Að vera rændur erlendis

Ég hef gert mikið af því um daganna að ferðast um heiminn og heimsótt margar heimsborgir.  Aldrei hefur mér þótt gaman að fara í skoðunarferðir og vera leiddur áfram af einhverjum fararstjóra.  Mér hefur þótt mest spennandi að fara sjálfur í hin ýmsu hverfi, þótt skuggaleg væru og kynnast hinu raunverulega mannlífi.  Aldrei hafði ég orðið fyrir neinu áreiti á þessum ferðum mínum, frekar verið vel tekið af heimamönnum.  Eitt sinn vorum við hjónin stödd í New York og höfðum verið að skoða hús Sameinuðu Þjóðanna og ætluðum síðan að ganga upp á hótel sem átti ekki að vera svo langt.  Við gengum upp 42. stræti og þegar við komum þar gekk mikið á, fjöldi lögreglumanna og verið að handtaka fólk.  Við héldum bara ferð okkar áfram og þegar við komum á hótelið var okkur sagt að við þessa götu væru einar mestu fíkniefnabúllur í New York.  Ég var eitt sinn staddur í Bergen í Noregi og ferðafélagi minn vildi fara að skoða eitthvað merkilegt, en ég nennti því ekki, heldur notaði ég tímann til að skoða mig um við höfnina og fiskmarkaðinn sem þar var.  Síðan settist ég inn á pöbb sem var yfirfullur af sjómönnum.  Þegar ég kom inn og það heyrðist að ég væri íslendingur var strax kallað á mig og mér boðið sæti hjá nokkrum sjómönnum og þeir buðu uppá ótakmarkað af bjór.  Þarna átti ég ánægjulegt spjall við þessa kalla góða stund en fór síðan á hótelið mitt.  En einu sinn varð ég verulega hræddur en þá var ég í Grimsby þar sem togarinn sem ég gerði út var að selja fisk.  Við fórum þrír saman út á lífið, ég 2. stýrimaður á togaranum sem jafnframt var mágur minn og útgerðarstjóri fyrirtækisins sem ávallt var kallaður Hreppstjórinn.  Okkur þótti heldur dauflegt næturlífið í Grimsby og fengum okkur leigubíl og báðum bílstjórann að keyra okkur á mestu drullubúllu sem hann fyndi í Hull.  Hann var frekar tregur til og varaði okkur eindregið við að fara þetta, við gætum verið drepnir.  En við gáfum ekkert eftir og fórum á staðinn vel hífaðir.  Þegar inn var komið leyst mér nú ekki á liðið sem þarna var sem var vægast sagt skuggalegt.  Við fengum okkur borð og pöntuðum bjór.  Eftir smá stund komu tveir menn að borðinu og spurðu hvort þeir mættu setjast hjá okkur og var það velkomið.  Skömmu síðar dregur annar mannanna upp poka og tekur úr honum samanbrotið bréf og leggur á borðið og spyr hvort við hefðum áhuga.  Þetta var eitthvað hvítt duft og greinilega eiturlyf.  Við höfðum engan áhuga á þessu og þá gerðust mennirnir stöðugt ágengnari og annar var kominn með hníf á loft.  Ég var orðinn hundleiður á þessum fuglum og sagði við þá að fara frá borðinu en þeir neituðu.  Þá reiddist ég og sparkaði undir borðplötuna og allt efnið fór á gólfið.  Mennirnir stukku báðir á mig og síðan var slegist og slegist.  Barst leikurinn að einhverri bakhurð og þar var stigi niður og rúlluðum við allir þrír niður stigann.  Ég var orðinn sannfærður að ég yrði drepinn en þá verður mér litið upp stigann og sé að stýrimaðurinn er kominn hálfaleið niður og þá stekkur hann á kösina.  nú vorum við tveir á móti tveimur og barst leikurinn út í port þar fyrir utan og þá er Hreppstjórinn allt í einu mættur á svæðið og tók heldur betur til hendinni.  Skömmu síðar kemur lögreglubíll með blikkandi ljósum og við allir handteknir og farið með okkur á lögreglustöðina.  Þar var Hreppstjórinn tilbúinn að sýna vald sitt og hrópaði stöðugt að hann væri police-officer frá Bíldudal Ísland og heimtaði að við yrðum látnir lausir í hvelli og veifaði skýrteini, sem ég held að hafi verið ökuskírteinið hans.  En lögreglan tók hann trúarlegan að hann væri háttsettur lögreglumaður frá Íslandi og sleppti okkur en dópsalarnir voru læstir inni.  Eftir þessa reynslu vorum við búnir að fá nóg í bili og tókum leigubíl á hótelið okkar í Grimsby.

Hinsvegar þegar ég var framleiðslustjóri hjá Trostan ehf. á Bíldudal 1996 þá var ég sendur til Barcelona á vegum fyrirtækisins Seifs hf. sem seldi mikið af okkar afurðum.  Við vorum 5 sem fórum í þessa ferð einn frá Seif hf. ég og saltfiskverkendur frá Tálknafirði og Patreksfirði.  Það sem ég átti að gera var að hitta okkar kaupanda og reyna að fá að vinna meira af fiskinum hér heima og sátum við um heilan dag á fundi þar sem farið var yfir pakkningar og merkingar og hvernig við ættum að skera flökin niður í neytendapakkningar.  Við skoðuðum líka fiskmarkaðinn í Barcelona og var gaman að sjá karlana snyrta saltfiskinn með stórum sveðjum.  Þegar sá dagur kom að við áttum að fara heim urðum við að fara af hótelinu um hádegi en mæting í flugið var ekki fyrr en kl: 18,00.  Fengum við að geyma farangurinn á hótelinu og ákváðum að fara á baðströndina meðan við biðum.  Fengum við okkur allir sólbekki og sátum hlið við hlið.  Ég var með passann minn og kreditkort í brjóstvasa á skyrtunni minni og síðan sofnaði ég á bekknum og þegar ég vaknaði var búið að stela bæði passanum og kreditkortinu.  Enginn af okkur 5 hafði orðið var við neinar mannaferðir nálægt okkur en vasaþjónaður er mjög mikill í Barcelona.   Sem betur fer var maðurinn frá Seif hf. með farsíma svo hægt var að hringja strax og láta loka kreditkortinu en hann geymdi einnig farmiðana okkar.  En það var verra með passann nú var brunað á næstu lögreglustöð til að reyna að fá bráðarbirgðapassa svo ég kæmist úr landi.  Eftir mikið þjark á lögreglustöðinni fékk ég eitthvað skjal sem þeir sögðu að dygði kannski til að ég kæmist úr landi en það væri ekki öruggt.  Ég var sem betur fer með í veskinu ökuskírteinið svo hægt væri að sanna hver ég væri.  Þeir sögðu að ef þessi pappír tyggði ekki þá yrði ég bara að vera eftir og hitta íslenska ræðismanninn í Barcelona daginn eftir.  Síðan var farið á flugvöllinn og 4 félagar mínir gátu auðveldlega bókað sig inn, en mér var sagt að bíða.  Það var ekki hnotarleg tilfinning að horfa á eftir þeim félögum og þurfa kannski að vera eftir algerlega peningalaus.  Eftir þó nokkra stund var kallað á mig og mér hleypt í gegn líka og var það mikill léttir.  En þrátt fyrir þessa reynslu gleymdi ég því fljótt en hef ekki farið erlendis síðan.  En ef ég á eftir að fara eitthvað erlendis í framtíðinni mun ég ekki breyta mínum ferðastíl.  Nú er búið að bjóða mér í ferð til Shettlandeyja í apríl og bíð ég spenntur eftir þeirri ferð.  Það verður víst flogið til Glaskow og tekin ferja þaðan til eyjanna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband