Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Ferjuvandræði

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hina frægu Grímseyjarferju, það er komið nóg af því rugli öllu saman.  Hinsvegar ætla ég að benda á að vandræði með ferjur hér á landi eru ekki að koma upp í dag.  1999 var smíðuð ný ferja fyrir Hrísey og var skrokkurinn smíðaður í Pólandi en annað gert í Reykjavík.  Ég man ekki betur en mikil vandræði hafi verið af afhenda þessa ferju vegna þess að skrúfubúnaður virkaði ekki sem skyldi og nokkurra mánaðar töf varð á að klára smíði þeirra ferju og kostnaður varð miklu meiri en áætlað hafði verið.  1990 var smíðuð ný ferja á Akranesi, Baldur til siglinga á Breiðarfirði á milli Stykkishólms og Brjánslækjar þessi ferja leysti af hólmi skip með sama nafni og hafði það fram yfir þá eldri að hægt var að aka bílum um borð og frá borði.  Vegna þessa var lagt í mikinn kostnað við hafnaraðstöðu fyrir hina nýju ferju bæði í Stykkishólmi og á Brjánslæk svo auðvelt væri að aka um borð og frá borði.  Mikið var lagt upp úr því að ferjan yrði fljót í förum á milli, en þegar hún var sjósett kom í ljós að hún stóðst ekki kröfur um stöðugleika og var þá gripið til þess ráðs að setja um 150 tonn af ballest í skipið og hóf hún í framhaldi af því siglingar á áðurnefndri leið, en eins og oft vill verða þegar mistök uppgötvast á síðustu stundu og leysa á þau í flýti skapaði þessi lausn tvö önnur vandamál í staðinn sem voru þau að ferjan var það mikið lestuð og þyngri að hún náði ekki þeim ganghraða sem vonast hafði verið til og var hún 3-4 klukkutíma að sigla þessa leið en hafði átt að vera 2-3 tíma.  Annað vandamál kom líka upp en þar sem ferjan risti nú mun meira en áætlað hafði verið þurfti að breyta landaksturs brúm á báðum endastöðum og eins og margir vita er mismunur á flóði og fjöru hvergi meiri hér á landi en við Breiðafjörð og kom oft fyrir að bílar voru í vandræðum að aka frá borði ef þannig hittist á að háfjara var, sérstaklega var þetta erfitt á veturna ef mikið snjóaði og hálka skapaðist og voru dæmi um að draga hefði þurft bíla upp úr skipinu.  Þar sem ferjan var þetta lengi á leiðinni kusu margir að aka frekar en taka ferjuna og var það algengt yfir sumartímann en á veturna var ekki um neitt annað að velja þar sem vegir voru ófærir vegna snjóa.  Því auk tímans sem fór í sjálfa siglinguna þurfti sá sem var á bíl að vera mættur  um hálftíma fyrir áætlaða brottför svo að á sumrin var einfaldlega fljótara að aka.  Á síðasta ári var ákveðið að bæta heldur betur úr þessu og keypt ný ferja erlendis frá, hún var reyndar ekki ný heldur smíðuð 1990 og þessi nýi Baldur var tekinn í notkun á síðasta ári og átti nú að stytta ferðatímann verulega þar sem þetta er gangmikil ferja og mun stærri en sú eldri.  Á meðan eldra skipið var í notkun var sá háttur hafður á að í Stykkishólmshöfn sneri ferja við og bakkaði að akstursbrúnni og þannig ekið út og inn í ferjuna og á Brjánslæk kom ferjan með stefnið að akstursbrúnni og þannig ekið út og inn í ferjuna.  Eftir að hinn nýi Baldur kom en sá er um 24 metrum lengri en hinn eldri var ekki pláss í höfninni á Stykkishólmi til að snúa ferjunni og varð því að hafa þann hátt á að þar fer hún með stefnið að akstursbrúnni og á Brjánslæk þarf hún að snúa við og bakka að akstursbrú og ef eitthvað er að verðri getur það verið talsvert erfitt og seinlegt og vandræði eru með að binda landfestar því þegar ferjan er loks komin að bryggu á Brjánslæk nær skipið yfir 20 metra út fyrir viðlegukantinn sem var hannaður með tilliti til stærðar eldri ferjunnar.  Er því svo komið að sá tími sem sparast á siglingunni yfir Breiðafjörð tapast allur og jafnvel meira við að komast að bryggju á Brjánslæk er því nokkuð augljóst að leggja þarf í verulegan kostnað við hafnarframkvæmdir á Brjánslæk ef þessi ferja á að koma að þeim notum sem að var stefnt.  Eina ferja okkar íslendinga sem hefur staðið sig vel er gamli góði Herjólfur, en við hann vilja margir losna og hver er ástæðan?   Ætli svarið sé ekki bara það að allt er í lagi með skipið.   

Það er altalað

Mikið fer í taugarnar á mér þegar sumir eru að skrifa allskonar bull og vitleysu og segja að þetta eða hitt sé altalað eða að allir viti og er þá oft farið ansi frjálslega með sannleikann.  Það er auðvelt að fela sig bak við þessar setningar og þurfa ekki að standa við orð sín enda oft ómögulegt og eins og sumir telja sig hafa kvittað fyrir allt sitt kjaftæði með slíkum setningum.  Jafn virðuleg og ágæt verslun sem er Hagkaup auglýsir að þar finnist Íslendingum skemmtilegast að versla.  Ekki veit ég á hverju þeir byggja þessa fullyrðingu sína, hvergi hef ég orðið var við að nokkur könnun hafi verið gerð um þetta og ég veit um marga sem finnst hundleiðinlegt að versla í þessari annars ágætu verslun.  Hitt er nokkuð þekkt úr markaðsfræðinni að ef hamrað er stöðugt á ákveðnu slagorði fer fólk að líta á það sem hinn eina og stóra sannleik og leiðir ekki hugann að því, að kannski er þetta bara bölvað kjaftæði.   Stjórnmálaflokkar nota flestir ákveðin slagorð sem hamrað er á fyrir hverjar kosningar en gleymast síðan fljótt án þess að nokkur sakni þeirra sérstaklega þeir sjálfir.  Mitt mat er að þeir sem fela sín skrif með slíkum skrautfjöðrum séu bara aumingjar og hafi slæman málstað að verja eða fram að færa og geri lítinn greinarmun á sannleika og lygi. 

Göng til Eyja

Nú eru línur farnar að skýrast varðandi jarðgöng til Eyja og eftir að nýjustu skýrslur lágu fyrir ákvað ríkisstjórnin að af þessum framkvæmdum yrði ekki á næstunni, heldur snúið sér að næsta valkosti sem er bygging hafnar í Bakkafjöru.  Eyjajarlinn Árni Johnsen blæs á þessa ákvörðun og segir hana ranga og skýrsluna sem til grundvallar ákvörðuninni lá vera tómt rugl og ætlar að láta gera nýja skýrslu sem komi til með að staðfesta að göng til Eyja verði besti kosturinn og jafnframt sendir Árni öllum flokkum tóninn og segir að allir hafi svikið kosningarloforð frá því í vor.  Bæjarstjórinn í Eyjum sagði í viðtali að nú væri komið nóg af skýrslum og tími til komin að framkvæma eitthvað í samgöngumálum Eyjamanna.  Eins og flestir vita er Árni eins og jarðýta þegar hann ákveður að gera eitthvað og verður örugglega lengi í minnum haft öll listaverkin sem hann gerði meðan hann var á Kvíarbryggju og þurfti marga vörubíla til að flytja í burtu þegar Árni fór af staðnum og er því nær öruggt að ekki verði langt þangað til að Árni kemur fram með nýja skýrslu um jarðgöng til Eyja sem verður svo örugg um hagkvæmni þessara framkvæmda að ríkisstjórnin neyðist til að biðjast afsökunar á þessu frumhlaupi sínu og ef ekki verður þá heimilað að fara af stað með framkvæmdir má telja næsta öruggt að Árni Johnsen grefur bara göngin sjálfur og verður gaman að sjá samgönguráðherra þegar Árni býður honum að aka í gegn um göngin til Eyja.  En á meðan Árni er að grafa getur Magnús Toyota Kristinsson skutlað þeim sem mikið liggur á til lands í nýju þyrlunni sinni og jafnvel boðið uppá kaffi í leiðinni í sumarbústað sínum í Þykkvabænum.  Hræddur er ég um að eitthvað verði skrýtinn svipur á samgönguráðherra þegar Árni kemur með reikninginn fyrir göngunum þótt hann verði talsvert hár, þá mun hann aldrei verð svo miklu hærri en áætlanir gera ráð fyrir að hann slái við allri endaleysuninni í sambandi við Grímseyjarferjuna sem er orðið skólarbókardæmi um bruðl á opinberu fé og vitleysu.

Grandi hf.

Nú hefur Grandi hf. tilkynnt að fyrirtækið ætli að hætta allri fiskvinnslu í Reykjavík og kemur ekki á óvart þar sem vitað hefur verið lengi að ákveðið fjárfestingarfyrirtæki hefði áhuga á að eignast húsnæði Granda hf. til þess að rífa þau og byggja íbúðarhús í staðinn.  Það virðist ákveðin stefna í Reykjavík að afmá allt sem minnir á sjávarútveg.  Daníelsslippur er horfinn og fyrirhugað er að rífa stóra slippinn og húsnæði Stálsmiðjunnar og allt er þetta gert til að fá rými til að byggja íbúðarhús.  Í framtíðinni mun síðan verða komið hið mikla tónlistarhús sem framkvæmdir eru hafnar við og til að koma því fyrir þurfti að rífa nokkur mikil mannvirki.  Mikið er lagt uppúr svokölluðum bryggjuhverfum og þeir sem þar ætla að búa vilja að sjálfsögðu ekki hafa í nágrenni við sig fyrirtæki sem vinna fisk eða slippa þar sem oft er talsvert sóðalegt og er því krafan að fara í burt með allt þetta drasl og kæmi mér ekki á óvart að innan fárra ára yrði fiskiskipum bannað að koma í Reykjavíkurhöfn aðeins skútur og skemmtibátar.  Ég er einn af þeim sem fynnst ég ekki vera komin til Reykjavíkur fyrr en ég er búinn að fara einn rúnt um höfnina til að skoða bátana og skipin og verða því mikil viðbrigði þegar þar sést ekki eitt einasta fiskiskip og er er nú farinn að halda að ég sé bara sérvitur vitleysingur.  Ég var nýlega að lesa grein í Mbl. þar sem mikið menntuð kona var að dásama hina miklu grósku sem væri í fjármálalífinu og viðskipalífinu öllu og sagði frá því að hinar miklu breytingar á atvinnulífi þjóðarinnar kæmi meðal annars fram í því að við tækjum varla eftir hinum mikla niðurskurði á þorskkvótanum og er þetta örugglega rétt hjá þessari gáfuðu konu en hræddur er ég um að hún tæki eftir ef laun hennar lækkuðu um 30% 1. september nk. eins og stefnir í hjá þeim sem við sjávarútveginn starfa, en þeir aðilar eru nú hvort sem er alltaf að kvarta og barma sér svo enginn hrekkur við eitt vein í viðbót það líður bara hjá.  Þótt sumir í greininni fari á hausinn er það bara fórnarkostnaður sem viðkomandi verða að færa fyrir að hafa valið sér ranga starfsgrein.

Einkavinavæðingin

Nú eru ráðherrar í núverandi ríkisstjórn farnir að deila um RÚV, Björn Bjarnason skrifar um að réttast væri að selja RÚV að undanskilinni Rás 1 sem ég skil nú varla afhverju ekki má fljóta með ef á að selja, en Þorgerður Katrín menntamálaráðherra segist ekkert kannast við að slíkir hlutir hafi verið ræddir.  Ekki veit ég hverju maður á að trúa því bæði eru þau jú í Sjálfstæðisflokknum og hljóta þar af leiðandi að segja satt og hlýtur því einhver misskilningur að vera þarna á ferð.  Hins vegar er ég algerlega sammála Birni Bjarnasyni.  Auðvitað á að selja RÚV og fleiri fyrirtæki í eigu ríkisins og er af nógu að taka, mikið eftir í pottinum ennþá eins og stundum er sagt.  Það sést best hvernig að til tókst með sölu á ríkisbönkunum.  Þar sem áður voru langar biðraðir eftir að fá smálán, liggur við að fólki sé smalað inní bankana til að taka lán, allt fullt af peningum, þeir bankar sem áður voru í eigu ríkisins skila nú á hálfu ári meiri hagnaði en nam söluverði þeirra svona er hægt að snúa hlutunum við af þeim sem kunna til verka.  Við eigum enn eftir að selja RÚV, Landsvirkjun, Vegagerðina, ÁTVR, Seðlabankann, Fiskistofu, Þingvelli, Bessastaði, Þjóðarbókhlöðuna, sjúkrahúsin, allar orkulindir, fiskinn í sjónum, vatnið ofl.  Það yrði ekki neinir smáaurar sem kæmu í ríkiskassann og við gætum jafnvel selt Alþingi því að því fylgja tóm vandræði og þeir sem eru kjörnir á þing gera lítið annað en að rífa kjaft og skammast útí allt og alla, það væri örugglega hægt að selja hvert þingsæti fyrir góðan pening að ég tali nú ekki um ráðherrasæti.  Þessu fylgir að vísu eitt vandamál en það er hvernig á að finna réttu vinina sem fá að kaupa en það var ekki vandamál þegar Framsókn var í stjórn en getur orðið erfiðara með Samfylkinguna þar sem menn liggja ekki á neinu gömlu erfðagóssi eða auðævum, en allt er hægt að kaupa ef ekki þarf að greiða nema eitthvað lítilræði fyrir.  Nú ef menn hafa ekki peninga til að kaupa verður einfaldlega bara að gefa þeim þá og nokkuð öruggt að leið finnst til þess.  Því allt er hægt að leysa ef nægur vilji er fyrir hendi og vilji er allt sem þarf sagði einhver einhverntíman.

Hinir ríku

Um síðustu mánaðarmót birtu skattstjórar þessa lands, álagningaskrár opinberra gjaldi vegna tekna ársins 2006 og hafa verið skiptar skoðanir á því hvort þessar upplýsingar eigi að vera öllum aðgengilegar eða ekki og gefinn hafa verið út tvö blöð þar sem stór hluti af þessum upplýsingum er birtur.  Ég er þeirrar skoðunar að núverandi fyrirkomulag sé bara nokkuð gott.  Yfir þessu á ekki að hvíla nein leynd og sé ég ekki tilganginn með því og allt tal um að fólk skoði þessar upplýsingar til að njósna um náungann og stuttbuxnadeildin í Sjálfstæðisflokknum talar mikið um, er þvílíkt bull að ekki þarf að ræða það.  Þeir sem greiða há gjöld hafa að sjálfsögðu miklar tekjur og er það ekkert sem viðkomandi þarf að skammast sín fyrir þvert á móti eiga allir sem hafa há laun að vera stoltir af því.  Ég tel að enginn hafi mjög há laun nema vegna þess að vinnuveitandi viðkomandi finnist hann/hún eiga það skilið og vinni fyrir sínum launum.  Eitt er þó athyglisvert að fyrir daga kvótakerfisins var algengt að á landsbyggðinni röðuðu sér í efstu sæti yfir hæðstu skattgreiðendur skipstjórar og útgerðarmenn en nú sjást þeir varla nema útgerðarmenn sem hafa hagnast á sölu sinna veiðiheimilda að vísu finnast inn á milli hákarlar á borð við Þorstein Má Baldvinsson hjá Samherja og Magnús Kristinsson útgerðarmaður í Eyjum  en hann á nú líka Toyotaumboðið sem sjálfsagt skilar honum einhverjum krónum.  En þegar litið er yfir landið í heild eru það bankastarfsmenn sem standa upp úr og má segja að sú atvinnugrein sé að skáka sjávarútveginum sem ég hélt í minni einfeldni að væri sú atvinnugrein sem væri okkar þýðingarmest en ég hef greinilega miskilið eitthvað og kannski er sjávarútvegurinn að verða eins og landbúnaðurinn að þar eiga bara heima sérvitringar sem ekki skilja nútímann og eru að einangrast í sjávarþorpunum víða um land.  Nei framtíðin er að selja hvert öðrum verð- og hlutabréf og sitja við tölvuskjái með klukkur upp um alla veggi sem sína tímann í hinum ýmsu stórborgum heimsins á hverjum tíma og skoða vísitölur og gengi víða um heim.  Framtíðin er að vinna í banka með peninga og fá góð laun ekki vera að basla í einhverri atvinnugrein sem er að verða úrelt.  Sjávarútvegurinn er að fara sömu leið og landbúnaðurinn að vinna í þeim greinum er að verða einskonar hugsjón og fækkar störfum þar mikið og á eftir að fækka enn meira á næstu árum.  En hinu má aldrei gleyma að sjávarútvegurinn gerði þessa þjóð að því sem hún er í dag.   Ég er einn af þessum sérvitringum sem hafa haldið að sjávarútvegurinn væri þýðingarmikil atvinnugrein og kemur það sennilega til af því að nánast alla mína starfsævi hef ég starfað þar og ólst upp í litlu sjávarþorpi þar sem allt snerist um útgerð og fisk.  Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim störum sem eru í fjármálageiranum, einhver verður að vinna þau og ekki öfunda ég þá sem þar starfa og fá há laun, sem eðlilegt er og sjálfsagt hefði það ekki skipt nokkru máli hvað mikið má veiða af fiski á næsta ári við hefðum jafnvel getað bannað allar fiskveiðar án þess að stór hluti þjóðarinnar tæki eftir því.  Við hefðum bara í staðinn sett aukinn kraft í að leggja vegi og byggja íbúðar- og atvinnuhúsnæði um allt land því ekki virðist skipta nokkru máli hvort kaupendur eru að þessum eignum eður ei.  Nú er ég hinsvegar orðinn öryrki og má enga vinnu stunda fyrr en ég er orðinn 70 ára en þeir ríku sjá til þess að alltaf er nóg til í kassanum til að ég fái mínar bætur á réttum tíma og þótt þessar bætur rétt dugi til að draga fram lífið og horfa í hverja krónu hjálpar mér ekkert að öfundast útí ríkt fólk.  Sá sem er ríkur í dag getur orðið fátækur á morgun.  Ef grant er skoðað er framtíð Íslands í því fólgin að stöðugt fjölgi ríku fólki svo framanlega að það hafi orðið ríkt á heiðarlegan hátt sem ég tel að flestir hafi orðið.  Ekki væri ástandið gott ef hér væri bullandi fátækt hjá flestum og enginn gæti gert eitt né neitt en þar sem sjávarútvegurinn er að skipta okkur sífellt minna máli eru ekki lengur hægt að nota hann í andstöðu við að Ísland gangi í ESB.  Kannski væri best að biðja bara Dani að taka við okkur aftur og þá værum við um leið komin í ESB og ættum meira að segja alvöru drottningu og síðar meir konung og væri þá ríka fólkið ekki í slæmum félagsskap.

Verslunarmannahelgin

Nú stendur sem hæðst hátíðarhöld víða um land í tilefni verslunarmanarhelgar og er eins og margir sjái sig tilknúna til að fara eitthvað um þessa helgi og helst drekka sig fulla með tilheyrandi vandræðum og peningaeyðslu.  Ég er einn af þeim sem kaus að halda mig heima þessa helgi enda bíllinn minn ekki í ástandi til langferða því endalegri viðgerð á honum er ekki lokið vegna þess að verið er að bíða eftir varahlutum og get ég ekki ekið honum nema stuttar vegalengdir en nóg til að komast í búð ofl.  Ég græt það ekkert þótt ég þurfi að vera heima, því ég verð að halda mig frá áfengi en nú er að verð um tveir mánuðir síðan ég féll í bindindinu og ætla ekki að láta það koma fyrir aftur, heldur standa við það sem ég hef lofað mér sjálfum, því maður fer auðvita í bindindi fyrir sjálfan sig en ekki aðra.  Þótt ég hafi fallið þegar var að verða komið eitt ár í bindindi er tilgangslaust að velta sér of mikið upp úr því heldur halda ákveðinn áfram eins og ekkert hafi í skorist því annars er hætta á að maður missi tökin á þessu aftur og því verður ekki breytt sem liðið er, en framtíðinni getur maður breytt og þetta fall mitt gerir mig enn ákveðnari í að standa mig og ég dreg af þessu þann lærdóm að ekki þýðir að reyna að prufa þótt það eigi bara að vera einn bjór.  Maður verður bara einfaldlega að viðurkenna að áfengi og ég getum ekki átt samleið lengur og er það ekkert til að syrgja, lífið býður upp á svo margt annað sem er mikilvægara og skemmtilegra.  Svo ég svíki nú aftur að þessari helgi er ekki hægt annað en brosa þegar maður hugsar um alla þá sem eru að ferðast og draga á eftir sér stærðarinnar hjólhýsi sem kosta 5-6 milljónir með öllum þægindum og svo er þessu plantað á einhverjum stað og sest niður í öllum lúxusnum og horft á sjónvarp eða verið á netinu, því tölvur eru víst ómissandi hluti af þessum lúxus og má því spyrja hvort ekki hefði einfaldlega verið þægilegra og ódýrara að vera bara heima, því heima er jú alltaf best.

« Fyrri síða

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband