Laxveiði

Ég hef sem betur fer algerlega sloppið við laxveiðidelluna, sem margir eru haldnir.  Ég gerði heiðarlega tilraun eftir hvatningu frá kunningja mínum fyrir um 20 árum og keyptum við okkur veiðileyfi í Laxá í Kjós sem auðvitað kostaði stórfé.  Þar sem þetta var svona dýrt taldi ég að ástæðan væri sú að þarna væri auðvelt að moka upp laxi á stuttum tíma.  Ekki átti ég neinn útbúnað til laxveiða eins og flestir nota, átti bara mína gömlu veiðistöng og spúna og stígvél.  Við félagarnir skiptum þessari viku á milli okkar og átti ég fyrrihlutann.  Síðan var brunað í laxveiðina og auk mín fóru með mér faðir minn og tengdafaðir auk þess sem ég bauð bróður mínum sem býr í Reykjavík með, því ég vissi að hann hafði eitthvað stundað laxveiði og kunni alla veganna að veiða með flugu.  Þetta var í byrjun júní og mátti þá nota maðk sem beitu og voru það bjartsýnir menn sem fóru af stað fyrsta morguninn og þegar komið var á veiðistaðinn var byrjað en þótt við sæjum fullt af laxi reyndist ekki auðvelt að veiða hann og fyrsti dagurinn endaði þannig að enginn lax veiddist.  Næsti dagur varð eins og þá áttum við aðeins eftir hálfan dag og útlitið ekki gott, því við áttum að byrja næsta morguninn á efsta svæðinu og okkur hafði verið sagt að þar væri allt fullt af laxi en hann tæki ekki nema flugu.  Þá tók bróðir minn til sinna ráða og skrapp um kvöldið til Reykjavíkur og kom til baka með fluguveiðistöng.  Næsta morgun fórum við á umrætt svæði og það vantaði ekki laxinn, hann var stökkvandi um allt og við hófum veiðar og bróðir minn fékk strax lax á fluguna en við ekkert og settumst við þá niður og horfðum á hann veiða.  Hann fékk á stuttum tíma fjóra væna laxa en í átökum við þann fimmta tókst ekki betur til en stöngin brotnaði og var þá sjálfhætt.  Fórum við þá í veiðihúsið til að taka sama okkar dót því hinn hópurinn var væntanlegur um hádegið.  Bróðir minn skipti nú þessum fjórum löxum á milli okkar þannig að engin fór tómhentur heim úr þessari veiðiferð en vonbrigðin voru mikil.  Síðan hef ég ekki farið í veiðiá.  Kunningi minn og hans félagar tóku næst við og gekk miklu betur því að í þeim hópi var mjög reyndur veiðimaður, ég held að þeir hafi fengið eitthvað á milli 10 og 20 laxa.

Þótt þessi veiðiferð hafi ekki tekist betur var ég ekki endanlega hættur laxveiðum, heldur taldi að best væri að nota hentugri veiðarfæri en veiðistöng.  Þannig vildi til að á þessum tíma átti ég ásamt föður mínum og bróður nokkuð stóran plastbát eða um 6 tonn að stærð, sem við notuðum okkur til skemmtunar og fórum stundum á honum til fiskveiða.  Í einum kaffitímanum í frystihúsinu vorum við að ræða saman, ég, vélstjórinn og yfirverkstjórinn sem báðir voru miklir áhugamenn við veiðar.  Í þessu spjalli okkar kom fram að vélstjórinn sagðist hafa frétt að í Geirþjófsfirði væri allt orðið fullt af laxi, en þangað er enginn vegur og langt síðan sú jörð fór í eyði.  En á sumrin dvaldi þarna oft sonur síðasta ábúandans og hjá honum hafði vélstjórinn fengið þessar fréttir en tók jafnframt fram að illa gengi að veiða þarna með stöng heldur næðist hann bara í net en laxveiðar með netum eru bannaðar með lögum.  Fórum við nú að ræða um hvort við ættum að athuga þetta betur og varð niðurstaðan sú að við þrír ákváðum að reyna þetta.  Ég átti bátinn sem var heppilegur í svona ferðir, vélstjórinn átti lítinn árabát auk þess að eiga nokkuð gott laxanet og verkstjórinn átti einnig bæði laxa- og silungsnet, því ekki var hægt að kaupa þetta þar sem hvergi var slíkt til sölu eftir að þessar veiðar voru bannaðar.  Var því ákveðið að láta á þetta reyna einhvern daginn eftir vinnu og fórum við nokkrum dögum seinna.  Það er um klukkutíma sigling frá Bíldudal í Geirþjófsfjörð og var ég orðinn nokkuð vel kunnugur þarna því ég hafði gert talsvert af því þetta sumar að fara þangað með ferðafólk.  Því þótt jörðin hafi á sínum tíma verið gefin til Landgræðslu ríkisins, þá höfðu ættingjar fyrrverandi eiganda aðgang að íbúðarhúsinu sem þarna var og einnig var búið að byggja þarna sumarbústað.  Við höfðum árabátinn í togi á leiðinni og þegar við komum á staðinn var mínum bát lagt við akkeri og netin sett í árabátinn og lögð úr honum.  Við lögðum öll netin eftir að hafa gengið úr skugga um að þarna væri ekki staddur nokkur maður síðan fórum við í land og biðum í um það bil 4-5 klukkutíma og fórum þá að skoða í netin og viti menn við fengum þarna um 10 laxa og flestir voru 15-20 pund.  Þegar við höfðum hreinsað laxana úr netunum sáum við að það stóð maður í fjörunni og fórum við þá í land og kom í ljós að þetta var sonur fyrrverandi bónda á jörðinni sem var þarna oft yfir sumarið.  Hann sagði okkur að hann hefði nú bara verið að athuga hvort við værum nokkuð að stelast í sitt net sem hann væri með þarna.  Síðan gaf hann okkur ráð um hvar best væri að hafa netin og sagðist skyldi fylgjast með ef einhverjir kæmu þarna og þá gæti farið svo að hann yrði að draga okkar net upp, því það væri komin upp einhver læti vegna netaveiða á Horströndum og hann yrði stundum var við að þyrla frá Landhelgisgæslunni væri að sveima yfir.  Við færðum síðan okkar net og fórum um borð í minn bát og settum laxinn niður í lest og fórum aftur heim.  Eftir þetta fórum við nánast á hverjum degi og fengum yfir leitt 10-20 laxa.  Nema í eitt skiptið þegar við vorum nýbúnir að hreinsa úr netunum og fórum í land og sátum í fjörunni og spjölluðum saman, meðan við biðum eftir að væri komið háflóð og tökum þá eftir því að meðfram fjörunni fer allt að gárast og greinilega mikill fiskur á ferðinni.  Við fylgdumst með netinu og allt í einu fer það á nokkra ferð og mikil sporðaköst og læti voru við netið og stukkum við strax í árabátinn og fórum að netinu sem reyndist vera fullt af laxi og náðum við þar um 50-60 fiskum.  Við vorum við þennan veiðiskap í um mánuð og höfðum þá veitt 200-300 laxa, þar sem ekki var endalaust hægt að borða lax, þá fylltist frystikistan hjá mér fljótt og keypti ég þá aðra sem ég hafði í bílskúrnum og var hún einnig fljót að fyllast.  Einnig fór ég með talsvert af laxi til Reykjavíkur og lét þar flaka hann fyrir mig og reykja og vacumpakka.  Á jafn litlum stað eins og Bíldudalur er fór fólk fljótt að gruna hvað við værum alltaf að gera í þessum ferðum okkar og allir drógu auðvitað þá ályktun að við værum að veiða lax.  Beint á móti Geirþjófsfirði er fjörður sem heitir Trostansfjörður og þar átti Matthías Bjarnason ráðherra og fleiri sumarbústaði og þar er laxveiði.  Eitt sinn er Matthías staddur á Bíldudal og er að aka niður á bryggju og sér mig og stoppar bílinn og biður mig að tala við sig, ég settist upp í bílinn hjá honum og var undirbúinn að fá nú miklar skammir en Matthías segir við mig hlæjandi "Jæja Jakob minn hvernig gengur laxveiðin í Geirþjófsfirði?"  Ég stundi upp að hún væri bara góð og ég vissi að þetta væri ólöglegt og skyldi ég sjá til þess að netin yrðu tekin upp strax.  "Nei, nei, sagði Matthías ég er ekkert að skipta mér af þessu bara ef þú lofar mér því að fara aldrei með netin í Trostansfjörð því við erum að rækta upp lax í ánum þar."   Ég sagði honum að ég skyldi lofa því og bætti við að við værum nú að hugsa um að hætta þessu, því þyrla Landhelgisgæslunnar væri alltaf að fjölga ferðum sínum yfir þetta svæði.  Þá sagði Matthías "Allt er nú orðið eins í þessu þjóðfélagi ekkert má gera til að bjarga sér og hefur nú Gæsla ekkert betra að gera við sína peninga en að eltast við menn sem eru að veiða nokkra laxa og á meðan komast varðskipin ekki frá bryggju vegna fjárskorts."  Síðan kvöddumst við og aldrei heyrði ég meira um þetta frá Matthíasi og heimsótti ég hann þó oft í bústað hans.  Skömmu síðar hættum við þessum veiðum enda búnir að fá miklu meira en nóg af laxi.  Eitt skemmtilegt atvik kom nú fyrir á meðan við vorum við þetta, en þannig var að þegar við komu á staðinn finnum við hvergi netin og gengum þá fram að íbúðarhúsinu og hittum manninn sem bjó þar og sagði hann okkur að daginn áður hefðu komið í heimsókn fulltrúar frá Landgræðslunni og þar sem hann hefði vitað fyrir fram að þeir væru væntanlegir hefði hann ekki þorað öðru en að taka upp öll netin og fór með okkur og sýndi hvar hann hafði falið netin auk þess voru 15 laxar sem hann sagði að hefðu verið í þegar hann dró þau upp.  Síðan fór hann að segja frá að hann hefði lent í neyðarlegu atviki þegar gestirnir komu en þá var hann að reykja lax í kofa rétt hjá bænum og lagði frá því talsverða lykt.  Hann sagði gestina hafa spurt hvað hann væri að gera og hefði hann svarað því til að hann væri að reykja hangikjöt.  Síðan bauð hann gestunum í kaffi og spurðu gestirnir hann hvort ekki væri lax í ánni og fullyrti hann að svo væri ekki en sagði að þegar hann hefði verið krakki hefði faðir sinn oft fengið lax í net við árósinn en nú væri allt slíkt orðið bannað svo hann hreinlega vissi ekki hvort einhver lax kæmi í þennan fjörð lengur.  Hann sagðist ekkert hafa átt til með kaffinu nema brauð og smjör og þegar einn gestanna spurði hvort hann ætti ekki eitthvað álegg á brauðið sagðist hann hafa farið og komið með nýreyktan lax og sett á borðið og gat þess einnig að augnaráð sumra hefði verið ansi skrýtið, en enginn sagði orð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband