Langavitleysa

Þegar ég var að alast upp sem krakki var til spil, sem hét  Langavitleysa.  Spilið hét þessu nafni vegna þess að þegar byrjað var að spila það var hvorki hægt að tapa eða vinna í spilinu og þannig var hægt að spila það endalaust, eða eins lengi og fólk hafði þrek til.  Það var jafnvel hægt að spila það árum saman.  Ekki veit ég hvaða snillingur fann upp þetta spil enda lítið í það spáð þegar ég var krakki.  Ég hef ekki heyrt lengi að fólk væri að spila þetta spil, enda lítið spennandi þar sem hvorki var hægt að vinna eða tapa.  En sem barn vestur á Bíldudal var nú ekki mikil afþreying til ef veður var þannig að ekki var hægt að fara út og leika sér.  Þess vegna spilaði ég þetta stundum í neyð.

Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er að nú er farið að spila þetta spil af fullum krafti af fullorðnu fólki og á fullum launum.

  Þar á ég við Alþingi okkar Íslendinga, en þar er búin að standa yfir undanfarna daga umræður um breytingu á Stjórnarskrá Íslands, sem mætir harðri andstöðu Sjálfstæðismanna.  Þeir hafa 26 þingmenn á Alþingi og þeir hafa raðað sér á mælendaskrá þingsins en einn og einn stjórnarliði hefur geta skotist inn á milli.  Þegar Sjálfstæðismenn eru sakaðir um málþóf er því alltaf svarað á þann veg að þetta sé svo mikilvægt mál að það kalli á mikla umræðu.  Inn á milli hafa svo sjálfstæðismenn nýtt sér liðinn um fundarstjórn forseta og þar eru þeir að krefjast þess að forseti Alþingis breyti dagskránni á þann veg að önnur mál en þetta verði tekin fyrir.  Þennan dagskrárlið hafa Þeir notað yfir 300 sinnum undanfarna daga.   En þar er forseta mikill vandi á höndum því 26 þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa sagt þetta frumvarp svo mikilvægt að það krefjist mikillar umræðu.   Forseti Alþingis væri að brjóta þingsköp með því að taka mál af dagskrá á meðan yfir 20 þingmenn eru á mælendaskrá og bíða eftir að fá að tjá sig um málið.

Ég var að horfa á útsendingu frá Alþingi í gær og þar kom Kristinn H. Gunnarsson með athyglisverða hugmynd.  En hún gekk út á það að landinu yrði skipt upp í fylki og hvert fylki hefði ákveðinn sjálfstjórnarétt í sínum málum.  Hann kom líka inn á jöfnun á vægi atkvæða, sem alltaf verður misjafn.  Hann benti á að í því sambandi mætti horfa til Sameinuðu Þjóðanna, en þar hefur hvert ríki eitt atkvæði burt séð frá fólksfjölda.  Ísland með sína rúmu 300 þúsund íbúa hefði sama atkvæðisvægi og Kína með yfir milljarð íbúa.  Á eftir Kristni talaði Guðlaugur Þór Þórðarson og fór mjög vandlega yfir stjórnarskrármálið og gerði það svo vandlega að hann las upp ýmsar athugasemdir allt að fjórum sinnum og mjög hægt í hvert sinn, svo öruggt væri að þeir sem á hann hlýddu næðu hans orðum vel.  Hann var eins og kennari í barnaskóla þar sem væru margir heimskir áheyrendur.  Að lokinni ræðu Guðlaugs fékk Valgerður Sverrisdóttir orðið til að kveðja þingheim, en hún er að hætta í stjórnmálum.  Forseti þakkaði Valgerði fyrir (vel) unnin störf bæði sem þingmaður og ráðherra.  Að því loknu var fundi frestað en þá voru 22 á mælendaskrá.  Í gær var laugardagur og á þeim degi eru yfirleitt ekki haldnir þingfundir nema í neyð og í dag er ekki þingfundur enda þurfa þingmenn sjálfsagt að hvíla sig eitthvað.  Þannig að hlé var gert á spilinu fram yfir helgi og á mánudag mæta þingmenn aftur og byrja á nýjan leik að spila Lönguvitleysu  og má búast við að spilað verði fram yfir  Páska og jafnvel lengur.  En vonandi verður hætt fyrir kjördag 25. apríl.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband