  Mér brá mikið þegar ég sá hana því hún var svo mikið veik, hrædd og kvíðin, var lítið hægt að tala við hana vegna þess að hún gerði lítið nema gráta.  Þar hitti ég bræður mína þá Ásgeir og Hadda, en Haddi átti að fara á sjó daginn eftir en hann er á togarunum Venus og áttu þeir að fara í Barentshafið og landa í Noregi og koma ekki heim fyrr en um jól.   Ég fór svo aftur í heimsókn til mömmu á miðvikudaginn og þá var hún miklu hressari og leið greinilega mun betur.  Helga systir var hjá henni þegar ég kom og var þá alveg hægt að ræða við hana og talaði hún mikið um að vonandi fengi hún fljótlega að fara aftur í Hveragerði.  Svo frétti ég í gær að hún hefði verið flutt á sjúkrahúsið á Selfossi sem ég tel nú ekki betra fyrir hana því þá verða miklu færri heimsóknir sem hún fær en vonandi hressist hún meira og getur farið heim.   En góðu fréttirnar eru þó þær að bindindið hjá mér gengur bara vel.  Ég get lifað ágætlega án áfengis og með sjúkraþjálfunni finn ég hvernig maður styrkist, en ég er með mjög góðan sjúkraþjálfara unga konu sem leggur aðal áherslu á að þjálfa hendina og er ég farinn að geta rétt meira úr fingrunum og gengur betur að halda á hlutum í vinstri hendi.  Læt þetta duga að sinni.

Mánudagur 16. október 2006

Þá er ein vikan að baki og ný tekin við.  Það er farið að kólna talsvert hér í Sandgerði og alltaf rigning og vindur af og til.  Það fór að ganga einhver flensa hér í húsinu og auðvitað þurfti ég að fá hana.  Var í rúminu með hita, hausverk og tilheyrandi.  Taldi mig svo orðin hress að ég fór í vinnu en nokkrum dögum seinna var svo kalt að ég veiktist aftur og á síðasta sunnudag var ég komin með bullandi hita aftur en átti sem betur fer verkjalyf.  Ég fór til Reykjavíkur á miðvikudaginn og hitti Biddu og Júdit en var samt hálf slappur.  Á leiðinni hingað heim byrjaði hausverkurinn aftur og ég var í mesta basli við að aka vegna þess að stöðugt lak úr augunum.  Loksins á föstudag var ég orðin góður og gat farið í vinnu án þess að bryðja stöðugt verkjalyf.  Ég var að vinna til kl: 21,00 á föstudag og á laugardag frá 12,00 til 16,00.   Í dag mætti ég hjá Ragnari Jónssyni tannlæknir kl: 13,00 sem  sem skar upp allt tannholdið hægramegin og saumaði aftur, þetta var aðgerð sem tók rúman klukkutíma en ég var mikið deyfður svo ég fann ekki fyrir þessu á meðan á því stóð en eftir að deyfingin for að fara úr tóku við mikil óþægindi og dreyf ég mig bara heim og át þau verkjalyf sem til voru og lagaðist þetta nokkuð en samt eru mikil óþægindi útaf öllum saumunum sem ég er með. Þetta þýddi það að ég komst ekki í vinnu en var búin að fá frí áður og missi þar með einn daginn enn úr vinnu.  Ég hef sem betur fer verið heppinn með það að sleppa við flestar svona umgangspestar en nú er maður bara ekki eins hraustur og áður.  Ég á að mæta aftur hjá Ragnari næsta mánudag og tekur hann þá saumanna og skoðar þetta betur.  Þangað til má ég ekkert borða nema fljótandi fæðu, alls ekki tyggja neitt til að reyna ekkert á tennurnar og fór ég í Bónus og birgði mig upp af súpum til að lifa af þessa viku.  Ef allt er í lagi byrja ég aftur hjá tannlækninum í Keflavík og mun hann klára viðgerðirnar.  Er nú loksins að komast niðurstaða í þetta mál sem verður þannig að ég mun ekkert þurfa að greiða. 

Laugardagur 30. september 2006

Þá er þessi vika búinn og þar með mánuðurinn.  Ég fór í vinnu kl: 12,00 og var til 16,00 og var kominn hingað heim um kl: 17,00 eftir að hafa farið minn venjulega rúnt um höfnina.   Veðrið var mjög gott, hlýtt og nánast logn og kom sól af og til.  Ég er farinn að verða svolítið þreyttur í þessari vinnu og gengur ekki vel að selja og fá styrki.  Við erum með 4 söfnunarverk í gangi og greinilegt að fólk er orðið þreytt á öllu þessu kvabbi um styrki, því fleiri en við eru með hliðstætt í gangi.  Verið er að safna fyrir hin og þessi málefni og þótt þau séu öll góð verður fólk að velja og hafna ekki er hægt að styrkja allt.  Hinsvegar eru að koma ný verkefni það eru skoðanakannanir ofl. sem eru mun skemmtilegri, t.d. erum við núna að vinna fyrir Helga Hjörvar alþingismann og samningar eru í gangi við fleiri þingmenn, einnig er verið að vinna fyrir sjónvarpsstöðina Sirkus.  Þetta eru ákveðnar spurningar sem lagðar eru fyrir fólk.   Ég fór í gær til Reykjavíkur og heimsótti Guðrúnu Pétursdóttur en hún var að koma úr erfiðum uppskurði á auga og sér nánast ekkert, henni leiðist mikið að geta ekkert horft á sjónvarp eða lesið blöðin og geta ekkert farið út þar sem hún má ekki snerta bíl svona sjónlaus.   Við fórum saman í NETTÓ og versluðum en þar var talsvert mikið af vörum með miklum afslætti.  Ég verslaði í tvo fulla poka og kostaði það ekki nema um kr: 1.000,-  Herra Fúsi var sofandi í ruggustólnum frammi á yfirbyggðu svölunum einn morguninn þegar ég vaknaði en ég hef alltaf opinn glugga þar ef hann skildi koma, en um leið og hann varð var við mig stökk hann út um gluggann og þótt ég kallaði á hann vildi hann ekki koma aftur og labbaði í burtu.  Hann er þó á lífi en er orðin grindhoraður.  Hann ratar þó allavegana hingað og vonandi kemur hann aftur þegar fer að kólna.  Ég er að hugsa um að hafa kattarmat og vatn þarna frammi og vonandi kemur hann aftur.   

Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband