Rétt viðbrögð

Ég hef áður skrifað sögur um hinn mæta mann Guðmund Þ. Ásgeirsson, sem lengi bjó á Bíldudal og gekk alltaf undir nafninu "Dubbi"og ætla ég að bæta hér einni við;

Á sínum tíma var nokkuð algengt að Reykjavíkurborg samdi við lítil sveitarfélög á landsbyggðinni um að taka við fólki sem gekk undir nafninu "Vandræðafólk"vegna þess að þetta fólk gat ekki búið innan um venjulegt fólk í félagslegum íbúðum vegna eilífra vandræða.  Þetta skapaði þessum litlu sveitarfélögum talsverða peninga, því Reykjavíkurborg greiddi fyrir að taka við þessu fólki auk þess sem borgin lagði fram fé til framfærslu.  Ekki þýddi að láta þetta fólk hafa peningana beint, því þá var öllu eytt í vín og vitleysu.  Ein slík fjölskylda kom til Bíldudals og voru það ung hjón með tvö lítil börn.  Fulltrúa barnaverndar var falið að sjá um öll innkaup fyrir fólkið því ekki var hægt að treysta þeim fyrir peningum.  Börnin fór síðan í skólann á staðnum og allt virtist í besta lagi en ekki stunduðu foreldrarnir neina vinnu.  En fljótlega fóru kennarar skólans að taka eftir að börnin fóru að mæta í skólann öll blá og marinn, auk þess að þau hættu að koma með nesti í skólann eins og önnur börn og voru greinilega vannærð.  Við viðtöl við kennara sögðust börnin að þau hefðu dottið eitthvað og voru greinilega hrædd og vildu ekkert segja.  Var þá boðaður fundur í barnaverndarnefnd og foreldrar boðaðir á fundinn, en áður hafði sá fulltrúi sem sá um innkaupin fyrir fjölskylduna, kannað hjá verslunum hvort foreldrarnir kæmu þangað og kom þá í ljós að þar voru þau tíðir gesti og alltaf að skila mat og fá endurgreitt í peningum sem þau notuðu síðan til áfengiskaupa.  Foreldrarnir mættu á fundinn en þrættu bæði fyrir að leggja hendur á börnin en neyddust til að viðurkenna að þau hefðu vissulega skilað mat eftir það þeim hafði verið sýnt bréf frá versluninni sem staðfesti það.  Nú lofuðu þau að allt skyldi verða betra og þetta kæmi aldrei fyrir aftur.  En þrátt fyrir þetta sótti fljótlega í sama farið og kennarar létu barnaverndarnefnd vita og hún fundaði á ný með foreldrum.  Þegar kennarar létu síðan barnaverndarnefnd vita í þriðja sinn gafst nefndin upp og samþykkt var að fá Reykjavíkurborg til að taka við þessu fólki aftur.

Dubbi, sem bjó rétt hjá þessu fólki frétti af öllum þessum vandræðagangi og barnaverndarnefnd hefði gefist upp og vissi að það eitt, að senda fólkið aftur í burtu leysti ekki vandamálið, heldur yrði bara níðst á aumingja börnunum á öðrum stað.  Hann tók sig þá til og fór og heimsótti hjónin, kynnti sig og var ekkert nema kurteisin og sagðist nú bara vera kominn sem góður nágranni til að bjóða þau velkomin og ef þau vantaði eitthvað gætu þau alltaf leitað til sín með aðstoð.  Hann sagði síðan hressilega;"Hvernig er það eiginlega á þessu heimili er manni ekki einu sinni boðið upp á kaffi?".  Jú,jú, sagði konan sestu bara við eldhúsborðið meðan ég laga kaffið, sem hún síðan gerði. Dubbi settist við borðið og bað manninn að setjast á móti sér til að spjalla saman á meðan beðið væri eftir kaffinu og gerði maðurinn það.  Hann byrjaði á því að spyrja Dubba, hvort hann gæti lánað þeim pening, en þá rak Dubbi upp sinn fræga tröllahlátur og át upp eftir manninum, ha lána ykkur pening?  Er ekki hægt að fá að vera góður vinur ykkar og bjóða aðstoð nema þurfa að borga ykkur fyrir?  Voruð þið alin upp af eintómum hálfvitum?  Nei vinur ég á ekki neinn pening en ef þú veist það ekki þá er besta leiðin til að fá pening sú að stunda einhverja vinnu og ef þið viljið skal ég hringja strax í hann Kobba vin minn og hann getur örugglega útvegað ykkur næga vinnu og það strax á morgun.  Nei, nei, svaraði manngreyið, okkur vantar enga vinnu því í raun erum við sjúklingar.  Í því kom konan með kaffið og hellti í könnur fyrir þá báða og spurði Dubba hvort hann vildi mjólk út í kaffið?  Nei sagði Dubbi það er best svona, bara svart og nógu heitt.  Síðan horfði Dubbi lengi grafalvarlegur á manninn og sagði síðan mjög hugsi, já svo þið eruð sjúklingar, það er ekki gott og ekki get ég nú gert neitt í því en kannski get ég gert eitthvað til að hjálpa ykkur.  Svo allt í einu tekur Dubbi kaffikönnuna sem hann var að drekka úr og skvetti öllu framan í manninn sem veinaði af sársauka því hann hafði brennst talsvert og loks stundi hann upp hvað ertu að gera maður, ertu algerlega brjálaður?  Þá hló Dubbi aftur sínum tröllahlátri og sagði , já ég er kolbrjálaður.  Síðan lyfti hann sínum stóra hnefa og lamdi af öllu afli í eldhúsborðið og svo fast var  höggið að borðið brotnaði í tvennt.  Síðan óð hann að manninum of þreif í hálsmálið hjá honum og lyfti honum upp með annarri hendi og sagði; "Þið eruð engir helvítis sjúklingar, þið eru ekkert nema andskotans aumingjar og vonandi  skilur þú núna hvernig börnunum þínum líður þegar þið eruð að berja þau."  Síðan henti hann manninum út í horn og sagði við konuna og þú ert sko ekkert skárri og ef ég frétti af því aftur að börnin ykkar sem eru blásaklaus og varnarlaus, koma aftur í skólann blá og marinn, þá kem ég aftur og slít af ykkur hendurnar.  Það er margoft búið að ræða við ykkur en þið virðist ekkert skilja nema sársaukann og hann get ég veitt ykkur án greiðslu.  Síðan rauk hann á dyr og skellti svo harkalega á eftir sér að rúðan í útidyrunum brotnaði.  Eftir þetta atvik fóru börnin að mæta í skólann með sitt nesti eins og önnur börn og aldrei sá neitt á þeim.  Um vorið yfirgáfu svo þessi hjón Bíldudal en alltaf reyndu þau forðast að koma nálægt húsi Dubba eða honum sjálfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fjandans vesen að þessi ráð er ekki hægt að nota í dag.  Oft gefst best að beita sömu aðferðum og fólk gerir sjálft.  Það er alveg hárrétt hjá Dubba, það er tungumálið sem menn skilja.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2007 kl. 10:33

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er alveg hægt, bara segja ekki frá því.

Jakob Falur Kristinsson, 29.11.2007 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband