Brandari dagsins

Ég réri eina vertíð ásamt syni mínum á 6 tonna trillu frá Keflavík, en við höfðum leigt okkur einbýlishús í Garði, þar sem fjölskyldan bjó.  Við höfðum aðstöðu fyrir bátinn í smábátahöfninni í Grófinni í Keflavík og rérum alla daga þegar hægt var og vorum á línu með beitningatrekt.  Einn sunnudaginn erum við að koma í land um kl 17,oo og þá var talsverð umferð um höfnina og var þar mest fólk úr Reykjavík í sínum Sunnudagsbíltúr.  Ég var uppi á bryggjunni við löndunarkranann og hífði fiskikörin á bíl frá fiskmarkaðnum, en sonur minn var um borð í bátnum. 

Allt í einu kemur bíll og stoppar rétt hjá löndunarkrananum og út kemur jakkafataklæddur maður og segir við mig;

"Jæja voruð þið að fiska?"  Ég svaraði:

"Það var bara nokkuð gott í dag ætli þetta séu ekki rúm þrjú tonn."  Þá sagði maðurinn:

"Ég sé að þið setjið allan fiskinn á fiskmarkað og hvað hafið þið verið að fá fyrir kílóið?" 

"Ég sagði að það hefði verið nokkuð gott undanfarið svona um 200-250 krónur."  Þá sagði maðurinn:

"Ég sé að þið róið á sunnudegi og róið þið alla daga?" 

"Við róum alla daga þegar veður leyfir" svaraði ég. 

"Ert þú að segja mér að þið séuð að landa núna fiski fyrir um 600 þúsund?" spurði maðurinn.  Ég sagði:

"Að það væri nálægt því." 

Nú fór maðurinn að reikna upphátt og ég heyrði hann segja við sjálfan sig

"Kr: 600 þúsund á dag í 7 daga gera 4,2 milljónir eða hátt í 10 milljónir á mánuði og þeir eru aðeins tveir, sem gerir 5 milljónir á mann á mánuði"  Nú kom maðurinn til mín aftur og sagði: "Getur verið að ef allt gengur vel að þið hafið hvor um 5 milljónir á mánuði?"  Ég vildi ekki vera að svekkja manninn og sagði :

"Að það gæti verið rétt."

Þá gekk maðurinn að bíl sínum og ég heyrði að hann sagði við konu sína: 

"Þetta er ævintýri þeir eru með um 5 milljónir á mánuði þessir menn, hvað ætli að kosti svona bátur." 

Síðan óku þau hjón á brott.  En auðvitað var afkoman ekkert þessu lík, því á móti tekjunum kom síðan beita og uppstokkun á línunni og afborganir af bátnum og margskonar annar útgerðarkostnaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Flott..Svona hugsa samt margir..Gleyma öllum dögunum sem ekki er sjóveður og öllum kostnaðinum!!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 27.10.2009 kl. 11:39

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Hann hefur líklega vedrið úr fjármálageiranum þessi maður. Útkoman úr úttekt hans er álíka gáfuleg og almennt sést þar.

Guðbjörn Jónsson, 27.10.2009 kl. 12:50

3 Smámynd: Sigurður Helgason

Ég þekki þennan mann :)

Hann lét verða að því, 5 menn lögfræðingar og viðskiptafræðingar, reiknuðu það út, hvað hver rúlla gæti fiskað mikið á klukkustund,

Keyptu svo fimm sóma báta, settu kæligáma á bryggjuna undir fiskinn, tilbúnir í útflutning, réðu menn á bátanna,

einhver skekkja kom í úrteikningin hjá þeim, því ég held að bátarnir séu enn í hafnarfjarðahöfn og hafa ekki enn farið á sjó :)

Sigurður Helgason, 27.10.2009 kl. 16:48

4 identicon

Þetta er eins og að spyrja byggingaverkamenn "Hvað kostar svona hús?" og trúa því að þeir fái allt andvirðið í vasann.

Húnbogi Valsson 27.10.2009 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband