Síminn

Úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála hefur úrskurðað í máli Símans gegn Póst- og fjarskiptastofnun í ágreiningsmáli um framlag úr jöfnunarsjóði. Komst úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála að þeirri niðurstöðu að kostnaður Símans vegna þeirrar alþjónustukvaðar að veita gagnaflutningsþjónustu með 128 Kb/s flutningsgetu í sveitum á árinu 2005 næmi rúmum 163 milljónum króna.

Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að Síminn beindi málinu til úrskurðarnefndar þann 4. janúar 2007, þar sem kærð er ákvörðun PFS frá 7. desember 2006 vegna umsóknar Símans hf. um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna ársins 2005.

Með úrskurði sínum felldi úrskurðarnefndin úr gildi þann hluta ákvörðunar PFS þar sem Símanum hf. eru ákvarðaðar rúmar 18 milljónir króna í framlag úr jöfnunarsjóði vegna umræddrar alþjónustukvaðar.

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að hafna umsókn Símans um framlag vegna taps á rekstri notendalínukerfis á Vestfjörðum á árinu 2005 sætti ekki kæru til nefndarinnar og stendur því óbreytt.

Úrskurðarnefnd hafnaði aðalkröfu Símans í málinu sem hljóðaði upp á eingreiðslu að fjárhæð rúman milljarð króna.

Varakrafa Símans var að úrskurðarnefndin felldi hina kærðu ákvörðun úr gildi og breytti henni þannig að kostnaður félagsins vegna alþjónustukvaðar á árunum 2000-2005 yrði ákvarðaður eigi lægri en kr. 240.406.206. Jafnframt, að lagt yrði fyrir PFS að gera tillögu til samgöngumálaráðherra um breytt gjaldhlutfall til samræmis við hinn ákvarðaða kostnað, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Var þess krafist í báðum tilvikum að væri ekki fallist á tilgreindar fjárhæðir felldi nefndin ákvörðun PFS engu að síður úr gildi og ákvarðaði aðra lægri fjárhæð að mati nefndarinnar.

Á þessa kröfu féllst úrskurðarnefndin að því undanskildu að upphæðin var lækkuð úr rúmum 240 milljónum í rúmar 163 milljónir króna.

Úrskurðarnefnd féllst á það sjónarmið Póst- og fjarskiptastofnunar að afleiðingar þess að félög sæktu ekki árlega um framlög á meðan á verkefnum stæði, heldur biðu þar til þeim væri lokið, væru óheppilegar, samkvæmt vef PFS.

Nefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það að Síminn sótti ekki um framlag úr jöfnunarsjóði fyrr en árið 2005 leiddi ekki til þess að fjárfestingarkostnaður vegna framkvæmda sem fram fóru á árunum 2000-2004 félli niður við ákvörðun framlags ársins 2005. Nefndin taldi að ekki væri að finna slíkt ákvæði í fjarskiptalögum svo óyggjandi væri og að ekki væri unnt að byggja á reglugerðarákvæði sem ekki hefði fullnægjandi lagastoð. Vísað var til þess að túlkun Póst- og fjarskiptastofnunar í hinni kærðu ákvörðun hafi verið mjög íþyngjandi fyrir Símann.

Að lokum lagði úrskurðarnefnd fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að gera tillögu til samgönguráðherra um hækkað gjaldhlutfall fjarskiptafyrirtækja í jöfnunarsjóð til samræmis við hinn ákvarðaða kostnað, sbr. 3. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga. Að óbreyttu má því reikna með að gjaldhlutfall það sem fjarskiptafyrirtæki þurfa að greiða til jöfnunarsjóðs hækki verulega á næsta ári.

Ég hélt að búið væri að einkavæða Símann og ástæðan hefði verið að fyrirtækið væri betur komið í höndum einkaaðila en ríkisins.  Er það virkilega orðið svo að þeir sem keyptu þetta fyrirtæki geti ekki lengur rekið það án stuðnings frá ríkinu.  Það er óþolandi að þegar búið er að selja einkaaðilum ríkisfyrirtæki geti hinir nýju eigendur komið skríðandi til ríkisins og betlað peninga.  Þeir sem keyptu Símann og allt dreifikerfi hans með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgdi og þótt þeir geti nú reiknað út eitthvað tap á dreifikerfinu í sveitum landsins verða þeir bara að sætta sig við það.  Það átti aldrei að selja með Símanum dreifikerfið en fyrst svo var gert, hlýtur  hinn nýi eigandi  að hafa gert sér grein fyrir að á sumum þáttum þess væri tap en aftur á móti mjög mikill hagnaður væri á stæðustum hluta þess.  Ég t.d. er í viðskiptum Vondafone og ég verð að greiða Símanum mánaðarlegt gjald fyrir afnot af símalínum.  Núverandi eigendur Símans verða að sætta sig við að þola tap á því sem tap er á, en fá á móti hagnað af því sem hagnaður er af.  Hvað ætli nettóhagnaður Símans af dreifikerfinu sé í raun mikill?  Ríkið á ekkert með að styrkja einkafyrirtæki með þessum hætti og þótt heimild kunni að vera í lögum fyrir þessari vitleysu, verður bara að breyta þeim lögum.


mbl.is Síminn fær 163 milljónir úr jöfnunarsjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband