Að henda engu

Ég skrifaði hér í gær um einbýlishús sem ég byggði á Bíldudal 1975 og þar kom fram að við húsið var bílsskúr.  Fyrstu þrjú börnin mín eru fædd 1970, 1973 og 1976, fyrst  tveir synir og ein dóttir.  Síðasta barnið mitt fæddist ekki fyrr en 1992 og var það stúlka.  Það vita allir að öllum börnum fylgir talsvert dót, það eru leikföng síðan bækur og svo vaxa börnin stöðugt sem kallar alltaf á ný föt, nýja skó, ný stígvél ofl.  Auk þess sem foreldrar eignast talsvert af óþarfa dóti og þeir eins og börnin endurnýja bæði föt sín og skó.  Eftir því sem árin liðu í þessu nýja húsi mínu fóru allir skápar í herbergjunum að fyllast og við hjónin tókum nokkuð reglulega til og pökkuðum niður í kassa því sem ekki var notað.  Ekki kom til greina að kasta þessum hlutum því þeir voru allir heilir og var ég mun haldsamari á það en eiginkonan.  Að henda heilum hlutum fannst mér hreint og klárt bruðl og betra væri þá að gefa þetta öðrum, ekki reyndist það svo auðvelt því víða var sama ástand á heimilum okkar kunningja.  Þegar allir kassarnir voru við það að fylla barnaherbergin og börnin vildu losna við þetta var næsta skref að setja þetta í geymsluna sem var í íbúðinni.  Þegar síðan kom að því að geymslan fylltist tók við næsti áfangi sem var að tæma geymsluna og flytja allt út í bílskúrinn, sem þýddi auðvitað að þá var ekki pláss fyrir bílinn þar inni.  Ég gerði stundum heiðarlega tilraunir til að hreinsa til í bílskúrnum og fór og ætlaði að flokk í sundur hverju ætti að hend og hvað ætti að geyma, en alltaf fór þetta á sama veginn eftir því sem ég skoðaði meira þá stækkaði haugurinn sem ég ætlaði að geyma og litlu var hent og það pláss sem losnaði svona að rétt dugði til að getað losað geymsluna í íbúðinni á hverjum tíma.  Þetta virtist ætla að verða óleysanlegt vandamál og konan mín greip til þess ráðs að pakka fötum sem enginn var að nota og sendi til Rauða krossins en ekki leysti það nú vandamálið nema að litlum hluta.  Þegar synir mínir tveir voru orðnir fullorðnir fékk ég þá til að koma með mér í bílskúrinn og hjálpa mér að flokka allt draslið og gaf ég ströng fyrirmæli um að sem mestu yrði hent.  Þá kom í ljós að þeir höfðu greinilega erft það frá föður sínum að henda ekki heilum hlutum og þarna var ógrynni af barnabókunum, leikföngum ofl.  Og þegar þeir voru að skoða þær komu alltaf upp minningar og ákveðið að geyma viðkomandi hlut og alltaf gaf ég eftir.  Svona gekk þetta í nokkur ár að losað var úr bílskúrnum í eina kerru sem dugði til að tæma geymsluna sem fylltist síðan fljótt aftur.  Eftir að ég var kominn með eigin útgerð hafði ég aðgang að pallbíl og eina helgina var ákveðið að nú skyldi heldur betur hreinsað til og ekkert farið út í að skoða eitt né neitt heldur öllu hent.  Þá var eldri sonur minn fluttur að heiman en hinn bjó enn heima og til að þetta gengi nú nokkuð vel fékk ég föður minn okkur til aðstoðar.  Ekki man ég hvað farnar voru margar ferðir á pallbílnum en þær voru nokkuð margar og minnkaði haugurinn í bílskúrnum nokkuð fljótt.  Eitt af því síðasta sem við tókum út var frystikistan sem geymdi hinn dýrmæta lax og ætluðum við að skoða í hana og athuga hvort fiskurinn væri ekki orðinn ónýtur og opnuðum lokið og þá gaus upp hrikaleg ólykt og vorum við fljótir að loka henni aftur og sá ég þá á veggnum að öryggið var slegið út og var greinilegt að það hafði skeð nokkrum árum áður þvílík var lyktin svo að ekki var um annað að ræða en koma henni á pallbílinn líka og var þetta síðasta ferðin á haugana.  Þannig háttaði til á þessum haugum að hægt var að bakka upp á brúnina og hafa aðeins halla á bílnum til að auðvelda losun á honum.  Ég og sonur minn voru á bílpallinum og ýttum draslinu niður en pabbi stóð aðeins neðar og velti því lengra sem ekki fór nógu langt.  Ég ætla að taka það fram að faðir minn var ekki klígjugarn maður og hafði ég aldrei séð hann æla, en þegar frystikistan kom fljúgandi framhjá honum og skall á einhverju hörðu opnaðist hún og allt gumsið slettist út um allt.  Ég heyrði að faðir minn rak upp vein og kom hlaupandi að bílnum og stóð þar og ældi og ældi og að lokum stundi hann upp "Hvaða andskotans viðbjóð varstu með í þessari frystikistu drengur?  ég er nú um dagana búinn að losa stíflur úr mörgum klósettum og unnið margt óþrifalegt, en aldrei á ævinni hef ég orðið vitni að öðrum eins djöfulsins viðbjóði."  Eftir þetta fórum við heim og þrifum bílskúrinn og fórum síðan í kaffi en pabbi ætlað ekki að klára að getað drukkið kaffið án þess að hann væri við það að æla bara við tilhugsunina eina um frystikistuna.  Hann kvaddi mig síðan með þeim orðum að það væri sjálfsagt að aðstoða mig aftur við hvað sem væri svo framarlega að ekki leyndist aftur svona andskotans viðbjóður í mínu dóti sem þyfti að henda.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband