Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Góðærið

Nú fyrst er allt að fara til fjandans á Íslandi, hvað varðar efnahagsmálin.  Í öllu góðærinu undanfarin ár gleymdu stjórnvöld að leggja til hliðar til að mæta áföllum.  Þess vegna stöndum við algerlega berskjölduð þegar að eins gefur á bátinn.  Hér er að verða algert hrun og við liggur að landið verði gjaldþrota.  Þótt ríkissjóður standi vel er það vegna tekna af gífurlegum innflutningi sem nær allur er í skuld.  Okkar gjaldeyrisvarasjóður er mjög veikur og dugar engan veginn fyrir erlendum skuldum og getur þar með ekki tryggt íslensku krónuna.  Við verðum að eiga gjaldeyrisjóð sem dugar til að greiða erlendar skuldir okkar ef ekki á að fara illa.  Við núverandi aðstæður er krónan ónýtur gjaldmiðill.  Við hefðum átt að fara aðeins hægar í því að ætla að gleypa allan heiminn og allt með  erlendu lánsfé.  Nú er komið að því að borga veisluna stóru og þá kemur í ljós að við eigum ekki fyrir reikningnum og hvað þá?  Það blasir ekkert annað við en gjaldþrot íslensku þjóðarinnar og þess vegna er mjög brýnt að stofna fríríkið Vestfirði og losa a.m.k. hluta þjóðarinnar frá þessari vitleysu.

Hvað vilja Vestfirðingar?

Það er stór spurning hvað Vestfirðingar vilja gera í sínum málum.  Við hjá BBV-Samtökunum erum á fullri ferð og viðræðum við erlenda aðila um að koma með fjármagn og vinnu til Vestfjarða.  En því miður virðast mjög fáir vilja leggja okkur lið og ganga í samtökin og á sama tíma eru haldnir kynningarfundir um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.

Ég sem gamall Vestfirðingur skil þetta ekki, því það sem fyrst og fremst vantar á Vestfjörðum er atvinna og fjármagn til framkvæmda og endurreisa Vestfirði úr þeirri lægð sem þeir eru nú komnir í.  Það hafði samband við mig útgerðarmaður sem hefur mikinn áhuga á að kaupa og byggja upp Hesteyri í Jökulfjörðum og hefja þar útgerð og vinnslu með tilheyrandi umsvifum.  Ef þetta heldur svona áfram endar það með því að við í BBV-Samtökunum gefumst upp og óbreytt ástand verður á Vestfjörðum.  Við getum þetta ekki án þátttöku íbúanna.


Nauðungarsölur

137 fasteignir voru seldar nauðungarsölu í umdæmi sýslumannsins í Reykjavík árið 2007. Árið 2006 voru nauðungarsölurnar 91 og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa 27 fasteignir verið seldar á nauðungarsölu í Reykjavík.

Þetta er bara lýsandi dæmi um hvernig ástandið er orðið í efnahagsmálum hér á landi og þetta á eftir að versna.  Samt er byggt og byggt sem aldrei fyrr og heilu hverfin spretta upp en þar býr auðvita enginn, því engin getur eða vill kaupa þessar nýju íbúðir.  Þetta eru draugahverfi og öllum til ama og leiðinda.  Síðan seljast nýir bílar sem aldrei fyrr.  Ríkisstjórnin gerir ekkert heldur tekur þátt í leiknum með því að vera á stöðugu ferðalagi með einkaþotum út um allan heim.


mbl.is Fleiri nauðungarsölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússarnir koma

Nú er að koma í ljós að þeir aðilar sem ætla að fara af stað með hina fáránlegu hugmynd um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, eru Rússar.  Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar skrifar í BB að íbúar í Vesturbyggð vilji fá þessa stöð.  Hvernig getur Ragnar verið með svona fullyrðingar sem eru aðeins byggðar á hans hugmyndum.  Ég veit ekki til að nein skoðanakönnun hafi farið fram um afstöðu íbúa.  Hann hlýtur að hafa dreymt þetta manninn eða er hans draumur um þessa stöð svo mikill að hann gefi sér að allir séu honum sammála.  Rússar eru nú ekki þekktir fyrir að hugsa mikið um mengun en Ragnar segir að þetta verði að koma því ekki borði fólkið fjöllin á Vestfjörðum.  Mér ofbýður svona kjaftæði og get upplýst bæjarstjórann um að BBV-Samtökin eru með áform um stórkostlega uppbyggingu á Vestfjörðum og hafa fengið loforð fyrir 500-1000 nýjum störfum og þau loforð eru ekki frá Rússum, heldur vestrænum fyrirtækjum og skapa ekki mengun.  En hingað til hefur lítið orðið úr framkvæmdum vegna áhugaleysis heimamanna en það breytist nú vonandi.  Að óska eftir rússnesku mafíunni til að skapa störf fyrir vestfirðinga er þvílíkt rugl að varla er orðum á það eyðandi.  Það sem þarf að gera Ragnar Jörundsson er að gera eitthvað af viti og alvöru en ekki rugl og vitleysu með rússnesku mafíunni.  Í hvaða félagsskap eru forustumenn á Vestfjörðum að blanda sér í viljandi eða óviljandi.  Það þarf enginn að borða fjöll á Vestfjörðum þótt Rússarnir komi ekki heldur skapa ný störf og kaupa sér mat til að borða.  Á kannski að vera grjót í matinn í hinni nýju olíuhreinsistöð?

Að tapa peningum

Mynd 294198 Íbúðaeigendur sem hafa nýlega fest kaup á íbúðarhúsnæði munu tapa umtalsverðum fjármunum ef spá Seðlabankans um hugsanlega þróun íbúðaverðs og spá hans um verðbólgu gengur eftir. Þá má vænta þess að margir sem hafa tekið u.þ.b. 80% lán til íbúðakaupa verði í stórri skuld í lok ársins 2010, jafnvel þótt þeir hafi getað greitt 20% af kaupverðinu með eigin fé við kaup.

Já hún var ljót spáin hjá Davíð og félögum í Seðlabankanum, en það er nú ekki víst að hún sé rétt að öllu leyti.  Ég get ekki fengið annað út en þeir félagar vilji láta þjóðina blæða út fyrir eigin heimsku og gera fólk gjaldþrota í stórum stíl.  Ég er sammála orðum Jóns Baldvins um að það þurfi nýja áhöfn í Seðlabankann.  Þeir sem eru þar í dag ráða ekki við sín verkefni.  Sem sagt senda Davíð í hvelli til Rússlands, þar á hann skoðanabróður sem er Pútín og hann tæki Davíð örugglega fagnandi.


mbl.is Úr 5 milljónum í plús í 5,5 milljónir í mínus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slys á Reykjanesbrautinni

Mikið hefur verið rætt um ákveðið slys sem varð á Reykjanesbrautinni fyrir stuttu og margir orðið til að skammast út í Vegagerð ríkisins vegna þessa.  Ég var sjálfur á ferð á þessum vegi stuttu áður en slysið varð.  Ég verð nú bara að segja það að allar aðstæður voru erfiðar, allt á kafi í snjó og skóf mikið og skyggni lélegt.  Meira að segja lögreglan stoppaði mig og sagði að það hefði verið kvartað undan mínum akstri því ég æki svo innarlega á veginum.  Þetta var alveg rétt hjá þeim, því að á leiðinni frá Sandgerði til Keflavíkur var svo blint að ég greip til þess ráðs, sem maður vanur frá Vestfjörðum, sem er að fylgja stikunum sem eru við vegkantinn en ef ég mætti bíl vék ég  auðvitað strax til hægri á meðan viðkomandi fór fram hjá.

Mér finnst ekki rétt að vera með ásakanir á hendur Vegagerðinni.  Hún gat ekkert við þessu gert, heldur var það veðrið sem skapaði þessar aðstæður.  Hins vegar á Vegagerði hrós skilið fyrir það að snjómoksturstæki voru komin af stað snemma til að hreinsa vegina.  Það ber hver ökumaður ábyrgð á sínum akstri og eins og ég sagði áður þá þurfti ég að aka talsverðan kafla á hægri helmingi vegarins til að sjá stikurnar og hafa gluggann hægra meginn opinn til að sjá betur til.

Slys eru alltaf slys og þau þurfa ekki endilega að vera einhverjum að kenna.  Þau ske bara og því breytir enginn hvorki Vegagerðin né aðrir.  Ég lenti í alvarlegu slysi út á sjó 2003 og auðvitað hefði það aldrei skeð ef skipstjórinn hefði ákveðið að fara ekki á sjó þann dag.  En aldrei hefur það hvarflað að mér að kenna konum um slysið.

Ég get alveg skilið aðstandur þeirra sem í bílslysum lenda og sjálfsagt er sumt sagt í reiði yfir því sem skeð hefur.  En að koma í veg fyrir umrætt slys á Reykjanesbrautinni gat Vegagerðin ekki.  Það var veðrið sem skapaði þessar aðstæður en ekki Vegagerð Ríkisins.


Nú fyrst er allt að fara til andskotans

Ekki var hann gæfulegur boðskapurinn, sem hann Davíð Oddsson flutti þjóðinni við síðustu vaxtahækkun.  Hér væri allt á niðurleið, húsnæðisverð að lækka um 30%, bankarnir að fara á hausinn, verðbólga að rjúka upp og ég veit ekki hvað og hvað.  Allar launahækkanir foknar út í loftið og allt vöruverð að stórhækka.  Hver er tilgangurinn með svona boðskap?  Jú hann er sá að búa þjóðina undir að taka á sig meiri álögur og erfiðleika til að ná verðbólgunni niður og gera fjölda fólks gjaldþrota.  En það hefur Seðlabankanum ekki tekist þrátt fyrir allar sínar vaxtahækkanir.  Við eru komin í vítahring verðbólga hækkar og síðan hækkar Seðlabankinn vexti, sem aftur hækkar verðbólguna svona snýst þetta hring eftir hring.  Við erum komin með hæstu vexti í heimi en ekkert gengur. 

Það skyldi nú ekki vera að aðalvandamálið væri sjálfur Davíð Oddsson og Seðlabankinn.


Hvað vilja Vestfirðingar?

Það mætti halda að margir á Vestfjörðum vildu óbreytt ástand og ég verð að segja að ég hef orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með viðbrögðum sumra Vestfirðinga við tillögum okkar í BB-Samtökunum.  Er orðið framtíð eitthvað sem Vestfirðingar skilja ekki, vill þetta fólk bara mæta á kjörstað á 4 ára fresti og kjósa yfir sig sömu vitleysingana aftur og aftur, sem síðan berja á þeim á eftir og niðurlægja Vestfirði á flestum sviðum og sumir þeirra þora varla að koma til Vestfjarða, nema í skjóli nætur.    Fær fólk aldrei nóg af þessu rugli?  Finnst fólki allt í lagi að stöðugur fólksstraumur er frá Vestfjörðum og ekkert lát á og allt stefnir í að Vestfirðir fari í eyði.  Ég ætla rétt að vona að þegar við förum í fundarherferð um Vestfirði muni augu fólks opnast.  Við erum að falla á tíma með að bjarga Vestfjörðum.  Hristum nú rækilega upp í stjórnkerfinu svo Vestfirðir fái að dafna og blómstra.   

Ekkert hik nú verða verkin að tala og fríríkið Vestfirðir skal koma og áfram nú.


Kjaftæði

Nú hafa sumir á Vestfjörðum lagst svo lágt að kalla okkur sem erum í undirbúningshópnum dópista og frá okkur komi ekkert nema draumórar og við sitjum og dópum og höfum það næs.  Nú er það svo að í hópnum eru undirritaður sem bý í Sandgerði, Rósa býr á Vopnafirði og Ásthildur býr á Ísafirði.  Hvað á svona málflutningur að þýða? og hvaða tilgangi á hann að þjóna?  Ég veit ekki betur en að við þrjú höfum lagt á okkur mikla vinnu til að efla Vestfirði og fáum síðan svona kveðjur frá Vestfjörðum.

Er vonleysið og uppgjöfin orðin svo mikil að fólk trúir því ekki lengur að hægt sé að breyta núverandi ástandi á Vestfjörðum.

Ég segi bar við þetta fólk "Þið ættuð að skammast ykkar" ef þið kunnið það og hætta svona kjaftæði.

Og ég spyr á móti hver andskotann tók sá aðili inn af vímuefnum, sem lét sér detta í hug að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum?.  Það hefur verið góður skammtur og miðað við viðbrögð Vestfirðinga hefur hann gefið nokkuð mörgum að smakka með sér.


Daður

 Karlar gera almennt ekki greinarmun á almennri vinsemd kvenna og daðri, samkvæmt niðurstöðum nýrrar bandarískrar könnunar. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Hvernig í ósköpunum eiga þeir að átta sig á því, því birtist ekki oft vinsemd sem daður og öfugt.


mbl.is Greina ekki á milli vinsemdar og daðurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband