Minnisstæð Sjóferð

Í nóvember 1994 fór ég með syni mínum í róður á 6 tonna trillu frá Bíldudal.  Við höfðum sjálfir beitt línuna og vorum að skapa okkur atvinnu.  Veður var þokkalega gott og við fórum um 20-25 sjómílur NV frá Kópanesi.  Þar lögðum við línuna og á meðan við biðum eftir að geta farið að draga hana sáum við að togarinn Klakkur frá Grundarfirði var að toga þarna rétt hjá og höfðum við samband við skipstjóra togarans og létum hann vita hvernig okkar lína væri lögð.  Síðan fórum við báðir í koju og fórum að sofa.  Skömmu seinna fór síminn að hringja og hvorugur okkar nennti upp til að svara en það var hringt aftur og aftur og að lokum fór sonur minn í símann, þetta var þá símtal frá skipstjóranum á togaranum Klakk  og var hann að láta okkur vita að hann hefði verið að fá nýja veðurspá og það spáði vitlausu veðri þegar liði á daginn.  Hann vildi láta okkur vita svo við gætum dregið línuna áður en þetta skylli á.  Við rukum til og klæddum okkur og byrjuðum að draga og var afli nokkuð góður um 200 kg. á bala en við vorum með 24 bala í allt.  Þegar við erum að draga síðustu balana byrjar að vinda af SA og þegar drætti lauk var orðið vitlaust veður 15-20 m. á sek.  Við kláruðum línudráttinn og gengum síðan vel frá öllu.  Það var kominn nokkuð góð balllest í bátinn eða um 4-5 tonn af fiski.  Þá var eftir að komast í land og stöðugt bætti í veðrið og nú var veðrið beint á móti.  Þessi bátur gekk yfirleitt um 10-12 mílur en núna þegar hann var orðinn hlaðinn og veðurofsinn beint í stefnið fór hann ekki nema 2-3 mílur.  Ég átti að taka landstímið og sonur minn fór í koju til að sofa.  Þetta var sko engin skemmtisigling ölduhæð 5-8 metrar og báturinn klifraði upp hverja öldu og steyptist svo niður aftur.  Mér var ekki farið að standa á sama og skildi ekki hvernig sonur minn gat virkilega sofið værum svefni í öllum þessum látum.  Eftir um 7-8 tíma barning vorum við komnir í mynni Arnarfjarðar og vonaði ég að þetta myndi nú lagast þegar við kæmum inn í fjörðinn, en það var nú öðru nær.  Áttin var þannig að vindurinn stóð út fjörðinn og ef eitthvað var þá frekar versnaði veðrið.  Þótt talsvert frost væri úti kom enginn ísing á bátinn því sjórinn skolaði öllu slíku af og eining var báturinn hálfpartinn í kafi af og til.  En þetta slapp fyrir horn og við náðum í höfn á Bíldudal eftir nær 12 tíma landsstím sem venjulega hefði tekið 3-4 tíma.

Svona er nú líf trillusjómannsins og svo eru einhverjir fuglar að halda því fram að þótt gefið yrði frjálsar krókaveiðar að hálf þjóðin færi að róa á smábátum.  Ég er hræddur um að flestir færu ekki margar sjóferðir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður.

Takk fyrir að segja okkur frá þessari lífreynslu ykkar feðga.

Alveg er ég viss um að það hópast ekki allir á sjó þó að reglum væri breytt. Við erum mörg landkrabbar og ekki hefði ég viljað vera með ykkur feðgum á sjó í nóv. 2000.

Guð veri með þér og þínum.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 24.10.2008 kl. 12:47

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ég skyldi glaður bjóða hverjum sem er í svipaða sjóferð ef ekki verri.

Jakob Falur Kristinsson, 24.10.2008 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband