Deyfð á Bíldudal

Bíldudalur x 

Jón Þórðarson, athafnarmaður á Bíldudal skrifar grein á heimasíðu sína bildudalur.is fyrir stuttu og fjallar um hina miklu deyfð sem ríkir í mínum gamla heimabæ og jafnvel sé hann orðin svo daufur sjálfur að hann geti varla skrifað á sína heimasíðu.  nú tel ég að ástandið sé orðið alvarlega en ég hélt, ef Jón Þórðarson er orðinn daufur og hættur að skrifa og fá hugmyndir um eflingu byggðar á Bíldudal.  Ég fæ ekki betur séð af lestri þessarar greinar Jóns en hún sé í mjög góðu samræmi við grein sem ég skrifaði hér á minni síðu fyrir stuttu og kallaði "Stóriðja Bíldudals" en greinina má lesa hér og fjallaði um hina nýju Kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal ofl.  En ég ætla að skrifa hér nokkur orð um grein Jóns Þórðarsonar, sem segir að Bílddælingar upplifi nú einhverja bið og aftur bið.  Ég spyr nú bara eftir hverju eru allir að bíða og Jón svarar því að hluta til í grein sinni.  Þeir eru að bíða eftir:

1.   Að Kalkþörungaverksmiðjan fari í gang og störfum fjölgi.  Ég man ekki hvað ég skrifaði margar greina um þessa verksmiðju á meðan ég var búsettur á Bíldudal og fékk yfir mig miklar skammir og ég var ásakaður um niðurrifsstarfsemi og að vera á móti uppbyggingu Bíldudals.  Ég benti á það strax að þessi verksmiðja tæki aldrei til starfa og hinir írsku aðilar sem að henni standa væru einungis að sækjast eftir aðgangi að hinum miklu auðævum sem eru í kalkþörungum í Arnarfirði.   Ég benti á að sú starfsemi sem þarna myndi fara fram yrði ekki önnur en að dæla kalkþörungi upp úr firðinum og senda hann síðan til Írlands til vinnslu.  Bygging verksmiðjuhúss og setja inn í það ónýtt drasl er einungis lítill fórnarkostnaður miðað við að fá einkarétt á að dæla upp úr Arnarfirði 10 þúsund tonnum af kalkþörungi næstur 50 árin og þurfa ekki að borga krónu fyrir.  Þar sem þessi gagnrýni mín þótti svo neikvæð var mér úthýst með mín skrif á fréttavefnum arnfirdingur.is, en ég fæ ekki betur séð en að nú sé Jón Þórðarson orðinn mér sammála.  En það er full seint því þessu verður ekki breytt úr þessu.  Nú spyrja sjálfsagt einhverjir, hverjir voru svo vitlausir að gera allt þetta fyrir hið írska fyrirtæki?  Því er fljótsvarað það var bæjarstjórn Vesturbyggðar og á þeim tíma var í þeirri bæjarstjórn maður sem heitir Jón Þórðarson og var nokkuð valdamikill þar á bæ.  Þegar svona vitleysa hefur verið gerð og samningsbundin í 50 ár er ekkert hægt að gera og ekkert þýðir að væla utan í stjórnvöldum, því þetta er búið og gert.  Þetta írska fyrirtæki hefur uppfyllt öll þau skilyrði sem því voru sett, þ.e, að byggja verksmiðju á Bíldudal sem gæti unnið þessa kalkþörunga.   Bílddælingar geta beðið og beðið, en sú bið er tilgangslaus því þessi verksmiðja mun ALDREI taka til starfa.  Þetta er mál sem búið er að klúðra svo hrikalega að seint verður úr bætt, næsta tækifæri á að endurskoða þessa starfsemi er eftir tæp 50 ár.

2.   Að fiskvinnsla hefjist á ný á Bíldudal, með því að fyrirtækið Stapar ehf. hefji þar starfsemi á ný, en nokkuð víst er að svo verði ekki.  Málið er ósköp skýrt, á sínum tíma hóf þetta fyrirtæki fiskvinnslu á Bíldudal að beiðni stjórnvalda og því var lofað að sérstakur byggðakvóti um 300 tonn yrði færður til Bíldudals og þá til Stapa ehf.  Þegar ekkert bólaði á kvótanum og fyrirtækið hafði lagt talsvert fjármagn til endurbóta á frystihúsinu var vinnslu hætt og í allt sumar hafa forsvarsmenn þessa fyrirtækis verið að vinna í þessu kvótamáli og ekkert gengið.  Fyrir stuttu kom þó fram að búið væri að ákveða þennan byggðakvóta en hann yrði ekki nema 140 tonn og óvíst að fyrirtækið treysti sér til að fara af stað með vinnslu ef ekki verða nema 140 tonn til vinnslu.  En hver skyldi nú vera skýringin á því hvað lengi hefur dregist að ákveða með þennan kvóta?  Hún var einfaldlega sú að krafa kom frá heimamönnum um að byggðakvótinn yrði ekki afhentur fyriræki á Patreksfirði heldur aðilum á Bíldudal og fyrir þessum hópi talaði maður að nafni Jón Þórðarson og vildi hann fá þennan kvóta.  Nú er staðan þannig að Stapar ehf. hafa tilkynnt sjávarútvegsráðherra að þeir muni ekki hefja vinnslu nema staðið verði við fyrri loforð um 300 tonna kvóta og fá endugreiddan þann kostnað sem þeir voru búnir að leggja í.  Ef það verður ekki gert sem allt bendir til mun Jón Þórðarson fá þennan kvóta og hvað gerir hann þá?  Jón nefnir einnig í grein sinni að forsvarsmönnum Stapa ehf. hafi á sínum tíma verið færð blóm þegar þeir hófu vinnslu, en ekki hefur sú blómagjöf fært Bílddælingum mikla vinnu eða hamingju, frekar en margar flugeldasýningar sem Jón Þórðarson stóð fyrir á sínum tíma, þegar hann taldi sig vera búinn að tryggja atvinnurekstur á Bíldudal.  Eitt af því síðast sem ég gerði áður en ég flutti var, að ég sótti um lóð undir fiskverkunarhús og var búinn að tryggja mér samstarfsaðila sem ætlaði að koma með sína útgerð til Bíldudals.  Ég sótti um lóð á hafnarsvæðinu og þurfti því umsóknin að fara fyrir hafnarnefnd auk byggingarnefndar.  Þetta var hugsað sem 10-15 manna vinnustaður en svarið sem ég fékk var að enginn lóð væri til staðar nema seinna þegar búið væri að ganga frá lóðamálum kalkþörungaverksmiðjunnar og Lás ehf. hefði flutt sína steypustöð af ákveðinni lóð.  Þá fékk ég nóg og sagði bless.

Hvað varðar fiskvinnslu og útgerð á Bíldudal var á sínum tíma eða 1975 stofnað fyrirtækið Fiskvinnslan á Bíldudal, sem keypti allar eignir Fiskveiðisjóðs á staðnum, sem þá voru vægast sagt í mjög lélegu ástandi.  Þetta fyrirtæki byggði upp allar þessar eignir og byrjaði fiskvinnslu 13. desember 1976 og átti þá orðið rúmlega 200 tonna línubát Hafrúnu BA-400 og keypti annan í byrjun árs 1997 að svipaðri stærð Steinanes BA-399.  Þetta fyrirtæki byggðist hratt upp og var stöðugt að endurbæta hús og vélakost.  1986 er svo stofnað dótturfyrirtækið Útgerðarfélag Bílddælinga hf. sem keypti togarann Sölva Bjarnason BA-65 og seinna línu- og rækjuskipið Geysir BA-140.  Flest árin voru þessi fyrirtæki rekin með hagnaði og stóðu vel og mikil atvinna var á staðnum og fólki fjölgaði .  En 1992 riðu ósköpin yfir allt var keyrt í þrot af Landsbanka Íslands fyrirvaralaust og engar skýringar gefnar og um 3.000 tonna aflakvóti fór í burtu. Síðar hef ég komist að því hvað raunverulega olli þessu og það var stöðugur rógur og lygi frá Bíldudal um okkur sem stjórnuðum þessum fyrirtækjum.  Síðan þá hafa á milli 10-15 aðilar reynt við þennan rekstur en alltaf farið á sömu leið þ.e. lóðrétt á hausinn.  Gjaldþrotaslóðinn eftir þessa aðila er ekki talinn í milljónum heldur milljörðum.

3.   Að bíða eftir að Rækjuver hf. fari í gang og hefji vinnslu rækju.  Þótt verið sé að vinna rækju á öðrum stöðum er vitað að sá rekstur er mjög erfiður og þetta fyrirtæki er í eigu nokkurra einstaklinga og ekki sanngjarnt að krefjast að það hefji rekstur nú.  Eða er nauðsynlegt að knýja það fyrirtæki út í taprekstur svo það geti blandast í alla gjaldþrotaflóruna sem fyrir er.

4.   Olíuhreinsistöð,  þar er ég sammála Jóni Þórðarsyni að slík stöð á ekki heima í Arnarfirði.

5.   Að lokum fjallar Jón um nýja möguleika í atvinnu málum og nefnir mikla berjasprettu , fjallagrös, þarann í fjörunni of ferðaþjónustu, þarna liggi ónýttir möguleikar.  Ekki ætla ég mér að ræða þau má og læt það öðrum eftir.

6.   Jón ræðir líka um hvernig hægt sé að stytta ferðatímann til Ísafjarðar, sem mér finnst ekki skipta máli og spyr hvað ætla Bílddælingar að sækja til Ísafjarðar?  Þótt þar sé meiri þjónusta og meira að segja Bónus-verslun, er það ekki sem vantar á Bíldudal.  Það er atvinna og aftur atvinna sem vantar númer 1.2. og 3.

Bíldudalur hafði á sínum tíma alla möguleika á að vera blómstrandi byggðalag og býr að hinni miklu gullkistu sem Arnarfjörður vissulega er.  En því miður hefur sundurlyndi og öfund oft tekið þar völdin og afleiðingar þess blasa nú við öllum í dag.  Það vantar alla samstöðu hjá íbúum og gefa þeim frið sem eitthvað vilja gera á þessum fallega stað.  Ég og sonur minn reyndum lengi vel að vera þarna með útgerð, en það var eins og allt væri gert til að setja fyrir okkur fótinn.  Við máttum helst ekki koma með skip okkar þarna að bryggju nema fundið væri að því og ef reikningar fyrir hafnargjöldum voru ekki greiddir strax á gjalddaga voru þeir umsvifalaust sendir í lögfræðiinnheimtu.  Aldrei stóð okkur til boða að veiða hinn svokallaða byggðakvóta sem fyrirtæki Jóns Þórðarsonar fékk úthlutað samfellt í þrjú ár og lönduðum við þó tvær vertíðar öllum okkar afla hjá fiskverkun Jóns Þórðarsonar.  Hröktumst við því með okkar útgerð til Ólafsvíkur og Flateyrar á tímabili.  En að lokum gáfumst við upp.  Ég skrifaði á sínum tíma grein um þennan byggðakvóta sem birtist á fréttavefnum Tíðis á Patreksfirði og má lefa þá grein hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Af hverju bregður manni ekkert við lestur á þessari grein? Hvað skyldi þetta hafa viðgengist á mörgum stöðum? Ég veit um um að minnsta kosti um einn stað. Og það læðist að mér að þeir séu mikið fleiri.

Hallgrímur Guðmundsson, 23.10.2007 kl. 12:58

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er því miður ansi víða uppi á teningnum, það eru allir í þessum "krummaskuðum", að naga skóinn hver af öðrum, allt of oft. Ég held því miður að það sé málið á Bíldudal. Þetta er þekkt hér hjá okkur, það er enginn maður með mönnum og fær ekkert nema með slagsmálum og mannorðsmorðum, nema að hann sé að koma einhversstaðar að. Síðan getum við skoðað staði sem hafa staðið betur saman um hlutina og þar er staðan aðeins skárri. (s.br. Grindavík versus Þorlákshöfn) Allt snýst þetta samt um pólitík og hversu heppnir þessir staðir voru með útibússtjóra í bankanum á staðnum, það er hægt að rekja sig hringinn um landið og skoða hlutina með þeim gleraugum og alltaf er sama uppi....Sumsstaðar þar sem ég þekki til  er mér nær að halda, að mönnum finnist ekki dagurinn hafa lukkast verulega vel, nema þeir hafi komið höggi eða óþverra á einhvern heimamann í "krummaskuðinni"  .... 

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 23.10.2007 kl. 14:39

3 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er rétt hjá þér Hafsteinn að miklu leyti snýst þetta um heppni með útibústjóra bankanna á hverjum stað.  Landsbyggðinni hefur blætt mest fyrir klúður íbúanna á mörgum stöðum, sérstaklega hinum minni, þar sem návígið er mest.

Jakob Falur Kristinsson, 23.10.2007 kl. 21:14

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þessi grein er mjög góð, en spurningin er:  Hvar eru mótvægisaðgerðirnar?  Eða eru stjórnvöld búin að gefast upp á að leysa vanda þeirra byggðarlaga sem verst eru sett?  Og þá á ég ekki eingöngu við þá sem fara verst út úr "þorskskerðingunni".

Jóhann Elíasson, 23.10.2007 kl. 21:25

5 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Já Jóhann, stjórnvöld eru búinn að gefast upp og það nýjast er að bjóða fólki kr. 200 þúsund í styrk ef það vill flytja á höfuðborgarsvæðið, en styrkurinn dugar varla fyrir kostnaði við að flytja, hvað þá húsaleigu.  Því ekki kaupir þetta fólk íbúðir þegar það hefur þurft að skilja allar sínar eignir verðlausa eftir.

Jakob Falur Kristinsson, 24.10.2007 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband