Kvótakerfið

Mikið getur maður orðið hissa þegar velmenntaðir menn eru að fullyrða að kvótakerfið hafi ekki verrið sett á til að vernda fiskistofna og viðhalda byggð víða á landinu heldur hafi það verið sett á til hagræðingar, enda sé hagur útgerðar allur annar nú en áður.  Annað hvort eru þessir menn ekki læsir eða að þeir voru enn með bleyju þegar kvótakerfið kom til sögunnar.  Því í lögum um stjórn fiskveiða stendur það skýrum stöfum hver er tilgangurinn með því.  Auðvitað batnaði hagur útgerðarinnar verulega þegar farið var að verðleggja óveiddan fisk og færa sem eign í bókhaldi útgerðar  Við getum líka bætt stöðu ríkissjóðs verulega og alltaf verið með hallalausan ríkissjóð ef við færum í ríkisbókhaldið sem eign  öll fjöll á Íslandi og hver rúmmeter af sjó í 200 mílna lögsögu það væri engin smáræðis eign í krónum talið ef við hefðum verðið nógu hátt.  Síðan gætum við reiknað vexti af upphæðinni og tekjufært hjá ríkissjóði.  Þá væri sama hve miklu yrði eytt við gætum alltaf verið með ríkissjóð hallalausan.  Við gætum líka bjargað viðskiptahallanum við útlönd með því að gefa okkur það að ákveðið magn af fiski hefði synt til annarra landa segjum bara 250 þúsund tonn af þorski til Grænlands og Færeyja og reiknað síðan kvótaleigu á allt magnið og fært sem útflutning.  Með liðstæðum aðferðum var nú sjávarútvegurinn réttur af.  Ef kvótakerfið á ekki að vernda fiskistofna til hver er þá verið að reka Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofu?  Það er líka áhugavert að skoða bókhald margra útgerðarfélaga, því að þegar þorskveiðar voru minnkaðar um 60 þúsund tonn hefði maður nú haldið að eigið fé útgerðar rýrnaði en það skeði ekki heldur er þorskílóið bara verðlagt á kr. 3.000,- í bóhaldinu en var kr. 2.000,- áður.  Þetta er allt leikur að tölum og oft minnir þetta mig á þegar Halldór Laxnes lét Sölva Helgason reikna barn í konu í einu verka sinna.  Ég var í morgun að lesa viðtöl við fólk hjá greiningardeildum bankanna um efnahagsástandið á Íslandi í dag og eftir þann lestur er ég sannfærður að flest af þessu fólki er enn með bleyju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það er nenfilega málið Jakob, fólk hefur ekki hundsvit á því sem það er að segja. Þó það sé meira og minna allt Háskólagengið. Því fleirri Háskólar því vitlausara fólk.

Ég held að fræða þurfi þjóðina um staðreyndir.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 18.7.2008 kl. 21:07

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Viðurkenni að ég hef lítið vit á kvótakerfinu, en þekki þó það marga sjómenn sem hafa óbeit á því að ég tek mark á þeim

Ásdís Sigurðardóttir, 18.7.2008 kl. 22:47

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill Jakob.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 19.7.2008 kl. 00:34

4 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er alveg rétt hjá þér Erlingur að gæðamálin eru í dag allt önnur en var fyrir 25 árum en það er ekki eingöngu kvótakerfinu að þakka.  Ég þekki þetta vel eftir að hafa starfað í fiskvinnslu í 20 ár.  Það sem hefur breyst er þetta;  Hér áður fyrr voru það þrjú stór fyrirtæki sem fluttu út yfir 90% af allri fisk-framleiðslunni og þar á ég við SH, SÍS og SÍF.  Með tilkomu fiskmarkaðanna spruttu upp lítil fyrirtæki sem ekki voru í útgerð og þau fóru að selja sínar afurðir sjálfir og voru fyrst allra fyrirtækja til að senda fersk flök út með flugi.  Hinir þrír risarnir á markaðnum ráku eigið gæðaeftirlit og sendu eftirlitsmenn í fyrirtækin til að skoða framleiðsluna.  Þeirra sala byggðist að mestu á því að selja stofnunum og dreifingaraðilum afurðirnar og helst í heilum skipsförmum.  Þegar litlu fyrirtækin gátu alltaf keypt fiskinn á mörkuðum á hæsta verði fórum við sem vorum tengdir risunum að kanna hvernig þetta gæti staðist og fórum þá einnig að líta til þess að komast meira inná markaðinn.  Ég t.d. var alltaf að selja einn og einn gám beint til verslana erlendis og þá fóru að myndast bein tengsl milli framleiðenda og kaupenda.  Þessir kaupendur sendu sína eftirlitsmenn til framleiðenda til að skoða aðstæður hjá hverjum og einum.  Eins fórum við framleiðendur að fara í heimsóknir til kaupenda.  Mér er mjög minnisstætt þegar fulltrúi eins kaupanda kom í mitt fyrirtæki og skoðaði allt og skrifaði skýrslu.  Síðan settumst við niður og fórum að fara yfir málin og það var eitt atriði sem hann setti algert bann við en það var að strákarnir sem unnu við frystitækin voru að drekka kók úr glerflöskum þegar hann skoðaði þar og geymdu flöskurnar upp á tækjunum.  Þetta höfðu eftirlitsmenn hjá þeim sölusamtökum sem við vorum í oft séð og fannst bara eðlilegt.  Þannig að það var ekki kvótakerfið sem bætti gæðamálin heldur fiskmarkaðirnir og þessi beinu tengsl milli framleiðenda og kaupanda.  Fiskmarkaðirnir höfðu líka þau áhrif að sjómenn fóru að vanda betur meðhöndlun afla til að fá sem hæst verð.  Í dag má segja að flestir fiskverkendur selji sínar afurðir sjálfir.

Guðrún Þóra ég er sammála þér með háskólaliðið og ástæðan er sú að nú fara allir í háskóla hvort sem þeir eiga þangað erindi eða ekki og búið er að þynna allt út í meðalmennsku.  Enda verður maður oft var við kunnáttuleysi við fréttalestur og í útvarpi.  Málfarið er slíkt að maður skilur oft ekki hvað verið er að tala um.  Nú þarf orðið háskólanám til að sinna mörgum störfum, sem ekki þurfti áður.  Það þarf háskólapróf til að kenna litlum börnum að lesa og skrifa, þótt kennarinn kunni varla slíkt sjálfur.  Ég heyrði einn prófessor tala í sjónvarpinu um undirliggjandi launaskrið og hann nefndi einnig að núna í efnahagslægðinni yrðu fyrirtækin að straumlínulaga rekstur sinn að breyttum aðstæðum.  Og ég tala nú ekki um þegar menn eru að rífast um hvert eigi að flytja Reykjavíkurflugvöll og sumir tala um að flytja hann til Keflavíkur.  En það flytur enginn flugvöll það er ekki hægt, en það er hægt að flytja starfsemina eitthvað annað.

Jakob Falur Kristinsson, 19.7.2008 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband