Bíldudalur

Mikið var nú gott að vakna í morgun og líta út um gluggann á meðan ég fékk mér kaffi og sjá aftur hin háu fjöll sem umlykja Bíldudal.  Það er alveg logn en hvítt niður í miðjar fjallshlíðar, en fjöllin norðan megin eru hvít niður að sjó og á þau skín blessuð sólin, en hér á Bíldudal sést sólin ekki fyrr en í byrjun febrúar, sem sagt fallegt haustveður.  Hér virðist vera næg atvinna, frystihúsið er rekið á fullu og í hinni stóru Kalkþörungaverksmiðju er nú unnið á vöktum allan sólahringinn og sanddæluskip frá Björgun er hér daglega og dælir upp kalþörungi í þúsundum tonna í hverri viku.  Þar sem verksmiðjan nær ekki að vinna allt þetta magn kemur hingað reglulega flutningaskip og flytur kalkþörung til Írlands til vinnslu þar.  En stærstu eigendur að þessari verksmiðju eru írskir aðilar, sem einnig reka hliðstæða verksmiðju í Írlandi.  Ætti það að vera smá sárabót fyrir Breska heimsveldið vegna Icesave að Arnarfjörður og Bíldudalur eru þó að skapa störf á Írlandi, sem færi Breska ríkinu skatttekjur.  Þær ættu örugglega að duga fyrir launum hans Mr, Brown og Mr. Darling og einhverra skæruliða á þeirra vegum.  Síðan var rannsóknarskipið Dröfn RE að skoða rækjuna hér í firðinum og allt bendir til að leyfðar verði svipuð veiði og var í fyrra en þá mátti veiða rúm 500 tonn af rækju, sem öll fór til vinnslu til Grundarfjarðar, þar sem rækjuverksmiðjan hér Rækjuver hf. hefur verið lokuð í nokkur ár og verður víst svo áfram.  Annars er þetta orðið talsvert skrýtið með rækjuveiðarnar hér í Arnarfirði, því á sínum tíma sátu Bílddælingar einir að þessum veiðum og þá var eina skilyrði til að fá veiðileyfi það, að viðkomandi bátur varð að vera skráður á Bíldudal og skipstjórinn varð að eiga þar lögheimili.  En svo kom andskotans kvótinn og eru nú rækjukvótar í Arnarfirði dreifðar um allt land.  Þess vegna verða þeir bátar sem klára fljótlega sinn kvóta eða eiga kannski bara einn kvóta, að leigja þetta af hinum ýmsu útgerðum, sem hafa ekki nokkur áhuga a að veiða rækju hér.  Sonur minn er 50% eigandi að einum bátnum og eiga þeir 3 kvóta sem gerði í fyrra 150 tonn, sem þeir veiddu á rúmum 2 mánuðum.  Í fyrra var greitt fyrir rækjuna við bryggju á Bíldudal kr: 170,- á kíló.  Þannig að afkoma þeirra sem stunda þessar veiðar er mjög góð, því er það blóðugt að þurfa að greiða einhverjum sægreyfum leigu fyrir þá kvóta sem eru í þeirra eigu.

Eitt atriði er talsvert sorglegt en það eru öll þau auðu hús sem hér eru, því fólksfækkun hefur verið mikil undanfarin ár.  Um 1990 bjuggu hér rúmlega 400 manns en nú er íbúafjöldin kominn niður í um 200, sem er rúm 50% fækkun.  Fólkið fór og varð að skilja húsin sín eftir og eru nú þegar nokkur einbýlishús í góðu ástandi til sölu á 3-5 milljónir og oftast er um yfirtökur á lánum að ræða og ræðst verðið af því hvað lánin eru há.

Ég er með óstöðvandi framkvæmdaþrá og hefur ekkert minnkað þótt ég yrði öryrki.  Áður en ég fór frá Sandgerði var ég búinn að fá í lið með mér menn sem eiga peninga og er ætlunin að kaupa 300 tonna togskip, sem einnig yrði á úthafsrækju og annan  yfirbyggðan 40 tonna stálbát sem yrði á netum og línu en þá vantar auðvitað kvótann.  Við ætlum annaðhvort að semja við rekstraraðila frystihússins til að styrkja rekstur þess, eða byggja okkar eigin verkun.  Þetta mun skapa hér 20-30 ný störf og vonandi mun fólksfjölgun fylgja í kjölfarið.  Síðan er ég búinn að ákveða að byggja mér nýtt einbýlishús næsta sumar ef ég fæ þá lóð sem hentar fyrir húsið.  Þetta er finnskt einingarhús og ég vil helst byggja það við sjóinn, ég gæti auðvitað keypt eitt af þeim húsum sem nú standa auð.  En reynslan hefur kennt mér að í samskiptum við banka og ef maður stendur í einhverjum rekstri þá sýnir það sig ef maður byggir nýtt hús að maður hafi trú á því sem verið er að gera og trú á staðnum, þetta kunna bankar að meta.  Ef af þessu verður mun þetta þá verða fyrsta íbúðarhúsið sem byggt er nýtt á Vestfjörðum í 20-30 ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband