Níels kærir kvótamiðlun LÍÚ

Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að Níels Ársælsson útgerðarmaður hafi sent Samkeppniseftirlitinu kæru vegna kvótamiðlunar LÍÚ.  Krefst hann þess að Samkeppniseftirlitið taki málið til rannsóknar þegar í stað.  Í kærunni bendir Níels á að innan vébanda LÍÚ er rekin svokölluð kvótamiðlun LÍÚ.  Telja verður að með þessu fyrirkomulagi á kvótaviðskiptum hafi LÍÚ og félagsmenn þess gerst brotlegir við 10.,11. og 12 gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.  Auk þess sem ætla verður að í þessu skipulagi felist óbeinn stuðningur íslenska ríkisins við þröngan hóp útvegsmanna sem í skjóli einokunar og samráðs geta stýrt fiskveiðum og fiskvinnslu hér á landi.  Félagsmenn LÍÚ geta með sýndargerningum haldið uppi verði á kvóta og þannig skert samkeppni skipa án kvóta.  Eigendur skipa án kvóta þurfa að greiða það verð fyrir kvótann sem kvótaeigendur setja upp hverju sinni.  Verðinu ráða þeir einir segir í kæru Níelsar.

Flott hjá þér Níels og vonandi verða þessi mál skoðuð, því staðreynd er að kvótaverð hér er fimmfallt miðað við Noreg að ég tali nú ekki um Nýja Sjáland þar sem leiguverð er 10% af söluverði aflans.  Það er ósköp auðvelt að skrúfa upp verð á kvóta, hvort það er leiga eða varanlegt.  Með skipulögðum millifærslum nokkurra fyrirtækja þ.e. fyritæki taka sig saman og leigja hvort öðru á verði sem  eru mikið hærri en eðlilegt getur talist og búa þannig til falskt verð, en á venjulegu máli heitir það að falsa bókhald.  Ef allt er rétt eins og nú er uppgefið er leiga á einu kg. af þorski komin í kr. 200 og ef það á að kaupa þetta sama kíló varanlega er verðið ekki undir kr. 2.500,-.   Vona ég innilega að þessi kæra Níelsar verði tekin til alvarlegrar skoðunar.    Auðlyndir hafsins eru sameign þjóðarinnar og miðað við tölur LÍÚ er ekki um neina smáræðis eign að ræða.  Eitt rennir styrkum stoðum undir þessa kæru Níelsar en það er að flest hin stóru útgerðarfyrirtæki gera upp við sína sjómenn á verði sem er langt undir verði á leigukvóta, ef þorskkílóið er kr. 200 virði í leigu hefur verið svindlað á íslenskum sjómönnum í stórum stíl og það kallast á vejulegri íslensku þjófnaður.  Nú eru brátt tveir flokkar brátt að fara að halda landsfundi sína þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin og verður fróðlegt að fylgjast með hvaða ályktanir verða samþykktar á þessum fundum varðandi sjávarútvegsmál.  Ekki þarf að bíða eftir Framsókn sem aðeins er eftir að jarðsyngja.    Eins og LÍÚ er búið að verðleggja kvótann væri upplagt að innkalla hann aftur og leigja síðan út.  Værum við þá með álíka tekjur og Norðmenn hafa af sínum olíugróða og gætum gert eins og þeir að greiða niður allar erlendar skuldir á stuttum tíma.  En hræddur er ég um að fáir félagsmenn LÍÚ myndu leigja kvóta því þeir þora ekki í samkeppni, vilja liggja öruggir með sitt undir verndarvæng ríkisins, svo þykjast þessir menn vera sjálfstæðismenn og hlynntir einkaframtaki en samkeppni óttast þeir mest af öllu og þykjast hafa greitt fyrir sinn aflakvóta fullu verði en hverjum greiddu þeir þetta verð, spyr sá sem ekki veit.  Ég bara veit að þeir fiska sem róa og hvað sem segja má um Níels Ársælsson treysti ég honum til að fiska í kaf hvern þann sem við hann ætlar að keppa.    Það er nefnilega eitt sem kvótakerfið hefur leitt af sér að okkur vantar nær heila kynslóð í skipstjóraliðið.  Ég lenti í því á sínum tíma 1993 að tekinn var af mér togari og rækjuskip með um 2.700 tonna þorskígildistonn og var þá þorskígildistonnið verðlagt varanlega á kr. 160,-.  Eins var með EG í Bolungarvík að stuttu eftir að bankinn keyrði það fyrirtæki í þrot kom í ljós að fyrrum hlutabréf EG í SH voru seld á 15 milljarða sem ein og sér hefðu greitt allar skuldir EG án þess að reiknað sé með verðmætum sem voru í skipum og aflaheimildunum.  Sá sem varð svo heppinn að ná í þessi bréf og græða 15 milljarða siglir nú á skútu í Miðjarðarhafi og hlær að öllu saman.  Nei nú er endanlega komið nóg og ef stjórnmálamenn okkar ætla að standa undir nafni verða þeir að taka á þessum málum, látum reyna á í kosningunum í maí hverjir hafa þorað og hverjir ekki.  Stöndum með Níelsi og látum þessa jólasveina ekki í friði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Sæll Jakob

Hér er sjávarútvegssamþykkt landsfundar Íhaldsins. Þarna stendur meðal annars:

Aflamarkskerfi með framseljanlegum heimildum hefur leyst úr læðingi kraft og frumkvæði íslenskrar útgerðar og fiskverkenda.  Kerfið  byggist á þeirri grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins að frelsi einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum. Þannig hefur verið horfið frá stefnu ríkisforsjár og hafta.   Landsfundurinn telur að festa eigi aflamarkskerfið enn betur í sessi og minnka pólitíska óvissu sem fælir aðila út úr greininni og gerir hana síður samkeppnishæfa um fjármagn.

Ekki var orð að finna um sjávarútvegsmál í stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar.

Sjá nánar hér: http://magnusthor.blog.is/blog/magnusthor/entry/177343/

Magnús Þór Hafsteinsson, 16.4.2007 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband