Tvísýn sjóferð

Veturinn 1995 leigði ég einbýlishús í Garði og ég og sonur minn vorum að róa á 6 tonna trillu frá Keflavík með línu.  Einn daginn fórum við í róður í þokkalegu veðri en spáð var versnandi veðri þegar liði á daginn.  Þegar við vorum búnir að leggja línuna var farið að hvessa talsvert, fórum við því fljótlega að draga en stöðugt bætti veðrið og svo fór að línan slitnaði og var þá farið í hinn endann til að halda áfram að draga.  Okkur gekk illa að ná baujunni innfyrri og í þau fáu skipti sem við náðum henni misstum við hana alltaf fyrir borð aftur.  Í eitt skiptið þegar við náðum henni um borð lögðumst við báðir á hana til að reyna að halda henni um borð en veðrið var orðið svo slæmt að það dugði ekki til og flaug hún fyrir borð aftur.  Veðurhæðin var orðin um 10-12 vindstig og ákváðum við þá að reyna að komast í land og freista þess að ná línunni seinna.  Sonur minn fór í koju en ég tók landstímið.  Það var erfið sigling, báturinn stakkst í öldurnar og fór nánast á kafa af og til.  Ég var með stefnuna á Garðskagavita en siglingin gekk hægt.  Skömmu síðar hringir hafnarvörðurinn í Keflavík í mig og spyr hvort ekki sé allt í lagi og bætir því við að allir bátarnir séu komnir í höfn nema við.  Allt í einu í einni dýfunni sló út rafmagninu og  vegna veðursofsans treysti ég mér ekki til að fara aftur í vélarúm til að athuga hvað hafði skeð.  Hafnarvörðurinn hafði ráðlagt mér að þegar ég kæmi að Garðskaga þá skyldi ég sigla meðfram landinu því þá væri meira skjól.  Þar sem ekkert rafmagn hlóðst nú inn á rafgeymanna ákvað ég að slökkva á dýptarmælinum og radarnum, til að spara rafmagn svo við hefðum alla veganna siglingarljósin.  Ég hafði ekki siglt langt inn Stakksfjörðinn þegar báturinn tók heljar dýfu og skall harkalega niðri að aftan.  Sem betur fer voru tvær vélar í bátnum og gátum við siglt á annarri vélinni til Keflavíkur.  Daginn eftir tókum við bátinn upp og fengum aðstöðu í gamla slipphúsinu.  Þegar báturinn var kominn á land blöstu skemmdirnar við.  Önnur skrúfan var mölbrotin og öxullinn mikið beygður og brotið úr hæl bátsins.  Við vorum rúman mánuð að lagfæra þetta og komið fram í endaðan apríl þegar báturinn fór á flot aftur.  Þá fórum við vestur á Patreksfjörð og hófum róðra þaðan.  Kunnugir menn í Keflavík sögðu að sennilega hefðum við tekið niðri á gömlum gufukatli, sem mikið er af á þessu svæði.  Því þarna hafa strandað mörg skip sem ekki hefur tekist að bjarga og gufukatlarnir úr þeim væru þarna á talsverðu svæði.  Það er nokkuð öruggt að ef ekki hefðu verið tvær vélar í bátnum hefði hann farið þarna upp í stórgrýtta fjöruna og mölbrotnað og við feðgar báðir drepist.

Svo eru margir að halda því fram að ef krókaveiðar yrðu gefnar frjálsar þá færi annar hver maður að róa á trillu.  Það er ekki alltaf neitt sældarlíf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband