Bíllinn minn

Þann 10. júní 2007 lenti ég í umferðaróhappi þegar ég var að koma frá Reykjavík og ætlaði heim til Sandgerðis en ákvað að koma við í sjoppu í Keflavík í leiðinni.  Þetta var frekar seint um kvöld og sólin mjög lágt á lofti og þegar ég ætlaði að beygja af Reykjanesbrautinni til Keflavíkur blindaði sólin mig algerlega og ég fór alltof langt inn í bleyjuna og bílinn hentist upp á umferðareyju sem þarna er og yfir hana og stórskemmdist.  Lögreglan mætti á staðinn og var ég fluttur á sjúkrahúsið í Keflavík til skoðunar, en sem betur fer slapp ég ómeiddur, nema að ég var aðeins aumur eftir öryggisbeltið.  Þá var farið með mig á lögreglustöðina til skýrslutöku, ég var látinn blása í eitthvað tæki til að athuga hvort ég hefði verið undir áhrifum áfengis en ekkert slíkt kom fram og einnig voru tekin blóð og þvagsýni og var síðan ekið hingað heim og sagt að tryggingarfélagið fengi skýrslu lögreglu eftir nokkra daga.  Daginn eftir hafði ég samband við mitt tryggingarfélag VÍS og þar fékk ég að vita að kaskótryggingin sem ég taldi að væri á bílnum hefði fallið út þegar ég flutti hingað til Sandgerðis, en þá færðist bílinn á milli umboða hjá VÍS.  En með góðri aðstoð forstöðumanns VÍS í Keflavík fékkst það leiðrétt og kaskótryggingin kom inn aftur og þann 24. september er mér tilkynnt frá VÍS að ég eigi að panta mér tíma fyrir bílinn hjá ákveðnu verkstæði í Njarðvík og gerði ég það og fór með bílinn þangað daginn eftir.  Þegar liðin var rúmur mánuður hringdi ég á verkstæðið og fékk þá að vita að ekki væri byrjað á viðgerð, því ekki væri enn komin heimild frá VÍS og hringdi ég þá í VÍS og fékk þau svör að lögregluskýrslan væri ekki komin enn.  Ég hafði þá samband við lögregluna í Keflavík og eftir að hafa verið vísað á hina og þessa aðila fékk ég loksins samband við mann sem eitthvað vissi um málið.  Kom þá í ljós að lögreglan hafði týnt sýnunum og ekki fundið þau aftur fyrr en í lok nóvember og sent þau þá til Reykjavíkur í rannsókn og beðið um forgangshraða.  En sá hraði var nú ekki meiri en svo að niðurstaða kom ekki fyrr en um miðjan desember og var þá loksins skýrsla send til VÍS.  Það er svo ekki fyrr en 9. janúar 2008 að ég fæ bréf frá VÍS þar sem mér er tilkynnt að þeir hafni að greiða tjónið á bílnum, því að í blóðsýninu hafi fundist ákveðin lyf sem geri það að verkum að ég hefði ekki mátt aka bíl.  Nú, eftir allan þennan rugling er ég ekki öruggur um að umrætt sýni sé úr mér, ég á eftir að láta skoða það betur.  En hitt er alveg rétt að ég þarf eftir hið alvarlega slys sem ég lenti í að taka talsvert af lyfjum og sum þeirra eru þríhyrningsmerkt, sem þýðir að þá má ekki aka bíl.  Eftir að ég lenti í þessu slysi þá þurfti ég að gangast undir hæfnispróf sem framkvæmt var á Reykjalundi og niðurstaða úr því prófi var sú að mér væri óhætt að aka bíl sem væri sjálfskiptur.  Ég var með talsverðar áhyggjur af lyfjunum og ræddi það við minn geðlæknir og hann sagði að að hans mat væri það að ég væri öruggari í umferðinni en ella.  Því eitt af þessum lyfjum kemur í veg fyrir að ég fái krampa í vinstri handlegg og vinstri fót.  En þennan umrædda dag hafði ég ekki tekið nein lyf því ég var að bíða eftir lyfseðlum og átti ekki til nein lyf og er það líklegri orsök fyrir þessu óhappi frekar en hitt.  Nú þekki ég ekki hve lengi þessi lyf eru að fara endanlega úr blóðinu en svo virðist vera að það þurfi nokkra daga.  Ég er búinn að hafa samband við VÍS og þeir segjast vera tilbúnir til að endurskoða sína ákvörðun ef ég sendi þeim einhver gögn og er ég nú að bíða eftir að fá bréf frá mínum geðlæknir til að senda þeim ásamt minni greinargerð um málið og vonandi verður þetta endurskoðað og fari allt á besta veg.  Ég er lamaður öryrki eftir alvarlegt slys og finnst að tryggingafélagið ætti að taka tillit til þess að ég þarf daglega að taka talsvert af lyfjum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband