Meira um flug

Á sínum tíma var Flugfélag Íslands með reglulegt á ætlunarflug til Patreksfjarðar sem var notað af íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum.  Flogið var 3 daga í viku.  Sá galli var á Patreksfjarðarflugvelli að í ákveðnum áttum sem eru talsvert ríkjandi á þessum stað var alltaf talsverður hliðarvindur á flugbrautina og því algengt að fella þyrfti niður flug af þeim sökum í þetta áætlunarflug notaði félagið vélar af gerðinni Fokker sem tóku um 48 farþega.  Þegar ákveðnar endurbætur voru gerðar á Bíldudalsflugvelli var hann oft notaður sem varaflugvöllur því þar voru lendingarskilyrði miklu betri og á tímabil var svo komið að Fokkervélin var farinn að lenda oftar á Bíldudal en á Patreksfirði ákvað Flugfélag Íslands að hætta þessu flugi, því áætlunarflug til Bíldudals var þá sinnt af öflugu og velreknu félagi sem var Íslandsflug hf. og var það félag stöðugt að taka farþega frá Flugfélagi Íslands, bæði var það að Íslandsflug hf. flaug daglega og á tímabili tvær ferðir á dag og einnig að mjög sjaldan þurfti að fella niður flug vegna veðurs.  Í dag er Bíldudalsflugvöllur notaðu í allt áætlunarflug á sunnaverða Vestfirði.  Ég ætla að segja hér tvær litlar sögur sem skeðu þegar áætlunarflug var til Patreksfjarðar:

Eitt sinn sem oftar þegar farþegar eru mættir á Reykjavíkurflugvöll og búið að tilkynna að brottför væri á réttum tíma og allt í lagi með veður og biðu farþegar hinir rólegustu eftir að vera kallaðir út í vélina.  Í þessum hópi var kona frá Tálknafirði sem hafði það orð á sér að hún gæti séð fyrir um óorðna hluti. Síðan kemur að því að farþegar eru kallaðir út í flugvélina og myndaðist þó nokkur röð við stigann sem notaður var til að ganga um borð.  Konan frá Tálknafirði var ein af fyrstu farþegunum sem fóru um borð og fékk sér sæti, eftir smá stund í sætinu stendur hún upp og gengur aftur eftir vélinni og segir við flugfreyjuna að hún verði að komast út, því það sé svolítið að og hún geti ómögulega farið með þessu flugi.  Flugfreyjan stoppaði þá farþega sem eftir voru að koma um borð og bað þá að bíða á meðan konan kæmist niður stigann, því hún treysti sér ekki í þetta flug.  Nær allir farþegar vissu að þessi kona var talin skyggn og fóru að velta fyrir sér hvað konan hefði nú séð fyrir og öllum datt það sama í hug "flugslys"  Nú sneru nær allir sem ekki voru komnir um borð, við og hættu við flugið og brátt fóru fleiri farþegar að tínast út úr flugvélinni og endaði með því að aðeins nokkrir farþegar voru eftir en flestir fóru aftur inn í flugstöðina.  Vélin flaug síðan til Patreksfjarðar með nokkra farþega og til baka aftur og ekkert kom fyrir.  Eftir að konan hafði jafnað sig var farið  að spyrja hana hvað hefði komið fyrir og hvað hún hefði séð?  Þá kom í ljós að ástæðan fyrir því að hún hætti við og treysti sér ekki í flugið var sú;"Að hún hefði fengið svo heiftarlegt Mígrenikast og hefði gleymt að taka með sér þær töflur sem hún notaði við þessum sjúkdóm" Voru því nokkuð margir farþegar sem vonsviknir yfirgáfu flugstöðina þennan dag.

Nokkru seinna var líka áætlað flug til Patreksfjarðar og þar sem veður var frekar slæmt var tilkynnt að ófært væri til Patreksfjarðar en athugað með flug nokkrum klukkutímum síðar og gekk þetta svona allan daginn og að lokum var fluginu aflýst og tilkynnt um ákveðin brottfaratíma næsta dag og byrjaði þá aftur sama sagan tilkynnt ófært til Patreksfjarðar og næsta athugun eftir nokkra klukkutíma.  Góður kunningi minn og samstarfsmaður til margra ára var ein af farþegum, hann var þekktur fyrir mikla óþolinmæði og vildi að allir hlutir gengju eftir og það strax.  Þegar síðan kemur að það er tilkynnt að fluginu sé aflýst og tilkynnt brottför næsta dag.  Þá sprettur þessi maður á fætur og segir að þetta gangi ekki lengur.  Fer í símann og kemur til baka og fer að segja hinum farþegunum að hann sé búinn að fá 6 manna vél til að fljúga vestur á Bíldudal og spyr hvort einhverjir sem þarna voru að bíða vilji koma með og var fljótt að fylla þau sæti sem í boði voru.  Þegar þessir 6 menn eru búnir að fá farangur sinn aftur og flugmiðana endurgreidda og eru á leiðinni út í leigubíl stendur upp kona og hrópar í Guðanna bænum hættið við þetta, þið gætuð verið að ana beint út í dauðann.  Sá sem stóð fyrir þessu flugi stoppaði aðeins og sneri sér að konunni og sagði;  "Það er þó skárra að taka þátt í því en að sitja hér á rassgatinu og gera ekki neitt"  Það skal tekið fram að þessi flugferð þeirra 6 tókst vel og ekkert óhapp kom fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband