Kaus vitlaust

Andskotinn sjálfur, nú er ég að uppgötvað að ég kaus vitlaust í síðustu kosningum.  Ég trúði þessum helvítis bjánum að þeir myndu standa við sín stóru orð.  En nú eru þau á fullri ferð að binda Ísland á skuldaklafa um ókomna tíð með þessari Icesave-ábyrgð og leggja allt Ísland að veði.  Ég var svo sem búinn að sætta mig við að gera samninga um þessa reikninga en loksins þegar þeir líta dagsins ljós skilur maður ekki að ekki hafi verið hægt að ná betri samningum fyrir Ísland.  Voru þeir í þessari samninganefnd svona hræddir við Breta og Hollendinga eða voru þeir blindfullir.  Það þýðir lítið að segja að ýmis ákvæði í þessum samningi, eins og vextir ofl. séu algengir í lánasamningum milli ríkja.  Það er kannski þannig í frjálsum samningum en þetta eru nauðasamningar og þá hefði verið sanngjarnt að áhættan skiptist jafnt milli aðila samningsins og lánin hefðu átt að vera vaxtalaus eins og það fé var sem Bretar lokuðu inn í Englandsbanka.  Við vorum í góðri samningsstöðu því að ef við neituðum að borga var hætta á að hið stórgallaða regluverk ESB um fjármálastofnanir yrði til þess að bankakerfið innan ESB hryndi eins og spilaborg.

Við áttum að neita að borga og tilkynna bæði Bretum og Hollendingum að það eina sem þeir fengju væri að þeir mættu hirða Landsbankann og allar hans eignir sem þeir gætu fundið hvar sem væri í heiminum og gætu einnig sótt allt það fé sem skotið var undan fyrir fall bankanna og þegar búið væri að greiða alla Icesave-reikninganna ættu þeir að skila okkur afganginum ef einhver væri.  Einnig ættu Bretar að greiða okkur bætur vegna þess skaða sem þeir ollu okkur með setningu hryðjuverkalaganna á sínum tíma og varð til þess að Kaupþing féll.

Nú er verið að ræða á Alþingi um aukna skatta og niðurskurð til að minnka fjárlagahallann.  Það hefur stöðugt verið talað um að þeim yrði hlíft sem minnst hafa.  En nú kemur fram að ein af þeim breytingum sem á að framkvæma er lækkun á tekjumörkum lífeyris- og örorkuþega.  Ég er ansi hræddur um að eitthvað hefði heyrst frá heilagri Jóhönnu ef einhverjir aðrir hefðu verið að ráðast svona á kjör aldraðra og öryrkja.  Er þessu fólki ekkert heilagt, hvað ætli þessi skerðing á kjörum aldraðra og öryrkja skili sér síðan í tekjum til ríkissjóðs.  Það skilar nákvæmlega engu því allir í þessum hópi sem voru farnir að vinna munu hætta því um leið og þetta kemur til framkvæmda.  Jóhanna Sigurðardóttir sagði á Alþingi fyrir stuttu að á tímum góðæris hefði velferðarkerfið verið látið drabbast niður og er það alveg rétt.  En núna ætlar hennar ríkisstjórn að ráðast á þetta kerfi sem ekki var burðugt fyrir ef marka má orð Jóhönnu.  Hvað liggur svona mikið á að rétta af þennan fjárlagahalla.  Er ekki allt í lagi að reka ríkissjóð með halla á meðan við erum að vinna okkur út úr kreppunni.  Þetta gera Bandaríkin ár eftir ár að reka sinn ríkissjóð með miklum halla, ef Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn er með þá kröfu um að hér sé enginn halli á ríkissjóði, þá eigum við bara að afþakka hans aðstoð og skila þeim peningum sem hann hefur látið okkur hafa, sem mér skilst að ekki sé farið að nota ennþá.

Ég var að lesa í Víkurfréttum í morgun að sést hefði til fólks í Reykjanesbæ við að gramsa í ruslagámum, við hlið matvöruverslunar.  En í þessa ruslagáma er kastað matvælum sem komin eru fram yfir síðasta söludag.  Trúir því nokkur að fólkið geri þetta vegna þess að það sé svo gaman, nei ástæðan er einfaldlega að þetta fólk á ekki lengur peninga fyrir mat.  Ég hef séð slíka hluti út í New York, en aldrei hér á Íslandi.

Þetta er ríkisstjórn eymdar og örbirgðar, sem ekkert veit eða ekkert getur gert af viti.  Hvar er hin margumtalaða skjaldborg heimilanna sem alltaf er verið að tala um?  Var hún utan um heimili mannsins, sem braut niður einbýlishús sitt á Álftanesi og gróf svo bílinn á eftir?

Það skal tekið fram að ég kaus Samfylkinguna síðast og gekk í þann flokk og nú skammast ég mín mikið fyrir að hafa gert það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll; Jakob minn !

En; vei þér, að svíkja okkur Guðjón Arnar - Grétar Mar, sem öll hin, með þessu háttalagi þínu, í vor; leið.

Fyrirgefningar kraftur okkar; er samt takmarkalaus - snúir þú, af þeim glötunar vegi, sem fylgisspekt þín, við hinn bölvaða S lista, hefir leitt þig, ágæti drengur. 

Með; hinum beztu kveðjum - sem ætíð /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason 19.6.2009 kl. 17:45

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég samhryggist þér innilega Jakob minn batnandi mönnum er best að lifa.  Þú ert örugglega ekki sá eini sem sér eftir því að hafa ljáð þessu LANDRÁÐAFÓLKIatkvæði þitt en þú hefur það fram yfir marga aðra að þú viðurkennir mistökin.

Jóhann Elíasson, 19.6.2009 kl. 17:50

3 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Ólafur Helgi, ég veit nú ekki hvort ég sé tilbúinn að ganga aftur til liðs við Frjálslynda Flokkinn, þótt ég muni ALDREI kjósa Samfylkinguna aftur.

Jakob Falur Kristinsson, 19.6.2009 kl. 17:56

4 Smámynd: Marta smarta

Ég verð að viðurkenna eins og þú Jakob, að ég asnaðist til að kjósa Samfylkinguna núna, en það verður ekki gert aftur.

Ég er öryrki eins og þú og sé ekki betur en við eigum að borga sukkið, ( með hvað vorum við að sukka ?? ) 

Eitthvað annað skildist mér vera framundan fyrir kosningar.  Ég skammast mín líka og það mikið. 

Marta smarta, 19.6.2009 kl. 18:03

5 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það var ekki bara fyrir kosningar sem þessu var lofað Marta, allt fram að því að þetta frumvarp varlagt fram fullyrtu bæði Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir að ekki yrði hreyft við kjörum aldraðra og öryrkja.  En nú kemur það skýrt fram í þessu frumvarpi að öryrkjar og aldraðir eiga ekki að sleppa.  Heldur eigum við að borga allt sukkið eins og aðrir.

Jakob Falur Kristinsson, 19.6.2009 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband