Ný atvinna

Mér var sagt upp störfum hjá Gulltog ehf. 11. ágúst og ekki óskað eftir því að ég ynni uppsagnarfrestinn.  Ástæðan var sögð sú að ég hefði bloggað um að búið væri að selja skip félagsins til Rússlands og nú fengi ég vonandi öll ógreiddu launin mín en ég átti inni laun frá því í apríl.  Mér var tjáð að þetta hefði verið trúnaðarmál.  Samt var skipið skráð til sölu hjá skipasölunni Álasundi í Keflavík og allir gátu séð það og þegar skipið var selt sendi Álasund frá sér fréttatilkynningu um að skipið væri selt til Rússlands.  Ég veit ekki hvaða feluleikur átti að vera þarna í gangi, því um leið og skip er skráð til sölu er það öllum opinbert og hver sem er og hefði haft áhuga á skipinu hefði fengið þau svör að skipið væri selt til Rússlands.  Auðvitað á maður ekki að setja hér á bloggið  upplýsingar sem maður fær í vinnunni og mun ég passa mig betur á því atriði í framtíðinni.  Nokkrum dögum seinna er ég boðaður á fund hjá Gulltog ehf. og ráðinn aftur, en þegar ég ætlaði að mæta í vinnu var mér tjáð að þetta hefðu verið mistök og mér sagt upp i annað sinn.  Ég spurði þá um ógreiddu launin mín og var sagt að þau yrðu greidd.  Nokkrum dögum seinna voru greidd launin fyrir apríl og ekki meir.  Hinsvegar fékk ég tölvupóst frá framkvæmdastjóranum þar sem gefið var í skin að óvíst væri hvort ég fengi greitt meira og þau skildu ekki hvað ég hefði verið að gera allan þennan tíma og gefið í skin að ég hefði ekki unnið fyrir laununum mínum.  Ég svaraði þessu bréfi á þann veg að ég hefði verið að færa bókhaldið og gat þess jafnframt að það væri á ábyrgð framkvæmdastjóra að sjá til þess að bókhald væri fært á hverjum tíma og auk þess hefði ég þurft að svara stöðugt í símann aðilum sem voru að rukka, einnig nefndi ég að það væri ekki við bókarann að sakast þótt eignir dygðu ekki fyrir skuldum.  En framkvæmdarstjórinn dvaldi megnið af sumrinu á Spáni í sumarhúsi þeirra hjóna, því hún treysti sér ekki til að svara fyrir fyrirtækið þegar ekkert væri hægt að greiða.  Nú er staða mín gagnvart þessu fyrirtæki sú að ég hef gengið greitt tvo mánuði af 9 og eru þessir 7 mánuðir í lögfræðiinnheimtu hjá mínu stéttarfélagi.

Ég var einn daginn að bíða á læknastofu í Keflavík og eins og maður gerir oft þá fór ég að lesa blöðin sem þar voru og í blaðinu Víkurfréttum var auglýsing frá fiskvinnslufyrirtæki í Sandgerði um að það vantaði vanan bókara sem fyrst.  Ég hafði ekki hugmynd um hvaða fyrirtæki þetta væri en hringdi og sótti um og nokkrum dögum seinna var ég boðaður á fund hjá þessu fyrirtæki og þar tóku á móti mér ung hjón.  Þau útskýrðu fyrir mér sinn rekstur og buðu mér starfið sem ég að sjálfsögðu þáði með þökkum.  Þetta er indælisfólk enda bæði Vestfirðingar og þarna byrjaði ég að vinna 15. sept.  Þar sem verið er að útbúa skrifstofuaðstöðu í húsnæði fyrirtækisins verð ég að vinna þetta hérna heima þar til sú aðstaða er tilbúinn.  Ég er búinn að koma þarna nokkrum sinnum og þarna er starfsandinn allt annar og betri en var hjá Gulltog ehf.  Er ég því í dag bara feginn að mér var sagt upp hjá Gulltog ehf. því annars hefði ég ekki farið að leita mér að annarri vinnu og mikil heppni að detta niður á þetta starf.  Er nú bara nokkuð bjart framundan hjá mér hvað fjárhaginn varðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband