Pólski kokkurinn

Fyrirtækið Pétursvör ehf. á Bíldudal átti skipið Sigurbjörg Þorsteins BA-65 sk.nr. 1100, en að þessu félagi stóðu ég og næstelsti sonur minn og okkar eiginkonur.  Gerðum við þetta skip út á línu-, troll-, neta-, humar-, og hörpudiskveiðar.  Alltaf var fastur kjarni í áhöfn hjá okkur sem voru 6 menn.  Það voru við feðgar, kokkur og vélstjóri frá Bíldudal, 1 færeyingur og 1 pólverji, sem báðir voru búsettir á Bíldudal.  Sonur minn var skipstjóri og fyrstu árin var ég stýrimaður en seinna þegar illa gekk að fá vélstjóra fór ég í Vélskólann, þá orðinn 48 ára gamall og eftir það tók ég við sem vélstjóri og nýr maður búsettur á Patreksfirði tók við sem stýrimaður.  pólverjinn var svo til  nýbyrjaður á sjó, en færeyingurinn sem hafði flutt hingað til lands eitthvað fyrir 1960 var þrælvanur togaramaður, stór og mikill og einn af þessum gömlu togarajöxlum sem ólust upp við mikla vinnuhörku á síðutogurunum og borðaði á við tvo menn. Ekki vorum við að fækka í áhöfn þótt skipt væri um veiðarfæri og hægt að komast af með færri menn því við vildum halda í þennan kjarna sem við höfðum.  Því fátt er verra en að vera að segja mönnum upp og þurfa svo að fara að leita að nýjum þegar á þurfti að halda fyrir utan það að þessi 6 manna hópur var orðin mjög vel þjálfaður að vinna saman og allt gekk eins og smurð vél, en að vísu réðum við 1-2 menn þegar við fórum á netin þar sem við slægðum allan aflann um borð og var þá alltaf um tímabundna ráðningu að ræða.  Sumarið 1999  var ákveðið að fara á rækju og gera út frá Bolungarvík og lönduðum alltaf þar, ástæða þess að við völdum Bolungarvík var sú að rækjuverksmiðjan þar útvegaði okkur endurgjaldslaust öll veiðarfæri.  Þar sem nægjanlegt var á rækjuveiðunum að vera 4 um borð var um það samið að eftir hverja veiðiferð færu 2 menn í frí í tvær veiðiferðir og voru allir sáttir við það og fannst bara gott að fá svona mikið frí yfir sumarið en úthafsveiðar á rækju er sá léttasti veiðiskapur sem hægt er að hugsa sér a.m.k hjá þeim sem þurfa að vinna á dekki, togað er í 10-12 tíma og þótt afli sé nokkuð góður var ekki nema um klukkutíma að hreinsa rækjuna og ísa í kör í lestinni, því það hélst nokkuð í hendur að eftir því sem veiðin var meiri, þeim mun hreinni var rækjan.  Við fórum allir í fyrsta túrinn þar sem aðeins einn um borð hafði verið á rækjuveiðum áður, en hinir aldrei og svo kom að því að menn byrjuðu að taka frí-túrana.  Þegar kom að kokknum sem var búinn að vera kokkur á sjó í fjölda ára og snilldarkokkur, var farið að skoða hver gæti leyst hann af bauðst ég til þess, þar sem skipstjórinn  togaði yfir daginn en ég sem stýrimaður á nóttinni gat það alveg gengið upp og ég hafði oft leyst kokkinn af.  Þegar við vorum að byrja veiðar í síðasta túrnum áður en kokkurinn færi í frí lét skipstjóri mig vita hlægjandi að ég þyrfti ekki að leysa kokkinn af sá pólski sækti það fast að fá að leysa hann af og hefði hann láti það eftir honum en bætti svo við, ekki veit ég hvernig matur verður í næsta túr en þú hjálpar honum ef hann lendir í miklum vandræðum.     Ástæðan hjá pólverjanum var ekki sú að hann langaði svona mikið til að elda, heldu vissi hann að hann sem háseti fékk hann 1 hlut en kokkurinn 1,25 og var hann fyrst og fremst að að þessu til að fá hærri laun. Næstu daga fór sá pólski í eldhúsið til að fylgjast með þegar kokkurinn var þar við störf og tók ég eftir að hann var með litla vasabók sem hann var alltaf að skrifa eitthvað í og greinilegt að hann ætlaði að standa sig vel.   Við vorum yfirleitt 5 daga á veiðum og lönduðum að morgni 6. dags og fórum út á þeim tíma sem passaði til að byrja dag-togið.  Fórum við yfirleitt úr höfn frá kl: 16,00 til 21,00 og fór það eftir veðurspá og fallaskiptum, því nokkuð langt stím var á miðin frá Bolungarvík og munaði talsvert miklu að hafa strauminn með sér.  Þegar við vorum búnir að landa og taka kör og ís um borð og gera klárt fyrir næsta túr, röltum við oft á matsölustað sem einnig var pöbb, rétt fyrir ofan höfnina og þar gat maður setið og fengið sér bjórglas og lesið dagblöðin.  Nú var ákveðið að kokkurinn sem var að fara í frí, pólverjinn og ég færum í verslunina til að panta kostinn fyrir næsta túr.  Ég átti að fara með til að aðstoða pólverjann með kostinn næst þegar við lönduðum, því sá sem var að fara í frí yrði ekki um borð næstu tvo túra.  Verslunin var nánast næsta hús við áðurnefndan pöbb og kokkurinn sem þótti gott að fá sér hressilega í glas, var alltaf vanur því að koma þar við þegar hann fór að panta kostinn og fá sér nokkur glös af Vodka.  Áður en við þrír fórum í land hélt kokkurinn smá kennslustund fyrir pólverjann og sagði við hann, nú sýni ég þér hvernig ég fer að við að panta kostinn og þú verður að gera allt nákvæmlega eins og ég, annars fer þetta allt í tóma vitleysu hjá þér og eins og þú veist er færeyingurinn talsvert skapmikill og ef honum mislíkar maturinn hjá þér, gæti hann orðið svo reiður að hann hreinlega henti þér fyrir borð.  Síðan fórum við þrír í land og gengum í átt að versluninni og þegar við komum að pöbbnum stoppar kokkurinn og lyftir hendinni og segi við þann pólska grafalvarlegur á svip, hér hefst kennslan og við byrjum á lið nr. 1 og gengur inn á pöbbinn og við á eftir og setjumst allir saman við borð.  Kokkurinn byrjar á að panta eitt glas af þreföldum vodka í kók og ég eitt bjórglas en pólverjinn ekkert.  Kokkurinn sagði við hann ætlar þú ekki að fá þér neitt?  nei of  mikinn pening kosta svaraði sá pólski.  Kokkurinn horfði reiðilega á hann og sagði, þetta er ekki hægt og barði í borðið og bætti síðan við, þú ert alger aumingi og býður þig fram til að sinna mínum störfum, ég mátti labba í land strax eftir löndun og fara heim, en af hreinni góðmennsku við þig, ætlaði ég að hjálpa þér af stað og á fyrsta lið kennslunnar klikkar þú.  Þetta mun aldrei ganga hjá þér og ég ætla að láta skipstjórann vita að þetta sé vonlaust og þú ert nú þegar búinn að móðga mig og ef þú tímir ekki að fá þér einn bjór skal ég borga hann fyrir þig en annars áttir þú að fá þér sama og ég, að drekka en ég fyrirgef þér það nú af því því ert aumingi og getur ekki drukkið meir en smábarn og pantaði svo einn bjór fyrir pólverjann, borgaði hann og hallaði sér fram á borðið og sagði reiðilega, ef þú drekkur ekki þennan bjór skaltu andskotast út og þetta mál er búið, ég fer og ræði þetta við skipstjórann.   pólverjinn sem var orðinn náfölur í framan byrjaði að snakka á bjórnum og tók einn og einn smásopa af og til.  Kokkurinn var nokkuð fljótur úr sínu glasi og pantað strax aftur þrefaldan Vodka í kók. um 20 mínútum síðar var sá pólski ekki nær hálfnaður úr glasinu en kokkurinn búinn með sitt annað glas og pantaði strax aftur sömu blöndu og áður og var nokkuð fljótur með það glas og pantaði þá það fjórða eins og áður.  Sagði þá við pólverjann ætlar þú aldrei að verða búinn með þennan eina bjór, við getum ekki setið hér í allan dag við erum á leið í verslun.  Ef ég þarf að sitja hér mikið lengur verð ég orðinn blindfullur og hvað heldur þú að konan mín segi við mig þegar ég kem heim, hún verður brjáluð og ætlar þú að hafa það á samviskunni að eyðileggja mitt hjónaband.  Fór nú pólverjinn að taka stærri oft sopa af bjórnum og loks kom að því að við héldum áfram á leið í verslunina og á leiðinni segir kokkurinn, hvað er að ske, ég er bara farin að finna talsvert á mér og drakk ég nú aðeins fjögur glös ég hlýt að vera orðinn eitthvað veikur.  Svo komum við að versluninni og fórum inn, kokkurinn dró upp kostlista og um leið og við gengum í gegnum búðina merkti hann við af og til og sagði pólverjanum að skrifa niður hvaða dag hann ætti  að nota hverja vöru og númera dagana frá 1 til 5 og gerði hinn það samviskusamlega, þegar við komum að hrísgrjónunum segir kokkurinn við verðum að taka talsvert af þessu og þegar þú eldar þetta verðurðu að passa þig á því að elda talsvert mikið, því færeyingurinn borðar svo mikið af hrísgrjónagraut, það er eitt það besta sem hann fær, svo héldum við áfram, þegar við komum að hillu sem var full af súpum og sósum í bréfum merkti kokkurinn á kostlistann nokkrar súpur og sagði við væntanlegan kokk  það er nú svo auðvelt að elda þetta nánast eins auðvelt og að pissa og merkti síðan við talsvert magn af sósum í bréfum og sagði við pólverjann, ég reikna ekki með að þú kunnir að búa til sósur maður sem er í hinum mestu vandræðum að drekka einn bjór og þú verður að finna út hvaða sósa á að vera með hverjum rétti en við förum betur yfir það á eftir.  Þegar kostlistinn hafði verið útfylltur skrifaði kokkurinn undir og afhenti afgreiðslumanni sem sagði að þetta yrði komið á bryggjuna eftir tvo tíma, kokkurinn fékk afrit af pöntuninni, síðan fórum við út og á leiðinni til baka gengum við aftur framhjá pöbbnum.  Þá stoppar kokkurinn og segir hér förum við inn  og ég ætla að fara yfir þetta með pólverjanum og hjálpa honum að raða þessu niður á dagana og eins að segja honum hvaða sósur hann á að nota við hvern rétt.  Það kom skelfingarsvipur á pólverjann en samt kom hann með okkur inn.  Við settumst við sama borð og áður,  kokkurinn pantaði  sér glas af þreföldum vodka í kók, einn bjór fyrir mig og sagði ákveðinn við pólverjann þú færð ekkert, því þú ert að fara að taka á móti kostinum og síðan út á sjó og það gerir þú ekki undir áhrifum víns.  Það er einfaldlega stranglega bannað, síðan fór hann vandlega yfir allt sem hafði verið pantað og hvenær ætti að nota hverja vöru og sá pólski skrifaði í minnisbókina sína á fullri ferð og tók síðan í höndina á honum og sagðist vona að allt gengi nú vel hjá honum og þá var hinn nýi kokkur formlega tekinn við og gerði sig líklega til að fara.  Kokkurinn kallaði í hann áður en hann náði að dyrunum og sagði við hann, hvaða æsingur er þetta það liggur ekkert á, okkur var sagt að kosturinn kæmi eftir tvo tíma sestu nú hérna hjá okkur smá stund og spjallaðu við okkur elsku karlinn minn.  Sá pólski kom og settist hjá okkur, en samt var ekki laust við að smá hræðslu gætti hjá honum og í eitt skiptið þegar smá töf varð á afgreiðslu gekk kokkurinn að afgreiðsluborðinu og lamdi allfast í borðið og strax kom hlaupandi ein dama sem var að afgreiða og hann sagið frekar reiðilega er enginn þjónusta hér, þið sitjið og kjaftið hér fyrir innan á meðan maður bíður eftir afgreiðslu.  Fyrirgefðu svaraði daman og spurði hvað hann ætlaði að fá, það er nú bara eitt glas af léttum drykk sem fer vel í maga sagði kokkur og bætti síðan við það er eitt glas að þreföldum vodka í kók. það er svo hollt, síðan klóraði hann sér aðeins í hausnum og bætti við, hafðu hann bara fjórfaldan svo ég þurfi ekki að trufla ykkur of mikið.  Við sátum þarna góða stund og þótt talsvert væri farið að svífa á kokkinn fylgdist hann vel með tímanum og eftir ákveðinn tíma og nokkur glös stóð hann upp og sagði, ég ætla að labba með ykkur niður á bryggju því kosturinn á að vera komin og við skulum fara og ganga frá honum og raða öllu í rétta skápa svo allt verði nú í lagi.  Við fórum síðan niður á bryggju þar sem báturinn lá og þar var kominn kosturinn og við tókum hann um borð og öllu var komið fyrir á réttan stað, að loknu því verki tók kokkurinn utan um pólverjann og sagði.  Ég vona síðan að allt gangi vel elsku vinur og ef þú ert í vandræðum ,  kallaðu þá bara á hann Kobba sem mun hjálpa þér og kyssti þann pólska að skilnaði og bætti síðan við, ég mun hugsa til þín á hverjum degi og ef svo ólíklega vildi til að ég fengi mér í glas í fríinu skal ég skála fyrir þér, síðan tók hann sína tösku og fór í land.  Brátt fóru aðrir úr skipshöfninni að mæta um borð og um kl. 20,oo létum við úr höfn frá Bolungarvík.  Þar sem ég sem stýrimaður átti næturvaktina kom það í minn hlut að taka við stíminu þegar við vorum komnir úr höfn og skipstjóri fór í koju.  Um miðnætti kemur hinn nýiji kokkur til mín uppí brú og færir mér kaffi og nokkrar smurðar brauðsneiðar og segir,  þetta gott að borða fyrir nótt Jakob. og var með þessu að sýna mér að hann ætlaði að standa sig.   Veðrið var mjög gott og þar sem við höfðum straumfallið með okkur gekk ferðin vel og um kl 07.oo ræsi ég skipstjórann og hann tekur við stjórn skipsins og skömmu síðar kallar hann í hátalarakerfið að við skulum láta trollið fara og gekk það vel allt fór klárt og byrjað var að toga og þar sem ég var orðinn þreyttur eftir að hafa vakað í rúman sólahring og framundan var 10-12 tíma tog, var ég fljótur inn í minn klefa og steinsofnaði.  Var síðan ræstur um kl. 12,oo en þá var kominn hádegismatur og dreif ég mig því í mat, hinn nýi kokkur var brosandi út að eyrum og stoltur setti hann á borði' hitaðar pylsur og soðnar kartöflur.  Og sagði á sinni íslensku ef ekki matur góður. koma skal betra matur í kvöld.  færeyingurinn sem var frekar dómharður sagði, ekki verður maður nú saddur af þessu.   Ég læddist í ísskápinn og náði í tómarsósu, sinnep og lauk sem var þar tilbúið frá fyrri kokki og kom með þetta á borðið og sagði við færeyinginn sýndu mér nú hvað þú getur borðað mikið.  Hann fór á fulla ferð og pylsurnar runn ofan í hann eins og þyrstur maður drekkur vatn og brátt var allt búið og kallar þá færeyingurinn á þann pólska, hvað er ekki til nóg af mat þarf maður að standa svangur uppfrá borðinu.  Sá pólski brosti sínu breiðasta brosi og skellti einum pakka af pylsum á borðið sem rann fljótt niður hjá færeyingnum og þegar það var búið kom pólverjinn  með þriðja pakkann og fljótlega eftir það stundi færeyinguirinn upp. Nú get ég ekki meira og strunsað út á þess að þakka fyrir matinn.  Sá pólski ljómaði af hamingju, fyrsta máltíðin búinn og hann taldi sig nú fær í flestan sjó hvað matseldina varðaði.  Ég var áfram nokkuð syfjaður og ákvað að fara aftur að leggja mig þar sem ekki yrði híft fyrr en í fyrsta lagi kl. 19,oo og fór aftur að sofa.  Vakna síðan aftur við að hr, Kokkur kemur vaðandi inn í klefann hjá mér og hrópar, hjálp, hjálp, Kobbi, Kobbi, þú koma strax og hjálpa, mikið vandamál og teygir úr báðar hendur og segir svo stórt vandamál.  Ég klæddi mig og leit á klukkuna og var hún rúmlega 17,00 og gat passað að hann væri byrjaður að elda kvöldmat og hljóp ég á eftir honum inn í eldhús og þar féllust mér algerlega hendur.  Á eldvélinni stóð stærðar pottur og út úr honum vall hrísgrjónagrautur eins og hraunstraumur yfir alla eldavélina og var farið að renna niður á gólf, pólverjinn benti á færeyinginn sem sagt og borðaði hrísgrjónagraut eins hratt og hann gat og sagði sá pólski, færeyingur  hjálpa og hjálpa en bara ekki nóg.  Ég slökkti á hellunni og tók stóran pott og ausu og fór að minnka magnið í grautarpottinum og sagði við þann pólska hvað settir þú mikið af vatni og hrísgrjónum í pottinn?  Bara 1 ltr. af vatni og einn pakka af hrísgrjónum.  Ég tók pakkann úr ruslinu og sýndi honum og sagði, sjáðu hér er sýnt að ef þú ert að elda fyrir 4 á að setja 1 til 1,5 ltr. af mjólk, 0,5 ltr. af vatni og 75 gr. af  hrísgrjónum því hrísgrjónin bólgna svo út þegar þau fara að sjóða en þú hefur látið 2 ltr. af vatni og tæp 1000 gr. af hrísgrjónum sagði ég.  Ég bara vilja elda mikið því mig við segja Kokkur að færeyingur finnast mjög gott borða svona graut og þegar upp koma úr potti mikið, mikið, grautur ég biðja færeyingur hjálpa og koma og borð mikið, mikið.  Ég sagði við hann, farðu nú að þrífa allt eldhúsið, ég er farinn að sofa aftur og yfirgaf hrísgrjónaveisluna  og um leið heyrði ég færeyinginn stynja og segja, nú get ég ekki meir og lagðist útaf á bekkinn sem hann sat á og var gjörsamlega búinn.  Ég fór hinsvegar í minn klefa og hélt áfram að sofa  Um kl:18,00 er ég ræstur og sagt að það sé kominn kvöldmatur og við skyldum borða áður en farið yrði í að hífa, þegar ég kom í borðsalinn var sá pólski búinn að þrífa allt og leggja á borð og komið brauð og álegg hann sagði bara svona núna brauð og svo mikill grautur til.  Ég borðaði nokkrar brauðsneiðar og fékk mér kaffi en afþakkaði grautinn og sama gerði færeyingurinn.  Síðan var híft og eftir að við höfðum látið trollið fara og vorum búnir að ganga frá aflanum var farið í kaffi, ég var fljótlega kallaður uppí brú til að taka við að toga og skipstjórinn fór í koju.  Um miðnættið kom pólverjinn og færði mér kaffi og nokkrar brauðsneiðar og var lengi að vappa um í brúnni.  Sagði síðan skælbrosandi á morgun ég góðan mat hafa og bauð síðan góða nótt.  Um morguninn eftir að við vorum búnir að hífa var farið í kaffi og sá ég að pólverjinn var mikið að skoða vasabókina sína sem hann var greinilega búinn að skrifa mikið í og las nú mjög niðursokkinn í hádeginu var allt í lagi smurt brauð og ágætis súpa með.  í kvöld mikil vera veisla sagði hann okkur öllum.   Sú mikla veisla fór nú aðeins öðru vísi en ætlað var.  Hann hafði um nóttina soðið hangikjötsrúllu og kælt hana niður og skorið í sneiðar og raðað öllu snyrtilega á stóran bakka, einnig voru á borðinu grænar baunir, rauðkál og kartöflur.  Hann stóð við eldavélina og hrærði stöðugt í litlum potti og sagði okkur að sósa bráðum koma.  Svo kom sósan frekar þykk brún sósa, vélstjórinn stóð upp frá borðinu og hundskammaði pólverjann og sagði ég hef aldrei lent í því á ævinni verið boðið hangikjöt með brúnni sósu.  kokkurinn náði í bréfið sem hafði verið utan um sósuna og benti á að þar stæði að þessi sósa væri ætluð með kjöti og spurði okkur undrandi og benti á hangikjötið er þetta ekki kjöt.  Vegna þess hvað hann var aumur eftir lestur vélstjórans sem hafði rokið út og borðaði ekkert létum við hinir sem eftir sátum okkur hafa það og borðuðum nokkuð vel og sá færeyski einna mest og þegar skipstjórinn fór og skoðaði í búrið og kom til baka með annað bréf sem í var hvítur sósujafningur og sagði við hann. það var þessi pakki sem þú áttir að nota og mundu það næst og eins ef þú eldar bjúgu þá notar þú þetta og brosti þá hinn nýbakaði kokkur og sagði nú bara ekki rétta pakki, en þegar hann síðan kom með grjónagrautinn sögðu allir nei takk og náði hann þá í tvær dósir af blönduðum ávöxtum og þeytti rjóma og lét á borðið og spurð þetta kannski meira betra sögðu allir já takk.  Lauk þá þessum erfiða degi í starfi kokksins og hann fór að gera sig kláran í uppvaskið.  Næsta dag var í hádeginu smurt brauð og hin besta súpa og kom þá í ljós að þar sem hann bjó einn á Bíldudal var hann þrælvanur að elda súpur úr pökkum.  Þegar kom að kvöldmatnum var á borðinu bjúgu og þessi fína hvíta sósa með svo jafnvel vélstjórinn hrósaði honum fyrir.  Kláraði hann síðan túrinn í eldamennskunni án þess að mikið færi úrskeiðis og eftir löndun í Bolungarvík fórum við tveir sama í verslunina til að panta kostinn fyrir næsta túr.  Þegar við nálguðumst pöbbinn sem áður er talað um fór ég að taka eftir að smá skelfingarsvipur var að koma á vininn og við pöbbinn stoppaði ég og sagði við hann, við förum inn smá stund, ég ætla að fá mér einn bjór og kíkja í blöðin, ekki sama og eins var síðast sagði hann og þegar ég sagði nei kom hann með mér inn og ég fékk mér einn bjór og síðan fórum við í verslunina og gengum frá öllu þar og á leiðinni til baka þegar við fórum framhjá pöbbnum stoppaði pólverjinn og spurði undrandi ekki fara inn aftur?  Nei, nei sagði ég við förum bara um borð en hlauptu inn og náðu í poka með dagblöðunum sem konan ætlaði að gefa okkur og gerði hann það og kom brosandi út, og við gengum saman til skips.  Þar sem færeyingurinn myndi verða sextugur í næsta trúr höfðum við tekið með kostinum nokkra tertubotna og lítil kerti til að halda upp á afmælisdaginn í túrnum.  Þegar afmælisdagurinn rann upp aðstoðaði ég pólverjann að búa til tvær nokkuð stórar og matarmiklar tertur og höfðum við sex kerti á hvorri.  Eins höfðum við keypt súpukjöt ofl. til að nota í kjötsúpu.  Við vorum búnir að láta hina skipsfélaganna vita að það yrði veisla um miðjan daginn og mættu allir nema færeyingurinn sem kvaðst vera svo listalaus.  Vorum við því 3 sem settumst niður í afmæliskaffið og rétt náðum að klára aðra tertuna og var hin því sett í kælir ósnert og færeyingurinn látinn vita svo hann vissi um tertuna ef hann fengi matarlystina á ný.  Eftir að pólverjinn hafði gengið frá öllu ákváðum við að elda súpukjötið og kjötsúpu.  Þegar kjötið var orðið soðið lækkaði ég hitann og sagði við pólverjann þá er það kjötsúpan næst.  Hann hljóp til og kom með alla súpupakkana sem hann fann og spurði hvað súpa þú vilja nota, ég sagði við hann settu þetta allt aftur inn í skáp við notum ekkert af þessu, þetta verður bara naglasúpa hjá okkur.  Það kom mikill undrunarsvipur á hann og hann horfði á mig góða stund og svo heyrðist haaaaaaaaaaaaaa.  Þig vanta nagli ég leita hjá vélstjóri.  ég sagði við hann, það er allt til í ísskápnum sem við þurfum að nota og fór í ísskápinn og fann þar hálfan hvítkálshaus og eina rófu og tók síðan nokkrar kartöflur og setti þetta allt í vaskinn og sagði honum að skola þetta vel og brytja niður og láta í pottinn þegar það var búið náði ég í einn pakka af hrísgrjónum og fyllti einn bolla og hellti í pottinn og ýmislegt fleira sem ég fann, fór allt í pottinn.  Hann spurði varlega er allt í lagi að setja hrísgrjón og bætti síðan við ekki allt fara upp úr potti og niður á gólf og var greinilega með hugann við hrísgrjónagrautinn fræga.   Allt í lagi sagði ég við hann þetta var svo lítið.  Hann sat lengi og hugsaði og spurði síðan, hvenær þú setja nagli í pott.  Ég fór að hlægja og sagði, það verður enginn nagli, það er bara oft sagt svona þegar maður er að búa til kjötsúpu og notar allt sem maður finnur til að setja útí.  Ég tók eftir að hann var stöðugt að vakta pottinn og greinilegt að honum stóð ekki á sama um hrísgrjónin.  Síðan tókum við kjötið upp úr og létum á stóran bakka og helltum súpunni í stóra skál og fór hann til að kalla á mennina í mat.  Færeyingurinn var greinilega orðin mjög svangur og borðaði vel og þegar hann var hættur buðum við honum að fá sér af rjómatertunni en hann sagðist ekki getað borðað meira.  Næsta morgun þegar ég hafði lokið minni vakt fór ég í kaffi og var með hugann við að heil rjómaterta væri eftir í ísskápnum.  Þegar ég opnaði ísskápinn blasti við tómur diskur og spurði ég þá kokkinn hvar tertan væri hann fór að hlægja og svaraði færeyingur koma í nótt og borða einn heila tertu.  Það sem eftir var af túrnum var allt í lagi hjá hinum pólska með matinn og á leiðinni til Bolungarvíkur þreif hann allt hátt og lágt svo ekkert væri hægt að finna að þegar hinn íslenski kokkur kæmi um borð aftur.  Eftir löndun í Bolungarvík var hinn rétti kokkur mættur og hann, ég og pólverjinn gengum í átt að versluninni og þegar við komum að pöbbnum vildi hinn rétti kokkur fara inn og við fórum líka og þegar hann pantað eitt glas af þreföldum vodka í kók var orðið nokkuð ljóst að allt var orðið eðlilegt á ný og sá pólski brosti út að eyrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband