Einstakur prestur

Frá 25.11. 1975 til 15.11. 1977 var prestur á Bíldudal, sem heitir Hörður Þ. Ásbjörnsson.  Hann var ógiftur og barnlaus og bjó einn í prestbústaðnum, sem var nokkuð stórt hús, á tveimur hæðum með fjölda herbergja.  Ekki nýtti prestur nema hluta hússins og kvartaði mikið undan því hvað dýrt væri fyrir sig að borga kyndingu fyrir húsið, sem vissulega var rétt.  Honum var einnig tíðrætt um hvað væri mikill munur þar sem væri hitaveita og sagðist ætla að reyna að sækja um hitaveituprestakall.  Auðvitað var þetta erfitt fyrir prestinn fjárhagslega, því ekki voru launin svo há og á svona litlum stað var ekki mikið um aukaverk sem gátu bætt fjárhaginn.  Var þetta því óttalegt basl á prestinum Og svo kom til þessa að skýra átti eitt barna minna og var það gert á mínu heimili, ekki var gestafjöldinn mikill, aðeins nánustu ættingjar og vinir.  Hinsvegar hafði konan mín bakað talsvert mikið af kökum og tertum og því nóg til.  Prestur var nokkuð snöggur að afgreiða skírnina og horfði mikið á veisluborðið og var fljótur að byrja að gæða sér á veislumatnum og borðaði og borðaði.  Ég sagði við hann þú hefur greinilega verið svangur Hörður minn og hann svaraði um hæl "já heldur betur og svo ætla ég að reyna að borð svo mikið að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af kvöldmatnum."  Þegar allir gestir voru farnir sat séra Hörður eftir og spjallaði og var hann að segjast frá öllum sínum raunum og hvað hann hitti fáa og hvað sér leiddist mikið og hvað miklir peningar færu í að kynda prestbústaðinn.  Ég bauð honum þá að hann gæti komið og unnið í frystihúsinu hjá mér og þannig verið innan um fólk og kynnst fleirum, auk sem þetta færði honum auknar tekjur.  Hann lifnaði allur við og spurði hvenær hann mætti mæta og ég sagði honum að hann gæti mín vegna mætt á morgun og ég skildi útvega honum mat í hádeginu hjá konu sem rak slíka þjónustu og var með nokkra menn á mínum vegum í fæði.  Hann kvaddi okkur síðan alsælla með þessa lausn á sínum málum.  Ég hringdi síðan í verkstjórann hjá mér og lét hann vita að presturinn myndi mæta til vinnu næsta morgun ogvar það allt í lagi af hans hálfu.  Mitt fyrsta verk næsta morgun áður en ég mætti á mína skrifstofu fór ég í frystihúsið til að athuga með prestinn og viti menn hann stóð þarna í einu horninu og þvoði frystipönnur í gríð og erg og sá einnig um að koma hreinum pönnum þangað sem pökkunin fór fram og virtist alsæll með lífið.  Verkstjórinn sagði mér að presturinn væri búinn að lát flesta vita að það svæði sem pönnuþvotturinn fór fram, væri hans umráðasvæði og þangað mætti enginn koma nema með hans leyfi.  Gekk þetta nú allt nokkuð vel um stund, en svo fer verkstjórinn að segja mér að presturinn eigi það til að taka sér full langa matartíma og bað mig um að tala við hann, sem ég gerði og spurði prestinn af hverju hann gæti ekki mætta á réttum tíma úr mat eins og aðrir og hannfór að úrskýra málið og sagði" Jú sjáðu til ég get ekki verið að mæta í matinn í vinnufötunum eins og þeir gera sem eru í línubeitningunni og borða þarna líka, ég verð að hraða mér heim í hádeginu og skipta um föt og fara í jakkaföt áður en ég fer í matinn og svo verð ég að skipta aftur um föt áður en ég mæti til vinnu og tíminn er bara full stuttur."  Ég lét þá verkstjórann vita og bað hann að horfa framhjá þessu, sem hann taldi sjálfsagt að gera enda væri prestur hörkuduglegur.  Síðan kemur að því að páskarnir eru að koma og kemur prestur þá til mín og er heldur vandræðalegur og segir mér síðan erindið.  "Sjáðu til Jakob að nú eru að koma páskar og þá verður talsvert um messur og ég þarf tíma til að skrifa nokkrar ræður því ég er búinn að nota allt sem ég átti til og ég er svo þreyttur eftir hvern vinnudag að ég get ekkert skrifað þegar ég kem heim."  Ég sagði honum að það væri allt í lagi, því ekki væri ætlun mín að hann gæti ekki sinnt sínum preststörfum vegna mikillar vinnu og bað hann að láta verkstjórann vita og segja honum að ég hefði gefið honum frí alla páskavikunna.

Síðar þennan vetur þegar steinbítsvertíðin byrjaði fór að berast mikill fiskur að landi til vinnslu því við keyptum allan þann steinbít sem við gátum fengið á sunnanverðum Vestfjörðum og nauðsynlegt þótti að bæta við starfsfólki.  Ég réði 12 stúlkur á aldrinum 18-20 ára víða af landinu til vinnu.  En þá kom upp vandamál um hvar ég ætti að koma öllum þessum stelpum fyrir, því okkar verbúðir voru fullar.  Eftir að hafa hugsað þetta nokkuð lengi fékk ég þá hugmynd að ræða við prestinn sem hafði nægt húsnæði og boðaði hann á minn fund og bauð honum að við skyldum leigja af honum neðri hæð prestbústaðarins og til við bótar leigunni skyldi ég greiða allan kostnað við kyndingu og allt rafmagn fyrir húsið.  Presturinn tók þessu mjög vel og sá fram á verulegan bættan fjárhag.  Síðan fékk ég smiði til að taka í gegn neðri hæð hússins, mála þar allt, dúkleggja, og urðu þarna hinar bestu vistarverur.  Svo komu dömurnar og ég mætti á staðinn þegar þær fluttu inn og prestur tók á móti öllum og heilsaði með handabandi og kynnti sig.  Þegar stelpurnar voru að koma sér fyrir kom í ljós að eitt herbergi vantaði og þá sagði prestur það ekki vera neitt vandamál, hann myndi bara rýma eitt herbergi á efri hæðinni, því sér nægði alveg eitt herbergi og var það gert.

Ef mig hefði grunað að öll þau vandræði sem þetta átti eftir að skapa mér seinna hefði ég aldrei látið mér detta í hug að leysa húsnæðisvandræðin á þennan hátt.  Því þegar koma svona margar ungar og myndarlegar dömur á jafn lítinn stað, sækja ungir menn mjög í félagsskap þeirra og því fylgir síðan partý, ýmis gleðskapur ofl.

Eitt sinn er ég vakinn um miðja nótt við símhringingu og er þá presturinn í símanum og segi að ég verði að koma eins og skot, því það sé allt orðið vitlaust í húsinu, fullt af blindfullu fólki og tónlist spilið af fullum krafti og hann geti ekki náð að sofna.  Ég dreif mig á fætur og mætti á staðinn og það var rétt hjá presti að þarna stóð yfir mikill gleðskapur og presturinn búinn að læsa sig inni í sínu herbergi og þorði varla að koma út og þegar hann loksins kom fram sagði ég við hann að ég skyldi stoppa þetta í hvelli, en þá bað hann mig um að fara varlega því ekki vildi hann missa stelpurnar úr húsinu, því þær væru allar mjög indælar við sig.  Ég fór þá á neðri hæðina og henti öllum út sem ekki bjuggu þarna og hundskammaði stelpurnar og sagði þeim að fara að sofa því þær ættu að mæta í vinnu morguninn eftir.  Færðist nú ró yfir húsið og ég fór upp til að ræða við prestinn og vorum við rétt sestir niður þegar bíll kemur akandi að húsinu og skömmu síðar snarast inn séra Þórarinn Þór prestur á Patreksfirði, sem þá var prófastur í V-Barðastrandarsýslu en presturinn hafði einnig hringt í hann.  Þórarinn Þór sem var hin mesti húmoristi og fór nú að spyrja séra Hörð hvað hefði eiginlega skeð, hann sæi ekki betur en hér væri allt í besta lagi.  Séra Hörður svaraði honum þá því til að hann Jakob væri búinn að stoppa öll lætin en bætti líka við að stelpurnar ættu það til að fara um húsið bara í nærfötum, sem væri mjög óþægilegt fyrir sig að horfa á.   Þá  sagðist Þórarinn að það væri þá best að hann færi bara heim á Patreksfjörð aftur og þar sem ég var að fara líka urðum við samferða að útidyrunum, en þar stoppar Þórarinn og horfir lengi á séra Hörð og segir síðan;  "Séra Hörður, hér býrð þú með 12 ungum dömum og ert að kvarta og segðu mér nú eitt ert þú algerlega náttútlaus?"  Ekki urðu mikil svör hjá séra Herði og kvöddum við hann og fórum.  Ekki man ég hvað oft ég þurfti að vakna oft þennan vetur við símhringingu frá prestinum og fara og stilla til friðar í prestbústaðnum.

Í lok janúar 1976 var fyrirhugað að halda þorrablót á Bíldudal, sem var ein af þeim skemmtunum sem flest allir mættu á.  Seinnipart lagardagsins sem þorrablótið átti að vera hringir séra Hörður og segir mér að nú sé algert neyðarástand í húsinu.  Það flæði vatn út um allt og hann sé við það að gefast upp, ég sagði honum að það væri ekki nokkur leið að fá viðgerðarmann á þessum tíma en hann hélt áfram að biðja mig að koma.  Svo fór að lokum að ég gafst upp of sagðist ætla að koma og fór ég á staðinn og fann prestinn í geymsluherbergi á neðri hæðinni, þar sem hann var á fullu að ausa upp vatni í fötu, en stöðugt lak vatn niður úr loftinu.  Ég spurði hann hvað væri á efri hæðinni fyrir ofan þetta herbergi og sagði hann þá að það væri baðherbergið.  Ég fór þá upp og skoðaði undir baðkarið og sá að þar var plastlögn frá niðurfalli baðsins sem hafði farið úr sambandi, þannig að í hvert skipti sem hleypt var úr baðkarinu flæddi vatnið um allt gólf og lak síðan niður í geymsluna þar sem presturinn var að ausa upp vatninu og spurði hann af hverju væri verið að nota baðið svona mikið og sagði hann þá að það væru allar stelpurnar, því þær væru að fara á þorrablótið.  Ég sagði honum þá að láta þær hætta að nota baðið á meðan ég reyndi að koma þessu í samband.  Nei það gengur ekki sagði prestur, það eiga tvær eftir að fara í bað í viðbót og þær væru að flýta sér og hann myndi bara halda áfram að ausa upp vatninu þar til allar væru búnar.  Ég sagði honum þá að ég væri sjálfur að fara á þetta þorrablót og nennti því ekki að bíða og kvaddi og fór.  Eftir helgina sendi ég viðgerðarmann til að koma þessu í lag.

Eftir því sem tíminn leið batnaði sambúðin í prestbústaðnum  og stelpurnar fór að elda fyrir prestinn, þrífa hjá honum og jafnvel að þvo fyrir hann og horfðu með honum á sjónvarpið á kvöldin.  Var hann nú heldur betur ánægður með lífið.  Svo kom að því að ráðningartíma lauk og  þessar dömur fóru burt af staðnum.  Skömmu síðar hitti ég prestinn á göngu, en þá var hann hættur að vinna í frystihúsinu og ég spurði hvað væri að frétta hjá honum?  "Æ það eru ekkert nema leiðindi og einmannaleiki hjá mér síðan stelpurnar fóru og nú sæti hann einn í þessu stóra húsi og léti sér leiðast, auk þess, sem hann ætti aldrei til neina peninga því kyndingarkostnaðurinn væri svo mikill og nú væri hann alvarlega að hugsa um að segja starfi sínu lausu og vita hvort hann gæti ekki fengið hitaveituprestakall."  Árið eftir flutti svo séra Hörður frá Bíldudal og síðar frétti ég af honum við vinnu í kjötiðnaðarstöð SÍS á Kirkjusandi og greinilegt að hann hafði ekki fengið sitt langþráð hitaveituprestakall.  Sennilega hefur þetta verið ein mesta lífsgleði hans á ævinni þegar hann bjó með öllu þessu kvenfólki og vann við að þvo frystipönnur í frystihúsinu á Bíldudal.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband