Eftirminnilega ferð

Árið 1984 fórum við þrír félagar í ótrúlegt ferðalag sem átti eftir að vera ansi skrautleg og enn í dag skammast ég mín fyrir.  Auk mín voru þetta stjórnarmaður þess fyrirtækis sem ég var framkvæmdastjóri fyrir á Bíldudal og fyrrverandi framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins á Patreksfirði sem þá var atvinnulaus.  Ferðin byrjað á því að við flugum frá Bíldudal til Reykjavíkur og gistum þar í nokkrar nætur á Hótel Sögu.  Á þessum tíma stóð yfir verkfall hjá opinberum starfsmönnum og á leið til Keflavíkurflugvallar var okkur sagt að óvíst væri hvort hægt yrði að fljúga en það slapp nú allt sem betur fer og fórum við frá Keflavík til Kaupmannahafnar og var ekki ætlunin að stoppa þar neitt, heldur ætluðum við að fljúga til Hamborgar og fara þaðan til Bremenhaven þar sem togarinn sem ég gerði út var að selja fisk.   En þar sem nokkur bið var á næsta flugi til Hamborgar tékkuðum við okkur inn og okkar farangur en ákváðum síðan að skreppa í miðbæ Kaupmannahafnar á meðan við biðum og tókum leigubíl og settumst síðan inn á pöbb og fengum okkur bjór.  Patreksfirðingurinn fór nú að segja okkur að hann þyrfti að kaupa sér skó, við hinir sögðum honum að skreppa í næstu skóbúð og við myndum bíða þarna á meðan.  En eitthvað varð vinurinn vandræðalegur og sagði að annar hvor okkar yrði að koma með og lána sér fyrir skónum.  Við störðum undrandi á manninn og sögðum "Hvað er þetta maður ertu ekki með neina peninga með þér og nær öll ferðin framundan?"  Hann fór í vasann og dró upp nokkra seðla sem okkur taldist til að væru um 10 þúsund íslenskar krónur og sagðist ekki hafa átt til meiri peninga.  Okkur var farið að líða vel af bjórnum og sögðum honum að það væri ekkert mál að kaupa fyrir hann skó og fórum við nú allir í næstu skóverslun og keyptum skó á manninn.  Ákváðum síðan að drífa okkur aftur út á flugvöll til að missa ekki af fluginu, þegar þangað kom var okkur sagt að bíða því það væri seinkun á fluginu og svo væri búið að bóka alltof marga í þetta flug svo við yrðum að vera nógu snöggir þegar kallað yrði í flugið okkar, en ef við misstum af þessu flugi, væri önnur vél tveimur tímum seinna.  Nú var ekkert annað að gera en að fara á barinn og kaupa sér bjór og koma sér vel fyrir þar sem við sáum vel á skiltið sem sýndi allar brottfarir.  Nokkuð mörgum bjórum seinna með tilheyrandi salernisferðum, kom allt í einu á skiltið flugið til Hamborgar og við heyrðum kallað í hátalarakerfið tilkynningu um brottför.

Patreksfirðingurinn ákvað að bíða eftir næsta flugi því hann nennti ekki að standa lengi í biðröð, en við hinir hlupum við af stað og var þá komin alllöng biðröð sem þokaðist hægt inn í flugvélina, þegar við erum við það að stíga um borð er tilkynnt að aðeins sé pláss fyrir einn farþega í viðbót.  Þar sem ekki var tími til að ræða málið mikið og köstuðum við upp pening um hvor okkar fengi þetta lausa sæti og vann ég og fór um borð í vélina og kom mér vel fyrir, ég var með poka sem var fullur af bjór, víni og sígarettukarton sem ég hafði keypt í fríhöfninni á Kastrup.  Fljótlega eftir að vélin var komin í loftið fór ég að gæða mér á þeim varningi sem var í pokanum og varð fljótt mjög drukkinn.  Þetta var flugvél sem var mjög lík þeim vélum og flugu til Bíldudals fór ég fljótlega að ruglast og fannst um tíma að við værum að fljúga til Bíldudals en fannst þó ég ekkert kannast við neitt þegar ég horfði út um gluggann á flugvélinni.  Þegar við lentum síðan í Hamborg og var ég þá orðinn mjög drukkinn og aðstoðaði flugfreyjan mig að komast út úr flugvélinni og í gegnum tollafgreiðslu og út úr flugstöðinni og náði ég þar í leigubíl.  Þegar ég er sestur inn í bílinn spyr bílstjórinn, hvort ég sé ekki með neinn farangur og áttaði ég mig þá á því að ég hafði steingleymt honum og fórum við saman aftur inn í flugstöðina og þar skröltu 3 ferðatöskur á færibandinu og átti ég eina en ferðafélagar mínir hinar og tókum við þær allar og fórum aftur í leigubílinn.  Síðan var haldið af stað og þegar ég sagði bílstjóranum sem var Tyrki, að aka mér á ákveðið hótel í Bremenhaven, horfði hann lengi undrandi á mig og sagði að það væri nú ansi langt og hvort ég ætti til peninga fyrir bílnum, ég sagði honum að hafa engar áhyggjur af því og spurði hvað þetta myndi kosta og þegar hann sagði mér upphæðina, bað ég hann að fara í næsta hraðbanka, þar sem ég tók út pening út af kreditkorti mínu og lét hann hafa nálægt því sem þetta átti að kosta.  Þar sem komið var kvöld og orðið dimmt þegar við ókum út úr Hamborg var lítið að sjá nema skógur og aftur skógur.  Þegar við höfðum ekið þó nokkuð lengi fannst mér þetta orðið eitthvað skrýtið og fór að spyrja Tyrkjann hvort hann rataði þetta örugglega, ég væri hræddur um að hann væri að fara einhverja vitleysu.  Eitthvað misskildi hann mig og taldi að ég væri að kalla sig vitleysing og reiddist heiftarlega, og við lentum í hörku rifrildi, sem endaði með því að hann stoppaði allt í einu bílinn og skipaði mér út og ég gæti bara gengið.  Það var nú ekki gæfulegt að fara þarna út langt inn í einhverjum skógi og kolsvarta myrkri, ég bað hann að láta ekki svona og sagðist vera búinn að borga honum fyrir að aka mér til Bremenhaven og ég færi ekkert út og hann skyldi bara halda áfram.  Hann rauk þá út úr bílnum og opnaði hurðina mín megin og skipaði mér út og enn neitaði ég og átti nú alveg eins von á að lenda í slagsmálum við hann.  Þar sem hann var orðinn brjálaður af reiði bað ég hann að setjast aftur inn í bílinn og ég skildi gefa honum eitt karton af sígarettum og féllst hann loks á það.  Eftir þennan atburð þorði ég ekki að nefna neitt frekar hvað varðaði aksturinn og svo fór að lokum að við komum til Bremenhaven og þá var eftir að finna hótelið, sem hafðist þó að lokum og bílstjórinn hjálpaði mér með allar töskurnar inn í lobbýið og viti menn situr ekki þar skipstjórinn á togaranum og hef ég sjaldan verið eins feginn að sjá nokkurn mann.  Tyrkinn kvaddi mig og bað mig að fyrirgefa ef hann hefði verið dónalegur og gerði ég það og varð ekki meira mál úr því.  Skömmu síðar er kallað á mig í símann og voru það ferðafélagarnir sem höfðu orðið eftir á Kastrup og sögðust þeir vera komnir til Hamborgar en fyndu ekki töskurnar sínar.  Ég sagði þeim að ég væri með þær og allt væri í lagi, ég væri bara að fá mér bjór með skipstjóranum en skipshöfnin væri vist að skemmta sér á einhverri búllu og við myndum bíða eftir þeim þarna á hótelinu.  Um tveimur tímum síðar komu svo ferðafélagarnir og höfðu þeir lent í því sama og ég, að leigubílstjóri þeirra gekk illa að finna hótelið og sá sem var frá Bíldudal og sat aftur í bílnum og var orðinn nokkuð drukkinn og hafði sofnað, þegar hann síðan vaknaði heldur betur ringlaður spurði hann hvað væri að ske og fékk þá að vita að bílstjórinn fyndi ekki hótelið, leit hann út um gluggann og sagði "Þetta hús er Umferðarmiðstöðin og haltu bara aðeins áfram og þá sést Hótel Saga" síðan steinsofnaði hann aftur.  En á hótelið komust þeir og eftir að við vorum búnir að fá okkar herbergi var ákveðið að fara með skipstjóranum og hitta skipshöfn togarans og taka þátt í gleðskapnum.  Ekki man ég mikið eftir þessari nótt en vaknaði þó morguninn eftir á mínu hótelherbergi, svo kom auðvitað að því að togarinn fór af stað heim og við félagarnir héldum áfram okkar ferðalagi en áður hafði ég farið í verslunarleiðangur og keypt föt á börnin mín og eiginkonu og fékk að setja það um borð í togarann.  Því mér fannst alveg nóg að vera með eina ferðatösku.  Nú var tekin lest frá Bremerhaven til Hamborgar og fórum við þar á gott hótel og eftir að við höfðum fengið okkar herbergi og fengið okkur að borða var ákveðið að kíkja aðeins á næturlífið og fórum við á svokallaðan Rebenhofsbahnen sem er aðal skemmtanahverfi Hamborgar og röltum við þar um og ákváðum síðan að fara inn á einn staðinn.  Fengum þar ágætis borð og pöntuðum okkur bjór, fljótlega komu þrjár dömur og spurðu hvort þær mættu setjast hjá okkur og var það sjálfsagt mál og einnig þegar þær báðu um að fá að panta eina vínflösku á borðið.  Ekki höfðum við mikinn áhuga á þessum dömum og ákváðum að fá reikninginn og fara.  Þegar reikningurinn kom brá okkur heldur betur, því flaskan sem þær höfðu pantað og mér fannst nú bara vera sykurvatn, kostaði 40 þúsund ísl. krónur og við neituðum að borga og ætluðum að ganga út en erum þá stoppaðir af þremur stórum náungum sem skipa okkur aftur að borðinu og borga.  Sáum við þá að ekkert þýddi að þrasa um neitt, við höfðu greinilega verið plataðir herfilega svo við áttum ekkert annað svar en að borga helvítis reikninginn.  Ekki dró þetta neitt úr okkur kjarkinn við að halda ferðalaginu áfram og fórum við á hótelið til að sofa og ætluðum að ræða framhaldið um morguninn eftir.  Í morgunmatnum sátum við allir frekar þreytulegir og lystalausir en þjóninn bjargaði okkur með nokkra bjóra og þótt fólk í kringum okkur væri að horfa eitthvað undarlega á þessa þrjá menn sem fengu sér bjór með morgunmatnum vorum við ekkert að velta því fyrir okkur.  Við hresstustum allir vel af bjórnum og fórum nú að plana næsta áfanga og niðurstaðan varð sú að panta flug frá Hamborg til London og gistingu þar.  Á flugvellinum í London tókum við leigubíl á hótelið og tékkuðum okkur inn og komum dótinu inná herbergin og síðan var ákveðið að fara í miðborgina og skoða lífið og þótti okkur að sjálfsögð kurteisi að koma við á hinum ýmsu pöbbum og fá okkur bjór.  Eftir mikið labb um hinar ýmsu verslunargötur var þreytan farin að segja til sín og því ákveðið að taka leigubíl heim á hótelið og borða þar um kvöldið og fara snemma að sofa.  Vorum við síðan nokkra daga í London á þessu fína hóteli og alltaf sama rútínan, borðaður morgunmatur og drukkinn bjór með og þurftum við nú ekki lengur að hafa fyrir því að biðja sérstaklega um bjórinn, því að um leið og við vorum sestir við eitthvað borð í morgunverðarsalnum kom þjóninn alltaf með bjórinn áður en kaffið og morgunmaturinn kom.  Síðan var farið niður í miðborg og kíkt á krárnar og yfirleitt borðuðum við hádegismat á einhverri þeirra.  Á þessum tíma var sá siður í Englandi að ölkrárnar máttu ekki selja áfenga drykki á milli 12 til 16 en við vorum nokkuð fljótir að finna út úr því að inn í flestum hliðargötunum voru krár sem ekkert mark tóku á þessu banni og stunduðum við þær stíft.  Þarna var auðvitað nokkuð um ansi skuggalegt lið, en við skiptum okkur ekkert af því og vorum alltaf látnir í friði, nema að kannski einn og einn sem bað okkur að hjálpa sér fyrir einum bjór og það þótti okkur nú lítið mál.  Áður en við fórum að heiman hafði elsti sonur minn sem var 14 ára beðið mig að ef ég færi til London að kaupa fyrir sig íþróttagalla og hafði fundið í einhverju blaði heimilisfang þar sem saumaðir voru búningar á liðið Liverpool, sem var hans uppáhaldslið.  Daginn áður en við ætluðum að fara heim var ákveðið að fara og kaupa þennan íþróttagalla og þótt félagar mínir fullyrtu við mig að ég gæti fengið svona galla í íþróttarbúð varð mér ekki haggað, gallinn yrði keyptur á þeim stað sem drengurinn hafði beðið um.  Var það því úr að eftir morgunmatinn pöntuðum við leigubifreið og ég sýndi bílstjóranum miðann með heimilisfanginu.  Hann fór eitthvað að nöldra að þetta væri svo langt að það væri miklu ódýrara fyrir okkur að fara alla þessa leið með neðanjarðarlest.  Ég sagði honum að við mættum ekkert vera að því og hann skyldi bara aka okkur á þennan stað og fá greitt fyrir.  Síðan var haldið af stað og ekið og ekið, þegar hann hafði ekið í rúman klukkutíma spurði ég hann hvort við færum nú ekki að nálgast staðinn og fékk það svar að enn væri um hálftími eftir.  Nú var þynnkan farinn að gera vart við sig auk þess sem mig var farið að langa óstjórnlega í sígarettu, en skömmu síðar stoppar bílinn fyrir framan mjög hrörlegt hús og segir að þetta er hérna og benti á húsið.  Við sáum að það var pöbb hinum megin við götuna og þar sem við töldum að sennilega yrði erfitt að fá leigubíl aftur á þessum stað báðum við bílstjórann að bíða eftir okkur en sögðum að við þyrftum að skreppa inn á pöbbinn fyrst.  Hann fór eitthvað að nöldra að þetta kostaði nú þegar orðið talsverða upphæð og greiddum við honum hana og sömu upphæð til að aka okkur til baka auk þess 50 pund fyrir að bíða eftir okkur.  Var þá sest inná pöbbinn og eftir nokkra bjóra var heilsan komin í nokkuð gott lag og við töldum nú að okkur væru allir vegir færir og ekkert mál að fara ínn í húsið.  Húsið virtist vera nánast að hruni komið og utan á því var mjög hrörlegur járnstigi og þegar við komum inn var þar ekki nokkurn mann að finna en greinilegt að þarna bjuggu útigangsmenn og því nokkuð ljóst að þarna fengist ekki neinn íþróttagalli.  Vorum við því fljótir að forða okkur út og ég bað leigubílstjórann að aka okkur í næstu íþróttarbúð og þar keypti ég loksins íþróttagallann.  Síðan fórum við aftur á hótelið og fórum að huga að því hvernig við kæmumst heim.  Eftir nokkuð mörg símtöl var ljóst að verkfallið á Íslandi hafði sett flestar áætlanir úr skorðum, en samt var möguleiki á að fá far daginn eftir með vél frá Glasgow en við yrðum að fljúga þangað með bresku félagi og taka síðan íslenska vél heim.  Morguninn eftir lögðum við af stað og á flugvellinum í London var okkur sagt að við gætum tékkað allan farangurinn beint til Keflavíkur og þyrftum þar af leiðandi ekkert að hugsa um hann í Glasgow.  Þegar við komum til Glasgow var nokkurra klukkustunda bið eftir fluginu heim og þar sem við vissum að fríhöfnin heima var lokuð vegna verkfallsins og engin fríhöfn á vellinum í Glasgow, ákváðum við að skreppa aðeins í borgina og kaupa bjór ,vín og sígarettur og fengum við leigubíl og báðum hann að aka okkur í slíka verslun.  Þegar þangað kom báðum við um þrjá klassa af sterkasta bjórnum sem til væri í búðinni,  þrjár lítersflöskur af Vodka og þrjú karton af sígarettum. Konan sem þar var við afgreiðslu sagði því miður þá er ekki til bjór í kössum aðeins dósir.  Patreksfirðingurinn brást hinn versti við og sagði við konuna á ensku "Helvítis kjaftæði er þetta, bjórinn hlýtur að koma í þessa verslun í kössum en ekki bara ein og ein dós"  Konan sagði þá "I see you mean a boxes from a stock from lagers."  Þá fengum við loksins það sem okkur vantaði, auk þess sem Patreksfirðingurinn keypti slatta af wisky-pelum sem hann tróð í alla vasa á frakkanum sem hann var í.  Nú var brunað á flugvöllinn aftur og bar þar tími fyrir nokkra bjóra áður en yrði farið að innrita í vélina, en að því kom nokkru síðar og þegar röðin kom að okkar félögum og við beðnir að láta farangurinn á vigtina og þar sem okkar farangur hafði verið innritaður í London vorum við aðeins með bjórkassana en pokana með víninu og tóbakinu ætluðum við að hafa sem handfarangur.  Sú sem var að innrita okkur horfði undrandi á bjórkassana og spurði "Hva eruð þið ekki með neitt annað en þetta?"Nei ,nei aðeins þetta sögðum við og tókum eftir að fólkið í kringum okkur horfði all undarlega á okkur en við fórum síðan um borð um flugvélina.  Eftir eðlilegan flugtíma var lent í Keflavík og töldum við að nú værum við öruggir og komnir heim.  En annað átti nú heldur betur eftir að koma í ljós.  Þegar við erum að fara í gegnum tollskoðun reka tollverðir augun í að bjórinn er mjög sterkur og skoðuðu síðan í pokana og sögðu jæja þetta er allt í lagi þótt bjórinn sé eitthvað yfir mörkunum, en biðja okkur aðeins að bíða og fara að yfirheyra Patreksfirðinginn og spyrja hvort að öruggt sé að hann sé ekki með neitt í vösunum og hann harðneitar og fara þeir þá að leita á honum og tína úr frakkanum hvern wiskypelan eftir annan og segja við okkur hina að fyrst þetta hafi komið upp verði þeir nú að fara algerlega eftir reglunum varðandi bjórinn.  Þeir yrðu að taka eina kippu úr hverjum kassa og nú ætluðum við aldeilis að vera sniðugir og sögðum þeim að þar sem við værum ekki komnir inn í landið ætluðum við að drekka þessa bjór kippu áður en við færum í gegn.  Þá sögðu þeir okkur, þar sem við værum viljandi að valda töfum yrðum við að greiða allan kostnaðinn við að láta þá bíða eftir okkur.  Ákváðum við þá að sætta okkur við orðinn hlut og fórum í gegn.  En Patreksfirðingurinn sem reyndar var fæddur og uppalinn í Keflavík þekkti því flesta þessa tollverði og taldi sig ansi valdamikinn innan ákveðins stjórnmálaflokks, hreytti út úr sér:  "Þið þurfið ekki að mæta í vinnu á morgun, ég fer beint í að láta reka ykkur alla."  Þegar út var komið beið þar enn flugrútan og bílstjórinn hundskammaði okkur og allir voru að spyrja um hvað hefði verið að ske hjá okkur í tollinum.  Við kusum að segja ekki eitt einasta orð á leiðinni til Reykjavíkur og þegar þangað var komið fórum beint á Hótel Sögu.  Daginn eftir flugum við tveir til Bíldudals en hinn þriðji fór heim til sín í Keflavík.   Þar með lauk þessari ferð.  Ég man ekki hvað oft við þurftum að hringja heim til að fá hækkaða heimildir á okkar Visakortum en það var ansi oft auk þess sem að umboðsmaðurinn í Bremenhaven og sá um söluna úr togaranum hafði lánað mér persónulega talsverða peninga.  Þegar heim var komið og kostnaður tekinn samann þá hafði þessi ferð kostað okkur 1,5 milljónir á mann og lenti sá kostnaður að mestu á okkur Bílddælingunum, því sá þriðji átti aldrei til neinn pening.  Ég vildi að ég ætti þann pening í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ce la vie  -  hið ljúfa líf    Kær kv. E.

Edda 27.1.2008 kl. 10:16

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þetta var á hinum gömlu góðu dögum, sem aldrei koma aftur.  Í stað þess að eiga nóg af peningum er maður nú aðeins fátækur öryrki, sem hefur ekki efni á einu né neinu.

Jakob Falur Kristinsson, 27.1.2008 kl. 11:19

3 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Blessaður vertu Jakob ef þú hefðir ekki farið þessa ferð þá hefðu aurarnir farið í einhverja aðra vitleysu. Ef maður hefði aldrei farið neitt og safnað peningum á sínum tíma væri maður milli í dag, en sem betur fer þá voru farnar ekki ófáar ferðirnar til Reykjavíkur og eitthvað út í heim í tómu fylleríisrugli. Og ekki sér maður eftir neinu í þeim efnum, minningarnar eru frábærar og veskið tómt, við eigum bara þetta eina líf og um að gera að lifa því meðan maður getur.

Hallgrímur Guðmundsson, 28.1.2008 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jakob Falur Kristinsson
Jakob Falur Kristinsson

Ég er fyrrverandi vélstjóri og útgerðarmaður en er nú 75% öryrki eftir slys á sjó 2003. Bjó lengst af á Bíldudal en flutti til Sandgerðis haustið 2005.  En er nú aftur fluttur á Bíldudal.  Að svo miklu leyti sem myndir á síðunni eru eftir Mats Wibe Lund, þá liggur fyrir tímabundið samþykki hans um birtingu hjá mér og þakka ég honum sérstaklega fyrir.  Mats á að sjálfsögðu hönundaréttin að öllum sínum myndum.  Vilja menn sjá fleiri myndir þá vísast á www.mats.is  Ég  var flokksbundinn í Frjálslynda flokknum og hef starfað þar, en sagði mig úr flokknum 24. apríl og gekk í Samfylkinguna.  Föðurætt mín er úr Arnarfirði og móðurættin frá Jökulfjörðum og Hornströndum og í báðum tilfellum, langt aftur í aldir.  Er ég því ekta Vestfirðingur.

Undir fyrirsögninni Færsluflokkar er flokkur sem heitir Vefurinn og ef smellt er á hann opnast síður þar sem ég er að skrifa ýmsar frásagnir.  Einnig er undir liðnum spaugilegt smá grín ofl. 

Ég leyfi öllum að skrifa athugasemdir við mín skrif.   En af gefnu tilefni hef ég ákveðið að þeir sem ekki kunna sér hófs í athugasemdum og nýta þær til persónulegra árása á mig og mína persónu, með allskonar skömmum og svívirðingum, mun ég hér eftir loka á slíka aðila.  Einnig mun ég henda út nafnlausum athugasemdum.  Því ég einn ber ábyrgð á því sem skrifað er á mína síðu.

jakobkr@internet.is     

GSM: 823-2954

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband