Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Spakmæli dagsins

Iðinn maður hefur næði

þegar hann vill, en

letinginn aldrei.

(Benjamin Franklin)


Mótmæli

Nú mun vera ákveðið að mótmæla við Alþingishúsið þegar þingið verður sett á morgun.  Það á að mótmæla meðferðinni á hælisneytandanum, sem hefur verið í hungurverkfalli í Reykjanesbæ og hefur nú verið fluttur á sjúkrahús.  Verða örrugglega nokkrar umræður í þinginu vegna þessa máls en örugglega ekkert gert í máli mannsins, sem er nú við dauðans dyr.  Þessar flóttamannabúðir í Reykjanesbæ eru Íslandi til skammar að geyma fólk þarna mánuðum eða árum saman á meðan einhverjir blýantanagarar nenna ekki að vinna sína vinnu.

Alþingi

Þá verður Alþingi sett á morgun og skemmtilegt verður að sjá að nú þurfa þingmenn ekki að vera með bindi í ræðustól.  Það atriði var eitt af baráttumálum Borgarahreyfingarinnar svo segja má að hún sé búinn að hafa strax talsverð áhrif.  Nú hefur ríkisstjórnin kynnt fyrir stjórnarandstöðunni tillöguna um aðildarumsókn að ESB lítur út og var það gert í trúnaði.  Þetta er Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokks óánægður með og telur að allar slíkar upplýsingar eigi að vera opinberar öllum.  Hann fullyrðir að þetta sé illa unnið og tómt rugl, þetta mun sennilega vera einsdæmi að þingmaður sé að gagnrýna ákveðið mál sem ekki hefur verið lagt fram á Alþingi.  En Bjarna er vorkunn því hann hefur aldrei setið í ríkisstjórn og mun aldrei gera og veit þess vegna ekki hvað eru eðlileg vinnubrögð.  En oft er nú betra að þegja en að ryðja út úr sér endalausu bulli sem ekki verður hægt að standa við.  Bjarni Benediktsson vill kannski að við lokum hér öllum landamærum og verðum einöngruð eyja og stundum sjálfsþurftarbúskap og eigum engin samskipti við önnur lönd.  Það er ömurlegt þegar ungir menn hugsa svona, hvernig ætli hugsunin verði þegar hann eldist. 

Það verður ekki bjartsýn hugsun.


Fjárhagsvandi

Nú glíma flest öll sveitarfélög landsins við mikinn fjárhagsvanda og óvíst hvernig úr því máli verður leyst.  Samt telja þessi sömu sveitarfélög sig hafa efni á að hafna alfarið einum tekjustofni, sem gæti fært þeim verulegar tekjur og bætt þeirra stöðu.  Þar á ég við hina svokölluðu fyrningarleið í sjávarútvegi sem mörg sveitarfélög eru að mótmæla hástöfum þessa daganna.  Það hefur verið gefið út að þegar kemur að endurúthlutun veiðiheimildanna þá muni 1/3 fara til þeirra sem eru í útgerð í dag og væntanlega skera þá niður úr hengingaról erlendra banka.  1/3 á að fara í ríkissjóð og 1/3 til sveitarfélaga víða um land en í stað þess að styðja við þetta mál þá falla margar sveitarstjórnir í þá gryfju að láta LÍÚ nota sig í áróðursherferð samtakanna.  Þeir ætla heldur að horfa upp á sín sveitarfélög fara í þrot en að móðga forustu LÍÚ.

Þetta minnir mann á öfgahópa hryðjuverkamanna sem eru tilbúnir að fórna öllu fyrir ímyndaðan málstað.


Línuveiðar

Verulegu máli skiptir að huga að beitu- og krókastærðum við línuveiðar.
Stærri fiskur bítur frekar á stóra beitu og að sama skapi veiðist mun meiri smáfiskur ef beitan er smá.

Þetta eru niðurstöður rannsókna, sem Hafrannsóknastofnun hefur gert  áhrifum króka- og beitustærða á stærðarval við línuveiðar. Rannsóknirnar hafa staðið yfir frá því í fyrra og hafa verið farnir fimm dagróðrar með Ramónu ÍS sem gerð er út frá Ísafirði.

Gerður hefur verið samanburður á fimm mismunandi krókastærðum og tveimur beitustærðum. Aflabrögð hafa verið misjöfn eins og gengur, en þokkalegur ýsu-, þorsk- og steinbítsafli hefur fengist.

Hafrannsóknastofnun segir, að þótt beitustærðin sé meira afgerandi þáttur en krókastærð, þá skipti krókastærð einnig máli og að jafnaði veiðist stærri fiskur á stærri króka við línuveiðar. 

Mikið er þetta nú góðar fréttir ef hægt verður að velja fiskstærð með stærð beitu og króka.  Það má segja að um byltingu sé að ræða og þetta hlýtur að kalla á auknar línuveiðar, sem eru einn hagkvæmasti veiðiskapur sem hægt er að stunda.  Það á að banna allar veiðar með botnvörpu innan 50 mílna lögsögu.


Íslenska fjármálahrunið

Sá ágæti maður Þorvaldur Gylfason,prófesson, hefur fært fyrir því góð rök að undirrót alls spillingar í íslenska fjármálakerfinu sé bein afleiðing af því þegar útgerðarmenn fengu að framselja veiðiheimildir og veðsetja.  Þá fyrst kynntust íslendingar því að hægt var að búa til stórgróða úr engu nema pappír.  Það var upphafið og nú þegar ríkisstjórnin ætlar að innkalla allar veiðiheimildum á 20 árum og endurúthluta aftur á sanngjarnan hátt.  Þá verður allt vitlaust og grátkór LíÚ er kallaður sama í skyndi til að mótmæla hástöfum.  Engu má breyta og forstjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum fékk endurskoðunarskrifstofu til að reikna það út að hans fyrirtæki yrði gjaldþrota á 5-6 árum.  Í þessari skýrslu er fullyrt að hvert þorskkíló sem unnið er í Vinnslustöðinni skili aðeins 1,90 krónum í framlegð.  Ég segi nú bara hverskonar rekstur er á þessu fyrirtæki og skammast forstjórinn sín ekkert fyrir hvernig reksturinn er.  Hann er nánast að tilkynna eigendum fyrirtækisins að hann sé óhæfur stjórnandi.  Þegar þorskkvótinn var skorinn niður í 130 þúsund tonn eða um 30% var LÍÚ því sammála.  Ég veit ekki um eitt einasta fyrirtæki sem fór þá á hausinn en 5% innköllun á ári á að setja öll fyrirtæki á hausinn á 5-6 árum.

Ég var framkvæmdastjóri fyrir stóru útgerðar og fiskvinnslufyrirtæki á Bíldudal í um 20 ár og á árunum 1980-1990 var meðaltals framlegð af hverju þorskkílói sem við unnum um og yfir 20-25 krónur.

Það er endalaust hægt að leika sér með tölur og reikna og reikna allt til andskotans ef vilji er til þess, en þessir útreikningar slá nú öll met og þar með hið fræga met Sölva Helgasonar í einni af bókum Laxness.  En Sölvi Helgason var mikill stærðfræðingur og reiknaði barn í konu og fór létt með það.

Svona kjaftæði á ekki heima í vel upplýstu þjóðfélagi eins og Ísland er og þeim til skammar sem slíkt stunda.  Útgerðarmenn hafa fram til þessa ekki gengið vel um okkar auðlind sem er fiskurinn í sjónum.  Það er svindlað framhjá vigt og brottkast í stórum stíl.  Ég var einu sinni vélstjóri á netabát og þar var öllum þorski fleygt í hafið sem var undir 5 kg.  Það er verið að fullyrða að þetta eigi bara við um hina svokölluðu leiguliða.  En brotaviljinn er sá sami hvort skip er með kvóta eða ekki.  Það reyna allir að hámarka það verðmæti sem komið er með að landi.  Sá sem hefur yfir að ráð aflaheimildum og gat leigt þær á kr. 250,- kílóið var ekki að láta skip sitt veiða smærri fisk, heldur varð verðið að vera yfir 250,- á kíló.  Svo er annað sem er talsvert merkilegt að aflahlutir á kótalausum bátum er yfirleitt hærri en þeim sem hafa kvóta, sem kemur til af því að kvótalausu bátarnir landa flestir á fiskmarkaði en hinir verða að landa hjá eigandanum á lámarksverði.

Ekki meir ekki meir af svona andskotans kjaftæði


ESB

Það verður fróðlegt að fylgjast með atkvæðagreiðslunni um tillögu utanríkisráðherra að hefja aðildar viðræður við ESB.  Hver sem kemur nýr inn á Alþingi verður að sverja eið að virða stjórnarskrá Íslands og í stjórnarskránni stendur skýrt að hver þingmaður eigi að greiða atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu en ekki hlíta flokksaga.  Það er vitað að meirihluti er á þingi fyrir samþykkt þessara tillögu og Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í tvær fylkingar í sinni afstöðu.  Þegar þingmenn og formaður þess flokks eru spurðir er alltaf sama svarið "Landsfundur flokksins ályktaði að Íslandi væri betur borgið utan ESB, en innan, en stefnan væri í stöðugri endurskoðun."  Þó nokkuð margir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa sagt að þeir teldu rétt að skoða aðild að ESB.  Svo eru aðrir gallharðir í sinni andstöðu og telja að slíkt þýddi í raun að Ísland væri ekki lengur sjálfstætt ríki.  Hinsvegar er ESB í dag samband sjálfstæðra þjóða og má þar nefna Þýskaland, Bretland, Ítalíu ofl.  Með sömu rökum má segja að Ísland eigi ekki að vera í NATO eða Sameinuðu Þjóðunum.  Það sem verður mest spennandi við þessa atkvæðagreiðslu er hve margir þingmenn ætla að brjóta stjórnarskránna og taka flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhag.  Þótt Landsfundir Sjálfstæðisflokksins séu hinar bestu samkomur má ekki líta á að það sem, þar er samþykkt sé rétthærra en sjálf stjórnarskráin.  En því miður virðast allof margir sjálfstæðismenn líta svo á að samþykkt á Landsfundi séu ígildi laga.

Íslenskur sjávarútvegur

Ég var að horfa á þátt á sjónvarpsstöðinni ÍNN þar sem Ingvi Hrafn Jónsson var að ræða við forustumenn LÍÚ þá Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóra samtakanna og Adolf Guðmundsson stjórnarformann LÍÚ.  Þeir voru að ræða um þá stefnu stjórnvalda að innkalla allar veiðiheimildir á næstu 20 árum og endurúthluta þeim síðan aftur.  Að sjálfsögðu voru þeir á móti þessu og sögðu að öll sjávarútvegsfyrirtækli yrðu komin á hausinn innan nokkra ára.  Það yrðu teknar af þeim tekjurnar og þeir skildir eftir með skuldirnar og ekki vantaði hvatningarhóp hrafnsins um hvað vinstri stjórnir stæðu sig illa.  Það var tekið dæmi af Flateyri þar sem eigandi aðal sjávarútvegsfyrirtækisins á staðnum hætti rekstri og seldi allan aflakvótann í burt.  Bæði Adolf og Friðrik sögðu að söluverðið segði ekkert um hvað eigandinn hefði fengið í vasann, því það hefðu örugglega verið mikilar skuldir sem hvíldu á kvótanum og Ingvi Hrafn sagði að það hefði ekkert verið eftir og bætti við "Éf veit það" og hinir tóku að sjálfsögðu undir.  En hvernig má það vera að Hinrik Kristjánsson, sem seldi kvótann og flutti í Garðabæ varð einn hæðsti skattgreiðandi á suðvesturhorninu á síðasta ári.  Hvaðan komu allar þær tekjur sem Hinrik var skattlagður fyrir?  Friðrik sagði líka að kvótinn hefði ekki farið langt bara hinum megin við jarðgöngin þ.e. til Ísafjarðar.  En það skiptir íbúa á Flateyri engu mál hvort kvótinn fót langt eða stutt frá Flateyri, atvinnan fór og fólk þarna er bundið átthagafjötrum og sér enga framtíð.

Það náðist að draga upp úr þeim félögum að sum útgerðarfélög væru mjög skuldsett vegna hlutabréfakaupa og höfðu sett aflakvótann að veði og gætu nú ekkert greitt af þessum lánum frekar en aðrir sem voru í hlutabréfabraski og allt hrundi.  Þeir félagar töldu að ekki mætti setja slík fyrirtæki á hausinn heldur yrði að afskrifa stóran hluta þessara lána og skattgreiðendur yrðu bara að sætta sig við að greiða.  En málið er ekki bara svona eifalt því stór hluti þessara lána er í þýskum banka og hann mun auðvitað ganga að sínum veðum og eignast stóran hluta kvótans.  Nú er í lögum að aðeins íslenskir aðilar geti átt aflakvóta en auð velt er að fara framhjá því.  Þýskir aðilar geta auðveldlega stofnað fyrirtæki á Íslandi með einhverjum íslendingum og farið að gera héðan út.  Aðild að ESB kemur auiðvitað ekki til mála hjá þessum aðilum, því þá færi allur kvótinn til ESB og skip þaðan kæmu í stórum stíl til veiða við Ísland.  Það hafa margir fært góð rök fyrir að þótt við gengjum í ESB þá myndum við sitja einir að okkar fiskimiðum.

Adolf Guðmundsson nefndi að alltaf þegar stjórnmálamenn kæmust með puttana í atvinnumálin þá yrði það eintómt klúður og vitleysa og nefndi Hlutafjársjóð Byggðastofnunar sem dæmi.  En Adolf hefur nú ekki alltaf verði á þessari skoðun.  Því nokkrum árum áður varð Fiskvinnslan hf. sem Adolf stýrði á Seyðisfirði gjaldþrota.  Það fyrirtæki átti þá tvo togara þá Gullver NS og Gullberg NS, til að bjarga því sem bjargað varð var leitað á náðir Halldórs Ásgrímssonar sjávarútvegsráðherra til að tryggja að aflakvóti togarann færi ekki burtu frá Seyðisfirði.  Halldór beitti sér fyrir því að Hafrannsóknastofnun keypti bátinn Ottó Wathne, sem fékk nafnið Dröfn RE, gegn því að eigendur hans keyptu togarann Gullberg NS og stofnað var sérstakt útgerðarfélag um Gullver NS.  Allt var þetta gert með miklum stuðningi Byggðastofnunnar.  Þannig að Adolf veit alveg hvernig hægt er að bjarga sér með aðstoð stjórnmálamannanna.  En því miður virðist hann ekki hafa gott minni og skoðanir hans einkennast af eiginhagsmunum.  Það var allt í góðu lagi að Byggðastofnun hjálpaði til á Seyðisfyrði, en spilling ef það var gert annarsstaðar.

 

Ríkisstjórnin hefur sagt að útfærsla á þessari fyrningarleið verði gerð í samráði við hagsmunaaðila.  En andstaða og áróður LÍÚ er slíkur að hætt er við að þeir missi af því tækifæri að koma að mótun þeirra stefnu.  Það sama má segja um andstöðu LÍÚ við ESB, þeir vilja frekar að erlendir aðilar hafi hér veiðirétt þegar þýsku bankarnir ganga að sínum veðum, en að taka þátt í starfi ESB og hafa þar áhrif.  Friðrik J. Arngrímsson sagði nánast grátklökkur að útgerðarmönnum þætti vænna um útgerðarfyrirtækin en börnin sín.  Er kannski búiði að veðsetja börnin líka í hlutabréfabraski, það kæmi mér ekki á óvart.  Svona hræðsluáróður LÍÚ gegn öllum breytingum verður til þess eins að úgerðarmenn mála sig út í horn og gráta í kór.


Loksins kom að því

Ég hef ekkert getað bloggað síðan í lok apríl, því tölvan mín gjörsamlega hrundi í rúst.  Ég veit ekkert hvað skeði en það fór bara allt í klessu.  En sem betur fer glötuðust engin gögn.  Kostnaðurinn við viðgerðina var um 80 þúsund og ég fékk hana til baka í gærkvöldi.  Þannig að nú get ég farið að blogga af fullum krafti á ný.

« Fyrri síða

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband