Vildi heldur drukkna sofandi

Veturinn 1998 vorum ég og sonur minn að róa á bát okkar Sigurbjörg Þorstein BA-165 sem var 38 tonna eikarbátur smíðaður 1948.  Báturinn var því orðin 50 ára gamall og vorum við að róa með línu frá Bíldudal og rérum oftast með 36 til 40 bala.  Þar sem ég var nýkominn úr aðgerð á fæti og var með fótinn í gifsi og gat þar af leiðandi ekki unnið á dekki og höfðum við feðgar þá verkaskiptingu að ég var skráður skipstjóri en hann vélstjóri og auk okkar var á bátnum með okkur ungur maður frá Bíldudal sem átti að verða vélstjóri.  Í einum róðrinum í janúar þegar við vorum að leggja línuna byrjaði að flauta viðvörun um sjó í vélarúmi, ég kallaði strax á son minn sem flýtti sér niður í vélarúm og kom upp aftur og sagði mér að það væri kominn svo mikill sjór í bátinn að við yrðum að hætta að leggja við næsta tengsli en þá yrðum við búnir að leggja 24 bala.  Þegar þar að kom, var settur belgur á endann og sonur minn fór aftur niður í vélarúm og þar sem veður var nokkuð gott NA 5-6 vindstig snéri ég bátnum og lensuðum undan vindinum á hægri ferð svo betra væri að athafna sig við að laga þetta og hinn væntanlegi vélstjóri fór líka til að aðstoða en kom fljótlega upp aftur og sagði við mig að við yrðum að fara strax í land því báturinn væri að sökkva.  Þar sem sonur minn var í raun hinn rétti skipstjóri sagði ég við drenginn að það væri enginn hætta á ferðum og rétt að sjá til hvort ekki tækist að lensa bátinn.  Þannig útbúnaður var í vélarúminu að lítil lensidæla var tengd við aðalvélina og gekk hún alltaf þegar aðalvélin var í gangi og ef enginn sjór var til að lensa var leitt inn á dæluna slef til að hún gengi aldrei þurr, auk þess var stór varadæla en reimin á henni var slitin og engin varareim til um borð en það sem sonur minn var að gera var að loka botnlokanum sem var fyrir dælu sem dældi sjó á dekk og aftengja hana og í stað þess að hún dældi frábotnlokanum  ætlaði  hann að láta hana dæla úr vélarúminu.   Þegar hinn væntanlegi vélstjóri sá að ekki yrði farið í land æddi hann að talstöðinni og sagðist ætla að senda út neyðarkall en ég stoppaði hann og sagði honum að hér sendi enginn út neyðarkall nema skipstjóri og við þyrftum ekki neina aðstoð því ef ekki tækist að þurrka bátinn værum við með tvo björgunarbáta um borð.  Vinurinn brást reiður við og sagðist ekki taka þátt í þessari vitleysu lengur og sagðist ætla að fara að sofa og rauk síðan fram í lúkar.  Svo fór að lokum að sonur minn kallar og biður mig að kveikja á spúldælunni og fór þá stax að dælast sjórinn úr bátnum og þegar þetta var komið klárt kom sonur minn upp úr vélarúminu og spurði um hinn væntanlega vélstjóra.  Ég sagði honum þá að hann hefði farið í koju því hann hefði talið öruggt að báturinn væri að sökkva og fór sonur minn þá að skellihlæja og sagði "Vill hann heldur drukkna sofandi."  Var bátnum snúið við og við sigldum að belgnum þar sem við höfðum hætt að leggja og ákváðum að leggja 10 bala í viðbót og gerðum það bara tveir, því ekki vildum við vekja hinn sofandi mann, sem væri sennilega að dreyma að hann væri dauður.  Þar sem stór hluti af línunni var búinn að fá nokkuð langa legu, var farið í endann þar sem við höfðum byrjað um morguninn og ætluðum að fara að draga.  Ég fór þá fram í lúkar og vakti þann sem var sofandi og þegar hann vaknar og kemur úr kojunni, spyr hann mig hvort við séum að verða komnir í land.  Nei,nei sagði ég við erum við fyrstu baujuna sem við lögðum í morgun og við hefðum einnig lagt 10 bala í viðbót svo það væru 34 balar sem við þyrftum að draga og hann skyldi drífa sig á dekk.  Hann stillti sér upp fyrir framan mig og steytti hnefann framan í mig og öskraði af bræði;  "Þið eruð snarbrjálaðir feðgarnir"   Síðan var byrjað að draga og gekk það allt vel en við vorum frekar seint í landi og lönduðum um 5-6 tonnum af góðum fiski.  Eftir löndun fór hin látni maður heim en við feðgar  gerðum við hina sjálfvirku lensidælu og allt var klárt í næsta róður sem var ákveðið að fara í kl:04 næsta morgun og þá mætti hinn látni maður sem enn virtist á lífi en sagði fátt þegar við sigldum úr höfn á Bíldudal.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband