Furðuleg fiskifræði

Samkvæmt skýrslum Hafrannsóknarstofnunnar er enginn stór þorskur til í sjónum lengur, en vitað er að sá fiskur gefur af sér besta nýliðun.  Hvað varð um þennan stóra þorsk?  Ekki veit Hafró svarið við því, nema að kenna of mikilli veiði um, þannig að þorskurinn sé veiddur áður en hann nær háum aldri og mikilli stærð.  Það vita það allir sem eitthvað hafa stundað sjómennsku að þessi stóri fiskur er ekki veiddur nema í net og þar sem bannað er í dag að nota stærri möskva í þorskanetum en 8 tommur, veiðist mjög lítið af þessum stóra fiski.  Því draga þeir þá ályktun að þar sem frekar lítið er landað af stórum þorskum þá sé hann ekki til í sjónum.  Það sem hefur verið að ske á undanförnum árum er það að hinum hefðbundnu netabátum fækkar stöðugt og með minni möskvastærð festist þessi fiskur ekki í netunum og kemur þar af leiðandi ekki í land, en hann er til og syndir bara frjáls í sjónum og þegar kemur að hrygningu leitar hann að skjóli á grunnu vatni til að hrygna.  Hann er því ekki til staðar á þeim svæðum sem Hafró er með sitt fræga togararall.  Undanfarið hefur verið til hjá Hafró svokallað netarall, en nú bregður svo við að ekki þótti rétt að taka tillit til þess á þessu ári þar sem netarallið kom svo vel út að Hafró taldi það skekkja sínar niðurstöður og gefa of góða mynd af ástandi þorskstofnsins, sem ekki mátti sjást.  Það er furðulegt að á þessu ári verður sennilega sett met í svokölluðum skyndilokunum vegna mikils smáfisks á vissum svæðum og á sama tíma er fullyrt að nýliðun sé mjög slæm.  Hvaðan kemur þá allur þessi smáfiskur? Féll hann niður af himnum? eða varð hann bara allt í einu til og bjó sig til sjálfur?  Í skýrslu Hafró er mikið um alls konar línu- og súlurit sem varla er nokkur leið að skilja nema að þorskstofninn sé að hruni kominn.  Það er jafnvel gengið svo langt að fullyrða að hrygningarstofn þorsks hafi verið mjög lítill sl. 35 ár og talað er um hvernig ástand stofnsins var um 1920.  Það getur nú ekki skipt neinu máli í dag hvað hrygningarstofninn var stór fyrir 35 árum eða eða fyrir tæpum 90 árum (1920), því þeir fiskar eru löngu dauðir, hafa annaðhvort verið veiddir eða dáið úr elli.  Hvað sögðu fiskifræðingarnir á sínum tíma þegar stórþorski var mokað upp svo skipti tugum þúsunda tonna í hringnót upp úr 1960?  Þeir sögðu einfaldlega að það skipti ekki máli, því þetta væri svo gamall fiskur að hann færi hvort sem er að drepast úr elli og allt í lagi að veiða hann.  Hvernig á að vera hægt að taka mark á þessum mönnum frekar í dag en þá.  Hinn mikli fiskifræðingur Bjarni Sæmundsson sagði eitt sinn að bestu skilyrði til að viðhalda þorskstofninum væru á dekki hinna gömlu síðutogara sem þá máttu veiða á Selvogsbanka og í aðgerð um borð í þeim skipum blönduðust saman hrogn og svil.  Það virðist að eftir því, sem tæknin hefur orðið meiri hjá Hafró með öllum sínum reiknilíkönum, hefur útkoman alltaf verið sú að ekki mætti veiða nema takmarkað magn á hverju ári og fer sífellt minnkandi.  Mér dettur helst í hug að þeir hjá Hafró hafi lært að reikna hjá hinni frægu persónu Laxnes, Sölva Helgasyni sem afrekaði það að reikna barn í konu, nema þeir virðast nota formúlu Sölva Helgasonar öfugt og reikna allt líf sem dautt, slík er vitleysan.  Ekkert mark er tekið á sjómönnum sem lifa og hrærast í þessu lífríki ár eftir ár.  Heldur er setið við tölvur og búin til reiknilíkön og það sem ekki passar í líkanið er bara hent í ruslafötuna t.d. netarallið.  Þessir varðhundar kvótakerfisins gera allt sem þeir geta til að verja kerfið og svo er verið að hampa allri hagræðingu sem er við það að drekkja öllum sjávarútvegi í skuldum.  Hver er svo öll hagræðingin?  Jú hún er sú að stór hluti af landsbyggðinni er að leggjast í eyði og þeir sem enn hafa leyfi til að veiða fisk fullyrða að það sé svo miklu ódýrara að ná í þorskinn í dag en áður var, vegna þess hvað mikið sé til af honum í sjónum.  Þannig að hver einasta fullyrðing gengur þvert á aðra.  Nú er í einu og öllu farið eftir tillögum fiskifræðinganna og til að þurfa ekki að svara fyrir sín mistök strax er þeim gefinn þriggja ára tími til að sýna að þeirrar kenningar geti verið réttar.  Það á sem sagt að fórna 3 árum í viðbót í þessa tilraun og hefur þá þessi vitleysa fengið að ganga í tæpa þrjá áratugi.  Það er eins gott að gengi krónunnar falli ekki mikið á meðan því ef það skeður verða skuldir sjávarútvegsins orðnar óviðráðanlegar og allir farnir á hausinn og enginn eftir til að veiða allan þann fisk sem þá mun flæða yfir miðin ef Hafró hefur rétt fyrir sér, sem ég dreg stórlega í efa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband