Öryrkjar

Þar sem ég hef mikinn áhuga á málefnum öryrkja, enda öryrki sjálfur skrifa ég alltaf talsvert um okkar kjör.  En nú fer í hönd dýrasti mánuður ársins hjá flestum og við öryrkjar fáum ákveðna desemberuppbót til að við höfum nú næga peninga í jólamánuðinum bæði til að kaupa okkar jólamat og svo gefa nánustu ættingjum jólagjafir.  Það má segja að Tryggingastofnun (TR) hugsar svo sannarlega vel um okkur öryrkjana.  Nú hefur TR tekið upp, til að spara, að hætta að senda bótaþegum yfirlit um hverja greiðslu í hverjum mánuði, heldur verður að sækja þessar upplýsingar í gegnum netið á netfangið skattur.is, þótt ég hafi tölvu og nettengingu eru örugglega margir öryrkjar sem ekki hafa slíkt og verða þeir þá að fá einhvern til að sækja þetta fyrir sig eða gera sér ferð til TR eða á næstu umboðsskrifstofu TR.  Hvað ætli þessi sparnaður sé mikill, jú þeir spara sér frímerki en það kostar kr. 60 krónur fyrir hvert bréf og miðað við fjölda öryrkja er þessi sparnaður í mesta lagi nokkur hundruð þúsundkrónur á mánuði.  En eitthvað hlýtur það að kosta að setja öll þessi bréf inn á netið, varla fara bréfin þangað sjálf og ekki væri ég hissa að allur þessir sparnaður fari í að greiða kostnað við að koma þessu á netið.  Þótt maður sé með nettengingu er ekki boðið uppá þá þjónustu að senda manni bréfið í tölvupósti.

En þá ætla ég að snúa mér að þessum greiðslum í desember.  Ég fékk sérstaklega þessa desember uppbót og hélt ég að þetta væri alveg sérstök aukagreiðsla og væri 30 þúsund en það sem ég fékk var kr: 18.482 krónur og af þeirri upphæð var síðan tekinn 35,72% skattur sem var kr: 6.602 krónur svo niðurstaðan var aðeins kr: 11.880,- þetta er sú upphæð sem mér er ætlað til jólahalds um næstu jól auk kaupa á jólagjöfunum.  Heildargreiðslan frá TR sem kom inn á minn reikning var kr: 96.588,- svo koma til viðbótar greiðslur frá lífeyrissjóðum, en þær eru skattlagðar að fullu enda skattkort mitt fullnýtt hjá TR.  Greiðslurnar frá lífeyrissjóðunum eru kr: 54.582,- þannig að til að lifa af desember hef ég til ráðstöfunar Kr: 151.140,- , sem mér skilst að sé nú bara nokkuð gott af öryrkja að vera.  En þá er best að skoða það sem verður að greiða sem er; Greiðsla af íbúðinni kr: 63.209,- rafmagn og hiti kr: 2.042,- sími og nettenging kr: 8.663,- Stöð 2 kr: 5.371,- (En það er eini munaðurinn sem ég leyfi mér) Ég fæ keyptan mat í hádeginu hér í húsinu sem ég bý í og eru það kr: 8.910,-(Niðurgreitt af Sandgerðisbæ)en ég verð síðan að kaupa mér mat á kvöldin og um helgar sem kostar mig að meðaltali kr: 20.000,- á mánuði, ég þarf að greiða tryggingar af bílnum mínum rúmar kr: 10.000,- á mánuði.  Ég þarf að kaupa lyf fyrir kr: 10-15 þúsund á mánuði, bensín á bílinn til að stunda sjúkraþjálfun um kr: 10.000,-.  Þegar ég legg þetta saman eru gjöldin samtals kr: 143.195,- og tekjurnar eru kr: 151,140,- þá er mismunurinn kr: 17.945,- og nú er ég að tala um desembermánuð aðra mánuði er greiðslan frá TR 11.880,- krónum lægri, sem lækkar mismuninn í kr: 6.065,-. Ég þarf að fara í læknisskoðun hjá sérfræðingi 3-4 sinnum á ári og kostar hvert viðtal 1.800,- og ef ég reikna þetta yfir árið = 12x6.065 kr: 72.780,- og frá dregst 4x1.800 = kr: 7.200 er þá eftir á ári kr: 65.580,- eða kr: 5.465,- að meðaltali í hverjum mánuði og ekki er nú gert mikið fyrir þessa upphæð dygði varla til að fylla bílinn einu sinni af bensíni ef mér dytti í hug að heimsækja eitthvern ættingja minn.  Nú veit ég að margir öryrkjar hafa það mun verr en ég og margir eiga ekki einu sinni heimili og hafa ekkert húsaskjól.   Ég veit líka að víða í heiminum er fólk að deyja úr hungri, en ekki bæti sú vitneskja neitt mín kjör.  Ég var alvarlega að hugsa um að selja íbúðina mína hér í Sandgerði og fá leigt hjá Öryrkjabandalaginu (ÖB) í Hátúni í Reykjavík vegna þess að bæði hefði ég fengið talsverða peninga og svo var húsaleigan um 50% lægri en ég er að greiða af minni íbúð í dag, einnig fengi ég húsaleigubætur.  Ég var búinn að vera þar á biðlista síðan ég útskrifaðist frá Reykjalundi eða í um 3 ár og var búið að segja mér að ég fengi íbúð þann 1. september sl. en þegar ég fór að spyrjast fyrir um íbúðina var mér sagt að ÖB væri hætt að taka inn fatlað fólk, nú ætti að breyta íbúðunum til að leigja á almennum leigumarkaði og jafnvel að selja allar íbúðir sem ÖB á í dag.  Ég segi nú bara að það var mitt lán að vera ekki búinn að selja mína íbúð, því annars væri ég á götunni.  Einni er ég mjög hissa á þessari ákvörðun ÖB sem eiga nú einu sinni að vera hagsmunasamtök öryrkja.  Það er augljóst að öryrki sem er einn og fær lítið annað en sínar bætur getur aldrei leigt á almennum leigumarkaði, þetta húsnæði var eina von öryrkja um að geta eignast heimili.  Og ég segi nú bara að lokum. "Ef hagsmunasamtök öryrkja vilja ekki aðstoða þá hvernig geta þá þessi sömu samtök verið að krefjast þess að ríkið bæti kjör öryrkja. Sá sem ekki vill hjálpa sér og sínum, getur ekki ætlast til að aðrir geri það.  Er kannski verið að breyta ÖB í fasteignafélag sem verður að skila arði.  Hvaða andskotans vitleysa er eiginlega í gangi hjá ÖB?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband