Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Fiskvinnsla á Bíldudal

Nú er að koma að því að fiskvinnsla fari af stað á ný á Bíldudal eftir tveggja ára hlé.  Er það félagið Stapar hf. sem ætlar að hefja þar fiskvinnslu.  Er þetta mikið gleðiefni fyrir alla þá sem þarna búa.  Í Svæðisútvarpi Vestfjarða sl. föstudag er frétt um þetta mál og rætt við Guðnýju Sigurðardóttur sem er staðgengill bæjarstjóra, en hann var í frí.  Talsverðar rangfærslur eru í þessari frétt sem ég tel að verði að leiðrétta.  Fram kemur í fréttinni að ein útgerð sé með um 90% af þeim aflaheimildum sem skráðar eru á Bíldudal.  Þarna mun vera átt við Þiljur ehf. sem gerir út Brík BA-2, en hver er ástæða þess að einn bátur hefur yfir að ráða 90% aflaheimildanna, á því eru tvær skýringar:

1.     Allir hinir rækjubátarnir og höfðu bolfiskkvóta eru búnir að selja hann í burtu.  Eini kvótin sem    eftir er á þeim bátum eru bætur vegna þess að bannað er að veiða rækju og hörpudisk í Arnarfirði og þann kvóta er illgerlegt að selja og er hann því leigður í burtu.

2.      Þiljur hafa undanfarin ár stöðugt verið að bæta við sig kvóta.  Sem sagt kvótinn á Brík BA-2 er stöðugt að aukast með kaupum á kvóta meðan kvóti hinna bátanna er seldur í burtu.

Því er einnig haldið fram að fyrirtækið reki fiskverkun í Hafnarfirði.  Þetta er alrangt, í Hafnarfirði er rekið fyrirtækið Festi ehf.  í sama húsnæði og Magnús Björnsson og Viðar Friðriksson ráku vinnslu í um tíma.  En það fyrirtæki er ekki rekið af Þiljum ehf.  Hinsvegar seldu Þiljur ehf. Festi ehf. 49% hlut í sínu félagi á síðasta ári, ekki tóku þau á móti peningum heldur fengu greitt í bolfiskkvóta.  En Brík BA-2 er ekki eina skipið sem hefur landað afla hjá Festi ehf.  Ég fékk það staðfest hjá starfsmanni þar í dag að Vestri BA-63 hefði landað þar nokkrum sinnum.  Það er einnig tekið fram að eigendur fyrirtækisins Þiljur ehf. búi ekki á Bíldudal og er það rétt, en hver er ástæðan.  Þau hjón Guðlaugur Þórðarson og Bryndís Björnsdóttir eiga mjög fatlaðan dreng og ekki hafði Vesturbyggð tök á að veita barninu þá þjónustu sem þykir sjálfsögð í dag.  Ég kannast við þetta af eigin raun ég varð að flytja frá Bíldudal vegna fötlunar minnar.  Ef skoðuð er hluthafaskrá Odda hf. á Patreksfirði er hægt að sjá þó nokkuð marga stóra  hluthafa sem ekki hafa lögheimili í Vesturbyggð t.d. olíu- og tryggingafélög ofl.  Þótt þau hjón búi ekki á Bíldudal hefur Brík BA-2 alltaf verið gerð þaðan út og vegna þess hvað kvóti bátsins er orðinn mikill var hlutur hásetanna þriggja sem allir eiga heima í Vesturbyggð kr. 21.000.000,- eða sjö milljónir á mann á sl. ári.  Brík BA-2 hefur landað miklum afla á fiskmarkað á Patreksfirði.  Ekki hefur báturinn geta landað á Bíldudal þar var enginn kaupandi til staðar og áður en til lokunar frysthússins kom voru fyrirtækin sem það ráku ekki traustari en svo að hæpið gat verið að fá greitt fyrir aflann.  Finnst mér að í þessari umræddu frétt sé ómaklega vegið að fyrirtækinu Þiljur ehf.  sem hefur staðið eins og klettur úr hafinu að halda í við kvótaskerðingu sem orðið hefur á Bíldudal.

Í fréttinni kemur einnig fram að Vesturbyggð hafi sótt um hámarksbyggðakvóta til sex ára sem ætlað er til að uppfylla skilyrði Stapa hf. um að þeir hefji þessa vinnslu á Bíldudal.  En þar reka menn sig á vegg.  Því eins og Níels Ársælsson hefur skrifað á bloggsíðu sína er byggðakvóti eins og örorkubætur til byggðanna og lýtur sömu lögmálum.   Þar sem ég er nú öryrki hef ég kynnt mér vel reglur um örorkubætur sem eru álíkar og reglur um byggðakvóta.  Vegna hinna miklu kvótakaupa á Brík BA-2 uppfyllir Bíldudalur ekki skilyrði um hámarksbætur og er því reynt að koma því á framfæri að útgerð bátsins starfi í raun í Hafnarfirði.  Oddi hf. hefur einnig verið að fjárfesta mikið í kvóta og var haft eftir Sigurði Viggóssyni framkvæmdastjóra að þeir væru búnir að kaupa kvóta fyrir tvo milljarða og var það áður en þeir keyptu Brimnes BA-800 á 800 milljónir.   Er Oddi þar með búinn að koma í veg fyrir að Patreksfjörður fái byggðakvóta. 

Það væri nær að bæjarstjórn Vesturbyggðar kæmi kurteislega fram og bæði Þiljur að flytja sína útgerð frá Bíldudal og jafnvel eigendur Þorsteins BA-1 á Patreksfirði sem hefur landað miklu á Suðureyri.  Það má heldur ekki gleyma því að allan þann tíma sem Þórður Jónsson ehf. rak frystihúsið á Bíldudal og fékk á hverju ári allan byggðakvótann og leigði í burtu og ekki heyrðist orð um það frá Vesturbyggð, verður ekki til þess að létta róðurinn núna í sambandi við byggðakvóta.

 


Kosningarnar í vor

Ég get nú glatt minn gamla vinnufélaga Bjarna Kjartansson, Miðbæjaríhald ef hann les þetta með því að nú er ég endanlega búinn að gera upp hug minn um hvað ég ætla að kjósa í vor , en ég ætla að kjósa Frjálslynda Flokkinn.  Ég sannfærist eftir að hafa horft á formann flokksins í sjónvarpinu í gærkvöldi þar sem hann stóð sig mjög vel.  Nú eru tveir flokkar nýbúnir að halda landsfundi.  Frá Sjálfstæðisflokknum kom samþykkt um að festa enn betur í sessi núverandi kvótakerfi því það sé algerlega gallalaust og eitt hið besta í heimi.   Samfylkingin ályktaði ekkert um sjávarútvegsmál og oft er sagt að þögn sé sama og samþykki.  Í hvaða heimi lifir þetta fólk hefur það ekki ferðast um landið og séð hina miklu byggðaröskun sem átt hefur sér stað víða um land. Frjálslyndi Flokkurinn er eini flokkurinn sem þorir að ræða og gagnrýna fiskveiðstjórnunarkerfið.  Auk þess treysti ég honum vel til að vinna að mínum hagsmunum en ég er öryrki og get hvorki lifað né dáið af þeim bótum sem ég fæ.   Ég hef aldrei samþykkt að gefa ríkinu minn lífeyrissjóð sem ég var skyldaður til að greiða í með lögum og hef talið að það væri mitt sparifé sem ég gæti notað þegar ég yrði óvinnufær en nú bæði skattleggur ríkið mínar greiðslur úr lífeyrissjóði og notar líka til að lækka bætur frá Tryggingastofnun.   Nei sem betur fer mun núverandi ríkisstjórn falla í vor, enda Jón Sigurðsson formaður Framsóknar farinn að æfa sund eins og sjá má nánast á hverju kvöldi í sjónvarpi.  Hann er sjálfsagt að búa sig undir að geta synt frá hinu sökkvandi skipi.

Níels kærir kvótamiðlun LÍÚ

Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að Níels Ársælsson útgerðarmaður hafi sent Samkeppniseftirlitinu kæru vegna kvótamiðlunar LÍÚ.  Krefst hann þess að Samkeppniseftirlitið taki málið til rannsóknar þegar í stað.  Í kærunni bendir Níels á að innan vébanda LÍÚ er rekin svokölluð kvótamiðlun LÍÚ.  Telja verður að með þessu fyrirkomulagi á kvótaviðskiptum hafi LÍÚ og félagsmenn þess gerst brotlegir við 10.,11. og 12 gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.  Auk þess sem ætla verður að í þessu skipulagi felist óbeinn stuðningur íslenska ríkisins við þröngan hóp útvegsmanna sem í skjóli einokunar og samráðs geta stýrt fiskveiðum og fiskvinnslu hér á landi.  Félagsmenn LÍÚ geta með sýndargerningum haldið uppi verði á kvóta og þannig skert samkeppni skipa án kvóta.  Eigendur skipa án kvóta þurfa að greiða það verð fyrir kvótann sem kvótaeigendur setja upp hverju sinni.  Verðinu ráða þeir einir segir í kæru Níelsar.

Flott hjá þér Níels og vonandi verða þessi mál skoðuð, því staðreynd er að kvótaverð hér er fimmfallt miðað við Noreg að ég tali nú ekki um Nýja Sjáland þar sem leiguverð er 10% af söluverði aflans.  Það er ósköp auðvelt að skrúfa upp verð á kvóta, hvort það er leiga eða varanlegt.  Með skipulögðum millifærslum nokkurra fyrirtækja þ.e. fyritæki taka sig saman og leigja hvort öðru á verði sem  eru mikið hærri en eðlilegt getur talist og búa þannig til falskt verð, en á venjulegu máli heitir það að falsa bókhald.  Ef allt er rétt eins og nú er uppgefið er leiga á einu kg. af þorski komin í kr. 200 og ef það á að kaupa þetta sama kíló varanlega er verðið ekki undir kr. 2.500,-.   Vona ég innilega að þessi kæra Níelsar verði tekin til alvarlegrar skoðunar.    Auðlyndir hafsins eru sameign þjóðarinnar og miðað við tölur LÍÚ er ekki um neina smáræðis eign að ræða.  Eitt rennir styrkum stoðum undir þessa kæru Níelsar en það er að flest hin stóru útgerðarfyrirtæki gera upp við sína sjómenn á verði sem er langt undir verði á leigukvóta, ef þorskkílóið er kr. 200 virði í leigu hefur verið svindlað á íslenskum sjómönnum í stórum stíl og það kallast á vejulegri íslensku þjófnaður.  Nú eru brátt tveir flokkar brátt að fara að halda landsfundi sína þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin og verður fróðlegt að fylgjast með hvaða ályktanir verða samþykktar á þessum fundum varðandi sjávarútvegsmál.  Ekki þarf að bíða eftir Framsókn sem aðeins er eftir að jarðsyngja.    Eins og LÍÚ er búið að verðleggja kvótann væri upplagt að innkalla hann aftur og leigja síðan út.  Værum við þá með álíka tekjur og Norðmenn hafa af sínum olíugróða og gætum gert eins og þeir að greiða niður allar erlendar skuldir á stuttum tíma.  En hræddur er ég um að fáir félagsmenn LÍÚ myndu leigja kvóta því þeir þora ekki í samkeppni, vilja liggja öruggir með sitt undir verndarvæng ríkisins, svo þykjast þessir menn vera sjálfstæðismenn og hlynntir einkaframtaki en samkeppni óttast þeir mest af öllu og þykjast hafa greitt fyrir sinn aflakvóta fullu verði en hverjum greiddu þeir þetta verð, spyr sá sem ekki veit.  Ég bara veit að þeir fiska sem róa og hvað sem segja má um Níels Ársælsson treysti ég honum til að fiska í kaf hvern þann sem við hann ætlar að keppa.    Það er nefnilega eitt sem kvótakerfið hefur leitt af sér að okkur vantar nær heila kynslóð í skipstjóraliðið.  Ég lenti í því á sínum tíma 1993 að tekinn var af mér togari og rækjuskip með um 2.700 tonna þorskígildistonn og var þá þorskígildistonnið verðlagt varanlega á kr. 160,-.  Eins var með EG í Bolungarvík að stuttu eftir að bankinn keyrði það fyrirtæki í þrot kom í ljós að fyrrum hlutabréf EG í SH voru seld á 15 milljarða sem ein og sér hefðu greitt allar skuldir EG án þess að reiknað sé með verðmætum sem voru í skipum og aflaheimildunum.  Sá sem varð svo heppinn að ná í þessi bréf og græða 15 milljarða siglir nú á skútu í Miðjarðarhafi og hlær að öllu saman.  Nei nú er endanlega komið nóg og ef stjórnmálamenn okkar ætla að standa undir nafni verða þeir að taka á þessum málum, látum reyna á í kosningunum í maí hverjir hafa þorað og hverjir ekki.  Stöndum með Níelsi og látum þessa jólasveina ekki í friði. 


Steinbíturinn lokar kjaftinum

Ég var varla búinn að skrifa síðustu grein þegar ég rakst á viðtal við Egil Jónsson skipstjóri í Bolungarvík þann mikla aflamann sem er skipstjóri á línubátnum Guðmundi Einarssyni ÍS-155, þar sem hann segir frá því hvað mikið hafi verið af steinbít og þeir hafi verið að fá um 600 kg. á balann og síðustu þrjá daga hafi þeir landað 47 tonnum.   En nú virtist að botnin væri dottin úr veiðunum. Ekki kann ég skýringar á þessu nema að svo væri að það væri svo mikil loðna við botninn að steinbíturinn tæki ekki línu.  Ekki dettur mér í hug að minn ágæti vinur Einar Kristinn, sjávarútvegsráðherra hafi getað skipað steinbítnum að halda kjafti.  Því þrátt fyrir allt hefur Einar Kristinn miklu meira vit á sjávarútvegi en nokkur ráðherra á undan honum að undanskildum Lúðvík Jósepssyni sem mun vera eini sjávarútvegsráðherra sem fékk eitt sinn sérstakar þakkir á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna fyrir að hafa stuðlað að góðum rekstrargrundvelli sjávarútvegs á Íslandi.  Hann og Einar Kristinn vita og vissu hvernig hjartað slær í íslenskum sjávarþorpum.  En því miður er stuttbuxnaliðið í Sjálfstæðisflokknum ekki gera sér grein fyrir hvernig hjarta í íslensku þjóðfélagi slær.   Þar kemst ekkert að en að vera í flottum jakkafötum og selja verðbréf það er toppurinn í dag og sitja á skrifstofu með mörgum klukkum sem sýna tímann víðsvegar um heiminn.  Ég veit ekki hvað mér kemur við hvað klukkan er í New York, London, París eða Tokyo ef ég ætla að kaupa mér hlutabréf (sem ég hef engin efni á).  En og vonandi fellur þessi ríkisstjórn,  í vor og nýjir ferskir menn taka við.  Ég kaus allan þann tíma sem Steingrímur Hermannsson var formaður Framsóknar þann flokk en eftir að Halldór Ásgrímsson tók við skipti ég um og kaus Frjálslynda Flokkinn en eftir að hafa verið viðstaddur síðasta flokksþing þegar Margrét Sverrisdótti var nánast flæmd úr flokknum tók ég að efast.  Í síðustu kosningum kaus ég Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að ég vildi fá inná þing vin minn Einar Odd Kristjánsson sem ég tel hafa manna best vit á efnahagsmálum af þeim sem sitja á þingi í dag og talar mál sem við hinir venjulegu borgarar skiljum.   Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi eiga að skammast sín fyrir að hafa ekki Einar Odd í öruggu sæti það mun koma í ljós hve mikið tap það er að missa Einar Odd af þingi.   En hvað á ég að kjósa í vor ég mun ekki þora að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem ég myndi hiklaust gera ef ég tryði því í raun að mitt atkvæði kæmi Einari Oddi inná þing.  En ég er nú fluttur í Suðurkjördæmi og get ekki haft áhrif í Norðvesturkjörfæmi.  Þá er eftir Samfylkingin og Vinstri grænir og ég held að að þar muni Samfylkingin hafa vinninginn (Pabbi var einn af þeim sem var eðalkarati allan sinn aldur) og eins hef ég mikið álit á Ingibjörgu Sólrúnu sem stjórnmálamanni og vona að hún verði næsti forsætisráðherra Íslands og þar sem ég er öryrki treysti ég þeim best til að koma okkar málum í lag.  Framsókn endar nú sennilega á Sorpu sama hvað Jón Sigurðsson yftir mikð öxlum.  Staðreynd málsins er sú að við öryrkjar getum hvorki lifað eða dáið af því sem okkur er skammtað og litið á okkur sem ómaga á þjóðfélaginu og stöðugt er verið að lappa uppá löngu úrelt lög um Tryggingastofnun ríkisins en þar er slíkur frumskógur að komast í gegnum, hver er manns réttur.  Ég tel mig ekki heimskan mann eða illa menntaðan en ég hef aldrei á ævinni lent í eins miklu basli og að lesa mig til um minn rétt og ef maður fer í þjónustuver TR er svarið oftast hjá því yndæla fólki sem þar vinnur "Æ ég veit það ekki farðu inná heimasíðuna okkar og lestu þig til."   Ég hef lent í því að lenda í stórskuld við TR sem nokkuð er ljóst að ég get aldrei borgað.

Lokaorð:

Ný ríkisstjórn í vor og fólk sem vill vinna sín störf af alvöru, ég er búinn að fá nóg.  Hefjum til vegs á ný hið gamla slagorð "Manngildið ofar auðgildi,"    Áldrottningin Valgerður Sverrisdóttir lætur sig ekki muna um að opna ný sendiráð sem kosta tugi milljóna og sendiherrum hefur fjölgað svo mjög að nú munu vera um 10-15 sendiherrar verkefnislausir og sitja og horfa út í loftið.  Ég myndi alveg þyggja slíkt starf, þar sem ekki skipt máli hver starfgetan er, en það er ekki erfitt að horfa út um glugga eða leika sér á netinu.   En þótt ég nefni hér að ofan Ingibjörg Sólrúnu verð ég samt að viðurkenna að Steingrímur J. Sigfússon er sennilegast gáfaðisti þingmaður okkar, en Ingibjörg hefur þann hæfileika að stjórna liði og þjappa því saman þótt skoðanir væru ólíklegar .  En svona í lokin tryggjum Samfylkingunni og Vinstri grænum meirihluta í kosningumnum í vor, og þá mun margt lagast.


Hvað er sjávarútvegsráðherra að hugsa um að gera

Vinur minn Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra skrifar á bloggsíðu sína að það hafi verið haft eftir afa hans og nafna hinum mikla athafnamanni í Bolungarvík að þegar steinbítur færi að veiðast í miklu magi út af Skálavík væri vorið komið.  Lýsir Einar ráðherra því hvað gaman sé nú að fara niður á höfn og sjá bátana koma drekkhlaðna að landi og ræðir síðan um hvað það sé ánægjulegt að fá þær fréttir að mokveiði sé víða um land og gleðst yfir hvað ástand sjávar sé gott og talar um að margir bátar verði hættir veiðum vegna kvótaskorts áður en hið fræga hrygningarstopp á að hefjast.  Ég er ansi hræddur um að afi hans eða faðir hefðu ekki orðið ánægðir að þurfa að binda sín skip í mikilli veiði vegna þess eins þess eins að eitthvað reiknilíkan hjá Hafró segði að ekki væri til nægur fiskur í sjónum.  Hvað sem öllum reiknilíkönum varðar er það staðreynd að í nokkra áratugi hefur ekki verið önnur eins fiskgengd við Ísland.  Ég held að komin sé tími til að gefa Hafró frí í nokkur ár og fara eftir fiskifræði sjómannsins.  Það er oft sagt "Þeir fiska sem róa."  Og ætla að láta binda stóran hluta flotans nú væri brjálæði.  Fiskveiðar við Ísland hafa oft verið í miklum sveiflum og nýta ekki mikla uppsveiflu í fiskveiðum núna væri mikil heimska.  Nú ættti ráðherra að auka kvóta í öllum tegundum annars er verið að staðfesta í eitt skipt fyrir öll að núverandi kerfi um stjórn fiskveiða er tómt rugl og svo vitlaust að ekki verður búið við það lengur.   Við eigum að draga úr veiðum þegar lítið aflast og auka þær strax og vel aflast .  Ekki láta LÍÚ-mafíuna hafa áhrif á stjórn fiskveiða.  Því eftir að þær dragast saman hækkar verð á aflakvóta og efnahagsreikningur fyrirtæjanna lýtur betur út á pappírunum.  Ég fæ ekki betur séð að með óbreyttri stefnu eyði kvótakerfið sér sjálft enda hefur það lokið hlutverki sínu sem Halldór Ásgrímsson ætlaðist til, að gera hann að stórauðugum manni.   Taktu nú af skarið Einar Kristinn og láttu verkin tala, þú færð það margfalt til baka. 

« Fyrri síða

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband