ÁT.V.R

Mikið hefur verið rætt og deilt um hvort leyfa eigi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum og sitt sýnist hverjum.  Ég er einn af þeim sem er hlynntur því að fleiri en ÁTVR fái að selja áfenga drykki.  Þeir sem ætla sér að dekka áfengi finna alltaf leið til að nálgast það og svartamarkaðurinn fyrir þessa vöru blómstrar, ákveðnir leigubólstjórar stunda slíka sölu í stórum stíl, einnig þeir sem hafa til þess aðstæður að smygla áfengi til landsins.   Þótt ég sé nú hættur að nota áfengi er ég ekki svo fordómafullur að ætlast til þess að aðrir geti ekki náð í þessa vöru.  Ef ég ætla að standa mig í mínu bindindi verð ég að vera það sterkur sjálfur að geta horft upp á aðra njóta þess að drekka áfengi.  Ég get ekki ætlast til að allir aðrir fari í bindindi þótt ég geri það, slíkt væri ekkert nema eigingirni og sjálfselska.  Ég ætla að segja ykkur smá sögu hvaða afleiðingar það getur haft að þurfa að gera sér sérstaka ferð í ákveðna verslun til að kaupa áfenga drykki en þetta skeði þegar ég var mjög virkur alkahólisti og var á árumum milli 1980-1990. 

Einu sinni sem oftar þurfti ég að skreppa á Patreksfjörð eftir vinnu á föstudegi til að fara í apótek að ná mér í lyf, en þá var búið að loka apótekinu á Bíldudal.  Einnig var nýbúið að opna útsölu frá ÁTVR á Patreksfirði.  Þegar ég hafði fengið lyfin afgreidd og ætlaði að fara strax til baka, fór ég að hugsa að kannski væri nú rétt að að líta við í þessari nýju verslun en þangað hafði ég aldrei komið áður.  Það var jú kominn föstudagur og þá var þáverandi eiginkona mín alltaf vön að hafa eitthvað mjög gott í matinn og mikið myndi það nú gleðja hana ef ég kæmi nú með eina rauðvínsflösku til að hafa með matnum og við myndu eiga hnotarlega kvöldstund saman.  Það var ekki að mig langaði í vín því á þessum tíma var ég í bullandi afneitun um að ég væri alkahólisti, ég ætlaði aðeins að gleðja konuna og fór því í verslun ÁTVR og var fljótur að finna rauðvínið og ætlað síðan að fara heim, en þá skaut þeirri hugsun niður í kollinn á mér að ég vissi ekkert hvað yrði í matinn svo það væri líklega best að kaupa líka eina hvítvínsflösku og bætti einni slíkri við í körfuna og síðan hugsaði ég að það væri sennilega best að bæta við einum kassa af bjór, það gengi með öllum mat.  Næst fór ég að hugsa að ef kæmu nú gestir þetta kvöld sem oft skeði, þá væri það nú bölvaður dónaskapur að geta ekki boðið þeim í glas, ég var jú framkvæmdastjóri fyrir stærsta fyrirtæki staðarins og ætti að hafa efni á að bjóða gestum í glas, þá var bætt einum lítra af vodka í körfuna og svona bara til öryggis tók ég tvær.  En það var ekki víst að allir drykkju vodka svo ég tók líka eina flösku af wisky líka og hugsaði með mér að ef enginn kæmi í heimsókn þá myndi ég bara geyma þetta, því engin hætta var á því að þetta skemmdist.  Afgreiðslu stúlkan raðaði þessu öllu fyrir mig í góðan kassa og ég borgaði og fór síðan með allt góssið út í bíl og ók af stað heim.  Á leiðinni var ég að hugsa hvað eiginkonan yrði nú ánægð þegar ég byði upp á léttvín með kvöldmatnum.  Þegar heim var komið og ég kem inn starir konan á mig og segir "Hvað ertu að gera með allt þetta vín maður?"  Mér krossbrá því augnasvipurinn sem ég fékk var slíkur að greinilegt að henni mislíkaði þetta stórlega og setti ég því kassann inn í geymslu og þegar við vorum sest við borði til að borða kvöldmatinn, spurði ég hana hvort hún vildi ekki þiggja smá rauðvín með matnum.  "Jú takk sagði hún en ég ætla að láta þig vita eitt að þú skalt ekki voga þér að fara að drekka allt þetta vín og verða blindfullur alla helgina"  Nei nei elskan sagði ég, ég ætla bara að fá mér rauðvín eins og þú, hitt ætla ég ekki að snerta.   Eftir matinn aðstoðaði ég við uppvaskið og síðan settumst við í sjónvarpsherbergið og fórum að horfa á sjónvarpið.  Eftir smá stund sagði ég mikið væri nú notalegt að fá sér eitt glas af vodka meðan við horfum á sjónvarpið og spurði konuna hvort hún vildi líka en svarið var já takk og fór ég þá og blandaði í tvö glös og spurði konuna hvort henni væri ekki sama þótt ég kæmi bara með aðra vodkaflöskuna og kókflösku til að þurfa ekki alltaf að vera að hlaupa inn í geymslu.  Jú allt í lagi sagði hún.  Ég var fljótur að klára fyrsta glasið og blandaði strax í annað en konan rétt dreypti á sínu glasi.  Síðan man ég ekki meir en vaknaði næsta morgun í sófanum fyrir framan sjónvarpið og alveg að drepast úr þynnku.  Ég læddist inn í svefnherbergis álmuna og sá að konan steinsvaf í hjónarúminu.  Hver andskotinn hugsaði ég með mér ég hef sofnað yfir sjónvarpinu og til að koma heilsunni í lag fór ég í geymsluna og blandaði mér sterkan drykk af vodka og eftir að hafa klárað það fóru nú hlutirnir að lagast.  Ég dreif mig í að laga kaffi til að hafa tilbúið þegar eiginkonan vaknaði og þegar kaffið var tilbúið fékk ég mér rúmlega hálfa könnu og fór svo og fyllti könnuna af vodka og settist við eldhúsborðið og fór að lesa blöðin.  Eftir smá stund kom konan fram og ég sagði við hana ég er nýbúinn að laga kaffi elskan, hún settist á móti mér við borðið með kaffi og sagði ertu enn að drekka.  Nei hvernig dettur þér það virkilega í hug sagði ég, sjáðu það er bara kaffi í könnunni hjá mér.  Og hvenær byrjaðir þú á því að drekka svart kaffi spurði konan, ég fékk mér bara svart kaffi núna til að hressa mig betur upp því ég er hálf slappur.  Það er ekkert skrýtið sagði hún, því í gærkvöldi drakkstu einn lítir af vodka og þegar ég fór að sofa var ekki nokkur leið að vekja þig, þú varst hreinlega steindauður af víndrykkju og nú snertir þú þetta ekki meira í dag.  Það er enginn hætta á því svaraði ég, þótt ég hafi drukkið aðeins of mikið í gærkvöldi þá er ég nú enginn alki.  Nú verður það bara kaffi í dag.  Jæja sagði konan ég ætla að fara og klæða mig og fór aftur inn í svefngerbergið.  Ég var snöggur að skjótast aftur í geymsluna og setti nú könnuna hálfa af vodka og fyllti síðan með svörtu kaffi og sat við að lesa blöðin þegar konan kom fram aftur.  Svona gekk þetta meira og minna allan laugardaginn og um kvöldmatinn var seinni vodkaflaskan búinn líka og ég orðin blindfullur aftur.  Þegar við fórum síðan að borða kvöldmatinn opnaði ég hvítvínsflöskuna en nú vildi konan ekki þiggja eitt glas og sagði að hún vissi að ég hefði verið að drekka meira og minna allan daginn og væri orðinn blindfullur og sagðist ekki hafa áhuga á að drekka vín með mér, ég gæti aldrei hagað mér eins og maður,  Varð því úr að ég drakk hvítvínið einn, en um kvöldið komu svo kunningjahjón okkar í heimsókn.  Þá spurði konan mig í hæðins tón ætlar þú ekki að bjóða gestunum í glas?  Jú auðvitað sagði ég og fór og náði í wiskyflöskuna og nokkra bjóra en hugsaði með mér hvernig er eiginlega með þetta fólk getur það aldrei verið heima hjá sér.  Það varð úr að við drukkum wiskflöskuna og tvær bjórkippur og mikið djöfull sá ég eftir þessu renna niður í gestina en það var þó smá huggun að ég átti enn eftir tvær bjórkippur og hugsaði með mér ef mér hefði dottið þetta í hug að það kæmu gestir, þá hefði ég auðvitað keypt meira af víni.  Þetta kvöld komst ég þó í rúmið og vaknaði á sunnudagsmorgun skelþunnur og áður en konan vaknaði læddist ég fram og fékk mér nokkra bjóra og um hádegi var bjórinn búinn.  Þegar konan kom fram sá hún að ég var með bjór og sagði "Þú ert ekki hættur enn."  Ég er aðeins að laga heilsuna sagði ég og bætti síðan við ég er að hugsa um að leggja mig aðeins og fór í rúmið og steinsofnaði og vaknaði ekki aftur fyrr en kallað var á mig í kvöldmat.  Það var með miklum herkjum að mér tókst að borða smávegis því lystaleysið var algert.  Um kvöldið horfðum við hjónin síðan á sjónvarpið en ég fór fljótlega að sofa því næsti dagur var vinnudagur.  Þegar ég vaknaði á mánudagsmorgun var ég ekki alveg laus við þynnkuna en dreif mig samt í vinnu.  Ef ég hefði getað keypt þessa einu léttvínsflösku í næstu matvöruverslun hefði ekki verið verslað meira áfengi og það sem átti að verða ein notaleg kvöldstund breyttist í fyllirí heila helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband