Hjónaskilnaðir

Það er ekkert grín að lenda í hjónaskilnaði, þótt atvikin hagi því oft þannig að ekki er annað til ráða.  Við hjónin skyldum eftir nær 30 ára sambúð en þá var okkar nánast kominn í óleysanlegan hnút sem ég hafði skapað með minni framkomu, mikilli drykkju og tilheyrandi framhjáhaldi.  Þess vegna gat ég ósköp vel skilið afstöðu minnar eiginkonu, ég átti mér engar málsbætur og því fór sem fór.  Fyrst í stað er maður algerlega ringlaður og vill vart trúa að þetta hafi skeð og oft er maður hreinlega að telja sjálfum sér trú um að þetta sé bara draumur sem maður eigi eftir að vakna upp af, en smátt og smátt skynjar maður hina bláköldu staðreynd að hjónabandið er búið og maður stendur allt í einu einn.  Sem betur fer fór þessi skilnaður fram í fullri sátt án allra deilna sem oft vill verða í slíkum málum, eins vorum við hjónin það heppinn að þrjú af okkar elstu börnum voru orðin uppkomin og búin að stofna sínar eigin fjölskyldur en við áttum eina dóttur sem var aðeins 9 ára gömul.  Okkur þótti báðum sjálfsagt að hún yrði áfram hjá móður sinni því við vorum sammála að slíkt væri best fyrir barnið.  Við skilnaðinn leystist heimilið auðvitað upp og ég leigði mér litla íbúð og þótt um það væri samið að dóttirin ætti að vera hjá mér aðra hvora helgi, fannst okkur ekki taka því að vera að þvæla barninu á milli húsa en við bjuggum bæði á Bíldudal.  Auðvitað voru viðbrigðin mikil, maður missir ekki aðeins eiginkonuna heldur missir maður einnig sinn besta vin til 30 ára.  Ég fann ekki svo mikið fyrir þessu fyrstu árin, því ég var alltaf út á sjó og þar hafði ég góðan félagsskap.  Við vorum á þessum tíma mikið að gera út frá Ólafsvík og var sá háttur hafður á að safna saman helgarfrýjunum og þegar skipsfélagar mínir fóru heim til Bíldudals var ég alltaf eftir og drakk mig blindfullan og eyddi svo kvöldunum við drykkju á ákveðnum pöbb í Ólafsvík en svaf um borð í mínum klefa.  Eins kom fyrir að ég fékk mér gistingu í Ólafsvík.  Þegar skipsfélagarnir komu úr helgarfríinu var ég yfirleitt kominn um borð og búinn að setja bæði ljósavél og aðalvél í gang, kveikja öll ljós og hafa allt klárt fyrir brottför.  Þó lenti ég einu sinni illa í því en þá stóð þannig á að það hafði bilað sjálfvirka dælan sem sá um að dæla olíunni uppá daghylkið fyrir vélarnar og ætlaði ég að gera við það í einu fríinu þegar hinir fóru allir til Bíldudals en sonur minn sem var skipstjóri á bátnum spurði mig áður en hann fór hvort ég vildi ekki þiggja að hann útvegaði mér gistingu á Gistiheimilinu í Ólafsvík svo ég þyrfti ekki að hanga aleinn um borð í bátnum og þáði ég það, þetta var á föstudegi.  Þegar allir voru farnir fór ég niður í vélarúm en hægt var að dæla upp á daghylkið með því að stýra dælunni handvirkt og fyllti ég daghylkið en skildi samt eftir ljós í mastrinu svo ég gæti séð frá gistiheimilinu ef ljósavélin stoppaði.  Síðan fór ég á Gistiheimilið og fékk mitt herbergi og síðan beint á barinn sem þarna var og hittist svo á að það átti að vera dansleikur þarna um kvöldið.  Ég ætlaði nú bara að fá mér eitt glas og fara svo að sofa og vakna snemma um morguninn og fara og koma dælunni í lag. Þegar fyrsta glasið var búið fannst mér allt í lagi að fá mér annað, ég yrði bara fljótari að sofna, bæði glösin voru tvöfaldur vodki í kók.  Þegar ég er búinn með seinna glasið og er að hugsa um að fara að sofa, þá er kallað í mig og ég boðinn að ákveðnu borði.  Alltaf frestaði ég því að fara og athuga með ljósavélina og svo hófst dansleikurinn og að honum loknum fór ég að sofa.  Þegar ég vakna síðan skelþunnur á laugardagsmorgun var fyrsta sem ég gerði að fara fram á barinn og tókst að væla út að fá afgreitt eitt glas.  Ég settist með það við borð og var ákveðinn að fara strax niður í bátinn þegar heilsan færi að lagast.  En í þann mund sem ég er að standa á fætur kemur maður inn og sest hjá mér og reyndist það vera háseti á bát sem lá við hliðina á okkar bát og var hann að bölva öllum snjónum sem væri úti og sagðist vera að koma frá höfninni, ég spurði hann hvort hann hefði tekið eftir því hvort ljósavélin hjá mér væri í gangi og hann sagði að hún hefði verið það.  Taldi ég þá allt vera í lagi og sátum við þarna fram eftir degi en keyptum þá heila flösku af víni og bland og fórum inn á herbergi og sátum þar við drykkju fram á kvöld.  Sunnudagurinn fór á sömu leið stanslaust fyllirí og var ég rétt ný sofnaður þegar hurðinni er allt í einu svipt upp og inn æðir sonur minn og spyr hvern andskotann ég sé að gera.  Því þegar þeir komu frá Bíldudal og ætluðu um borð í bátinn hefð'i verið dautt á öllu og allt orðið ískalt.  Sagðist hann vera búinn að koma ljósavélinni í gang og nú skyldi ég koma strax um borð, því hann ætlaði að fara á sjó klukkan fimm um morguninn og sér sýndist að mér veitti ekki af einhverjum svefni áður.  Næsti dagur var hræðilegur að draga netin í skítakulda og hálfgerðri brælu og skelþunnur í þokkabót en mér tókst að þrauka þetta og ekki var fallegt augnaráð sem ég fékk frá skipsfélögunum eftir að þeir höfðu mætt til skips og allt ískalt.  Ég hélt áfram á sjónum en síðan skeður það haustið 2003 að ég lendi í slysi, flækist í dragnót sem við vorum að kasta og slasaðist það illa að það blæddi inn á heilann og ég lamaðist algerlega á vinstri hlið.  En eftir hálft ár á Reykjalundi gat ég farið að ganga á ný og fékk einnig leyfi til að aka bíl, en enga vinnu gat ég stundað.  Þá fyrst fór ég að gera mér alvarlega grein fyrir hvað ég hafði misst mikið við hjónaskilnaðinn.  Og sannast þar málshátturinn "Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur."  Þannig að ég ráðlegg öllum að hugsa sig um tvisvar og reyna allt sem hægt er áður en fólk lætur sér detta í hug hjónaskilnað.  Nú sit ég bara einn og vorkenni sjálfum mér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Jakob, taktu þig á þín vegna... Hættu að gráta og vorkenna þér... Margt fólk víðsvegar býr við verri aðstæður en þú.. .Hefurðu hugleitt að ef til villl þjáist þú af skammdegis þunglyndi sem margur landinn er heltekinn af...?Félagskerfið ætti að geta hjálpað þér í raunum þínum.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 27.11.2007 kl. 21:13

2 Smámynd: J. Trausti Magnússon

Þetta er einlægur og hreinskilinn pistill hjá þér Jakob. Við þurfum öll á smá áminningu að halda öðru hvoru. Maður má ekki ganga að hlutunum gefnum, heldur á maður að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og læra af jafn biturri reynslu og þú hefur lent í.

J. Trausti Magnússon, 27.11.2007 kl. 21:33

3 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ég er alveg sammála þér Guðrún og veit að margt fólk hefur það miklu erfiðara en ég.  Maður er bara svo vanur að vorkenna sjálfum sér og öðrum og mér hefur svo oft þegar ég er að reyna að bæta mitt líf fundist að ég þyrfti að gera það til að þóknast öðrum, en auðvitað á maður að gera slíkt eingöngu fyrir sjálfan sig.  En hvað varðar skammdegis þunglyndið, þá get ég upplýst þig um það, að síðan ég lenti í þessu slysi og var nánast kippt út úr hinu daglega lífi þjóðfélagsins, þá hef ég þurft að vera í meðferð hjá geðlæknir vegna þunglyndis og er á ákveðnum lyfjum við því.  En þrátt fyrir það og allan minn vilja kemur það oft fyrir að ég dett aftur niður í þunglyndinu og kannski er ástaðan nánast enginn.

Jakob Falur Kristinsson, 28.11.2007 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband