Eyðibyggðastefnan

Byggð mun nánast leggjast af í mörgum sveitarfélögum innan fárra áratuga, haldi sama þróun áfram og verið hefur undanfarin fimmtán ár. Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um byggðarlög þar sem fólksfækkun er viðvarandi.

Ég var að skrifa um þetta í gær og ætla ekki að endurtaka það hér en í gær nefndi ég sérstaklega Bíldudal en þar hefur fækkun orðið rúm 50% á 15 ára tímabili og fækkar enn.  Það er ekkert nema gott um það að segja að Byggðastofnun sendi frá sér svona skýrslur.  En þá verða stjórnvöld og sérstaklega byggðamálaráðherrann Össur Skarphéðinsson að gera eitthvað til að forða því að heilu landsvæðin fari í eyði.  Vestfirðingar eru duglegir að bjarga sér og það nýjasta til að skapa atvinnu var að fara af stað með ferðamennsku að norskri fyrirmynd.  Þetta byggist á því að taka á móti ferðamönnum og leigja þeim litla báta til að veiða með sjóstöng.  Síðan má hver ferðamaður taka með sér 20 kg af flökum heim af þeim fiski sem hann veiddi.  Þetta hefur verið stundað í Noregi í nokkur ár og þangað koma á milli 20-40 þúsund veiðimenn.  Það eru einkum Þjóðverjar sem sækja í þessar ferðir en nú er farið að bera á ferðamönnum frá öðrum löndum.  Fyrsta sumarið 2007 sem þetta var stundað voru tvö fyrirtæki í þessari starfsemi og allt gekk vel og fyrirtækin skiluðu hagnaði, en þá kom áfallið,  sem var bakreikningur frá Fiskistofu fyrir leigu á öllum þeim fiski sem veiddur hafði verið og litlu munaði að fyrirtækin yrðu gjaldþrota.  Þegar var komið að því að bóka í ferðir fyrir 2008 settu fyrirtækin kvótaleigu inn í verðið en ekki varð það til að draga úr eftirspurn í þessar ferðir og munu nú í sumar koma á milli 3.000 til 4.000 ferðamenn til að veiða fisk.  En þá kom andskotans kvótinn til sögunnar og fyrirtækin sem voru búin að selja í þessar ferðir urðu að leigja kvóta sama hvað hann kostaði.  Þetta hefur haft þau áhrif að hinn venjulegi trillukarl  gat ekki lengur leigt til sín kvóta því hann var svo dýr.   Ég hef heyrt frá trillukörlum, sem kenna Vestfirðingum og þessari ferðamennsku um mikla hækkun á leiguverði á aflakvóta.  En ég held að þeir ættu frekar að styðja Vestfirðinga í þeirri baráttu um það að veiðar þýsku sjóstangveiði mannanna, verði undanþegin kvóta.  Því að ætla að kenna Vestfirðingum um, er eins og að hengja bakara fyrir smið. 

Svo er líka til önnur gerð af sjóstangaveiðum, en þá eru haldin ákveðin mót sem sótt eru af yfirstétt okkar þjóðar og þá þarf engan kvóta. 

Í Noregi þurfa fyrirtæki sem eru í nákvæmlega sama rekstri ekki að hafa áhyggjur af kvóta, því Norska ríkið lætur sér nægja allar tekjurnar af ferðamönnunum en eru ekki að passa að einhver útgerð sem á kvóta nýti sér þessa ferðamennsku til að ná sér í peninga.  En á Íslandi passa stjórnvöld að sægreifarnir geti braskað með kvótann sinn og nýtt sér framtak annarra til að ná sér í pening.

Það kann að vera að sumum finnist þetta ekki vera mikið mál en fyrir litlu sjávarþorpin á Vestfjörðum er þetta stórmál.  Þegar maður fer að skoða þetta vandlega kemur á óvart hvað mörg störf verða til við þessa starfsemi.  Ferðamennirnir þurfa gistingu og mat og sumir taka jafnvel bílaleigubíla og skoða Vestfirði.  Það verða til nokkur störf við bátanna, því að löndun lokið þarf að þrífa bátana og gera þá klára fyrir næsta dag.  Eins eru sumir sem vilja fara út úr fjörðunum og þá þarf að vera tiltækur skipstjóri til að fara með þeim og margt fleira týnist til.

Væri nú til of mikils ætlast að stjórnvöld í okkar landi styddu við bakið á þessari ferðamennsku og létu þessar veiðar vera utan kvóta.  Þetta er nú ekki meira magn en svo að það er aðeins brot af þeim fiski sem kemur í flottroll uppsjávarveiðiskipa og fer í bræðslu.   Ef svo illa er komið fyrir okkar fiskistofnum að nokkrar sjóstangir í nokkra mánuði á ári, myndu eyðileggja allt starf Hafró þá er ástandið á Íslandsmiðum skelfilegt og ætti að banna allar veiðar strax hér við land. 

Nei það er ekki fiskvernd sem þarna ræður för og hefur aldrei gert síðan þetta kerfi var sett á heldur virðast varðhundar kvótakerfisins ráða algerlega yfir öllum gerðum sjávarútvegsráðherra Einars K. Guðfinnssonar.  Það hafa verið tvö fyrirtæki í þessari ferðamennsku og það þriðja var stofnað í Bolungarvík fyrir stuttu og ætlar að vera með fullt af veiðimönnum næsta sumar.  Þannig að við getum brátt átt von á því að um 10 þúsund ferðamenn komi til Vestfjarða til að veiða fisk.  Það eru ekki bara Vestfirðir sem fá hlut af komu þessara hópa.  Þeir þurfa að fara með flugi til Íslands og líka heim aftur,þeir gista oftast tvær nætur á hótelum og versla á höfuðborgarsvæðinu.  Vestfirðingum svíður það einnig að í þessu kvótarugli skuli Vestfirðingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson dansa vangadans við sægreifanna brosandi út að eyrum, þrátt fyrir að fólkið sem kaus hann á Alþingi og treysti honum, lepji dauðan úr skel.  Ég kalla þetta eyðibyggðastefnu, því það eru stjórnvöld sem hafa komið því til leiðar að byggðir eru við það að fara í eyði.  Nú er verið að vinna að miklum snjóflóðavörnum á Vestfjörðum, ég hef heyrt nefnt að varnargarðarnir sem eiga að skýla Bíldudal muni kosta um 3 milljarða og eitthvað álíka upphæð í Bolungarvík og einhverjir milljarðar fara á aðra staði.  En til hvers er verið að þessari vitleysu að eyða nokkrum milljörðum til að verja byggð sem búið er að ákveða að eigi að fara í eyði.  Ég bara næ þessu ekki.

Að það þurfi aflakvóta fyrir veiðum þýskra manna með sjóstöng á Vestfjörðum er til skammar. 


mbl.is Byggðarlög leggjast í eyði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið rosalega er ég sammála þér þarna Jakob.  Heyr heyr !!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.7.2008 kl. 10:44

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sammála Ásthildi vinkonu

Sigurður Þórðarson, 18.7.2008 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband