Lúmskur áróður

Það er alltaf gott þegar fyrirtæki og félagasamtök taka sig til og kosta stöður við Háskóla Íslands.  En full langt er gengið þegar viðkomandi ætlast síðan til að sá sem í slíka stöðu er ráðinn haldi fram skoðunum kostunaraðilans í skjóli Háskóla Íslands, þá er verið að misnota aðstöðu sína eins og ein samtök eru að gera í dag.  Þarna á ég við LÍÚ sem kosta eina rannsóknarstöðu við HÍ og í þá stöðu var ráðinn Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur en á undanförnum vikum hefur sá ágæti maður farið mikinn á síðum Morgunblaðsins með skrifum um sjávarútvegsmál og þá hagræðingu sem verði að eiga sér stað þar og nauðsyn þess að afnotaréttur að auðlyndum hafsins verði gerðar að eignarrétti.  Öll þessi skrif Helga bera með sér að hann hefur takmarkaða þekkingu á sjávarútveginum og reynir eftir bestu getu að moða úr því sem honum er skammtað frá LÍÚ og hann fagnar núverandi niðurskurði á þorskkvótanum og hælir núverandi veiðiráðgjöf þótt hún feli í sér að áframhald verði á þessum niðurskurði á næstu árum.  Hann telur fiskiskipaflotan alltof stóran og tekur sem dæmi að 1970 hafi aðeins verið tveir skuttogarar skráðir hér á landi en hafi verið orðnir 115 árið 1990 og af því dregur hann síðan þá ályktun að sókn togskipa hafi fimmtugfaldast frá 1970 til 1990.  Hann gleymir því að 1970 voru enn í útgerð þó nokkrir síðutogarar og margir togbátar sem í raun voru litlir síðutogarar því uppúr 1960 þegar mesti uppgangur var í síldveiðum komu nýsmíðuð skip af stærðinni 200-400 tonn í tugatali á hverju ári allt fram til ársins 1968.  Þegar hrun kom í síldveiðarnar þurfti að finna þessum flota ný verkefni og í flestum tilfellum fóru skipin á togveiðar.  T.d. á Vestfjörðum þar sem ég þekkti vel til voru á þessum tíma gerðir út 10-15 togbátar allt árið um hring sem voru 200-300 tonn að stærð og þannig var það víða um land.  Þessi skip voru endurnýjaðir með skuttogurum auk þess voru erlend veiðiskip hér við land 1970 og er talið að þau hafi a.m.k. veitt yfir 200 þúsund tonn af þorski 1971 auk þess sem íslendingar veiddu 250 þúsund tonn.  1983  árið áður en kvótakerfið var tekið upp 1984 veiddu íslendingar 382 þúsund tonn og sátu þá einir að miðunum.  Tilgangurinn með kvótakerfinu var sá að hér yrði hægt að veiða sem jafnstöðuafla 400-500 þúsund tonn af þorski, en eins og kunnugt er eigum við langt í land með að ná því markmiði og höfum í raun farið í öfuga átt því eins og áður sagði er á núverandi fiskveiðiári einungis heimilt að veiða 130 þúsund tonn af þorski og jafnvel minna á næstu árum.   Það er svolítið broslegt að samtök eins og LÍÚ leggi mikið kapp á að fækka sínum meðlimum öfugt við flest önnur samtök.  Það segir sig sjálft að hinn venjulegi lesandi Morgunblaðsins tekur meira mark á skrifum manna eins og Helga Áss Grétarssyni sem er í rannsóknarstöðu í sjávarútvegi hjá Háskóla Íslands, heldur en ef skrifin kæmu beint frá LÍÚ enda er leikurinn sjálfsagt til þess gerður.  Hins vegar ef Háskóli Íslands vill láta taka sig alvarlega ættu stjórnendur hans ekki að heimila að þeir sem eru í stöðum sem kostaðar eru af hinum ýmsu aðilum, geti vaðið um á síðum dagblaða með bull og kjaftæði í þágu kostunaraðilans.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband