Bíldudalur

Ástandið á Bíldudal í mínum gamla heimabæ er vægast sagt hörmulegt, lítil sem enginn atvinna og fólki fækkar stöðugt um 1990 voru íbúar rúmlega 400 en í dag er íbúafjöldi komin niður í um 180 og á trúlega eftir að fækka enn frekar.  Hin svokallaða stóriðja þ.e. Kalkþörungaverksmiðjan sem öllu átti að bjarga hefur ekki enn hafið fullan rekstur og stafsmenn aðeins 5 og verksmiðjan er sífellt að stoppa vegna bilana enda ekkert skrýtið þar sem í verksmiðjuna var keypt gamalt drasl sem aðrir voru hættir að nota, þegar búið er að gera við einn bilaðan hlut þá bilar sá næsti.  En kalkþörungi er dælt upp í Arnarfirði af fullum krafti og sendur óunnin til Írlands til vinnslu og hefur það verið gert hátt í ár og verður sennilega svo áfram.  Ég hef frá upphafi verið gagnrýnin á þessa framkvæmd og fengið skammir fyrir frá ýmsum aðilum og verið sakaður um að vera með niðurrifsstarfsemi og á móti framförum og eflingu Bíldudals.  Staðreyndin er sú að hinir írsku aðilar sem standa að þessari verksmiðju og eru með slíka verksmiðju á Írlandi voru búnir að fullnýta námur sínar á Írlandi og sáu fram á skort á hráefni og þess vegna var það eins og lottóvinningur fyrir þá að fá þennan aðgang að Arnarfirði en þar hafa þeir fengið leyfi til að taka 10 þúsund tonn af kalkþörungi næstu 50 árin og þurfa ekki að borga krónu fyrir.  Þess vegna er bygging verksmiðjuhús á Bíldudal með hálf ónýtu drasli innan dyra bara lítill fórnarkostnaður til að fá allt þetta hráefni til vinnslu á Írlandi og það sem verra er að Vesturbyggð lagði í mikinn kostnað við landfyllingu undir verksmiðjuna og byggði nýja höfn en mér skilst að Kalþörungaverksmiðjan sé undanþegin greiðslu hafnargjalda svo ekki verður skilið hvernig Vesturbyggð ætlar að fá til baka alla þá fjármuni sem bæjarfélagið hefur lagt í þetta ævintýri.  Ekki er ástandið skárra þegar kemur að fiskvinnslu á staðnum en frystihúsinu var loka í júní 2005 eftir að nokkrir ævintýramenn höfðu leikið sér með það í nokkur ár og stofnuðu stöðugt ný félög um reksturinn þegar hin  fyrri fóru í þrot.  Síðan hefur húsið staðið og grotnað niður því enginn hiti var á húsinu.  Í vor hóf Oddi hf. á Patreksfirði að beiðni stjórnvalda, rekstur í húsinu og lagði í verulegan kostnað til að koma því í vinnsluhæft ástand og hafði loforð um sérstakan byggðakvóta, sem aldrei kom og hætti Oddi því rekstri eftir stuttan tíma og óvíst að þeir muni byrja þar rekstur aftur.  Þann 5. júlí sl. gaf svo sjávarútvegsráðherra út reglugerð um byggðakvóta fyrir Bíldudal sem átti að vera 238 þorskígildistonn og skyldi veiðast og vinna á Bíldudal á tímabilinu 30/6 2006 til 30/6 2007.  Þessi tími er nú liðinn svo ekki kemur þessi byggðakvóti til með að skapa mikla vinnu á Bíldudal.  Þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin mun væntanlega grípa til vegna mikils niðurskurðar á þorskkvóta munu sennilega lítið gagnast Bíldudal vegna þess að þar er enginn þorskkvóti til sem mun skerðast.  Eina skipið sem hafði verulegan kvóta Brík BA-2 hefur nú verið selt til Hafnarfjarðar með öllum kvóta.  Að sjálfsögðu munu íbúar á Bíldudal njóta eins og aðrir á Vestfjörðum endurbótum í samgöngum en aðrar aðgerðir munu lítil áhrif hafa og ef fólk hefur ekki vinnu er fátt til bjargar, það lifir enginn á loftinu og hætt er við að fólki fækki enn frekar en orðið er.  Það er því dökk mynd sem blasir við íbúum Bíldudals á næstunni og ekkert sem er líklegt til að breyta því sjáanlegt, því miður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þessi mjög svo dapra lýsing á ástandinu í þínum gamla heimabæ er fjarri því einsdæmi, en hún verður ekki ásættanlegri við það. Ég leyfði mér að fagna því í vor þegar fréttir komu af opnun hússins en það var auðvitað of gott til að vera satt.

Er þetta nýskeð með Bríkina? Maður er hættur að fylgja þessu eftir, ekki lagast ástandið við það?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 18.7.2007 kl. 12:24

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Já Hafsteinn þetta er því miður staðreynd sem íbúar þarna búa við ú dag og segja má að Vestfirðir eru komnir á barm algers hruns og var nú ekki ábætandi.  Meira segja Ísafjarðarbær er að skreppa saman og fólk er farið að flytja frá Flateyri vegna skorts á atvinnu og skilur húsin sín bara eftir, getur hvorki selt þau eða leigt.  Svo tala menn um nauðsyn á háskóla til Ísafjarðar og endurmenntun verkafólks.  En fólk sem ekki hefur vinnu eru allar bjargir bannaðar og getur þar ekki aukið við sína menntun af fjárhagsástæðum.  Sá sem á ekki fyrir mat fer ekki að hugleiða endurmenntun hvað þá að fara í háskóla.  Staðreyndin er sú að fólk hefur sest að á þessum stöðum vegna þess að þar var mikil og örugg atvinna og þegar hún hverfur fer fólkið.

Hjónin sem áttu Brík BA-2 eru flutt fyrir nokkrum árum í Mosfellsbæ en héldu samt útgerðinni áfram fyrir vestan, en þegar fréttist af hinum mikla niðurskurði á þorskkvótanum og við bættist að kynntar voru tillögur um úthlutun á byggðakvóta til Bíldudals tæp 240 tonn og skilyrði var sett að þeir einir kæmu til greina sem hefðu verið með fiskvinnslu á Bíldudal á tímabilinu 30/6 2006 til 30/6 2007 var ljóst að aðeins Oddi hf. hefði tök á að fá þennan kvóta en þeirra útgerð kæmi ekki til greina tóku þau þá ákvörðun að selja bátinn með öllum kvóta um 500-600 tonn og hætta að taka þátt í þessari vitleysu.  Kaupandin var Festi hf. í Hafnarfirði en kaupverðið er trúnaðarmál.

Jakob Falur Kristinsson, 18.7.2007 kl. 18:23

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Já, þetta er ömurlegra en tárum taki og maður skilur vel fólk sem getur farið upprétt frá þessu helvítis bulli. Ekki væri ég hissa þó þeim mundi fjölga svakalega á næstunni og skuldsetning greinarinnar ykist að sama skapi.....í minnkandi heimildum???

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.7.2007 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband