Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Skothríð

Á sínum tíma þegar ég var framkvæmdastjóri fyrir útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki á Bíldudal áttu fyrirtækin þrjú íbúðarhús sem notuð voru sem verbúðir fyrir aðkomufólk og eitt húsið sem var á tveimur hæðum var mest notað á tímabili fyrir erlendar stúlkur sem komu til vinnu hjá fyrirtækinu og eins og gefur að skilja var talsvert sótt í þetta hús af ungum mönnum á staðnum og oft mikill gleðskapur og umgengni eftir því.  Fékk þetta hús nafnið KRAFLA vegna mikils óróa sem oft var þarna.  Var algengt að eftir sumar helgar þyrfti að skipta um gler í mörgum gluggum og tók ég þá til þess ráðs að setja plexiplast í stað glers í gluggana.  Nokkrum árum eftir þetta og aðalega sjómenn og beitningamenn sem þarna bjuggu og ég var á leið í vinnu einn morguninn sá ég að búið var að loka aðalgötu þorpsins og er ég leit í átt að KRÖFLU sá ég lögreglubíla en þar sem ekki var lengur hægt að aka í átt að húsinu fór ég beint í vinnuna og var þar tjáð af verkstjóranum að þó nokkrar tafir hefðu orðið á að vinnsla gæti hafist á réttum tíma vegna þess að búið hefði verið að loka götunni og fólki skipað að ganga fjöruna til vinnu því einn starfsmaður sem bjó í KRÖFLU hefði fengið æðiskast og verið að skjóta úr haglabyssu út um glugga og flugvél hefði komið frá Reykjavík snemma um morguninn með víkingarsveit lögreglunnar og væri algert umsátursástand um húsið.  Síðar frétti ég hjá einum starfsmanni sem bjó í næsta húsi við KRÖFLU aqð hann hefði verið að drekka kaffi í eldhúsinu hjá sér þegar þvottahúsdyrnar hjá honum voru brotnar upp og inn ruddust félagar úr víkingasveitinni og brutu síðan rúðu og komu sér fyrir.  Þar sem ég átti sjónauka á skrifstofu minni gat ég séð umrætt hús og sá að viða voru víkingarsveitarmenn að skriða umhverfis húsið.  Ég frétti síðar að reynt hefði verið að skjóta gúmískotum í gegnum glugga húsins þegar byssu manninum sást þar bregða fyrir en þar sem plexiplast var í öllu gluggum komu kúlurnar jafnharðan til baka.  Á neðri hæð húsins hafði herbergi Serbi sem hafði flúið frá hinu stríðhrjáða landi sem eitt sinn var Júgóslavía og vann hann við beitningu og þegar kominn var tími hjá honum að fara í vinnu fór hann út og ætlaði að fara að beita.  En um leið og út var komið glumdi við í gjallarhorni lögreglu þar sem Serbanum var skipað að fara inn aftur því það væri maður með byssu að skjóta á efri hæðinni.  En Serbinn sagðist á sinni bjagaðri íslensku að hann þyrfti nauðsynlega að komast til vinnu í beitninguna og sjálfsagt vanur svona uppákomum í sínu heimalandi og hann gekk upp tröppurnar og bankaði hjá hinum byssuóða manni, sem kom til dyra með haglabyssuna í hönd.  Serbinn tók um hlaup byssunnar og bað manninn að hætta þessari vitleysu því engin hætta væri á ferðum, engir óvinir bara allir vinir sagði hann og brosti.  Þetta gaf víkingasveitinni tíma til að stökkva á byssumanninn og handjárna hann og var síðan flogið með hann til Reykjavíkur þar sem hann var lagður inn á geðdeild.  Síðar þegar Serbinn var spurður um hvort hann hefði ekki verið hræddur, sagði hann nei, nei, þetta bara ein byssa og veikur maður, ég segja við hann að ég þurfa að fara að beita, þetta bara lítið vandamál ekki eins og heima og síðan brosti hann sínu blíðasta.

Kvótasvindlarar

Mikið hefur gengið á eftir að Agnes Bragdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu fór að skrifa um kvótasvindl.  Fjöldi manna hefur komið fram á síðum blaðsins til að dásama eigið ágæti og heiðarleika og segjast hafa verið dæmdir af Agnesi sem þjófar og máli sínu til stuðnings er oft vitnað í Fiskistofu og er eins og menn telji að hægt sé að fá aflátsbréf hjá Fiskistofu.  Ég hef ekki getað lesið skrif Agnesar á þann veg að hún væri að dæma menn heldur hefur hún verið að skrifa um það sem hún hefur heyrt í samtölum við sjómenn ofl.  sem að sjálfsögðu þora ekki að koma fram undir nafni.  Ritstjórar Morgunblaðsins hafa verið ásakað fyrir að stranda á bak við herferð gegn sjómönnum og útgerðarmönnum en samt hefur blaðið tvisvar verið með opnu viðtöl við þessa aðila þar sem þeim hefur verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og til að kóróna alla vitleysuna er Fiskistofustjóri Þórður Ásgeirsson farinn að skrifa skammarbréf í Mbl. þar sem hann er að finna að við ritstjóra blaðsins og dásama eftirlit Fiskistofu og telur að skrif Agnesar vera tómt bull en ekki er langt síðan að sjónvarpsmönnum tókst að daraga út úr þessum sama manni að löndun framhjá vigt og fleira svindl væri vissulega fyrir hendi og gæt verið nokkur þúsund tonn á ári.  Það hefur heyrst mest í mönnum frá tveimur stöðum á landinu þ.e. Vestmannaeyjum og Grundarfirði varðandi útflutning á ferskum fiski í gámum sem fer óviktaður á erlenda markaði.  Sagt er að þegar fiskur er fluttur út í gámum án þess að vera viktaður komi maður frá Fiskistofu á staðinn og fylgist með því sem fer í viðkomandi gám og skipstjóri fylli út eyðublað sem verði að passa við það sem skráð hefur verið í afladagbók viðkomandi skips og síðan innsigli starfsmaður Fiskistofu gáminn og þegar komið er á erlendan markað mæti starfsmaður Fiskistofu og rjúfi innsiglið og fiskurinn fari á markað þar sem allt sé flokkað og vegið meira að segja með tækjum frá hinu íslenska fyrirtæki frá Marel.  Nú er það svo að við sendum gámafisk til Englands, Þýskalands, Belgíu, Frakklands ofl. landa, ég veit ekki hvaða súpermaður það er sem kemst yfir að vera viðstaddur þegar allir gámar frá Íslandi eru opnaðir sá maður þyrfti að vera ansi fljótur í förum því að í hverju landi er oft verið að selja íslenskan gámafisk á fleiri stöðum en einum og sumir gámar eru seldir beint til ákveðinna kaupenda og fara þar af leiðandi aldrei á fiskmarkað úti.  Það vita það allir sem vilja vita að svindl er framkvæmt í stórum stíl í núverandi kvótakerfi og mjög algengt er að þegar rætt er við aðila í þessari grein að svarið er oft að viðkomandi hefur heyrt af slíku en það þekkist ekki í sinni heimabyggð.  Sama á við um brottkastið margir hafa heyrt af því en enginn hefur tekið þátt í því og margir ganga svo langt að kenna kvótalitlum útgerðum um allt brottkast þar sem slíkar útgerðir þurfi að leigja svo mikið af kvóta sem hefur undanfarið verið um 200 krónur á kíló.  En það er nákvæmlega sami kvati hjá útgerðum hvort þær eiga mikinn eða lítinn kvóta að kasta verðminnsta fiskinum, jafnvel meiri hjá þeim sem á mikinn kvóta því ef sá aðili getur fengið kr. 200 fyrir kílóið á leigumarkaði er hann ekki að láta veiða fisk sem minna fæst fyrir og leggja auk þess í kostnað við að veiða fiskinn.  Nú hafa útgerðarmenn og margir skipstjórar fullyrt að á næsta ári þegar ekki má veiða nema 130 þúsund tonn af þorski en 100 þúsund tonn af ýsu, að ekki verði hægt að ná ýsunni með svona litlum þorskkvóta, sem muni leiða til að brottkast stóraukist í þorski.  Verður fróðlegt að fylgjast með veiðum á næsta fiskveiði ári og nokkuð augljóst að ekki verður hægt að kenna kvótalitlum útgerðum um því flest þeirra munu sjálfsagt hætta útgerð svo brottkastið mun verða hjá þeim sem hafa kvótann, en enginn mun viðurkenna það og allir hrópa ekki ég, ekki ég......................................

Barnaníðingar

Þeir sem heyra eða lesa þetta orð BARNANÍÐINGAR dettur flestum í hug kynferðisleg misnotkun á börnum, en svo þar ekki að vera því hægt er að fara illa með börn á fleiri sviðum og þá oft í algeru hugsana- og tillitsleysi.

Fyrir nokkrum árum þ.e. áður en ég slasaðist og varð fatlaður öryrki, var ég staddur í mínum viðskiptabanka sem þá hét KB-banki en nú Kaupþing þetta var í útibúi bankans í Grafarvogi og er til húsa í verslunarmiðstöð við Hverafold.  Þannig háttar til að þegar maður er á leið í útibúið er komið inn í anddyri og er bankinn á vinstri hönd en hægra megin er sjoppa og vídeóleiga.  Þegar ég hafði lokið erindi mínu í bankanum og kem fram í anddyrið sé ég litla stúlku 5-6 ára sem stendur grátandi í einu horninu og heldur á hvítum poka í hendinni.  Ég geng að stúlkunni og spyr hana hvað sé að en hún svarar á móti, heyrðu manni viltu kaupa þessa styttu fyrir þrjú hundruð krónur og sýnir mér í pokann og sá þar þessa fallegu glerstyttu af fíl.  Ég hafði verið að taka út peninga í bankanum og átti ekki minna en kr. 500 og kr. 1.000 í vasanum og spurði stúlkuna afhverju styttan ætti að kosta kr. 300 væri ekki í lagi að hún kostaði 500 eða 1.000 ég ætti ekkert smærra í peningum, en mig vantar bara 300 sagði barnið og ef þú borgar mér 500 eða 1.000 get ég ekki gefið þér til baka.  Ég spurði þá barnið afhverju hún hefði verið að gráta og hún sagði að maðurinn sem væri að afgreiða í sjoppunni hefði orðið brjálaður þegar hún var þar inni áðan og rekið sig út og sagt að hún væri betlari og spurði mig síðan hvað það væri að vera betlari.  En hvað ætlar þú að gera við 300 krónur spurði ég.  Ég ætlaði að kaupa mér eitthvað að borða sagði barnið því ég er svo svöng og það kostar 300 krónur.  Hvar áttu heima spurði ég og hún benti á blokk rétt fyrir ofan og sagði það er þessi blokk, en afhverju borðar þú ekki heima hjá þér spurði ég og hún svaraði, það var ekkert til og allir voru að drekka vín og þegar ég bað um pening sagði mamma að þeir væru ekki til, þó átti pabbi nóg af pening þegar hann lét manninn sem er í heimsókn hafa til að fara og kaupa sígarettur og þá tók ég þessa styttu úr hillu í stofunni til að reyna að selja svo ég gæti keypt mér eitthvað því ég er svo svöng, en maðurinn sem er að afgreiða í sjoppunni vildi ekki kaupa hana og þegar ég fór að tala við fólk sem kom inn varð karlinn alveg brjálaður og rak mig út.  Ég sagði þá við barnið að ég skildi kaupa styttuna en fyrst ætlaði ég að gefa henni að borða.  Þá sagði barnið en ég þori varla aftur þarna inn, karlinn verður örugglega brjálaður aftur ef hann sér mig, ég sagði henni að það yrði allt í lagi ef ég færi með henni og fórum við síðan inn í sjoppuna.  Það reyndist því miður rétt sem barnið hafði sagt, því þegar við komum inn kom afgreiðslumaðurinn æðandi á móti okkur og stillti sér upp fyrir framan barnið og sagði reiðilega, út með þig, ég er margoft búinn að segja þér að vera út.  Ég brást reiður við og sagði við manninn, hvað gengur eiginlega á ertu eitthvað skrýtinn og er þessi sjoppa lokuð fyrir börnum og ef svo er skaltu auglýsa það á hurðinni.  Þetta barn er jafn rétthátt hér inni og hver annar kúnni og þú ert hér á launum við að afgreiða kúnnana en ekki til þess að vera með skammir og læti og er hægt að fá afgreiðslu hér án þess að þurfa að hlusta á þig ryðja út úr þér dónaskap og tók í öxlina á manninum og ýtti honum inn fyrirafgreiðsluborðið og sagði honum að steinþegja.  Ég spurði barnið síðan hvað það væri sem hún hefði ætlað að kaupa sér og benti hún á þá hluti og passaði sig á að það kostaði ekki meira en kr. 300 og þegar ég spurði hana hvort hún vildi ekki meira sagði hún nei takk og horfði með hræðslusvip á afgreiðslumanninn.  Ég sagði henni að setjast við ákveðið borð og ég kæmi bráðum og bað um einn bolla af kaffi sem kostaði 200 og borgaði ég hann og þá spurði afgreiðslumaðurinn, en ætlar þú ekki að borga það sem barnið fékk.  Nei sagði ég þú borgar það sem bætur fyrir allan dónaskapinn og fór og settist hjá barninu og sagðist nú vilja kaupa styttuna á kr. 1.000 og rétti henni seðilinn og þegar hún sagðist ekki þurfa að nota þessa peninga sagði ég henni að hún skyldi bara geyma þá og gæti þá keypt sér eitthvað að borða seinna.  Þegar barnið var búið að borða og ég búinn með kaffið stóðum við upp og á leiðinni út sagði ég við afgreiðslumanninn, ég held að þú ættir að leita þér að annarri vinnu því hérna ertu bæði sjálfum þér og eigendum til skammar og mundu að börn eru framtíðarviðskipavinir og þú skalt hafa það í huga í þínum störfum.  Ég efast um að þetta barn komi til með að halda mikið uppá þessa sjoppu þegar það verður stærra og verður örugglega ekki góð auglýsing fyrir þig í samskiptum sínum við önnur börn.  Síðan kvaddi ég manninn með þeim orðum að hann væri vitleysingur og ég vonaði að ég þyrfti ekki að sjá hann aftur og hef ég staðið við það þótt ég hafi oft síðan átt erindi í áðurnefnt bankaútibú.  En styttuna góðu á ég enn til minningar um þennan atburð. 


Mistök

Því miður urðu þau leiðu mistök hjá mér varðandi stillingar á blogginu hjá mér að sumir af mínum bloggvinum voru útilokaðir frá því að skrifa athugsemdir.   Ég áttaði mig ekkert á þessu fyrr en í gærkvöldi þegar Ólafur Ragnarsson lét mig vita og þakka ég honum fyrir.   Þetta hef ég nú lagað og bið alla þá sem voru útilokaðir varðandi athugasemdir afsökunar.  Því ég hef aldrei verið á móti því að einhverjir skrifi athugasemdir við mín skrif, þvert á móti tel ég það vera af hinu góða og oft skapað skemmtilega umræðu.

Að vera á staðnum

Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra hefur undanfarna daga verið á ferð um Mið-Austurlönd með fríðu föruneyti og heimsótt þar marga höfðingja.  Mikið hefur þessu verið hampað í fréttum en ansi hefur mér þótt þar vera smá slaksíða á og meira gert úr vandamálum Ísrael en Palestínu og má það kannski alveg vera rétt, ekki veit ég það því ég hef aldrei komið á þetta svæði en samkvæmt orðum Ingibjargar Sólrúnar fær fólk allt aðra sýn á þessi vandamál með því að vera á staðnum.  Það hafa margir heimsfrægir og reyndir stjórnmálamenn heimsótt þessi svæði og reynt að miðla málum en án árangurs.  En Ingibjörg Sólrún sagðist sjá þarna glufu sem væri að opnast til að hægt væri að koma á friði á þessu svæði en tók jafnframt fram að slíkt yrði að gerast fljótt því þessi glufa sem hún fann myndi lokast fljótt.   Ekki ætla ég að draga orð ráðherrans í efa því hún veit betur en ég hvað þarna er að ske því hún var á staðnum en ekki ég.   Það vakti mig til umhugsunar um þessi mál þegar viðtal var við konu frá Palestínu í þættinum Örlagadagurinn á Stöð 2 fyrir nokkru en þessi kona hafði flutt til Íslanda fyrir mörgum árum og hún var að lýsa því hvílík hamingja það hefði verið þegar hún fékk íslenskan ríkisborgararétt og þar af leiðandi vegabréf sem hún hafði aldrei haft áður og hún lýsti því vel hvílík hamingja það væri að tilheyra ákveðinni þjóð.  Ég hrökk við, hvað var konan að segja, hafði hún aldrei átt vegabréf þótt hún væri búsett í Palestínu sem ég hélt að væri sjálfstætt ríki.  En annað kom í ljós við nánari skoðun, að aðeins eitt ríki hefur formlega viðurkennt sjálfstæði Palestínu en það er Noregur.  Ef Ingibjörg Sólrún er að meina eitthvað með því sem hún er að segja ætti hún að beita sér fyrir að Ísland fylgdi fordæmi Noregs og viðurkenndi sjálfstæði Palestínu eins og Jón Baldvin gerði á sínum tíma þegar hann lét Ísland verða fyrsta land í heiminum til að viðurkenna sjálfstæði eins af Eystrasaltsríkjunum sem hafði geysilega mikil áhrif.  Það læðist að manni sá grunur að heimsókn Ingibjargar Sólrúnar á þetta svæði hafi verið í þeim tilgangi að fá Ísrael til að veita okkur stuðning varðandi umsókn til Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna.  Á meðan sjálfstæði Palestínu er ekki viðurkennt sem sjálfstætt ríki mun verða erfitt með friðarviðræður, þar sem annar aðilinn er öflugt sjálfstætt ríki meðan hinn aðilinn er nánast herteknar flóttamannabúðir.  En auðvitað hef ég ekki hundsvit á þessum málum þar sem ég hef aldrei verið á staðnum og skil þar afleiðandi ekki eitt né neitt.

Bíldudalur

Ástandið á Bíldudal í mínum gamla heimabæ er vægast sagt hörmulegt, lítil sem enginn atvinna og fólki fækkar stöðugt um 1990 voru íbúar rúmlega 400 en í dag er íbúafjöldi komin niður í um 180 og á trúlega eftir að fækka enn frekar.  Hin svokallaða stóriðja þ.e. Kalkþörungaverksmiðjan sem öllu átti að bjarga hefur ekki enn hafið fullan rekstur og stafsmenn aðeins 5 og verksmiðjan er sífellt að stoppa vegna bilana enda ekkert skrýtið þar sem í verksmiðjuna var keypt gamalt drasl sem aðrir voru hættir að nota, þegar búið er að gera við einn bilaðan hlut þá bilar sá næsti.  En kalkþörungi er dælt upp í Arnarfirði af fullum krafti og sendur óunnin til Írlands til vinnslu og hefur það verið gert hátt í ár og verður sennilega svo áfram.  Ég hef frá upphafi verið gagnrýnin á þessa framkvæmd og fengið skammir fyrir frá ýmsum aðilum og verið sakaður um að vera með niðurrifsstarfsemi og á móti framförum og eflingu Bíldudals.  Staðreyndin er sú að hinir írsku aðilar sem standa að þessari verksmiðju og eru með slíka verksmiðju á Írlandi voru búnir að fullnýta námur sínar á Írlandi og sáu fram á skort á hráefni og þess vegna var það eins og lottóvinningur fyrir þá að fá þennan aðgang að Arnarfirði en þar hafa þeir fengið leyfi til að taka 10 þúsund tonn af kalkþörungi næstu 50 árin og þurfa ekki að borga krónu fyrir.  Þess vegna er bygging verksmiðjuhús á Bíldudal með hálf ónýtu drasli innan dyra bara lítill fórnarkostnaður til að fá allt þetta hráefni til vinnslu á Írlandi og það sem verra er að Vesturbyggð lagði í mikinn kostnað við landfyllingu undir verksmiðjuna og byggði nýja höfn en mér skilst að Kalþörungaverksmiðjan sé undanþegin greiðslu hafnargjalda svo ekki verður skilið hvernig Vesturbyggð ætlar að fá til baka alla þá fjármuni sem bæjarfélagið hefur lagt í þetta ævintýri.  Ekki er ástandið skárra þegar kemur að fiskvinnslu á staðnum en frystihúsinu var loka í júní 2005 eftir að nokkrir ævintýramenn höfðu leikið sér með það í nokkur ár og stofnuðu stöðugt ný félög um reksturinn þegar hin  fyrri fóru í þrot.  Síðan hefur húsið staðið og grotnað niður því enginn hiti var á húsinu.  Í vor hóf Oddi hf. á Patreksfirði að beiðni stjórnvalda, rekstur í húsinu og lagði í verulegan kostnað til að koma því í vinnsluhæft ástand og hafði loforð um sérstakan byggðakvóta, sem aldrei kom og hætti Oddi því rekstri eftir stuttan tíma og óvíst að þeir muni byrja þar rekstur aftur.  Þann 5. júlí sl. gaf svo sjávarútvegsráðherra út reglugerð um byggðakvóta fyrir Bíldudal sem átti að vera 238 þorskígildistonn og skyldi veiðast og vinna á Bíldudal á tímabilinu 30/6 2006 til 30/6 2007.  Þessi tími er nú liðinn svo ekki kemur þessi byggðakvóti til með að skapa mikla vinnu á Bíldudal.  Þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin mun væntanlega grípa til vegna mikils niðurskurðar á þorskkvóta munu sennilega lítið gagnast Bíldudal vegna þess að þar er enginn þorskkvóti til sem mun skerðast.  Eina skipið sem hafði verulegan kvóta Brík BA-2 hefur nú verið selt til Hafnarfjarðar með öllum kvóta.  Að sjálfsögðu munu íbúar á Bíldudal njóta eins og aðrir á Vestfjörðum endurbótum í samgöngum en aðrar aðgerðir munu lítil áhrif hafa og ef fólk hefur ekki vinnu er fátt til bjargar, það lifir enginn á loftinu og hætt er við að fólki fækki enn frekar en orðið er.  Það er því dökk mynd sem blasir við íbúum Bíldudals á næstunni og ekkert sem er líklegt til að breyta því sjáanlegt, því miður. 


Ákvörðun sjávarútvegsráðherra

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra tilkynnt sl. föstudag um aflakvóta næsta fiskveiðiárs og hefur hlotið mikið lof fyrir frá Geir H. Haarde, mbl. ofl. fyrir mikinn kjark og hugrekki fyrir þessa ákvörðun.  Nú hef ég hlerað úr herbúðum stjórnarsinna að Einar K. hafi verið þvingaður til að taka þessa ákvörðun af samráðherrum sínum.   Þessi ákvörðun var í raun tekinn af Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu sem tilkynntu hana Einari K. og gáfu í skyn að ef hann færi ekki eftir þessu yrði hann hunsaður og þau myndu bara tilkynna þetta sjálf og er því ekki sanngjarnt að skammast út í Einar Kristinn.  Harðast mun Ingibjörg Sólrún hafa gengið fram og látið þau orð falla að stjórnin væri með svo mikinn þingstyrk á bak við sig að ekki skipti máli hvaða skoðun þingmenn hefðu á þessu og enginn hætta á ferðum þótt einhverjir þingmenn hættu að styðja stjórnina.  Athygli hefur vakið að lítið hefur heyrst frá Einari Oddi um þessi mál en hann var farinn að taka undir gagnrýni á kvótakerfið.  Krafðist Ingibjörg Sólrún þess að farið yrði í einu og öllu eftir tillögum Hafró það væru hin einu og sönnu vísindi og vandi sjávarbyggðanna væri ekki sitt mál sem utanríkisráðherra það yrðu aðrir að leysa þann vanda t.d. með fjölgun háskóla og auka menntun.  Nú er það einu sinni svo ef maður les söguna í gegnum aldir að vísindamenn hafa alla tíð ekki verið sammála um hin ýmsu atriði sem þeir hafa verið að glíma við og enginn hefur treyst sér til að koma með hinn einu og sönnu vísindi og er það ekkert skrýtið því hinn eini sannleikur er ekki til og verður aldrei til vegna þess að heimurinn er stöðugt að breytast.  Frægt var í Bandaríkjunum fyrir löngu er kennari nokkur tók upp á því að kenna þróunarkenningu Darvins en það var bannað í því fylki sem skólinn var í og varð af þessu mikið mál þar í landi.  Nú er það svo að engum hefur tekist að sanna eða afsanna kenningar Darvins en kannski geta sérfræðingar Hafró það þeir kunna sérstaklega vel að reikna út alla hluti og margt sem þaðan kemur minnir á persónu í einu skáldverki Laxnes, Sölva Helgason en honum tókst að reikna barn í konu.   En hvað varðar kvótakerfið þá fullyrða skipstjórar víða um land að erfitt geti verið að veiða aðrar tegundir þegar þorskkvótinn er orðinn svona lítill og þeir hafa á undanförnum árum verið á stöðugum flótta undan miklum þorski á miðunum, því alltaf komi þorskur með þegar verið er að veiða ýsu, ufsa ofl. tegundir og hvað gera menn þá.  Nokkuð ljóst er að framboð á leigukvóta í þorski mun minnka verulega ef það verður þá bara nokkuð.   Ef skip á ekki nægan þorskvóti fyrir meðafla hafa sjómenn ekkert annað val en henda honum í hafið aftur og nokkuð ljóst að brottkast mun stóraukast á næsta fiskveiði ári og þar með skekkist reiknigrunnur Hafró enn frekar og skerða verður þorskaflann enn frekar og á nokkrum árum mun þorskkvótinn stöðugt minnka þar til að því kemur að þær verða bannaðar með öllu.  Það kemur líka á óvart að ekki skuli vera gefinn út veiðikvóti á hval og umhverfisráðherra lýsir því yfir að hún sé á móti hvalveiðum sem þýðir að hún neitar að horfast í augu við hvaða áhrif stóraukinn hvalastofn hefur á lífríki sjávar.  Það skiptir engu máli hvort við getum selt kjötið eða ekki ef okkur er alvara með að ætla að byggja upp þorskstofninn, það verður þá að líta á kostnað við hvalveiðar sem fórnarkostnað til að bjarga þorskinum.  Ef við getum ekki selt kjötið af hvalnum getum við þó gefið það til þeirra landa þar sem hungur er landlægt, Ingibjörg Sólrún getur þá farið víða með fríðu föruneyti og fært hungruðu fólki mat.

Óheiðarlega gólftuskan

Ég hef nú um ævina kynnst margri lyginni og óheiðarleika en aldrei hef ég kynnst jafn ómerkilegu fólki og nú kallast ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar.  Sl. haust stóð öll stjórnarandstaðan sameiginlega að tillögu um bætt kjör aldraðra og öryrkja og Ingibjörg Sólrún gerði mikið grín að því sem þáverandi ríkisstjórn var að gera varðandi allar þær skerðingar sem við verðum fyrir sem erum öryrkjar.  Jóhanna Sigurðardóttir flutti nánast grátklökk ræður um fátækt á Íslandi og átti varla til nógu sterk lýsingarorð um skilningsleysi stjórnvalda.  Fyrir kosningar lofaði þessi flokkur öllu fögru ef hann kæmist til valda og þeir sem verst væru settir í þjóðfélaginu ættu von á bjartri framtíð og betri tíð og allt var þetta Framsókn að kenna.  Ég var einn af þeim sem trúði að þetta aumingja fólk væri að meina það sem það var að segja og þótt ég hafi fyrir löngu sagt skilið við Framsókn, hvarflaði eitt sinn að mér að sennilega væri Samfylkingin ágætis flokkur sem vert væri að styðja en sem betur fer hætti ég við og gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn og þakka enn í dag fyrir þá ákvörðun mína því að þar er þó í forustu heiðarlegt fólk sem segir sína skoðun og stendur við hana.  Ég reyndi fyrir síðustu kosningar að kynna mér hvað stefnu Samfylkingin hefði í hinum ýmsu málum og ekki vantaði stóru yfirlýsingarnar og loforðin sem í dag er komið í ljós að allt var tóm lygi og blekkingar.  Jón Baldvin sagði í vor í þættinum Silfri Egils að Samfylkingunni hefði mistekist allt sem hún var stofnuð til að gera og eru þau orð hans nú rækilega komin í ljós.  Ingibjörgg Sólrún flutti þrumandi ræður um turnana tvo sem yrðu í íslenskum stjórnmálum þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin og höfuðandstæðingur Samfylkingarinnar vari Sjálfstæðisflokkurinn.  En hvað skeður eftir kosningar, þá var Sjálfstæðisflokkurinn búinn að fá nóg af því að nota Framsókn sem gólftusku og vantaði nýja og þá var Samfylkingin tilbúinn að taka við hlutverki Framsóknar og tilbúinn að gleypa öll kosningaloforðin, eingöngu horft á ráðherrastóla og til að koma öllum að var einu ráðuneyti skipt í tvö þrátt fyrir að þessi flokkur boðaði áður fækkun ráðuneyta.  Þegar félagsmálaráðherra Framsóknar lækkaði lánshlutfall Íbúðalánasjóðs fór Jóhanna Sigurðardóttir hamförum á heimasíðu sinni í gagnrýni sinni á þessari ákvörðun en hvað skeður svo þegar Jóhanna er orðin félagsmálaráðherra tekur hún sömu ákvörðun og þegar hún er mynnt á fyrri yfirlýsingar sínar eru svörin þau að þetta sé gert allt öðru vísi núna og aðstæður allt aðrar og bla, bla, bla.  Það er rétt hjá Jóhönnu að þetta er öðruvísi núna að því leiti að það er Jóhanna Sigurðardóttir sem tekur ákvörðunina en ekki Magnús Stefánsson, annað hefur ekki breyst.  Svo kom að því að bæta kjör aldraðra og öryrkja og hver var niðurstaðan, ákveðið var að þeir sem væru orðnir 70 ára mættu vinna eins og þeir gætu á þess að bætur skertust, aðrir fengu enga leiðréttingu á sínum málum.  Ég bar spyr aflverju að miða við 70 ára aldur ef ekki var hægt að ganga lengra mátti alveg eins miða við 100 ára aldur.  Nú er samfylkingin orðin gólftuska hjá Sjálfstæðisflokknum og fær engu ráðið og þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar um að þau yrðu að komast í ríkisstjórn til að hafa áhrif.  En hver eru áhrif Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn, þau eru enginn og verða enginn það eina sem Ingibjörg Sólrún hefur haft upp úr þessu brölti sínu að hún fékk þann vafasama heiður að Hannes Hólmsteinn hældi henni sem stjórnmálamanni og segir það allt sem segja þarf um hvar hún stendur gagnvart Sjálfstæðisflokknum.  Eini munurinn á núverandi ríkisstjórn og þeirri fyrri að innan raða Samfylkingarinnar er varla hægt að finna heiðarlega stjórnmálamenn, en þá mátti þó finna slíkt hjá Framsókn.  Kalli prestur fór um Vestfirði og Snæfellsnes fyrir kosningar og predikaði um galla núverandi kvótakerfis og endurskoða yrði það allt frá grunni og þegar Samfylkingin var komin í stjórn fékk hann sæti í sjávarútvegsnefnd og mér er sagt að þegar nefndin var á dögunum að fjalla um hinn mikla niðurskurð á þorskvótanum hafi Karl Matthíasson prestur einu sinni sagt jæja og gleymdi að segja amen.  Ekki vildi ég vera í sporum þingmanna Samfylkingarinnar í næstu kosningum, því hætt er við miklu hruni ef ekkert fer að bóla á að Samfylkingin hafi einhver áhrif í þessari ríkisstjórn.  Ég get vorkennt Jóhönnu Sigurðardóttur að þurfa að sitja í þessari stjórn, því hún hafði það orð á sér að vilja berjast fyrir þá sem minna meiga sín í þessu þjóðfélagi en nú er að koma á daginn að hún hefur ekkert meint með því sem hún hefur verið að tala um.

Meira um þorskinn

Í hádegisviðtali á Stöð 2 í gær var athyglisvert viðtal við Kristinn H. Gunnarsson alþm. um niðurskurðinn á þorskkvótanum og kom þar margt athyglisvert fram.  Kristinn gaf lítið fyrir hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir stjórnvald en sagði samt að þær væru þó til góða svo langt sem þær næðu en benti réttilega á að þrátt fyrir þessar aðgerðir vantaði samt það sem mestu máli skipti en það væri atvinna handa þeim fjölda sem missa myndi vinnuna, því á atvinnu og tekna heimilanna væri fólki flestar bjargir bannaðar.  Hann benti einnig á fjölda atriða í skýrslu Hafró sem stönguðust á og gæti ekki verið traustur vísindalegur grunnur til að byggja á svona mikilsverða ákvörðun.  Einnig að ekki gengi lengur að ein ríkisstofnun gæfi út hin eina og sanna sannleika um fiskinn í sjónum, fleiri þyrftu að koma til.  Kristinn kom ekki bara með gagnrýni heldur einnig tillögur sem eru athyglisverðar en hann benti á að skipta mætti miðunum í ákveðin svæði sem lægju best við gjöfulum fiskimiðum og ákveða afla á hverju svæði en setja sen skilyrði að afla á hverju svæði væri landað í þeim höfnum sem styðst er til og vinna hann þar.  T.d. tók hann Breiðafjörð sem dæmi og sagði að auðvitað gætu skip frá öðrum landshlutum veitt þar en yrðu að landa afla sínum í höfnum í Snæfellsbæ og skapa þar atvinnu.  Með þessu fengju sjávarbyggðirnar að njóta nálægðar sinnar við fiskimiðin, en það er einmitt þessi nálægð við góð fiskimið sem urðu til þess að þessar byggðir við sjávarsíðuna urðu til.  Þessar skoðanir Kristins H. eru í samræmi við það sem kemur fram í mjög góðri grein Stefáns Þórarinssonar ráðgjafa sem hann skrifaði í Mbl. sl. sunnudag en Stefán var einn af þeim sem komu að þeirri vinnu að móta kvótakerfið á sínum tíma og hefur fengist við ráðgjöf um fiskveiðar víða um heim og þekkir þessi mál mjög vel.   Einnig var í Kastljósi í gær viðtal við Grím Atlason bæjarstjóra í Bolungarvík og kom fram hjá honum að hann vissi ekki enn um hvað þessar aðgerðir ríkisstjórnar þýddu í raun og hefði ekki fengið nánari útskýringar á þeim, nema að það ætti að auka fjármagn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til aðstoðar sveitarfélögunum.  Það er augljóst að sveitarfélögin verða fyrir miklu tekjutapi og stóðu nú ekki mörg vel fyrir svo staða þeirra verður slæm.  Grímur benti líka á að á Vestfjörðum störfuðu mörg minni fyrirtæki sem þyrfti að styðja við, en ekkert slíkt er inni í þeim tillögum sem hafa verið kynntar.  Athygli vekur að lítið heyrist frá stóru fyrirtækjunum í sjávarútvegi enda vitað að þau eru flest með miklar veiðiheimildir í loðnu, síld og kolmunna og eiga sjálfsagt auðveldara með að þola þessa skerðingu og fá aðstoð hjá sínum viðskiptabönkum.  Reyndar var viðtal við forstjóra Samherja hf. í fréttum í gær sem skýrði frá því hvað hans fyrirtæki yrði fyrir mikilli tekjuskerðingu en líka kom fram að Samherji hefur um 70% af sínum tekjum af erlendri starfsemi og þolir þar af leiðandi nokkur áföll hér heima.  Hinsvegar benti Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf. á atriði sem lítið hefur verið bent á en það er að mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur tekist að koma sér upp traustum viðskiptasamböndum erlendis t.d. með ferskum fiski í flugi og komist þannig nær neytandanum og fengið hærri verð.  Þetta hefur byggst á því að fyrirtækin hafa til þessa getað staðið við að afhenda vöruna eftir óskum kaupanda sem verður mun erfiðara nú.  Ef ferskur fiskur frá Íslandi hverfur úr smásöluverslun erlendis mun eitthvað annað koma þar í staðinn og ekki verður auðvelt að ætla að stökkva þar inn aftur þegar okkur hentar, aðrir verða komnir þar í okkar stað t.d. Noregur.  Það er búið að eyða óhemju fjármunum í þessa markaðssetningu og þegar og ef við getum aukið þorskkvótann aftur þarf að byggja þessa markaðssetningu alla upp aftur við verðum aftur á upphafsreit.  Ég hef ekki trú á því sem sjávarútvegsráðherra segir að þetta breyti engu vegna þess að kaupendur vilji eingöngu kaupa þorsk sem veiddur er úr sjálfbærum stofni og veiðunum stýrt eins og Ísland hefur gert, en kaupandinn er að kaupa sér þorsk til að borða hann og mun ekki lifa á hugsjónum.  Þetta hljómar eins og brandari við höfum síðan 1984 verið að stýra veiðunum til að byggja upp þorskstofninn og hver er árangurinn eftir rúm 20 ár með þessa frábæru veiðistjórnun.  Árangurinn er slíkur að stjórnvöld ættu að skammast sín fyrir að segja frá því, vegna þess að árangurinn er sá að þorskstofninn er að hruni kominn samkvæmt upplýsingum frá Hafró.  Ég veit ekki hvort allir gera sér grein fyrir hvað það er erfitt og kostnaðarsamt að komast inná smásölumarkað erlendis en staðreyndin er sú að eftir því sem hægt er að komast nær neytandanum þeim mun meira er greitt fyrir vöruna.  Halda menn virkilega að smásali í Englandi sem kominn er með þorsk frá Noregi í sína verslun skrúfi þar fyrir ef íslendingar tilkynna eftir nokkur ár að nú getum við komið með þorsk.  Nei góð viðskiptasambönd þarf að rækta og sinna vel og smásalinn erlendis getur ekki sagt við sína viðskiptavini "því miður enginn þorskur til sölu næstu 4-6 árin", hann leitar einfaldlega annað eftir þorski.  Það er vitað að mörg fyrirtæki greiða stórfé til að koma vörum sínum í smásöluverslanir og lögmálið er alltaf það sama, varan verður að vera til þegar kaupandinn vill kaupa hana og afsakanir um frábæra veiðistjórnun gilda lítið í þessum viðskiptum.  Loka orðið er alltaf hjá hinum endanlega kaupanda.  Ég nefndi hér áður að lítið hefði heyrst frá stóru fyrirtækjunum í greininni og er ástæðan sennilega sú að þeir vita sem er að hrun verður í greininni og fjöldagjaldþrot blasa við og bankarnir munu eignast stóran flota og mikinn kvóta sem auðvelt verður fyrir þessa stóru að eignast á útsölu.

Þoskurinn

Jæja, þá er sjávarútvegsráðherra búnir að ákveða fiskveiðikvóta fyrir næsta fiskveiði ár og er farið í einu og öllu eftir tillögum Hafró með 30% niðurskurð í þorski og aðeins heimilað að veiða 130 þúsund tonn.  Nú er boltinn hjá Hafró og komið að þeim að sýna fram á að þorskstofninn komi til með að stækka og þeir viti hvað þeir eru að gera.  Þetta er þeim mun alvarlegra að ekki er eingöngu verið að ræða um næsta fiskveiðiár heldur er talið að þetta ástand verði í næstu 4-6 ár.  Það vita það allir sem vilja vita að við erum á undanförnum árum búin að raska lífkeðjunni í hafinu og taka ætið frá þorskinum með gengdarlausum loðnuveiðum, skrapa allar sandbleyður með dragnót og drepa þannig allt síli.  Það er ekki bara þorskurinn sem fær ekki nægjanlegt æti, flestir sjófuglar eru illa haldnir vegna fæðuskorts og svo mætti lengi telja.  Við höfum vanrækt að veiða hval í stórum stíl sem einnig tekur æti frá fiskinum.  Ég skrifaði hér fyrr í sumar að Hafró myndi takast með sínu reiknilíkani að reikna þorskstofninn niður í 0 þótt fullt væri að þorski væri í sjónum og mun ég því miður hafa verið sannspár og spái því að á næsta fiskveiðiári verði um enn meiri skerðingu að ræða.  Einfaldlega vegna þess að aðferðafræði Hafró gengur ekki upp vegna skekkju í þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar þeirra spám.  Þessi mikli niðurskurður kemur harkalega niður á mörgum og ekki út séð hvernig margar útgerðir eiga að lifa þetta af, ég veit um útgerðarfyrirtæki sem er nýlega búið að kaupa aflaheimildir fyrir um 2 milljarða og sér nú á eftir þeim fljúga út um gluggann og munar um minna.  Ríkisstjórnin er að boða mótvægis aðgerðir á þeim stöðum sem verst verða úti en þær munu því miður ekki koma að miklu gagni, talað er um bættar samgöngur, betri fjarskipt og nýjar atvinnugreinar og hefur þá verið talað um atvinnu sérstaklega fyrir konur.  Rætt er um að Byggðastofnun verði efld og eigi að aðstoða fyrirtækin við að komast yfir þessa erfiðleika með því að skuldbreyta og lengja lán og jafnvel frysta greiðslur og biðla til bankana að gera slíkt hið sama en auðvitað þurfa bankarnir ekkert að fara eftir því frekar en þeir vilja, því ríkið er búið að selja þá og stjórnendur þeirra eru undir miklum þrýstingi hluthafa um aukinn arð af sínu fé eins er hætt við að bankarnir horfi til þess að veð þeirra er stöðugt að skerðast með minnkandi kvóta.  En eitt hefur gleymst í þessari umræðu, en það er fólkið sem býr á þeim stöðum sem harðast verða úti og missir sína vinnu, sjómenn, fiskverkafólk ofl. hvernig á það fólk að lifa þegar engar verða tekjurnar hvað þá að borga af sínum lánum Hvað verður um verslanir á þessum stöðum, þær verða einfaldlega gjaldþrota.  Hverju bættara verður þetta fólk þótt það verði eitthvað fljótara á milli staða eða að heimilistölvan verði hraðvirkari.  Hvað máli skiptir fyrir fólk sem býr t.d. á Patreksfirði að vera kannski fljótara til Ísafarðar þar sem allt verður í rúst.  Það bæti ekki hag neins að geta farið og horft á vandræði annarra, einnig er mikið talað um að efla menntun og fjölga háskólum.  Halda menn virkilega að fiskverkunarfólk og sjómenn fari að kenna við háskóla eða stunda þar nám.  Það furðulega við þetta allt er að ekki skuli hafa verið skýrt frá þessu fyrir kosningar því þá lágu þessar upplýsingar fyrir hjá Hafró og hvaða tillögur þeir ætluðu að gera og þá hefði þjóðin fengið tækifæri á að segja sitt í kosningunum en því var vandlega haldið leyndu.  Hafró setur allt sitt traust á svokallað togararall þar sem togað er á sömu stöðum með sömu veiðarfærum og hefur verið gert sl. 20 ár og notaðir eru hinir svokölluðu Japanstogarar sem flestir eru orðnir yfir 30 ára gamlir og fara brátt að týna tölunni og hvað skeður þá, verður reiknilíkan Hafró eins og áður.  En kannski skiptir það ekki máli því Hafró verður búin að reikna þorskstofninn niður í 0 áður en þessi skip verða ónýt.  Það segja mér skipstjórar sem hafa tekið þátt í togararallinu að áður en farið er af stað verða þeir að fara á ruslahauga til að finna gamalt drasl sem aðrir eru búnir að henda því alltaf verður að nota eins veiðarfæri og síðan er togað á sömu stöðunum sömu stefnu og sömu lengd á toginu ár eftir ár burt séð frá veðurfari, straumum ofl.  Það er einnig stundað svokallað netarall sem byggist á því að miðunum er skipt niður og ákveðinn netabátur leggur sama fjölda af netum á sömu stöðum ár efir ár.  En nú bregður svo við að niðurstöður úr netaralli voru ekki notaðar í reiknilíkan Hafró vegna þess að aflinn var allof mikill og hefði skekkt útkomuna úr togararallinu.  Það furðulega í skýrslu Hafró um ástand fiskistofna á Íslandsmiðum er fjallað um rækju og sagt að hún eigi erfitt með að ná sér á strik vegna mikillar þorskgengdar á rækjumiðunum.  Hér áður fyrr var mikil rækjuveiði í Húnaflóa, Ísafjarðardjúpi, Arnarfirði ofl. stöðum en nú er þar engin rækja og hefur ekki verið í nokkur ár.  Skýring Hafró er að svo mikill þorskur hafi gengið inn í þessa firði og flóa að hann hafi étið upp rækjuna.  Staðan er einfaldlega þannig að Vestfirðir eru að hrynja og norðanvert Snæfellsnes er að hrynja, Norðausturhorn landsins  er að hrynja, einnig syðstu firðir Austfjarða, smábátaútgerðin heyrir brátt sögunni til, því eins og sjávarútvegsráðherra orðaði það sjálfur getur ekkert komið í stað 60 þúsund tonna af þorski.  Nú er að renna upp blómatími fyrir lögfræðinga þessa lands því ekkert blasir við annað en gífurlegur fólksflótti af landsbyggðinni, gjaldþrot fjölda útgerðarfélaga og Íbúðarlánasjóður og bankarnir sitja uppi með nokkur hundruð íbúðarhúsa víða um land og bankarnir eignast stóran flota fiskiskipa sem fylla hafnir landsins og ef kvótinn verður einhvern tíma aukinn aftur munu aðeins verða eftir 4-5 útgerðafyrirtæki með allan kvótann og þá í eigu erlendra aðila.  Í Biblíunni er einhverstaðar talað um að mannkynið þurfi að ganga í gegnum 7 mögur ár og síðan komi 7 góð ár.  Því miður getum við ekki vænst hins sama við fáum einungis mögru árin og það sorglega er að þetta eru allt mannanna verk.      

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband