Færsluflokkur: Vefurinn

Smá viðbót

Ég sagði frá því í gær að bræður Gísla hefðu verið mjög pólitískir og Gestur sem var hinn harði kommúnisti taldi það nánast heilaga skyldu sína að fá fleiri til liðs við flokkinn.  Þá bjó líka í Selárdal maður að nafni Guðmunur og var önnur hendi hans lömuð og gat hann því lítið unnið við bústörfin og var því ráðinn póstur í sveitinni og gekk jafnan undir nafninu Gummi póstur og vildi öllum greiða gera ef hann gat.  Þennan mann taldi Gestur að auðvelt yrði að sannfæra í pólitíkinni og fór á hans fund og eftir að hafa útskýrt rækilega fyrir Gumma pósti hvað stæði til spurði Gummi undrandi:

"Verður gerð bylting?"

"Já það verður blóðug bylting og mikið barist og þess vegna þurfum við að safna miklu liði svaraði Gestur."

"Verður einhver drepinn spurði Gummi?"

"Já fjöldi manns svaraði Gestur."

"En ég er svo slæmur í hendinni sagði Gummi en það er sjálfsagt að ganga til liðs við þig en um manndrápinn verður þú að sjá um einn Gestur minn."  Og þannig fór um hina blóðugu byltingu sem stjórna átti frá Uppsölum í Selárdal í Arnarfirði.


Landsbyggðin

Það er ekki sama hvar maður býr.  Eins og flestir vita sem hafa farið inná þessa bloggsíðu mína bjó ég lengi á Bíldudal en þar er ég fæddur og uppalinn og bjó þar til 2005 að undanskildum árum þegar ég var við nám að ég vegna veikinda minna varð að flytja og flutti þá til Sandgerðis en mörgum sumrum eyddi ég á Ísafirði þar sem ég átti afa og ömmu.  Auk þess starfaði ég víða um land við brúarsmíði í um 8 ár.  Um tíma bjó ég á Patreksfirði en flutti til Bíldudals eftir að ég hafði stofnað fjölskyldu og eignast börn.  1975 byggði ég einbýlishús á Bíldudal um 160 fm. með bílskúr og á sama tíma var eldri bróðir minn að byggja raðhús í Reykjavík svipað stórt að fm.  Ef eitthvað var mun mitt hús hafa verið heldur dýrara en hans vegna mikils flutningskostnaðar á öllu efni.  2001 skiljum við hjónin og var húsið þá selt og fékkst fyrir það 3,5 milljónir en hús bróður míns mun örugglega vera 20 til 30 milljóna króna virði.  Svo er fólk undrandi hvað lítið er byggt á landsbyggðinni, það telst stór frétt á Vestfjörðum ef þar er reist nýtt íbúðarhús.  Verðmætustu húseignir á Vestfjörðum í dag eru þau hús sem íbúðarhæf eru í Jökulfjörðum og á Hornströndum þar sem allt er komið í eyði.  Landbúnaðarráðuneytið auglýsti í fyrra eftir tilboðum í nokkur eyðibýli í Selárdal þar sem Gísli á Uppsölum bjó.  Þetta voru eyðijarðir sem ríkið átti og ég held að tilboðin hafi verið nokkrir tugir og fengu færri en vildu.  Og ég held að þegar húskofarnir í Svalvogum sem eru yst á nesinu á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og voru að hruni komnir, voru seldir hafi söluverðið verið 6-8 milljónir.  Það er gott að búa í Kópavogi eins og maðurinn sagði, en ekki á landsbyggðinni eins og búið er að fara með hana af stjórnvöldum.  Í raun ætti ríkið að greiða íbúum þessara staða bætur vegna sinna aðgerða.  Fordæmið er til staðar en veitingarmenn í Hvalfirði munu hafa fengið greiddar bætur þegar Hvalfjarðagöngin voru lögð vegna tekjutaps af ferðafólki.  Hvað þá með allt tekjutapið þar sem núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er búið að svifta fólk í mörgum sjávarbyggðum tekjum sínum og gera eignir þess verðlausar.  Og bara það eitt að til skuli vera fólk sem ætlar að kjósa þetta yfir sig einu sinni enn setur bara að manni hroll af tilhugsunni einni.   

Vestfjarðarskýrslan

Ég heyrði í Svæðisútvarpi Vestfjarða viðtal við Halldór Halldórsson bæjarstjóra á Ísafirði, þar sem hann er að fagna því að ríkisstjórnin hafi samþykkt tillögur nefndar sem skipuð var 15. mars 2007 og var ætlað að fjalla um leiðir til að efla atvinnulíf á Vestfjörðum m.a. gera tillögur um flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða.  Halldór talaði um eins og eitthvað nýtt væri á ferðinni sem tæki á raunverulegum vanda Vestfjarða en hann var einn nefndarmanna. Ég varð mér úti um eintak af þessari skýrslu sem hægt er að nálgast á vefnum strandir.is og tók mig til að lesa þetta merkilega plagg.  Ég varð fyrir miklum vonbrigðum eftir þennan lestur, ég veit ekki hvað ég er búinn að lesa margar svipaðar skýrslur í gegnum árin flestar frá Byggðastofnun og fleiri aðilum sem flestar hafa þjónað þeim tilgangi einum að fullnægja ruslafötunni.  Í skýrsluni er gerðar 37 tillögur um 80 ný störf og kostnaður yrði rúmar 500 milljónir þegar þær væru að fullu komnar til framkvæmda sem tæki nokkur ár.  Í skýrslunni komur fram að íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um tæplega 1200 manns á sl. 10 árum. úr 8.634 árið1997 í 7.470 árið 2006.  og reiknað má með einhverri fækkun 2007 þannig að Vestfirðingar verða sennilega um 7.000 í árslok 2007.  Ég er ekki hissa þótt bæjarstjórinn sé ánægður því gert er ráð fyrir að flest þessara starfa verði á Ísafirði, 7 til 8 á Patreksfirði um 4 á Hólmavík og 4-5 í Bolungarvík en um 65 störf á Ísafirði. 

Ísafjörður verður aldrei neinn alvöru byggðakjarni Vestfjarða þótt jarðgöng komi á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sem ganga undir nafninu "Eyðibýlagöngin" á sunnanverðum Vestfjörðum.  Það hafa margir deilt um hverjir stóðu sig best á stjórnmálafundi á Ísafirði fyrir skömmu, en hinn stórkostlegi karakter Halldór Hermannsson skrifar góða grein í Bæjarins besta á Ísafirði sem  hann nefnir Svört föt og hvít og vona ég að Halldór fyrirgefi mér þótt ég láti greinina koma fram hér, en hún er svo góð að sem flestir verða að sjá hana á prenti:

Svört föt og hvít

Þann 16. apríl sl. stóð RÚV fyrir stjórnmálaumræðu í íþróttarhúsi Ísafjarðar.  Voru þar mættir fulltrúar hinna ýmsu stjórnmálaflokka.  Þetta var klukkutíma Kastljósþáttur.  Fjöldi fólks mætti til fundarins. Tekin voru fyrir sjávarútvegs- og samgöngumál.  Efalaust má deila um hverjir hafi staðið sig best í umræðunum.  Ég held samt að fæstum hafi dulist að þar var þáttur sjávarútvegráðherra sýnu lakastur.  Enda hafði hann vondan málstað að verja, sem eru sjávarútvegsmálin hér á Vestfjörðum.

Það er ömurlegt að heyra þennan ráðherra sem búinn er að vera þingmaður Vestfirðinga í fjölda ára vera að færa málin gegn betri vitund í einhvern glansbúning, þegar hann talar um sjávarútvegsmál. Hann telur upp á að það hafi verið stefna hans og ríkisstjórnarinnar að berjast fyrir því að nota sjávarútveginn til þess að treysta sjávarbyggðirnar í landinu.  Þessi sami ráðherra sigldi til Noregs á sl. ári og taldi Norðmönnum, frændum vorum, trú um það að hér á Íslandi verið að framkvæma framúrskarandi fiskveiðistefnu sem væri að færa bæði bæjum og landsbyggð miklar framfarir og björg í bú.  Hann minntist hinsvegar lítið á þann draugagang sem í þessum framkvæmdum lægi.

Einar Kristinn er einkar laginn við að færa hluti úr svörtum búningum í hvíta.  Kannski lærist slíkur málflutningur í stjórnmálafræðinni sem hann mun vera útlærður í.  Eftir að Einar gerðist sjávarútvegsráðherra, þá hefur þessi hæfileiki hans færst mjög í aukana, enda vinfengi hans og LÍÚ manna talið mjög náið í seinni tíð.  Fari svo að Einar haldi embætti sínu eftir kosningar, þá ætti hann að huga vel að hugmyndum Íslandshreyfingarinnar að leyfa bátum undi 6 brúttótonnum að fiska frjálst með tvær handfærarúllur yfir sumarmánuðina.  Það væri til þess að rétta svolitla sáttarhönd.

Þetta skrifar Halldór Hermannsson 20.4. sl. en hann hefur lifað og hrærst í sjávarútvegi nánast alla sína tíð og þekkja fáir þessa atvinnugrein betur en hann.  Ég get af heilum hug tekið undir nánast hvert orð í grein hans og örugglega margir fleiri.

 


Ekkert má gera

Sonur minn sem er starfandi sjómaður og býr á Bíldudal fór einn góðviðrisdaginn á sjó með fjórum börnunum sínum á 6 tonna trillu sem hann átti.  Hann ætlaði að sýna þeim hvernig fiskur væri veiddur svo þau skildu betur hans starf.  Hann beitti einn línubala  og fór út á Arnarfjörð og lagði balann og dró hann svo skömmu síðar.  Aflinn var ekki mikill, nokkrir þorskar og ýsur.  Börnin fylgdust spennt með þegar línan var dreginn og ráku upp fagnaðaróp í hvert skipti þegar fiskur kom um borð.  Síðan var gert að aflanum og börnin röðuðu fiskunum í kassa og höfðu skemmt sér vel.  Þá var haldið í land pabbinn lyfti kassanum uppá bryggju en þar beið mamma þeirra á bíl til að taka á móti þeim.  En þegar setja átti kassann í bílinn kom hafnarvörðurinn sem jafnframt var viktarmaður hlaupandi og var greinilega mjög reiður og sagði að samkvæmt skýrum fyrirmælum frá Fiskistofu yrði að vigta aflann og skrá.  Ef það yrði ekki gert yrði málið kært.  Það sem upphaflega átti að vera skemmtiferð fyrir börnin breyttist nú í hálfgerðan harmleik, því nú upphófst mikið rifrildi milli viktarmannsins og pabbans sem hótað að sturta úr kassanum í sjóinn.  En þú verð þá kærður fyrir það sagði viktarmaðurinn.  Var það því úr að ekið var með kassann á hafnarvogina þar sem hann var viktaður og skráður og leigja varð kvóta fyrir þessum fiskum.  Börnin horfðu undrandi á og spurðu í sakleysi sínu "Á ein hver þennan fisk sem við veiddum".  Hvað heldur nú fólk að þessi börn hugsi um starf föður þeirra.

Stóra stundin

Í síðasta tölublaði Fiskifrétta 13. apríl 2007 er viðtal við Guðmund Valgeir Magnússon verksmiðjustjóra hjá Íslenska Kalkþörungafélaginu á Bíldudal, þar sem hann segir frá því að brátt taki verksmiðjan til starfa á næstu vikum.  Nú hefur fréttst að verksmiðjan verði formlega tekin í notkun 28. apríl n.k.   Í viðtalinu segir Guðmundur frá því að í byrjun muni framleiðslan verða 10.000 tonn á ári.  Hann segir jafnframt að starfsleyfi verksmiðjunnar hljóði upp á allt að 57.000 tonnum á ári í 50 ár.  Kalkþörungaverksmiðjan kemur til að selja framleiðslu sína á frjálsum markaði og framleitt magn verði í samræmi við eftirspurn.  Björgun ehf. á 25% hlut í verksmiðjunni og írska félagið Celtic Sea Minerals á 75%.  Þegar fullum afköstum verður náð verði starfsmannafjöldi a.m.k. 10 manns.  Sjálfsagt verður mikið um dýrðir á Bíldudal þann 28. apríl og fjöldi gesta til að fagna stórri verksmiðju inn í miðju bæjarfélaginu.   Nú fer að reyna verulega á Guðmund, því eitt er að byggja og annað að reka.  Þótt ég hafi verið á móti þessari framkvæmd frá byrjun verður því ekki neitað að hún er komin og vonandi verður hún Bíldudal til framdráttar í atvinnumálum.  Ég ætla að bíða með heilla óskir þar til síðar. 

Fiskvinnsla á Bíldudal

Nú er að koma að því að fiskvinnsla fari af stað á ný á Bíldudal eftir tveggja ára hlé.  Er það félagið Stapar hf. sem ætlar að hefja þar fiskvinnslu.  Er þetta mikið gleðiefni fyrir alla þá sem þarna búa.  Í Svæðisútvarpi Vestfjarða sl. föstudag er frétt um þetta mál og rætt við Guðnýju Sigurðardóttur sem er staðgengill bæjarstjóra, en hann var í frí.  Talsverðar rangfærslur eru í þessari frétt sem ég tel að verði að leiðrétta.  Fram kemur í fréttinni að ein útgerð sé með um 90% af þeim aflaheimildum sem skráðar eru á Bíldudal.  Þarna mun vera átt við Þiljur ehf. sem gerir út Brík BA-2, en hver er ástæða þess að einn bátur hefur yfir að ráða 90% aflaheimildanna, á því eru tvær skýringar:

1.     Allir hinir rækjubátarnir og höfðu bolfiskkvóta eru búnir að selja hann í burtu.  Eini kvótin sem    eftir er á þeim bátum eru bætur vegna þess að bannað er að veiða rækju og hörpudisk í Arnarfirði og þann kvóta er illgerlegt að selja og er hann því leigður í burtu.

2.      Þiljur hafa undanfarin ár stöðugt verið að bæta við sig kvóta.  Sem sagt kvótinn á Brík BA-2 er stöðugt að aukast með kaupum á kvóta meðan kvóti hinna bátanna er seldur í burtu.

Því er einnig haldið fram að fyrirtækið reki fiskverkun í Hafnarfirði.  Þetta er alrangt, í Hafnarfirði er rekið fyrirtækið Festi ehf.  í sama húsnæði og Magnús Björnsson og Viðar Friðriksson ráku vinnslu í um tíma.  En það fyrirtæki er ekki rekið af Þiljum ehf.  Hinsvegar seldu Þiljur ehf. Festi ehf. 49% hlut í sínu félagi á síðasta ári, ekki tóku þau á móti peningum heldur fengu greitt í bolfiskkvóta.  En Brík BA-2 er ekki eina skipið sem hefur landað afla hjá Festi ehf.  Ég fékk það staðfest hjá starfsmanni þar í dag að Vestri BA-63 hefði landað þar nokkrum sinnum.  Það er einnig tekið fram að eigendur fyrirtækisins Þiljur ehf. búi ekki á Bíldudal og er það rétt, en hver er ástæðan.  Þau hjón Guðlaugur Þórðarson og Bryndís Björnsdóttir eiga mjög fatlaðan dreng og ekki hafði Vesturbyggð tök á að veita barninu þá þjónustu sem þykir sjálfsögð í dag.  Ég kannast við þetta af eigin raun ég varð að flytja frá Bíldudal vegna fötlunar minnar.  Ef skoðuð er hluthafaskrá Odda hf. á Patreksfirði er hægt að sjá þó nokkuð marga stóra  hluthafa sem ekki hafa lögheimili í Vesturbyggð t.d. olíu- og tryggingafélög ofl.  Þótt þau hjón búi ekki á Bíldudal hefur Brík BA-2 alltaf verið gerð þaðan út og vegna þess hvað kvóti bátsins er orðinn mikill var hlutur hásetanna þriggja sem allir eiga heima í Vesturbyggð kr. 21.000.000,- eða sjö milljónir á mann á sl. ári.  Brík BA-2 hefur landað miklum afla á fiskmarkað á Patreksfirði.  Ekki hefur báturinn geta landað á Bíldudal þar var enginn kaupandi til staðar og áður en til lokunar frysthússins kom voru fyrirtækin sem það ráku ekki traustari en svo að hæpið gat verið að fá greitt fyrir aflann.  Finnst mér að í þessari umræddu frétt sé ómaklega vegið að fyrirtækinu Þiljur ehf.  sem hefur staðið eins og klettur úr hafinu að halda í við kvótaskerðingu sem orðið hefur á Bíldudal.

Í fréttinni kemur einnig fram að Vesturbyggð hafi sótt um hámarksbyggðakvóta til sex ára sem ætlað er til að uppfylla skilyrði Stapa hf. um að þeir hefji þessa vinnslu á Bíldudal.  En þar reka menn sig á vegg.  Því eins og Níels Ársælsson hefur skrifað á bloggsíðu sína er byggðakvóti eins og örorkubætur til byggðanna og lýtur sömu lögmálum.   Þar sem ég er nú öryrki hef ég kynnt mér vel reglur um örorkubætur sem eru álíkar og reglur um byggðakvóta.  Vegna hinna miklu kvótakaupa á Brík BA-2 uppfyllir Bíldudalur ekki skilyrði um hámarksbætur og er því reynt að koma því á framfæri að útgerð bátsins starfi í raun í Hafnarfirði.  Oddi hf. hefur einnig verið að fjárfesta mikið í kvóta og var haft eftir Sigurði Viggóssyni framkvæmdastjóra að þeir væru búnir að kaupa kvóta fyrir tvo milljarða og var það áður en þeir keyptu Brimnes BA-800 á 800 milljónir.   Er Oddi þar með búinn að koma í veg fyrir að Patreksfjörður fái byggðakvóta. 

Það væri nær að bæjarstjórn Vesturbyggðar kæmi kurteislega fram og bæði Þiljur að flytja sína útgerð frá Bíldudal og jafnvel eigendur Þorsteins BA-1 á Patreksfirði sem hefur landað miklu á Suðureyri.  Það má heldur ekki gleyma því að allan þann tíma sem Þórður Jónsson ehf. rak frystihúsið á Bíldudal og fékk á hverju ári allan byggðakvótann og leigði í burtu og ekki heyrðist orð um það frá Vesturbyggð, verður ekki til þess að létta róðurinn núna í sambandi við byggðakvóta.

 


Bíldudalur

Nú er loksins að rætast draumur margra að Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal er tekin til starfa og ætti að vera bjart framundan.  En ólíkt því sem margir héldu verður kalkþörungurinn aðeins þurrkaður á Bíldudal og síðan fluttur út til Írlands til frekari vinnslu og einnig verður haldið áfram að flytja óunnin kalþörung til Írlands.  Verða störfin í verksmiðjunni því ekki 10-15 heldur aðeins 5 og það allt láglaunastörf.  Ég sá eitt sinn í fréttum að þetta yrði stóriðja Bíldudals og var í því sambandi nefnd a.m.k. 10-15 störf + önnur störf sem rekstur verksmiðjunnar myndi skapa.  En staðreyndin er sú að hinir írsku aðilar sem standa að þessari verksmiðju voru búnir að fullnýta sínar námur á Írlandi og duttu þarna í lukkupottinn.  Þeir hafa heimild til að dæla upp úr Arnarfirði 10 þús. tonnum næstu fimmtíu ár og þurfa ekki að greiða krónu fyrir.   Hvergi á Íslandi er efnistaka heimil nema gegn gjaldi svo kostnaður hinna írsku aðila er sáralítill þótt þeir hafi reist þarn stóra stálgrindarskemmu og sett í hana gamall og notað dót til að geta þurrkað hráefnið.  Aftur á móti er þetta búið að kosta Vestur-byggð mikla peninga, bæði með hafnarmannvirkjum og gerð lóðar og ekki get ég séð hvernig þeir peningar muni koma til baka.  Ekki verða hafnargjöld eða útsvarstekjur miklar upphæðir á ári.  Annað er að ske í atvinnumálum á Bíldudal en það er að Oddi hf. á Patreksfirði er búinn að kaupa frystihúsið og er að koma þar fyrir aðstöðu til að vinna fisk sem senda á ferskan á markað með flugi.  Er ekki nema gott um það að segja en enginn frysting á að verða í húsinu eða kælir fyrir hráefni, heldur á að aka fiski á hverjum morgni frá Patreksfirði og sækja svo afurðirnar eftir að vinnu lýkur.  Engum afla verður því landað á Bíldudal og samkvæmt mínum heimildum mun Oddi hf. fá allan byggðakvóta sem kemur í hlut Bíldudals um 300 tonn og mun sennilega Byggðastofnun koma með fjármagn til kvótakaupa til að hægt verði að tvö- eða þrefalda þetta magn, en fyrirhugað er að vinna þarna um 1.000 tonn á ári.  Fær Oddi því aflakvóta um 600-900 tonn sem verða veidd af skipum félagsins sem gerð eru út frá Patreksfirði.  En hver verður framtíðin með þessa vinnslu, kemur ekki að því að hagkvæmar verður að vinna þetta svona á Patreksfirði og aka þá fólkinu á milli í stað þess að aka fiskinum en dæmið snýst ekki um það heldur hitt að það verður að byrja svona til að fá þennan aflakvóta.  Oddi hf. er nokkuð sterkt fyrirtæki og vel rekið og Jón Magnússon á heiður skilið fyrir þá aðgerð að grípa inní þegar hann yfirtók frystihúsið á Patreksfirði á sínum tíma og nánast bjargaði atvinnumálum á Patreksfirði Jón Magnússon er landsfrægur aflamaður og ég veit ekki hvað mörg þúsund tonn hann er búinn að landa á Patreksfirði.  Hann hélt lífinu í Hraðfrystihúsi Patreksfjarðar hf. á sínum tíma með sínum mikla afla og þekkingu á útgerð en uppúr 1960 skildu leiðir vegna þess að forráða menn fyrirtækisins vildu ekki fara eftir ráðum Jóns varðandi útgerð.  En það er nú einu sinni gömul saga og ný að ekki hugsa allir eins og Jón sumir hugsa aðeins um peninga og aftur peninga.  Jón Magnússon er nú að nálgast áttræðisaldur og er enn í fullu fjöri en menn lifa ekki endalaust og að því hlýtur að koma að hann fellur frá.  Hvað gera þá afkomendur hans og án þess að ég vilji gera lítið úr hans börnum, þá er spurning hvort þau hugsi eins og hann eða freistingin um að fá í vasan nokkur hundruð milljónir sterkari en tilfinningar til atvinnulífs á Patreksfirði.   Ég vona ekki.

Jakob Kristinsson 


Hver verður framtíð Vestfjarða

Sem fyrrverandi íbúi á Vestfjörðum reyni ég eftir bestu getu að fylgjast með málum þar og finnst sárt hvernig mál eru að þróast þar og það sem verra er að menn neita að viðurkenna staðreyndir og stinga höfðinu í sandinn.   Nýlega birti háskólanemi frá Ísafirði skýrslu og hampaði henni mikið í fjölmiðlum þar heldur hann því fram að áhrif kvótakerfisins hafi engin áhrif haft á brottflutnings fólks frá ísafirði þetta byggði hann á könnun sem hann hafði gert og var framkvæmd þannig að hann sendi út spurningalista til um 1000 manns og spurði hver hefði verið ástæðan fyrir fluttningi frá Ísafirði.  Aðeins lítill hluti nefndi kvótakerfið sem ástæðu en nær 50% skort á atvinnutækifærum.  Það er augljóst að þó lítill hluti nefnir kvótakerfið hefur það samt leitt til fækkunar á atvinnutækifærum.  Þeir sem beinlínis hafa flutt vegna kvótakerfisins hafa verið yfirmenn á skipum sem auðvelt hafa átt að fá vinnu og hafa í flestum tilfellum verið hátekjumenn.  Höfundur skýrslunnar nefnir að efla beri hátækni-iðnað á Ísafirði og auka framboð á háskólanámi en varla var blekið þornað á skýrslunni þegar neyðarkall kom frá Ísafirði vegna þess að Marel hf. hafði ákveðið að loka útibúi sínu á Ísafirði og segja upp öllum starfsmönnum og rétt áður hafði stæðsta byggingarfyrirtækið orðið gjaldþrota og það ásamt lokun Marels kostaði 80 störf.  Þegar kvótakerfið var sett á voru tvö stór fiskvinnsluftrirtæki á Ísafirði þ.e. Íshúsfélag Ísfirðinga hf. og Norðurtanginn hf. og munu hafa starfað yfir 100 manns hjá hvoru auk þess voru í rekstri 4 rækjuverksmiðjur með um yfir 200 starfsmenn.  Guðbjörg ÍS-46 flaggskip vestfirska flotans fór á fölskum forsendum með öllum kvóta til Akureyrar. Er því ekkert skrýtið að svona margir nefndu skort á atvinnutækifærum í áðurnefndri könnun.  En frá því að þetta kerfi kom hafa farið frá Ísafirði 600-700 störf eða eins og eitt meðal-álver.  Þyrfti nokkuð  stóran háskóla til að störfum fjölgaði aftur í fyrra horf.  Þegar kvótakerfið var sett á bjuggu á Vestfjörðum um 8-9 þúsund manns og hefur þróunin verið eftirfarandi:

                        1984                      1996                     2006                       

Patreksfjörður 1.000 íbúar             776   íbúar            632 Íbúar

Tálknafjörður      400   "                 302    "                 273    "

Bíldudalur           400   "                 279    "                 185    "

Þingeyri           400  "              340     "             320   "

Flateyri           400  "              289     "             335   "

Suðureyri         400  "              279    "              300   "

Bolungarvík    1.200  "           1.094   "                905  "

Ísafjörður      3.550  "           3.000   "             2.742   "

Súðavík           300  "              220   "               194   " 

Hólmavík          550  "              445   "               385   "

Drangsnes        200  "              103   "                65   "

Samtals         8.500  "           6.351   "            6.336    "

Það hefur sem sagt orðið 25% fækkun frá því kvótakerfið var tekið upp og hér er aðeins fjallað um sjávarbyggðirnar en ekki tekið með fækkun í sveitum og með sama áframhaldi tekur ekki nema 5-10 ár þar til allir eru farnir. 

Inni í þessum íbúatölum er erlent fólk og athuga verður að 1994 féll snjóflóð á Súðavík  og 1995 á Flateyri sem tók sinn toll af íbúum þessara staða.  Einnig ber að athuga að þetta er fólk með lögheimili á stöðunum en margir eru búsettir í raun annarsstaðar vegna náms eða atvinnu.  Það er staðreynd að þessi þorp á Vestfjörðum urðu til vegna nálægðar við gjöful fiskimið og hefur það verið sú undirstaða sem þessir staðir hafa byggt á en þegar undirstaðan er ekki lengur fyrir hendi eru forsendur fyrir búsetu brostnar og allt stefnir í að þessir staðir verði sumardvalarstaði þar sem brottfluttir koma á vorin og riifja upp liðna tíð en fara svo á haustin, svipað og er á Hornströndum það þarf ekki endilega að þýða verðfall á eignum því hvergi er fasteignaverð hærra á Vestfjörðum en á Hornströndum ef miðað er við fm.-verð svo er víða mjög fallegt og gaman að búa.  Þetta gæti orðið sumarleyfisparadís Sægreifana og nú er a.m.k. einn þeirra búinn að kaupa sér fjall í Borgarfirði því það jók á fegurðina við að horfa út um glugga og nóg er nú af fjöllum á Vestfjörðum. Þetta er því miður sannleikurinn og af því að nú vilja allir sem eru í pólitík vera grænir og umhverfisvænir og mætti því friðlýsa Vestfirði og byggðirnar yrðu verðugur minnisvarði fyrir komandi kynslóðir sem hefðu fyrir augunum tákn um heimsku og peningagræðgi forfeðranna.  Við skulum ekki gleyma hinum miklu framkvæmdum sem voru á sínum tíma á Djúpuvík og Eyri við Ingólfsfjörð á Ströndum.  Síldarverksmiðjurnar á báðum þessum stöðum kostuðu stór fé á þeim tíma en gróðinn var slíkur að þær boru búnar að greiða upp allar sínar skuldir eftir fyrsta sumarið og áttu eigendur þeirra fúlgur fjár þegar þeir lokuðu verksmiðjunum.  Ekki urðu peningar eftir á þessum stöðum til að efla byggð, heldur voru þeir notaðir í aðrar fjárfestingar til að græða meira.  Það var búið að ná útúr þessum stöðum sem hægt var og eins er í dag með Vestfirðinga þar er búið að þræða alla firði og hirða hvert það skip sem einhvern kvóta hafði.  En Vestfirðingar eiga eitt tromp sem þeir geta spilað út en það er að veiða og veiða eins mikið og þeir geta og segja svo eins og olíuforstjórarnir "Það voru skipin sem veiddu en ekki við."  Nú er það loksins viðurkennt að þorstofninn við Ísland er ekki einn, heldur er um að ræða nokkra staðbundna stofna, þannig að það sem selt er frá einum stað þarf ekki endilega að skila sér í veiði á öðrum stöðum.  Eina raunhæfa aðgerðin til bjargar Vestfjörðum er að Ísland gangi í Evrópusambandið.  Þar er alla veganna rekin sú stefna að styðja við jaðarbyggðir.  Það skiptir hinn venjulega íslending ekki nokkru máli hvort aflakvótum er úthlutað eftir fyrirmælum LÍÚ eða frá Brussel. 

Jakob Kristinsson

fv. vélstjóri á Bíldudal

Nú öryrki í Sandgerði

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband