Örlítið meira grín

 

Símskeytið 

Maður nokkur úr Ísafjarðadjúpi fór til Reykjavíkur, einhvern tíman milli 1920-1930 að leita sér að vinnu en þá var mjög dauft yfir atvinnuástandi á Ísafirði og erfitt að fá vinnu þar.  Hann varð óvenju heppinn þegar hann kom til Reykjavíkur því að á línuveiðarann Sigríði vantaði mann vegna óvæntra forfalla.  Á þessum árum vori öll samskipti milli landshluta með öðrum hætti en í dag, fólk notaði mikið símskeyti og reyndi að hafa þau mjög stutt, en það var ódýrasti kosturinn.  Þegar þessi annars ágæti maður er búinn að fá plássið á skipinu sendi hann konu sinni eftirfarandi símskeyti:

"Er á Sigríði, sendu mér sængina strax."

 

 

 

Merkismenn

Kristján Jónsson frá Garðsstöðum var einn af þeim íbúum Ísafjarðar sem settu svip á bæjarlífið.  Hann tók mikinn þá í félagsstörfum og gengdi fjölda trúnaðarstarfa.  Hann var einstaklega mikill framsóknarmaður.  Hann fór eitt sinn á aðalfund SíS sem haldinn var á Bifröst, að fundi loknum fer Kristján út og sér að nánast öll bílastæði voru full af bílum og þó nokkrir af sömu gerð og bíll Kristjáns en hann átti Willys jeppa og gat hann ómögulega munað númerið á sínum bíl og fann hann hvergi.  Fór hann þá inn aftur og beið lengi þangað til allir voru farnir og stóð þá aðeins einn bíll eftir af Willys gerð og var hann þá öruggur að þetta væri hans bíll og tók hann og ók af stað heim, en kom við í Hreðavatnsskála og ætlaði að fylla bílinn af bensíni og þegar hann kemur inn í skálann biður hann um að láta fylla bílinn af bensíni frá Esso.  Sá sem var við afgreiðslu sagði að þeir væru aðeins með bensín frá BP.   Nei, nei sagði Kristján ég vil ekki sjá það, ef ég get ekki fengið bensín frá Esso ek ég frekar bensínlaus og gekk snúðugur út.  Hann komst til Búðardals á því bensíni sem eftir var á bílnum og þar var sko kaupfélag með sitt Esso bensín og lifnaði þá heldur betur yfir Kristjáni.  Af því að ég nefndi hér áður aðalfund SÍS þá má ég til með að segja frá því sem frægt var, að Erlendur Einarsson forstjóri SÍS sleitt alltaf aðalfundunum á sama hátt.  Hann þakkaði fundarmönnum fyrir fundarsetuna og óskaði þeim sem lengst væru að komnir góðrar ferðar heim.

Eiríkur Þorsteinsson sem á sínum tíma var kaupfélagsstjóri á Þingeyri 1932-1960 og var maður sem sópaði af hvar sem hann fór.  Hann var harðduglegur, mikill bókhaldsmaður, afkastamaður á skrifstofu og skrifaði manna best rithönd og fljótur að taka ákvarðanir og markaði stór spor í uppbyggingu og atvinnulíf á Þingeyri.  Hann sat á Alþingi 1952-1959 fykir V-Ísf.  Hann tók við Kaupfélagi Dýrfirðinga á algerum brauðfótum og breytti því í öflugt fyrirtæki.   Eins og oft er með slíka menn var hann alltaf að flýta sé og ók bílum sínum þannig að eins og um væri að ræða sjúkraflutningsbifreið þvílíkur var hraðinn.  En hann átti yfirleitt góða og kraftmikla bíla.   Hann notaði áfengi mjög lítið en ef það kom fyrir þá gekk hann að því eins og hverju öðru starfi og var ekkert að tvínóna við það og þegar flaskan var búinn sem ekki tók langan tíma.  Þá var það einfaldleg eins og hvert annað mál sem búið var að afgreiða og leið þá alltaf langur tími þar sem hann hafði enga löngun í vín.

Einhverju sinni er Eiríkur er að aka norður yfir Gemlufallsheiði, sem oftar og var að flýta sér þá kemur Willys jeppi á móti honum og situr þar undir stýri Kristján Jónsson frá Garðstöðum.  Honum þykir ferðin á Eiríki það mikil, að hann tekur ekki þá áhættu að mæta honum á veginum, heldur ekur rakleitt út í móa.  Þegar Eiríkur sér að bílinn ekur útaf veginum snarbremsar hann og stígur út úr bíl sínum.  Kristján gerir slíkt hið sama, tekur ofan hattinn, hneigir sig og segir "Hvað get ég gert fleira fyrir þig?"  Ekki er vitað hverju Eiríkur svaraði.

Málverkasýningin

 

Þeir félagar Jón Kr. Ólafsson, söngvari og Hafliði Magnússon, fjöllistamaður héldu saman málverkasýningu í félagsheimilinu á Bíldudal.  Mikill fjöldi fólks mætti á sýninguna og kom margt manna af öðrum fjörðum.  Þótti hún takast vel í alla staði.  Kona ein á Bíldudal, nokkuð þéttvaxin og gerðarleg, kom að máli við listamennina og kvað þetta svo merkan viðburð, að frásögn af honum yrði að komast í blöðin.  Það stæði líklega þér næst sagði söngvarinn.  Ert þú ekki einmitt fréttarritari fyrir Morgunblaðið?  Konan sem var mjög höll undir Sjálfstæðisflokkinn kvað svo vera.  Bað hún söngvarann að útvega myndir af málverkunum og kvaðst hún þá semja frétt og senda Mogganum.  Söngvarinn brá skjótt við og hóf filmingar á myndunum en fór þó ekki langt út fyrir eigin verk í myndatökunni.  Heimtaði hann filmurnar framkallaðar með hraði og afhenti svo fréttakonunni.  Hún bjó til fréttina í snatri til sendingar og póstlagði hana í ábyrgð.  Samtímis skall á flugverkfall er stóð í langan tíma og varð engin hreyfing á pósti á meðan.  Nokkru síðar eftir að flug var komið í lag að nýju, fylgdist söngvarinn vel með í Morgunblaðinu hvort ekki birtist fréttin um málverkasýninguna.  Ekki örlaði þó á henni.  Átti hann svo leið til Reykjavíkur og lét verða sitt fyrsta verk að stika niður á Morgunblað og hitti þar Styrmir ritstjóra og spurði með þjósti hvers vegna þeir hefðu ekki birt fréttina um málverkasýninguna.  Styrmir sagðist kannast við málið, en þegar fréttin hefði borist hefði hún verið svo gömul orðin að ekki hefði tekið því að birta hana.  Söngvaranum  hitnaði enn í hamsi við þetta og sagðist krefjast ljósmyndanna til baka sem sendar hefðu verið með fréttinni.  Ritstjóri taldi þær hafa lent í ruslafötunni.  Gerðist nú söngvarinn rjóður og reiður yfir slíkri meðferð á merkum verðmætum og hreytti út úr sér.  Hér er sýnilega öllu hent í ruslafötu jafnsnemma og það berst, jafnt verðmætu sem einskis nýtu.  Ég hygg að ykkur líki náttúrlega ekki stjórnmálaskoðanir okkar Hafliða, þannig að þið viljið neitt vera að púkka upp á okkur á neinn hátt.  En ég get sagt þér, að það var kona með svera sjálfstæðisbringu sem samdi fréttina, þannig að ég hélt að þið fynduð kakkske íhaldsþefinn af henni.  Svona, svona, þetta er ekki pólitík sagði Styrmir.  Haha segðu það öðrum en mér sagði söngvari, þaut reiður út og skellti á eftir sér (Sögn Hafliða Magnússonar).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að þessum sögum. Man vel eftir sögunni um Kristján frá Garðstöðum.  Takk fyrir þessa frábæru skemmtun.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.5.2007 kl. 20:39

2 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sæll Jakob! Ég mundi ekki sofa við opinn glugga ef ég væri að upplýsa verstu meynsemd íslenska kvótakerfisins. Að upplýsa sakamál er ALVARLEGT og hefur hættu í för með sér fyrir uppljósara málanna... Farðu þér hægt! Og takk fyrir skemmtisögurnar.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 8.5.2007 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband