Hvað nú Jóhanna?

Um síðustu áramót fluttust málefni okkar öryrkja frá heilbrigðisráðuneytinu í félagsmálaráðuneytið, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir ræður ríkjum.  Miðað við málflutning hennar, þegar hún var í stjórnarandstöðu, hefði maður mátt ætla að þegar hún fengi völd þá yrði virkilega tekið til hendinni í að lagfæra kjör lífeyrisþega.  Það er að vísu búið að skipa einhverja nefnd til að endurskoða þessi mál og einnig er búið að skipa nýjan stjórnarformann hjá Tryggingastofnun, sem er mjög hæfur maður, en það er Stefán Ólafsson, prófessor sem mikið hefur skoðað og skrifað um þessi mál og er það fagnaðarefni að svo hæfur maður skuli veljast í það starf.  Nú verður sennilega að bíða eftir tillögum þessarar nýju nefndar áður en ráðherra fer að gera eitthvað í málunum.  Á undanförnum árum hafa verið gerðar ýmsar breytingar varðandi kjör lífeyrisþega en því miður hafa þær frekar gert kjörin verri en áður.  Má þar benda á að á sínum tíma var styrkur til bifreiðakaupa hjá öryrkjum lækkaður úr kr. 500 þúsund í kr. 250 þúsund og í stað þess að hægt væri að fá þennan styrk á þriggja ára fresti er hann nú veittur á fimm ára fresti.  Ef það er einhver hópur í þjóðfélaginu sem þarf að aka á nýlegum bílum eru það öryrkjar.  Margir eru það fatlaðir að þeir geta ekki einu sinni skipt um dekk ef það springur.  Eins er með greiðslur til okkar úr lífeyrissjóðum sem var okkar sparnaður á sínum tíma þegar við vorum út á vinnumarkaðinum, en nú notar ríkið þennan sparnað okkar til að lækka greiðslur frá Tryggingastofnun auk þess sem hann er skattlagður að fullu og eins eru allar bætur frá Tryggingastofnun skattlagðar að fullu.  Meira að segja styrkur til að reka bíl er skattlagður eins og launatekjur og fleira mætti telja upp.  Nú er rætt um að gera örorkumat oftar og taka þá sérstakt tillit til hvort viðkomandi geti stundað einhverja vinnu.  Ég fagna því en það er ekki nóg að finna út að öryrki geti stundað einhverja vinnu og henda honum síðan út á vinnumarkaðinn.  Ég t.d. er menntaður á sviði bókhalds og fjármála og gæti auðveldlega stundað slíka vinnu, en þá vaknar spurningin hvar á ég að fá slíka vinnu?  Eftir að ég varð öryrki hef ég sótt um yfir 100 störf á þessu sviði en alltaf þegar fram kemur að ég sé fatlaður er mér hafnað.  Það þyrfti að vera sérstök ráðningarstofa sem aðstoðaði öryrkja við að finna sér störf við hæfi.  Auðvita vilja allir öryrkjar fara út á vinnumarkaðinn og taka þátt í störfum samfélagsins en fram að þessu hefur það verið nánast ómögulegt.  Það er líka engum manni hollt að sitja bara heima og gera ekki eitt né neitt, smátt og smátt einangast maður og þunglyndi sækir á og manni finnst lífið ekki hafa neinn tilgang lengur,  Fráfarandi forstjóri Tryggingastofnunar, Karl Steinar Guðnason, sagði þegar að hann hætti störfum að þetta kerfi væri allt stagbætt og erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja hvaða rétt það ætti og jafnvel starfsmenn stofnunarinnar skildu oft ekki alveg þetta kerfi.

Svo nú er ekkert annað að gera, Jóhanna Sigurðardóttir en bretta upp ermarnar og fara að taka til í þessu kerfi.  Við treystum á þig Jóhanna og ekki bregðast okkur nú þegar þú hefur völd til að laga þetta kerfi svo við öryrkjar þurfum ekki að sammast okkar fyrir að vera til.  Ég þori að fullyrða að enginn öryrki í þessu landi hefur kosið að lenda í þeirri fátæktargildru sem við erum föst í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband