Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Eyjamenn

Eyjamenn lýsa Því yfir að þeir líti á niðurskurður á þorskkvóta sé ekki vandamál, heldur verkefni sem takast verði á við og leysa, en á sama tíma kalla þeir eftir aðgerðum stjórnvalda til að mæta þessum niðurskurði. 

Ekki kjarkleysi þar á bæ.

En ég vil nota tækifærið og óska Eyjamönnum til hamingju að hafa haft betur í slag við Guðmund vinalausa um eignarhald á Vinnslustöðinni hf.  Það hefði ekki verið gæfulegt að fá kvótabraskara sem aðaleiganda að einu stærsta fyrirtæki Vestmanneyja. 


mbl.is Vestmannaeyjabær kynnir hugmyndir um mótvægisaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímseyjarferja

Loksins finnst eitthvað jákvætt við þessa Grímseyjarferju.

Það virðist orðið algert aukaatriði hvaða hlutverki þessi fræga ferja á að þjóna. 

Aðalmálið er að finna einhvern sem vill viðurkenna að bera ábyrgð á öllu klúðrinu.

Ætli ég verði ekki bara að taka á mig ábyrgðina svo hægt verði að koma þessu skipi í gagnið.  Við höfum breytt bak öryrkjarnir.


mbl.is Vegagerðin og fjármálaráðuneytið skiptust á skoðunum um Grímseyjarferju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera öryrki

Að vera öryrki er hlutverk sem enginn sjálfsagt óskar sér að lenda í, þótt sumir haldi annað og telja það lúxuslíf að þurfa ekki að vinna heldur fá mánaðarlega greiðslur frá ríki og lífeyrissjóðum.  Ástæður örorku eru margvíslegar, sumir fæðast þannig aðrir veikjast, sumir verða fyrir einhverjum áföllum andlega, en flestir verða öryrkjar vegna slysa sem þeir hafa ekki nokkra möguleika á að forðast.  Í mínu tilfelli var um að ræða slys út á sjó um borð í fiskiskipi í september 2003 þar sem ég var vélstjóri og var ekki nema 53 ára gamall og taldi að ég ætti talsverðan tíma eftir af minni starfsævi og taldi mig hafa nægan tíma til að búa mig undir elliárin.   Þegar svona skeður verður maður algerlega ringlaður, við tekur sjúkrahúsvist þar sem vel er hugsað um mann og gefinn lyf svo manni lýði vel.  Að lokinni dvöl á sjúkrahúsi tekur svo við endurhæfing og ég var svo heppinn að eftir um þrjár vikur á spítala fékk ég pláss á Reykjalundi og kom þangað algerlega bundinn við hjólastól.  Ég fékk minn sérstaka þjálfara og í fyrsta tíma sagði hann við mig að ég þyrfti að leggja talsvert á mig svo ég losnaði við hjólastólinn.  Við tóku stöðugar æfingar og ég beit það strax í mig að gera allt sem fyrir mig var lagt og þegar sjúkraþjálfarinn spurði hvort ég vildi reyna þetta eða hitt, sagði ég alltaf já og mánuði síðar var ég farinn að ganga á ný með hækju en laus við hjólastólinn og skömmu síðar gat ég sleppt hækjunni.  Þá tók við tímabil sem fór í að æfa göngulagið og ganga upp og niður stiga óstuddur.  Ég verð að viðurkenna að þetta tók verulega á og var erfitt og eftir suma tímana var ég gjörsamlega búinn og uppgefinn af þreytu.   Síðan var farið að þjálfa höndina sem var lömuð en það gekk frekar hægt vegna þess hvað taugakerfið í hendinni er flóknar en í fætinum og svo kom að því að sjúkraþjálfarinn spurði mig hvort ég væri tilbúinn í tilraun sem hann langaði til að gera og aldrei hafði verið gerð á Reykjalundi fyrr og sagðist hann vera búinn að fá samþykki míns læknis fyrir þessari tilraun og að sjálfsögðu sagði ég já.   Tilraunin fólst í því að hægri höndin sem var heilbrigð var bundin föst fyrir aftan bak og þannig varð ég að vera alla daga og var oft skrautlegt í matsalnum þegar ég var að borða og gat aðeins notað vinstri hendi sem var hálf lömuð.  Þessi tilraun stóð í um viku, en varð til þess að ég fór að reyna að nota vinstri höndina meira og smátt og smátt styrktist hún þótt hún yrði ekki eðlileg á ný.  Um miðjan desember var farið að ræða um að útskrifa mig þar sem ég gat orðið klætt mig sjálfur og bjargað mér að mestu leyti en eftir mikið nöldur af minni hálfu um að fá að vera lengur, var ákveðið að ég færi heim yfir jól og áramót og kæmi aftur í febrúar 2004 og yrði þá í einn mánuð.  Ég fór því af Reykjalundi 18, desember 2003 og vestur á Bíldudal og var hlaðinn blöðum og upplýsingum um æfingar sem ég gæti gert heima, en það fór nú eins og það fór að lítið varð úr æfingum.  Ég fann mér alltaf afsökun fyrir því að gera þær seinna, það var aldrei rétti tíminn osfrv.  Ég kom síðan aftur á Reykjalund í febrúar 2004 og var í einn mánuð og hélt áfram í svipuðum æfingum og áður og svo kom að því að ég var endanlega útskrifaður frá Reykjalundi og fór heim til Bíldudals.  Það voru mikil viðbrigði að fara aftur að búa einn og óstuddur og koma úr vernduðu umhverfi eins og var á Reykjalundi og allir vildu allt fyrir mann gera, bara nefna það.  Það er svolítið skrýtið þegar maður hugsar til baka að meðan ég var á spítalanum komu ættingjar og vinir nánast daglega í heimsókn og fyrst eftir að ég kom á Reykjalund var talsvert um heimsóknir en eftir því sem tíminn leið dró stöðugt úr þeim og eftir að ég kom til Bíldudals var það viðburður ef einhver heimsótti mig.  Án þess að gera sér grein fyrir því dróst maður inní skel og varð þjakaður af þunglyndi, sem hefur verið viðloðandi síðan.  Ég hafði áður verið í sambandi við Snorra Ingimarsson geðlæknir og leitaði nú til hans aftur og hefur hann hjálpað mér mikið, bæði með viðtölum og lyfjagjöf og er ég enn í meðferð hjá honum.  Þegar ég var á Reykjalundi fór félagsráðgjafi með mér yfir mína stöðu og þau réttindi sem ég ætti að hafa og kom þá í ljós að ég átti rétt í sjúkrasjóði Vélstjórafélags Íslands og var sótt um þar og fékk ég greitt þar rúmar 200 þúsund á mánuði eftir skatta eða sem svaraði kauptryggingu yfirvélstjóra og átti ég rétt á greiðslum í 18 mánuði.  Einnig var sótt um fyrir mig hjá þeim lífeyrissjóðum sem ég átti rétt hjá.  Ég var síðan í september 2004 eða ári eftir slysið metinn 75% öryrki og fór að fá greiddar örorkubætur.  Það væri hægt að skrifa heila bók um samskipti við Tryggingarstofnun og allt það kerfi sem þar er sem er svo flókið að margt starfsfólkið skilur það varla.  Á þessum tíma bjó ég á Bíldudal og næsta umboð Tryggingarstofnunar var á Patreksfirði og þurfti ég að snúa mér þangað þar starfaði fullorðin kona sem var að fara að láta af störfum vegna aldurs og virtist ekki vera með alla hluti á hreinu og þurfti oft að senda til Rvk. hin minnstu mál en hún gekk frá því að ég fengi örorkubætur og ekki var minnst á tekjuáætlun og hún því sett á núll án minnar undirskriftar.  Í lok árs 2005 kom fyrsti skellurinn en þá fékk ég bréf frá Tryggingarstofnun um að samkvæmt skattaframtali fyrir árið 2004 hefði ég haft verulegar tekjur sem væru öll sú upphæð sem ég fékk úr Sjúkrasjóði Vélstjórafélagsins og greiðslur úr lífeyrissjóðum og skuldaði ég Tryggingarstofnun 1,5 milljónir og var vinsamlega beðin að greiða það sem fyrst.  Ég var staddur í Reykjavík hjá læknir þegar þetta bréf kom og fór ég með það í afgreiðslu Tryggingarstofnunnar við Laugaveg og ræddi þar við konu sem útskýrði fyrir mér að allar greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélaga væru reiknaðar sem tekjur og greiðslur úr lífeyrissjóðum skertu bætur eftir ákveðnum reglum en áður en ég kvaddi hana hvíslaði hún að mér að best væri hjá mér að gera ekki neitt og sleppa tekjuáætluninni því annars yrðu allar greiðslur til mín stöðvaðar þar til skuldin væri að fullu greidd.  Ég hafði í sakleysi mínu talið að greiðslur úr lífeyrissjóðum væri í raun minn sparnaður og hefði verið hluti af mínum launum og einnig greiðslurnar úr Sjúkrasjóði.  Eftir þessa lífsreynslu mína fór ég inn á vef Tryggingarstofnunar til að reyna að átta mig á öllu þessu og þá fyrst varð ég alvarlega hissa þegar ég fór að lesa lögin um almannatryggingar.  Þetta var eins og limlestur sjúklingur þar sem hafði verið settir plástrar á hér og þar.  Þegar búið var að átta sig á einni grein og fá skilning á henni kom kannski önnur sem ógilti þá fyrri auk óteljandi viðauka hér og þar.  Nýjasti plásturinn kom svo 1. júlí sl. en þá var sett inn heimild til að hafa atvinnutekjur án þess að þær skertu greiðslur frá Tryggingastofnun og var maður nú bjartsýnn á framtíðina og sá fram á að kannski kæmist maður út á vinnumarkaðinn aftur en þegar þetta var skoðað betur kom í ljós að þetta gilti aðeins fyrir þá sem væru 70 ára og eldri.  Ekki veit ég hver eru rökin fyrir að miða við 70 ára aldur því flestir hefja töku ellilífeyris 67 ára og þeir lífeyrisþegar sem eru orðnir 70 ára eða eldri eiga sjálfsagt ekki auðvelt með að fá sér vinnu.  Læðist því að manni sá grunur að þetta sé haft svona til að fæstir fái notið þess en janframt sé verið að efna kosningaloforð um að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja.  Það hefði alveg eins mátt miða við 100 ára aldur eða jafnvel þá sem væru dánir. 

Vegamerkingar

Hér á landi vantar mikið uppá að rétt sé staðið að merkingu vega og oft er það svo að þar sem vegaframkvæmdir eru í gangi er oft svo stutt frá merki um slíkt að aðeins eru nokkrar bíllengdir þar til maður er kominn inn á framkvæmdasvæðið.  Ég heyrði góða sögum um hvernig fólk getur misskilið merkingar vega.

Kona nokkur sem ekki fer oft til Reykjavíkur var að koma norðan úr landi og ætlaði að fara í fyrsta sinn í gegnum Hvalfjarðargöngin.  Þegar hún er að koma að gatnamótunum við Akranes er stórt skilti sem á stendur Hvalfjarðargöng en ekkert sem benti til þess að þar átti hún að beygja til hægri og ók hún því aðeins lengra og sá þá skilti sem á stóð Hvalfjörður og þar sem hún taldi að göngin hlytu að vera í Hvalfirði beygði hún þar til vinstri og ók síðan áfram en aldrei komu göngin og ók hún því fyrir allan Hvalfjörðinn og viti menn allt í einu kom skilti Hvalfjarðargöng og merki um að beygja til hægri sem hún gerði og ók síðan gegnum göngin og var mikið fegin að hafa loksins fundið göngin.   Er hún var komin í gegn og ók áfram kom hún að gatnamótum þar sem stóð Hvalfjörður og hún áttaði sig á að þarna var hún nýbúin að vera og varð að snúa við og komst rétta leið í göngin og til Reykjavíkur.


Að mótmæla

Ekkert má orðið gera hér á landi án þess að upp rísi hópur af fólki til að mótmæla.  T.d. má ekki virkja smá lækjasprænu, leggja vegi eða byggja ný hús.  Öllu er mótmælt í nafni réttlætis um betra Ísland.  Húsin eru of há, lá eða of þétt saman, við gömlum hálfónýtum húskofum má ekki hrófla því þau eru menningararfur og sumir ganga jafnvel svo langt að fullyrða að gömul hús hafi sál.  Hvernig getur gamalt hús haft sál er hlutur sem ég ekki skil og hvert fer sálin ef húsið er rifið?  Við eigum ekki að hlusta á þetta kjaftæði lengur, rífum gamla húskofa og byggjum nýtt og verum stórhuga og höfum húsin 50-100 hæðir svo þau setji sannarlega svip sinn á umhverfið.  Virkjum allt sem við getum virkjað og leggjum vegi þar sem best er þótt það kosti að fórna þurfi nokkrum kræklóttum hríslum, það má alltaf gróðursetja í staðinn.  Við heyrum af mótmælum í Kópavogi, Mosfellsbæ, Selfossi og Akureyri.  Við eigum að taka Gunnar Birgisson bæjarstjóra í Kópavogi okkur til fyrirmyndar.  Hann er maður sem þorir að framkvæma hlutina þótt einhverjir séu að væla út í bæ og mótmæla.  Það er svolítið broslegt að heyra fólk sem hefur kosið að búa á Höfuðborgarsvæðinu vera að kvarta og mótmæla mikilli umferð.  Það segir sig sjálft að þar sem margir búa á tiltölulega litlu svæði að þar er mikil umferð og ekkert við því að gera.  Af hverju flytur fólkið ekki bara út á land í fámennið og rólegheitin.  Við munum sjálfsagt flest eftir öllum mótmælunum gegn byggingu Ráðhússins á sínum tíma en þegar það var risið fannst flestum það flott bygging.  Þessi eilífu mótmæli hafa líka kostað það að ríkisstjórnir á hverjum tíma þora varla að byggja almennileg hús undir öll ráðuneytin, heldur er verið að leigja húsnæði um alla borg og margt ekki mjög henntugt.   Mikið af því húsnæði sem ríkið á í dag og notar undir sína starfsemi var byggt á dögum Jónasar frá Hriflu sem ekki var feiminn við að byggja ný hús víða um land, en hann var nú víst talinn geðveikur og kannski var það ástæðan fyrir því hvað hann stóð fyrir mörgum byggingum á vegum ríkisins.  Nei við skulum ekki hlusta á öll þessi mótmæli og allt afturhaldskjaftæði heldur hrinda því í framkvæmd sem nauðsynlegt er á hverjum tíma og gera það myndarlega.

Lokuð inn í banka

 

Er þetta ekki það sem marga dreymir um að vera einn inn í banka eftir lokun og geta náð sér í smá aur.


mbl.is Lokuð inni í banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuhreinsistöð

Nú hefur bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkt að breyta skipulagi til þess að hægt verði að setja niður olíuhreinsistöð í Hvestu í Arnarfirði sem á að skapa um 500 störf.   Það munaði ekki um það og virðist bæjarstjórnin nú loksins farin að sjá að hin svokölluð stóriðja sem Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal átti að vera, verður aldrei eitt né neitt og best að gleyma henni sem fyrst.  Það kom fram í fréttum ekki fyrir löngu í viðtali við Halldór Halldórsson bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar að svona olíuhreinsistöð þyrfti mikið af háskólamenntuðu fólki og því brýnt að efla háskólasetrið á Ísafirði og best væri ef þar kæmi alvöru háskóli.   Nú hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki væri eðlilegast á háskólinn væri í Vesturbyggð því jafn langt er frá Ísafjarðarbæ til Vesturbyggðar og Vesturbyggð til Ísafjarðarbæjar.  Ég hélt alltaf að þegar verið var að ræða um þessa olíuhreinsistöð þá væri það brandari en nú er komið í ljós að verið er að ræða þetta í fullri alvöru og allt útlit fyrir að slík stöð verði reist í Vesturbyggð eða Ísafjarðarbæ en bæjarfulltúar frá þessum stöðum fóru nýlega til Evrópu til að skoða slík mannvirki og komu til baka yfir sig hrifnir og sögðu allt svo flott og snyrtilegt við þessi mannvirki.  Vestfirðir eiga mjög undir högg að sækja nú þegar þeir meiga ekki veiða fisk og vinna, en olíuhreinsistöð, Guð minn góður, fyrr má nú rota en dauðrota. 

Ekkert má gera

Vill flugfélagið ekki farþega eða hvað?

Manngreyið hafði engan áhuga á Íslandi aðeins á Icelandair.


mbl.is Fangelsi fyrir að svíkja út farmiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tala án þess að hugsa

Mikið ert þú flottur sagði ég við kunningja minn sem ég hitti fyrir stutt en hann var í nýjum jakkafötum og skyrta og bindi í stíl,  meira að segja skórnir voru nýir. Þessi náungi hefur nú ekki verið þekktur fyrir að eyða yfir sig í fatakaup.  Hann varð hálf vandræðalegur og sagði síðan "Ja eins og þú kannski veist er pabbi nýdáinn og þetta eru fötin sem hann var jarðaður í. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband