Handfæraveiðar

1975 var ég háseti á handfærabátnum Fjólu BA-150 frá Bíldudal vorum við þrír um borð og skipstjóri var Guðmundur Þ. Ásgeirsson sem daglega var kallaður Dubbi.  Við fórum eitt sinn snemma morguns frá Bíldudal og sigldum síðan um 20 mílur NV frá Kóp.  Þar var stoppað og færin látinn fara og lentum við strax í mokveiði af stórufsa og drógum þarna á um tveimur klukkutímum um 2 tonn.  Dubbi dansaði um dekkið af ánægju og í eitt skiptið kastaði hann sér í fiskikösina og tók einn ufsann í fangið og hrópaði upp; "Mikið vildi ég að þetta væru allt konur."  Ég hugsaði með mér í hverjum andskotanum er ég nú lendur, þetta er greinilega kolbrjálaður maður.  Þegar við höfðum gert að aflanum og ísað hann í lest bátsins, sagði Dubbi að nú ætlaði hann niður og laga kaffi og hann myndi kalla á okkur þegar það væri tilbúið.  Skömmu seinna kom hann upp og skipaði okkur að taka færin inn, þegar því var lokið var sett á fulla ferð og þótt ég spyrði Dubba hvert hann væri að fara og af hverju hann keyrði úr svona góðum afla, fékk ég enginn svör, nema að það hefði komið talsvert alvarlegt fyrir og ég skyldi bara fara í koju því þetta yrði 3 4 tíma stím.  Ég leit aðeins á sjókortið sem lá á kortaborðinu og gat ekki betur séð en miðað við stefnu bátsins og áætlaðan siglingartíma værum við á leið út í Víkurál en fór síðan niður og í koju.  Ég heyrði að Dubbi var stöðugt í talstöðinni og eina sem mér datt í hug að einhver bátur væri í miklum vandræðum en sem samt var frekar ótrúlegt því Dubbi var alltaf að reka upp tröllahlátur af og til.  Ég náði nú samt að sofna.  Síðan er ég vakinn upp við mikið öskur frá Dubba, sem skipar mér að koma upp, þegar ég kem upp og lít út um glugga stýrishússins sé ég lítið því komin var talsverð þoka.  Dubbi segir mér að fara í sjógallann og vera tilbúinn að hlaupa fram á stefni þegar á þurfi að halda var nú slegið af ferð bátsins og Dubbi var stöðugt að horfa á radarinn en ég út um gluggann og allt í einu sé ég skip sem virtist vera mjög stórt að sjá í þokunni.  Ég heyri að Dubbi segir í talstöðina "Ég ætla að renna meðfram síðunni hjá ykkur og það verður maður fram á og kastið þið bara pokanum yfir og segir síðan við mig jæja farðu nú fram á stefni og vertu tilbúinn að grípa það sem þeir kasta yfir til okkar.  Ég fór fram í stefni bátsins og eftir því sem við komum nær sá ég að þetta skip var Tungufell BA-326 frá Tálknafirði, sem var þarna á línuveiðum.  Við renndum meðfram bb- hlið Tungufells og allt í einu kemur poki fljúgandi yfir, sem ég næ að grípa og færði Dubba sem var heldur betur ánægður.  Ég spurði hvað þetta væri svona mikilvægt og þá reif hann pokann í sundur og við blasti mjólkurferna og þá bætti hann við að þegar hann hefði verið búinn að laga kaffið áðan hefði hann hvergi fundið mjólk og því ekkert annað að gera en fá hana lánaða.  Nú var bátnum snúið við og sett á fulla ferð til baka en reyndar farið aðeins vestar og dýpra og færin látinn fara og aftur lentum við í góðum afla og fengum við rúm þrjú tonn af góðum þorski það sem eftir var dagsins.  Um miðnætti hættum við og gengum frá aflanum og fórum í kaffi og notuðum mjólkina góðu og fórum síðan allir að sofa.  Um morguninn þegar við vöknum er komin leiðinda bræla og um hádegi vorum við aðeins búnir að fá nokkur hundruð kíló og þá sagði Dubbi að þetta væri vonlaust og hundleiðinlegt í svona veðri og hann ætlaði bara að fara í land og hugsa um sína konu í heitu rúmi í stað þess að standa við færi í skítaveðri.  Var þá farið til Bíldudals þar sem við lönduðum rúmum 5 tonnum af þorski og ufsa.  Þegar Dubbi kom síðan með virktarnótuna til að sína okkur sagði ég við hann við fengum nú aðeins meira en þetta.  Hann horfði undrandi á mig og spurði hvað, lönduðuð þið ekki öllu úr lestinni?  Jú, jú sagði ég en þú gleymir að bæta mjólkurfernunni við.  Hann horfði á mig og steytti hnefann og sagði steinhaltu kjafti helvítis fíflið þitt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Jón Arnarson

Hva........eitthvað hýtur fernan að hafa verið mikilvæg víst að það er stímt í 8 tíma samfleytt eftir henni :)

Einhver sagði við mig fyrir skömmu : "Það eru bara hommar og sjómenn sem drekka mjólk út í kaffi, á hvaða bát varst þú ?"

Ívar Jón Arnarson, 4.11.2007 kl. 16:08

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Skipstjórinn var auðvitað talsvert skrýtinn, ekki hvaða spekingur hefur sett fram þessa fullyrðingu, þú hlýtur sjálfur að hafa séð fólk drekka kaffi með mjólk í þótt það sé hvorki hommar eða sjómenn.  Eins og kemur fram í greinini var ég á þeim tíma háseti á bót sem hét Fjóla BA-150.

Jakob Falur Kristinsson, 4.11.2007 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband