Meira grín að vestan

Maður heitir Guðmundur Þ. Ásgeirsson yfirleitt kallaður Dubbi og kom til Bíldudals frá Sauðárkróki og kom sem skipverji á tappatogarann Pétur Thorsteinsson BA-12 en hann var reyndur togarasjómaður.  Á Bíldudal náði hann sér í konu sem reyndar er frænka mín og þar af leiðandi yndælis kona.  Gerðist hann síðar skipstjóri á rækjubátum hjá Matvælaiðjunni hf. en gerði síðan út sjálfur nokkra rækjubáta, hann bjó á Bíldudal þar til fyrir nokkrum árum að þau hjón fluttu í Hafnarfjörð þar sem þau búa í dag en hann er útslitinn maður og óvinnufær eftir nokkra áratuga sjómennsku, því að á rækjuveiðunum var hann alltaf einn á þeim bátum sem hann gerði út sjálfur.   Dubbi átti til að taka uppá hinum ótrúlegustu hlutum og hafði mjög gaman af því að ganga fram af fólki.   

En einu sinni mistókst honum illilega þegar hann ætlaði að hræða nokkra stráka sem komu á bryggjuna á mótorhjólum og Pétur Thorsteinsson BA-12 var í höfn  og Dubbi sem hafði fengið sér nokkuð í glas og ekki allsgáður og sagði við strákanna, ég átti svona hjól þegar ég var yngri og það var enginn betri en ég.  Nú ætla ég að sýna ykkur hvernig kunnáttumenn gera.  En það sem hann ætlaði sér var að koma niður bryggjuna á mikilli ferð og snarbeygja við bryggjukantinn og stoppa þar hjólið.  Einn strákanna lánaði honum hjólið sitt og hann fór talsvert upp í þorpið og kom á eins miklum hraða niður bryggjuna og hjólið komst, en eitthvað klikkaði þegar hann nálgaðist bryggjukanninn og þar fataðist honum flugið og fór beint á kantinn, en sem betur fer var lest togarans opinn og nýbúið að seta fullt af ís um borð, því Dubbi sveif af hjólinu í stórum boga og hitti akkúrat á lostaropið og fór niður í íshauginn, en á bryggjunni lá hjólið mikið beyglað og þegar hann var búinn að krafsa sig upp úr ísnum og kominn upp á bryggju og vildi fá að reyna aftur sögðu strákarnir nei takk, hann gæti greinilega ekki kennt þeim neitt og sá sem hafði lánað honum sitt hjól sem lá nú stórskemmt á bryggjunni fór nú að ræða við Dubba og sagðist vera nýbúinn að kaupa þetta hjól.  Dubbi sem í raun er hið mesta góðmenni og vildi allt fyrir alla gera sagði við strákinn að fara með hjólið á bílaverkstæðið og láta þá gera við hjólið og hann myndi borga og til að róa strákinn hjálpaði hann honum með hjólið á verkstæðið og ræddi við eigandann um að hann ætlaði að greiða allan kostnað við viðgerðina og sem sárabætur fór hann í vasann og tók upp búnt af peningum og skipti honum á milli verkstæðismannsins og stráksins og skildu þeir sem hinir bestu vinir.

Eitt sinn er Dubbi og hans kona höfðu eignast sitt fyrsta barn bilaði eitthvað í barnavagninum og fór Dubbi af stað einn morguninn á bílaverkstæðið til að láta gera við vagninn og var honum sagt að hann mætti sækja hann fljótlega eftir hádegi.  Verkstæði þetta var til húsa rétt hjá kirkjunni á staðnum.  Mætir hann síðan á réttum tíma og það passaði að vagninn var tilbúinn þegar hann kom og á leiðinni heim sér hann að það er komin stór rúta fyrir utan kirkjuna og út úr rútunni er að streyma fjöldi fólks.  Voru þarna á ferð eldri borgarar og ætluðu að skoða kirkjuna og var stór hópur kominn út er Dubbi átti leið framhjá.  Veðrið var mjög gott eins og oft er á Bíldudal á sumrin, logn, sólskin og mikill hiti og var mikið af fólkinu að taka myndir.  Dubbi gerði smá lykkju á leið sína svo hann væri viss um að fólkið heyrði örugglega til hans og labbaði raulandi framhjá hópnum stoppað oft aðeins og beygði sig yfir barnavagninn og þóttist vera að gæla við barnið.  Þar sem þetta var á þeim tíma að frekar óvenjulegt var að feður færu með börn sín í göngutúra í barnavagni, það þótti frekar hlutur kvenna og leit fólkið örugglega á að þarna væri einstakur fyrirmyndafaðir á ferð. 

Eftir smástund stoppar Dubbi og beygir sig einu sinni enn yfir vagninn og heyrist segja "Svona, svona elskan mín ekki vera að gráta, pabbi er að passa þig og við komum bráðum heim til mömmu, notaðu snudduna þína elskan."  Skömmu síðar stoppar hann aftur og segir nokkru hærra en áður "Hættu nú þessu væli krakki, þetta er farið að pirra mig."  Nú fór ferðafólkið heldur betur að fylgjast með og hrökk illa við þegar Dubbi fer að hrista vagninn og segir allhvasst "Steinþefjuðu krakki."  og bætir svo við  "Ef þú hættir ekki þessu væli skal ég berja þig."  Næst þegar hann stoppar nánast öskrar hann niður í vagninn  "Nú er komið nóg"  og kreppir sinn stóra hnefa og kýlir fast niður í vagninn og bætir við "Þetta vildir þú krakkaskratti og nú ertu loksins hættur að væla en ég ætla segja eitt við þig að þú ert ekki sá fyrsti sem ég neyðist til að rota um ævina" og hélt svo raulandi áfram göngu sinni með barnavagninn sem að sjálfsögðu var tómur en eftir stóð hópur eldri borgara gapandi af undrun.

Áður en nýji vegurinn var lagður yfir Hálfdán, sem er heiði á milli Bíldudals og Tálknafjarðar og fara þarf yfir á leiðinni frá Bíldudal til Patreksfjarðar, var þarna hlykkjóttur og frekar mjór malarvegur þar, sem á mörgum köflum var frekar erfitt að mæta bíl.  Sérstaklega var erfitt svokallað Katarínuhorn en fyrst var löng brekka og svo mjög kröpp beygja.  Þarna var vegurinn nánast skorinn inn í fjallshlíðina og aðstæður þannig að sá sem var að fara yfir fjallið Hálfdán og á leið upp hafði snarbratt fjallið á hægri hlið en þeir sem voru að koma niður sáu snarbratt fjallið niður af götukantinum og urðu að passa sig að fara ekki of langt út á vegkantinn, því ef þeir hefðu farið of langt var sú hætta fyrir hendi að fara fram af og velta niður snarbratta hlíðina og hefði þá ekki  þurft að spyrja af leikslokum.  Sú venja hafðist skapast að meðal heimamanna að sá bíll sem var á leið upp vék vel fyrir þeim bíl sem var að koma niður.  Þetta var hlutur sem hinn almenni ferðamaður áttaði sig ekki á.  Eitt sumar var Davíð Oddson á ferð um Vestfirði með sinni fjölskyldu og ók sjálfur, Dubbi hafði um morguninn þurft að skreppa vestur á Patreksfjörð og á leið sinni til baka og hann kominn á umræddan vegarkafla og er að fara niður fjallið og því á hættulegri hluta vegarins og þá mætir hann bíl sem vék mjög illa fyrir honum og varð hann að fara svo utarlega að hægri hjól bílsins sleiktu vegkantinn og sá hann er bílarnir mættust að þar var Davíð Oddson á ferð.  Seinna sama dag þurfti Dubbi aftur að fara vestur yfir fjallið og á sama stað og áður sér hann bíl koma löturhægt niður og kannaðist strax við bílinn og var viss um að þar færi Davíð á ferð.  Nú var staðan svipuð og fyrr um morguninn nema að hlutverkin höfðu snúist við, Dubbi var á leið upp en Davíð niður og hugsaði Dubbi honum þegjandi þörfina.  Þegar bílarnir mætast vék Dubbi lítið, jafnvel minna En Davíð hafði gert um morguninn.  Hann sér að kona Davíðs er komin með höfuðið út um gluggann til að fylgjast með vegkantinum.  Fór Dubbi þá aðeins lengra inná veginn svo enn meira þrengdi að Davíð, sem endaði með því að Davíð stoppar bíl sinn og fer út og gengur að bíl Dubba og sá Dubbi svitaperlur á enni Davíðs, og kynnir sig með handarbandi ég er Davíð Oddson forsætisráðherra  og Dubbi svar strax á móti Guðumundur Þ. sjómaður á Bíldudal.  Davíð segir við hann, "Getur þú nú ekki reynt að víkja aðeins betur svo ég komist nú örugglega framhjá.  Mér stendur ekki á sama að þurfa að fara of mikið útá kantinn. en þið heimamenn eruð nú miklu vanari að aka svona vegi en ég ".  Nú sagði Dubbi og þóttist vera steinhissa, ég veit ekkki betur en þetta sé opinber þjóðvegur og ætlaður fyrir alla umferð en ekki bundinn við heimamenn og þetta er það sem þið eruð að bjóða okkur upp á og þykir sjálfsagt og við erum að stórskemma okkar bíla á, en svo þorið þið varla að aka þessa vegir sjálfir.  Ég mætti þér hérna í morgun og ekki varst þú að víkja fyrir mér.  Mitt líf er ekkert minna virði en þitt og þú skalt gera þér grein fyrir einu að þú ferð ekki í gegnum lífið á titlinum einum og vonandi mun sitja eftir í þínum haus við hvaða aðstæður við búum hér í samgöngumálum.  Annað hvort ertu sammála mér að hér þurfi nýjan veg,og ef ekki held ég bara áfram og þú verður að þræða vegkantinn hér niður áfram.  Davíð tók aftur í hendi Dubba  og sagðist vera innilega sammála honum.  Það þarf varla að taka það fram að nokkrum mánuðum síðar var nýr vegur yfir Hálfdán settur á forgangslista í samgöngumálum og verið boðið út og í dag er kominn þarna nýr breiður vegur og bundinn slitlagi.  Þegar Dubbi var að segja frá þessu síðar, sagði hann, "mikil skelfing varð maðurinn hræddur", og rak síðan upp sinn þekkta tröllahlátur.

Ég vann smá tíma með Dubba í Matvælaiðjunni hf. og var alltaf keppst um hver ætti að aka vörubíl fyrirtækisins ef eitthvað þurfti að snúast fyrir fyrirtækið og kom það oftast í hlut Dubba enda stæðastur og sterkastur af okkur strákunum sem vorum þarna að vinna og svo var hann tengdasonur framkvæmdastjórans, sem einnig var föðurbróðir minn.   Eitt skipti þurfti að fara með rusl á hauganna sem voru rétt fyrir utan þorpið.  Við vorum búnir að hlaða bílinn af rusli og Dubbi komin undir stýri, þegar hann kallar "Kobbi komdu með mér"  Ég fór inn í bílinn og sagði við hann afaverju þarf ég að koma með?  Æ það er betra þegar ég losa bílinn að fá smá aðstoð.  En það skal tekið fram að ekki voru sturtur á þessum bíl, heldur var pallurinn fastur og þurfti því að bakka aðeins yfir götukantinn til að fá halla á bílinn til að auðveldara væri að láta ruslið renna af pallinum og oft þurftir að hjálpa aðeins til að allt færi nú örugglega af og eins þurfti að sópa pallinn til að hann væri hreinn.  Dubbi ók af stað brosandi og ánægður með lífið og fljótlega vorum við komnir að haugunum en þá þurfti að snúa bílnum og bakka og ég fór út til að segja honum til svo hann bakkaði nú ekki niður í fjöru og þá upphófust vandræðin það var sama hvernig Dubbi hamaðist á stýrinu alltaf bakkaði bíllinn í öfuga átt og að lokum gafst hann upp og kallaði til mín "Kobbi prufað þú hvort þú getur gert þetta"  Ég fór inn í bílinn og bakkaði eins og þurfti og reiknaði með að hann færi upp á pallinn til að ryðja ruslinu af en það var nú aldeilis ekki því nú vildi hann að við skiptum aftur og ég fór og kom öllu ruslinu af pallinum og sópaði hann og settist síðan aftur inn í bílinn og við ókum af stað til baka og Dubbi var jafn kátur og áður, ég sagði við hann djöfulsins klaufi ertu Dubbi kanntu ekki að bakka bíl?  Þá rak hann upp tröllahlátur og sagði "ég hef aldrei lært það því ég er ekki með bílpróf, hef aldrei tekið það" ég svaraði á móti, en þú átt bíl og ekur hér um allt.  Það kemur engum við sagði Dubbi ég er fullorðinn maður og ætla að taka bílpróf þegar ég má vera að því.

Fyrir mörgum árum var skólabróðir minn frá Bifröst og konan hans ráðin sem kennarar á Bíldudal og voru á leið vestur akandi, en eins og þeir vita sem hafa ekið þessa leið þarf að aka um marga firði sem allt er komið í eyði og ekki skemmtilegt að aka þar um í myrkri en þetta var um mánaðarmót ágúst / september og voru þau seint á ferð og einmitt á þeim tíma sem lítil umferð er.  Í einum af þessum fjörðum sprakk dekk hjá þeim og þau höfðu ekkert varadekki og vissu varla hvar þau voru stödd og voru meira að segja með litla dóttur sína með sér.  Sátu þau því þarna í bílnum ráðalaus og biðu eftir að einhver bíll kæmi og eftir nokkurra klukkutíma bið og klukkan farin að nálgast miðnætti, orðið kalt í bílnum var ekki laust við að þau væru orðin dálítið hrædd kom flutningabíll en þeir eru mest á ferð að næturlagi og í þeim bíl var NMT-sími sem eru mjög langdrægir.  Á þessum flutningabílum eru yfirleitt tveir menn sem skiptast á að keyra og koja svo þeir geti lagst út af á milli þess sem þeir aka og var því ekkert pláss í flutningabílnum fyrir þau hjónin og barnið, en þau fengu samt að hringja í mig og segja mér hvernig komið væri fyrir þeim auk þess fengu þau staðfest hjá bílstjóra flutningabílsins hvar þau væru stödd og hvað langt væri eftir til Bíldudals.  Þar sem ég hafði  verið að vinna langt fram eftir kvöldi og átti að mæta á fund snemma morguninn eftir og var ný sofnaður enda þreyttur, gat ég ekki hugsað mér að fara að eyða nóttinni í að sækja þau.  Ég ræddi þetta við konuna mína hvort hún treysti sér til að sækja þau en hún sagðist vera svo óvön að aka þegar væri orðið svona mikið myrkur auk þess væri hún hálf hrædd að vera að þvælast um þessa firði á nóttinni og ræddum við um hvað við gætum gert.  Ég hringdi í björgunarsveitina en fékk þau svör að þar sem fólkið væri ekki týnt sinntu þeir þessu ekki nema gegn verulegri greiðslu.  Ég hringdi þá í lögregluna en fékk þau svör að það væri aðeins einn maður á vakt og hann mætti ekki fara frá.  Nú voru góð ráð dýr en allt í einu segir konan mín við mig hringjum í Dubba hann er svo greiðvikinn.  Ég hringdi í Dubba sem reyndar var sofnaður og þegar hann loks svaraði og ég hafði útskýrt málið stóð ekki á svari.  Ég ætlaði nú reyndar að fara á sjó í nótt en það verður bara að bíða, við látum ekki aumingja fólkið hýrast þarna í alla nótt og sagði síðan ég dríf mig af stað en er ekki allt í lagi að ég stríði þeim aðeins.  Jú það er allt í lagi sagði ég það er bara fyrir mestu að sækja þau.  Svo biðum við og biðum og aldrei kom Dubbi til baka og fórum við því að sofa.  Morguninn eftir erum við hjónin að drekka kaffi í eldhúsinu þá kemur Dubbi akandi að húsinu og þau hjónin með.  Ég spurði afverju voruð þið svona lengi.  Þá sagði skólabróðir minn mér að þessi maður sem ég hefði sent og þau í fyrstu talið að væri kolklikkaður hefði ekki tekið annað í mál en þau gistu hjá sér og nú ætlaði hann að fara með sig að sækja bílinn og Dubbi væri búinn að redda dekki á felgum sem ætti að passa undir bílinn og spurði hvort konan og dóttirin mættu ekki bíða hjá okkur á meðan, sem var auðvitað sjálfsagt mál.  Síðan fóru þeir tveir af stað að sækja bílinn.  Konan fór þá að segja okkur frá nóttinni hún hefði verðið orðin dauðhrædd en um kl: 02,00 hefði þessi maður komið og snarast út úr bíl sínu stór og mikill og komið vaðandi að þeirra bíl og svipt upp bílstjórahurðinni og sagt dimmri röddu hvern andskotann eruð þið að þvælast hingað vestur á firði um miðja nótt og hafið ekki rænu á að taka með ykkur varadekk og vasaljós, ég ætti að gera þennan bíl upptækan og taka af ykkur ökuskírteinin og rífa þau.  Réttast væri að skilja ykkur eftir og láta ykkur labba.  Þið eruð greinilega ekta Reykjavíkurbörn, alinn upp í dekri á malbikinu og vitið ekkert um raunverulegt líf sem sagt, aumingjar.  Konan sagðist hafa verið orðin dauðhrædd áður en þessi maður kom og lesturinn yfir þeim hefði ekki bætt úr skák og hún farið að gráta og hugsað með sér hvað er hann Jakob að gera, senda til okkar snarklikkaðan mann ofan á öll vandræði okkar en þegar maðurinn sem hafði kynnt sig sem Guðmund Þ. og væri kallaður Dubbi, hefði séð hana gráta hefði hann hlegið tröllahlátri og sagt við þau "Til að kóróna allt, trúið þið síðan öllu sem við ykkur er sagt."  Hefði síðan sagt þeim að  hann byði þeim aðstoð sína við að flytja allt dótið yfir í sinn bíl og síðan færu þau sjálf með barnið í sinn bíl.  Hún sagði að maðurinn hefði nánast einn flutt allt dótið á milli bíla og svo var ekið af stað áleiðis til Bíldudals.  Hún sagði að þegar þau hefðu verið lögð af stað, hefði sér létt mikið og hugsað þetta er greinilega hinn besti maður.  Síðan þegar þau voru að fara niður í Arnarfjörð og á ákveðnum stað sést vel ljósin á Bíldudal því bjart var yfir, heiðskýrt og stjörnubjart og hið besta veður hefði hann stoppað bílinn drepið á honum og slökkt öll ljós og sagt við mann sinn sem sat frammí hjá bílstjóranum "Nú er komið að því sem mig hefur alltaf langað til að gera á þessum stað og ég fell fyrir öllum freistingum og ef mér dettur eitthvað í hug þá framkvæmi ég það.  Nú ætla ég að nauðga konunni þinni. þú horfir bara á ljósin á Bíldudal á meðan og ef þú ferð að vera með einhverja stæla neyðist ég til að rota þig"   Konan sagði að þá hefði gripið um sig ofsahræðsla og hugsað með sér, maðurinn er greinilega kolklikkaður og hefði farið að gráta og beðið hann að láta ekki svona.  Dubbi rak aftur upp sinn mikla hlátur og sagði "Eins og ég sagði við ykkur áðan er alveg ótrúlegt hvað þið eruð fljót að trúa öllu sem við ykkur er sagt ég á mína konu heima og það nægir mér alveg."   Síðan setti hann bílinn aftur í gang og ók af stað á ný og hló mikið, tekur síðan símann sem var NMT-sími og hringdi í konuna sína og sagðist vera að koma heim með hjón og eitt lítið barn og hvort hún vildi eitt herbergi bergi klárt fyrir fólkið og eins þyrfti hún að elda góða súpu og smyrja brauð, því þetta fólk væri búið að lenda í miklum vandræðum og yrði að fá eitthvað gott að borða þegar hann kæmi heim með þau.  Ég gerði þetta fyrir hann Kobba frænda þinn að sækja þau.  Þegar á Bíldudal var komið sögðu þau að þau gætu örugglega fengið að gista hjá Jakob.  Nei nei svaraði Dubbi  "Hann Kobbi er örugglega löngu farinn að sofa og við erum ekkert að ónáða hann núna, klukkan er orðin svo margt, var þá ekið heim til Dubba og þar tók á móti þeim hans kona brosandi og bauð þeim inn í borðstofu. en þar beið stórt borð hlaðið af veislumat.  Meðan þau voru að borða sagði Dubbi "Krakkar mínir þið vonandi fyrirgefið mér hvernig ég var að tala við ykkur en það er bara þannig að ég hef svo gaman af því að stríða fólki og koma því á óvart bara til að sjá viðbrögðin en í raun er ég besti kall".  Eftir að hafa borða mikið af þessum góða mat var þeim hjónum fylgt í notalegt herbergi og Dubbi sagði ég vek ykkur kl:08,00 því við verðum að ná í bílinn ykkar.  Konan sagði við okkur hjónin að hún hefði sjaldan á ævinni verið eins feginn og þegar hún fór að sofa og hefði sofið mjög vel og sá núna í réttu ljósi hvern mann Guðmundur Þ. Ásgeirsson hafði að geyma.  Kl:08,00 er bankað á dyrnar og inn kom kona Dubba og sagði að Dubbi hefði beðið sig um að vekja þau og þau skildu bara koma upp og fá sér kaffi og morgunmat.  Skömmu síðar fóru þau á fætur og fóru upp þar sem þau hittu konu Dubba og var það eins og um nóttina að þar beið þeirra glæsilegt morgunverðaborð eins og á bestu hótelum.  Skömmu síðar kom Dubbi og fékk sér kaffi og mat og spurði þau síðan hvernig hjólbarðar væru á bílnum þeirra, það vissu þau ekki og Dubbi sagði Æ,æ þið þetta malbikunarfólk vitið ekkert um eitt eða neitt, en þetta er hlutur sem ég verð að redda til að við getum sótt bílinn.  Því ég verð að fara á sjó í nótt, eftir morgunmatinn sagði Dubbi við eiginmanninn við verðum að drífa okkur og bjarga þessu.  Síðan fóru þau út í bíl Dubba og hann ók rakleitt á bifreiðaverkstæðið og spyrði Dubbi hvort þeir vissu um einhvern bíl af sömu gerð á staðnum og þeir vissu um einn og var brunað heim ti þess manns og þau hjón sáu að þar stóð bíll eins og þeirra.   Dubbi hringdi í manninn og bað hann að koma út og tala við sig.  Sá maður kom skömmu síðar og Dubbi sagði umsvifalaust þú verður að lána mér varadekkið á bílnum þínum, farðu og náðu í það, ég skila því seinna í dag og vertu fljótur, maðurinn komst ekki að til að segja neitt en þegar hann kom aftur með hjólbarðann spurði hann "Hvað er að ske Dubbi minn?".  Það er kallað að hjálpa náunganum svarði Dubbi og brunaði af stað og sagði við konuna og barnið nú fer ég með ykkur heim til hans Kobba og þið bíðið þar meðan við sækjum bílinn.  Konan sagði við okkur, þetta er ótrúlegur maður, fyrst hræðir hann úr manni líftóruna og svo næst vill hann allt fyrir mann gera,   Eftir hádegi kom skólabróðir minn akandi heim til mín og Dubbi fylgdi á eftir, ég fór út og ræddi við Dubba hvort ég ætti ekki að borga honum eitthvað fyrir þetta allt fór hann að skellihlæja og sagði "Nei ég á nóg af peningum, en ef þú ert í vandræðum með peninga þá skaltu bara kaup eitthvað fallegt fyrir konuna þína".  Með þeim orðum kvaddi hann og fór.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er greinilegt að hann Dubbi hefur lítið þroskast síðan hann fór frá okkur af Króknum. Ein fyrsta heimsóknin sem við hjónin fengum eftir að við byrjuðum búskapinn var dálítið skondin. Við bjuggum í lítilli leiguíbúð og af því ég var sveitamaður gleymdi ég nú oft að læsa á kvöldin. Einn morguninn snemma vaknar konan við þrusk og glamur framan úr eldhúsi og fór fram til að skoða hver nú væri kominn. Þar sat þá umræddur maður flötum beinum á gólfinu og var að raða pottum og pönnum milli fóta sér, þrælupptekinn við verkið. Ekki fannst honum ástæða til að biðjast afsökunar á nærveru sinni en ávarpaði hana: "Mikil lifandis ósköp eigið þið af þessum pottum ungar manneskjurnar svona nýfarin að búa".

Árni Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 17:52

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Hún er kölluð Gurra, annað er rétt hjá þér.

Jakob Falur Kristinsson, 11.5.2007 kl. 07:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband